Sagt skilið við skynsemina

 Þessi grein er í nýjasta hefti Þjóðmála, sem komið er út. Hún ætti að skýra sig sjálf.

 

Við umbrot síðustu greinar minnar hér í blaðið, „Á að refsa þeim“, urðu þau leiðu mistök, að í lokin var óvart skeytt við kafla úr grein eftir annan mann. Gallinn er, að ómögulegt er að sjá samskeytin, sem eru í miðri línu. Síðustu orðin í minni grein eru: „Þeir ættu að minnsta kosti að þegja“. Allt það sem á eftir kemur er mér óviðkomandi þótt það sé vafalaust ágætt, en það truflar mjög mikið slagkraft greinarinnar eins og hún birtist í blaðinu, þannig að hún missir að verulegu leyti marks, ekki síst vegna þess að sá sem þarna skrifar fjallar um sömu eða skyld málefni, en er greinilega á þveröfugri skoðun en ég. Hann virðist aðhyllast þá afar algengu og útbreiddu, ef ekki beinlínis viðteknu skoðun, að mun vinstri og hægri í stjórnmálum megi skýra með tilvísun til stjórnlyndis og hugmyndafræði. Ég tel svo ekki vera. Stjórnlyndið er vissulega áberandi meðal vinstra fólks og mótar kenningar og framkvæmd stefnu marxista/sósíalista, en vinstri menn hafa engan einkarétt á stjórnlyndi. Margir þeirra, sem yfirleitt eru taldir til svonefndra „hægri manna“ eru afar stjórnlyndir. Ég hef, ólíkt mörgum öðrum, lengi álitið, að skýringa á hinu ýmsa brölti og uppátækjum vinstri manna sé ekki að leita í innihaldi einhverrar hugmyndafræði, heldur miklu lengra, djúpt í sjálfu sálarlífinu og ég sé ekki betur en þeir eigi andlega forfeður langt, langt, aftur í aldir. Hugmyndafræði skiptir vissulea máli sem réttlæting orða þeirra og gerða, en sjálft innihald hennar er algert aukaatriði.

Þetta verður sífellt ljósara nú eftir lok kalda stríðsins. Sannfærðir marxistar eru nú fáir eftir og fækkar stöðugt. Þær kenningar sem Stalin og Mao, Kim Il Sung, Castro og Pol Pot notuðu til að réttlæta gerðir sínar eru hvarvetna á miklu undanhaldi. Marx- leninistar eru í hugum margra ekki lengur hættulegir undirróðursmenn, heldur fremur meinlausir sérvitringar ef ekki beinlínis rugludallar sem fáir taka mark á, ekki einu sinni margir vinstri menn samtímans. Vinstri mennskan lifir þó enn góðu lífi, að mestu eða alveg án Marx og Lenins. Reyndar hefur svo verið alla tíð í Bandaríkjunum. Eiginlegur marxismi/sósíalismi hefur ávallt verið þar nánast óþekktur, en þrátt fyrir það hafa áhrif vinstri manna (þar oft nefndir „liberals“) alltaf verið mikil, einkum meðal menntamanna og fjölmiðlamanna og hafa vaxið hin síðari ár. Þessir bandarísku vinstri menn vita lítið sem ekkert um marxima/sósíalisma, en grípa þó, eins og annað vinstra fólk, ávallt á lofti hvern þann málstað sem er Vesturlöndum andstæður, réttlæta, eins og þeir evópsku, með mannúð, manngæsku og mannréttindi á vörum, ódæðisverk Castros, islamista og annarra óvina Bandaríkjanna og Vesturlanda og nota, eins og vinstri menn annars staðar, hvert tækifæri til að níða, sverta og svívirða sitt eigið land og Vesturlönd yfirleitt.

„Óvinur óvinar míns er vinur minn“ er einhver algildasta reglan í alþjóðasamskiptum og á raunar oft, en þó ekki alltaf, einnig við um samskipti einstaklinga. Þessi regla skýrir betur en flest annað stuðning vinstra fólks, beinan og óbeinan, við alræði og gúlag í kalda stríðinu og hún skýrir líka hvers vegna það réttlætir nú eftir mætti illvirki islamista. Ágætt dæmi um óánægju og hatur vinstri manns á eigin þjóðfélagi er okkar eigin Halldór Guðjónsson, sem nefndist alltaf „Kiljan“ í barnæsku minni á sjötta áratugnum. Eftir að hann kanóniseraðist hjá Svíum undir nýju dýrlingsnafni, „Laxness“, og settist í helgan Gljúfrastein varð hið argasta guðlast að nota gamla nafnið. Halldór dvaldi eins og menn vita í Bandaríkjunum á þriðja áratugnum, á einhverjum mesta uppgangstíma sem verið hefur þar í landi. Sem dæmi má taka að þegar 1929 voru fleiri bílar á hvern íbúa í Bandaríkjunum en í mörgum Vestur- Evrópulöndum um 1970. Húsnæði, klæðaburður almennings og flest annað var með öðru og betra sniði en yfirleitt í Evrópu og ísskápar, þvottavélar og annar lúxus sem fólk í öðrum löndum lét sig aðeins dreyma um var þá þegar að komast í almannaeigu. Munurinn á kjörum alls almennings í Bandaríkjunum og í öðrum heimshlutum er nú lítt áberandi en var gífurlegur á þessum árum og raunar fram á sjötta og sjöunda áratuginn en Halldór sá þetta alls ekki. Hann sá þar aðeins eymd og volæði, því vissulega voru þar sem annars staðar fátæklingar, þótt þeir væru hlutfallslega færri en annars staðar, þar sem fátækt var regla, ekki undantekning. Hann kaus að einblína á fátæktina, en sá ekki velsældina allt í kringum sig, enda, sem vinstri- draumóramaður og útópisti fullur haturs og andúðar á eigin umhverfi og þjóðfélagi.

Enginn Íslendingur og fáir Vestur- Evrópumenn þekktu Sovétríki Stalíns og raunverulegar aðstæður þar betur en Halldór. Ekki þarf að tíunda lofgerðir hans um dýrðina þar eystra eða virðingu og ást þessa mikla menningar- og mannúðarmanns á hinum gjörsamlega miskunnarlausa kúgara, böðli og þjóðarmorðingja. Það hafa margir aðrir gert. En hann var ekki einn, heldur aðeins einn af ótalmörgum gáfu- mennta- mannúðar- og manngæskumönnum víðs vegar um heiminn sem voru sama sinnis.

En hvernig á að skýra framferði þessara manna? Ekki er hægt að kenna um fáfræði eða heimsku, því þetta voru oft hámenntaðir gáfumenn. Ekki er heldur hægt að kalla þá geðveika, þótt sumt sem þeir hafa látið frá sér fara jaðri nánast við sturlun, einkum nú í ljósi sögunnar. Dómgreind þessara manna var í ágætu lagi á flestum öðrum sviðum en stjórnmálasviðinu. Aðeins ein skýring er til, sem raunar ýmsir hafa bent á, nefnilega grillan, draumsýnin.

Það hefur lengi tíðkast, einkum í „háskólasamfélaginu“ svokallaða að flokka menn eftir stefnum, ismum eða kenningum. Þessi eða hinn tilheyri einni „stefnu“ eða „isma“ en hinn annarri. Þetta á kannski við um fólk, eins og svo marga háskólamenn, sem hugsar – eins og tölvur – aðeins eftir tillærðu forriti, soðnu saman úr kenningum og hugsun annarra manna, og ímynda sér að allir aðrir séu eins og þeir og hugsi þannig líka eftir forriti. En til eru þeir, sem neita að taka þátt í þessum leik.

Eins og ég gat um hér að ofan tel ég muninn milli svonefndra „hægri“ manna og vinstra fólks liggja djúpt í sálarlífinu sjálfu, í tiltekinni afstöðu til lífsins í víðum skilningi. Ef til vill mætti kalla þetta muninn á raunhyggju- eða eðlishyggjumönnum annars vegar og hins vegar draumhyggjumönnum, útópistum, fólksins sem alltaf tekur fallega lygi fram yfir ljótan sannleika. Útópistinn er á stöðugum höttum eftir draumalandinu, sæluríkinu.

Ekkert er nýtt undir sólinni og einhver besta úttektin á slíkum draumhyggjumanni er orðin fjögurra alda gömul, nefnilega „Don Quixote“ Cervantesar. Riddarinn sjónumhryggi sá „kúgun“ og „ranglæti“ í hverju horni, í hinum eðlilegustu og sjálfsögðustu hlutum og lagði í „baráttu“ til að leiðrétta það. Hann lofaði förunaut sínum „eyju“ að launum fyrir liðveisluna, en Sancho Panza hafði aldrei séð hafið og vissi því alls ekki hvað „eyja“ yfirhöfuð var. Hann fylgdi þó foringja sínum í blindni, því hann skynjaði ósjálfrátt, að „eyja“ hlyti að vera toppurinn á tilverunni. Í dag hefði don Quixote örugglega kosið Vinstri græna, en Sancho Samfylkinguna. Marxistar kalla þessa draumsýn, þ.e. „eyjuna“ kommúnismann, en nasistar, sem einnig voru útópistar töluðu um „Þúsund ára ríkið“. Kristnir menn, múslimar og fleiri hafa líka sína draumsýn, en hún er ekki jarðnesk. Í þessu er raunar fólginn einhver mesti munurinn á hefðbundnum trúarbrögðum og á kenningum útópista, sem vilja stofna himnaríki hér á jörðu. Raunar er ég þeirrar skoðunar að eftir þúsund ár muni sagnfræðingar framtíðarinnar eiga í mesta basli með að gera greinarmun á trúarbragðadeilum og styrjöldum sextándu og sautjándu aldar og hugmyndafræðideilum og styrjöldum tuttugustu aldar. Munurinn er, sem fyrr sagði, helstur sá að himnaríki útópista er hér á jörðu, ekki á himnum.

Undirstöðuþáttur í sálarlífi vinstri útópistans og hugsjónamannsins er vandlætingin. Þetta fólk sér sökudólga í hverju horni, illmenni sem beri ábyrgð á öllu því vonda sem fyrir ber og í huga vinstri manna samtímans berast böndin ávallt að Vesturlandabúum, enda snýst hugsun þeirra í kjarna sínum um hatur á á eigin umhverfi og þjóðfélagi. Þeir kenna því Vesturlöndum og Vesturlandabúum, ekki síst Bandaríkjamönnum um allar vammir og skammir veraldarinnar. Upp á síðkastið eru þeir meira að segja farnir að gera vonsku Vesturlandabúa ábyrga fyrir sveiflum í náttúrunni, sbr. öll steypan um „gróðurhúsaáhrifin“, sem ég fjallaði raunar nýlega um hér í blaðinu. Í því máli, eins og svo mörgum öðrum, hafa þeir fengið allmarga kjána til liðs við sig, en vinstra fólk, fólkið, sem undir formerkjum manngæskunnar gekk, ýmist leynt eða alveg ljóst, erinda alræðiskúgaranna, böðlanna og þjóðarmorðingjanna í kalda stríðinu stendur hvarvetna fremst í flokki í þeirri „baráttu“ eins og öðrum „baráttumálum“ sem í tísku eru á hverjum tíma.

Nú veit ég vel, að menn munu segja að það sem hvetji vinstra fólk til dáða sé draumurinn um betri heim, en ég er ekki alls kostar sammála því. Hugmyndafræðin er einungis notuð til réttlætingar hatrinu, sem inni fyrir býr. Hatrið er sterkara en ástin og ég fæ ekki betur séð en að það sé óánægjan með eigið líf og umhverfi, sem þeir kenna þjóðfélaginu um, hatrið og vandlætingin, ekki framtíðarsýnin um betri heim sem sé aðalhvatinn að brölti þeirra. Draumsýnin, útópían er aðeins fyrirsláttur, en þó ómeðvitaður. Þeir eru einfaldlega það, sem einu sinni var kallað „niðurrifsöflin“. Sumir vinstri menn sýnast nánast eingöngu stjórnast af hatrinu, svo sem ýmsir anarkistar sem einungis virðast vilja brjóta og skemma en hafa afar þokukenndar hugmyndir um það sem við taki þegar hinu „illa, kapítalíska þjóðfélagi“ hefur verið tortímt. Langflestir vinstri menn fela þó og réttlæta hatrið sem inni fyrir býr á bak við hugmyndafræði og fögur orð.

Vinstri menn eru í mínum huga tiltölulega skýrt afmarkaður hópur með fjölmörg sameiginleg einkenni. Eins og ég hef bent á annars staðar er til afar einföld aðferð til að þekkja þá: Spyrja þá um Kúbu. Enn á 21. öld bregðast vinstri menn til varnar fyrir þessa mislukkuðu útópíu sína af mismiklum ákafa þó, allt eftir því hve langt til vinstri þeir teljast. Sá sem ver og/eða réttlætir kúgun, styrjaldarrekstur, hommaofsóknir og önnur ódæðisverk Castros er líka undantekningarlaust sérstakur áhugamaður um „lýðræði“, „mannréttindi“, „frið“ og „jafnrétti“, og gjarnan í Amnesty. Með öðrum orðum: vinstri maður. Þetta er eins konar „litmúsprufa“ og hún er óbrigðul.

Stuðningsmenn einhvers málstaðar eiga alltaf miklu meira sameiginlegt en andstæðingar hans. Ólíkt vinstri mönnum eru þeir, sem gjarnan eru orðaðir við „hægri stefnu“ afar mislitur og ósamstæður hópur. Þar eru skynsemis- og raunhyggjumenn af margvíslegu tagi eins og Churchill, Hayek og Burke, Adam Smith, Lincoln og margir aðrir, en líka útópistar eins og Hitler, Mussolini og Perón. Raunar eiga nasistar og ítalskir fasistar fjölmargt sameiginlegt með vinstri mönnum, en ég kýs, eins og aðrir, að flokka þá til „hægri“. Sömuleiðis teljast margir herforingjar og aðrir pótintátar, sem aðeins hugsa um eigin persónu og völd til svonefndra „hægri“ manna, svo sem Papa Doc, Pinochet og Stroessner, Franco eða Batista (sem raunar komst fyrst til valda á fjórða áratugnum með stuðningi kommúnista). Þessir menn eiga það eitt sameiginlegt að vera ekki til vinstri í tilverunni og ógerlegt að spyrða þá saman sem einhvers konar samstæða heild eins og vel er hægt að gera um vinstri menn.

Orðið „íhald“ eða „íhaldsmaður„ (konservatívur) hefur fengið á sig afar neikvæðan blæ í „umræðunni“ einkum vegna síbyljuárása vinstra fólks á nánast öll viðtekin félagsleg og siðferðileg gildi, sem færast sífellt í aukana með þeirri upplausn sem fylgir tæknivæðingunni og þeirri byltingu, ekki síst í samgöngum og samskiptum sem verið hefur og á engan sinn líka í gjörvallri veraldarsögunni. Eins og Hailsham lávarður orðaði það: „Íhaldsemi ekki hugsjón eða hugmyndafræði, heldur afstaða. Afstaða sem gegnir lykilhlutverki í þróun og starfsemi frjálsra þjóðfélaga og fullnægir djúpri og eilífri þörf, sem er þáttur í mannlegri náttúru.“ Ég mundi orða þetta einfaldar: „Íhaldsmaður er sá, sem hlustar ekki á blaður“. Heimurinn er nefnilega að drukkna í blaðri. Það hefur ávallt verið hávært en verður sífellt meira ærandi. Þar ber hæst þær kenningar sem liggja til grundvallar „pólitískri rétthugsun“ samtímans og eru nú (ásamt „umhverfismálum“) sem óðast að koma í stað marxisma/sósíalisma í hugarheimi vinstri manna sem réttlæting orða þeirra og gerða. Eins og ég sagði í upphafi: Sjálft innihald hugmyndafræðinnar skiptir ekki höfuðmáli, en draumsýnin er þeim lífsnauðsyn.

Ég hef áður nefnt þessar nýju kenningar „flathyggju“ og fjallaði um þær í greininni „Eyja Sancho Panza“ (nú á vefsíðu minni) hér í blaðinu haustið 2008. Í mjög stuttu máli fela þessar kenningar í sér að allir séu eins. Kynþættir, kyn og kynhneigðir mannanna séu eins. Allar þjóðir og þjóðfélagshópar séu eins, karlar og konur, svartir og hvítir, litlir og stórir, heimskir og gáfaðir, hommar og gagnkynhneigðir, ljótir og fallegir o.s.frv. Skilningarvitunum, heilbrigðri skynsemi og sjálfum lögmálum náttúrunnar er þannig afneitað alfarið.

Don Quixote taldi illa galdra- og sjónhverfingamenn hindra aðra að sjá allt vonda sem hann þóttist sjá allt í kringum sig. Á sama hátt telja vinstri menn samtímans alla þá sem treysta sínum eigin skilningarvitum og efast því um þessar nýju, aðallega amerísku kenningar vera illmenni, „rasista“, „karlrembusvín“ eða „hommahatara“, gjarnan áhangendur hins nýja djöfuls 20. aldar Hitlers, en Hitler og nasistar hafa nú fengið það hlutverk, sem djöfullinn og árar hans gegndu á miðöldum. Fáir þora þess vegna að mótmæla, því þeir vita að minnsti efi um hinar nýju kenningar kostar sjálfkrafa mannorðs- sjálfsmorð. Því þorðu fáir að andmæla hinn 10 desember 1996 þegar vinstri menn, með stuðningi og atfylgi talhlýðinna kjána fengu samþykkta þá útgáfu 233. greinar almennra hegningarlaga sem nú gildir. Með þessari lagasetningu var tjáningarfrelsið, undirstaða alls lýðræðis og allra mannréttinda í raun afnumið á Íslandi. Einhver kann að segja að hér sé of djúpt í árina tekið en ég tel svo ekki vera.

Samkvæmt þessari lagagrein getur hver sá sem ekki hefur hina kórréttu, opinberu, víðsýnu og umburðarlyndu skoðun stjórnvalda á svertingjum, feministum múslimum og hommum lent í allt að tveggja ára fangelsi. Hér á nefnilega að þvinga fram víðsýni, ást og umburðarlyndi með valdi og lögregluofbeldi. Rasistar, karlrembusvín og hommahatarar eru vissulega til, en hvað með það? Enginn sæmilega skynsamur maður tekur mark á slíku og hvað kemur það lögreglunni við? Ég bara spyr.

Þessi lagasetning verður án minnsta vafa í framtíðinni talið hið markverðasta sem gerðist í tíð Þorsteins Pálssonar sem dómsmálaráðherra. Fyrsta og stærsta skrefið í átt til alræðis var stigið og þau verða fleiri. Boðað hefur verið til „stjórnlagaþings“ og þar mun án nokkurs vafa vinstra fólk og þeir einfeldningar, sem sjá ekkert athugavert við 233. grein eða beinlínis styðja hana vafalaust verða fyrirferðarmestir.

Hættan af vinstri mönnum, er nefnilega viðvarandi og mikil, þótt kalda stríðinu sé lokið og þeir hafi ekki lengur þann bakhjarl, sem alræðisherrar kommúnistalandanna voru þeim þá. Margir þeirra teljast varla lengur sósíalistar, hvað þá marxistar, en það breytir litlu. Hatrið á eigin þjóðfélagi er samt við sig. Hinir „róttækari“ í þeirra hópi leita nú nýrra bandamanna meðal islamista. Þegar fyrsta „bátafólkið“ fór að berast til landsins 1980 var stofnað sérstakt „vináttufélag“ við kvalara og ofsækjendur þessa fólks, Hanoi- stjórnina, til að dreifa athyglinni. Fyrsti formaður Víetnamfélagsins er nú formaður félagsins „Ísland- Palestína“. Önnur helsta sprautan í því félagi er kvikmyndagerðarmaður nokkur, sem skrifaði langar greinar í Moggann á sínum tíma til stuðnings við Rauða Kmera og Pol Pot þegar blóðbaðið stóð sem hæst. Þeir eru nú stuðningsmennn Hamas og Hizbollah og munu áfram, eins og þá, með mannúð og manngæsku, lýðræði og mannréttindi á vörum óvitandi halda áfram að grafa undan vestrænu lýðræðisþjóðfélagi.

Eitt besta dæmið um þá hættu sem af vinstri mönnum stafar enn í dag er stuðningur þeirra við óheftan innflutning á fólki af gjörsamlega framandi uppruna og með framandi, beinlínis fjandsamleg trúarbrögð til Vesturlanda. Þeir skynja ósjálfrátt að þannig geta þeir tortímt Vesturlöndum innan frá, þótt ekki tækist að gera það utan frá í kalda stríðinu.

Vinstri menn eru og hafa alltaf verið innri óvinir Vesturlanda, en það merkilega er, að þeir gera sér enga grein fyrir því sjálfir. Þeir standa jú hvarvetna fremstir í „lýðræðis“- og „mannréttindabaráttunni“ (stundum samhliða þáttöku í „vináttufélögum“ við blóði drifnar alræðisstjórnir kommúnista, eins og ég hef áður bent á). Þeir sjá ekki fremur en don Quixote neitt athugavert við framferði sitt, en hugmyndum þeirra um lýðræði og mannréttindi svipar mjög til hugmynda Sancho Panza um eyjar.

En eins og ég hef áður sagt: Vinstrimennskunni verður varla útrýmt, fremur en sýndarmennskunni, vandlætingunni eða óskhyggjunni. Hún mun ávallt skjóta upp kollinum í einhverri mynd, undir einhverju nafni. Vinstri manninum er ofviða að skilja, að hvít lygi er líka lygi og ljótur sannleikur er líka sannleikur. Blekkingin er fallegri en raunveruleikinn, og menn munu halda áfram, enn sem fyrr, að berjast af miklu meiri sannfæringu fyrir lyginni heldur en sannleikanum. Því munu íhaldsmenn seint öðlast þann töfraljóma, sem umlykur málsvara blekkingarinnar. Við það verður að búa. Boðberar válegra tíðinda verða aldrei vinsælir, og allt of margir eru ávallt reiðubúnari til að trúa lyginni heldur en sannleikanum.

Þótt ég sé sjálfur illa kristinn vil hér að lokum vitna í dálitla bæn, sem þýskættaður bandarískur guðfræðingur, Reinhold Niebuhr mun fyrst hafa sett fram í prédikun um 1930, en einnig er sagt að þýskir kolanámumenn hafi fyrr á öldum farið með þessa eða mjög svipaða bæn áður en þeir fóru niður í námuna. Fleiri kenningar eru á lofti um uppruna hennar. Bill Wilson, annar stofnandi AA- samtakanna greip bæn þessa á lofti og hefur hún oft verið kennd við þau samtök þótt hinum lúterska prédikara væri alls ekki áfengisbölið í huga þegar hann setti hana fram. Raunar er boðskapur þessarar litlu bænar varla kristinn, heldur vísar frekar til Markúsar Árelíusar eða annarra Stóumanna í fornöldinni. Hún er svohljóðandi:

Guð, „Gefðu mér æðrueysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

Kjark, til að breyta því sem ég get breytt,

og vit til að greina þar á milli“

Íhaldsmanninn skortir stundum kjark til að breyta því sem þó er hægt að breyta, því vissulega er margt sem færa má til betri vegar. En í þjóðfélaginu, eins og í náttúrunni eru langflestar stökkbreytingar til hins verra. Aðeins fáeinar eru jákvæðar og varðveitast þannig og leiða til framfara. Vinstri manninn skortir æðruleysi til að sætta sig við, að til eru ótalmargir hlutir sem hvorki hann eða aðrir geta nokkru sinni breytt og menn verða að sætta sig við í umhverfinu, þjóðfélögum mannanna og í náttúrunni. Hann skortir líka vit til að greina á milli þess sem er óbreytanlegt og þess sem hægt er að breyta. Vinstri maðurinn lendir því, eins og don Quixote, í stöðugri baráttu við vindmyllur. Allt hans brölt fer í vaskinn og hann, eins og don Quixote, skilur hvarvetna eftir sig slóða eyðleggingar. Hann hefur sagt skilið við skynsemina í leit sinni að útópíunni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glæsileg grein, Vilhjálmur, og í flestu sammála.

Vinstri menn hefur þú á hreinu - stórhættulegt bókstafstrúar (á ensku Wordism) fólk.  Endalaust þvaður um "bara ef allir trúa því sem stendur í þessari bók og hlýða því ALLIR, í einu og öllu, nú þá er allt fullkomið um alla framtíð."

Sómakærir íhaldsmenn hafa sína galla líka þó margfalt minni eru  - efnishyggjan er of sterk, hagkerfi byggt á skorti og peningakerfi á skuld með vöxtum. Ágætis fólk og vill vel en gleymir grundvallaratriðum náttúrunnar um tegundir, sem og öðrum langtíma lögmálum.

Afstaða þín gagnvart Nasistum og Hitler er öfgakennd (mitt álit) og að kalla Churchill skynsemis og raunhyggjumann er í mínum huga brandari. Misheppnuð fyllibytta sem tautaði svo með sjálfum sér eftir óhugnanlegustu bræðravígi jarðarinnar "ég slátraði líklega vitlausu svíni" (ef ég man rétt).   

Menntun er ekki vandamálið í háskólasamfélaginu, heldur heila mengun á háu stigi.  Æðruleysisbænina ættu þau að fara með frá fyrst degi þar og á hverjum degi á meðan námi stendur,  þá hefur almenningur smá möguleika að sleppa undan samvisku- og ábyrgðarlausri samfélagsverkfræði þess í framtíðinni.

Takk, aftur, fyrir ljómandi lesningu.

Skúli Jakobsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 20:23

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég þakka. En Churchill var ekki bara fyllibytta, heldur gat líka hugsað skýrt. Hann fann t.d. upp hugtakið „járntjaldið“ og fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum (?) fyrir rit sín um sagnfræði. En eins og ég segi er hér um að ræða menn af margvíslegu tagi. Annars vil ég benda þér á að lesa greinina Eyja Sanco Panza (ef þú hefur ekki enn lesið hana) ef þú vilt vita hugmyndir mínar um „háskólasamfélagið“. Það „samfélag“ er raunar ein mesta ógnin sem að Vesturlöndum steðjar í dag.

Vilhjálmur Eyþórsson, 29.9.2010 kl. 20:33

3 identicon

Jú, rétt er það með hann Churchill að ýmislegt var honum til lista lagt.  Ofarlega er mér ávallt í huga, grein sem birtist eftir hann 8 Febrúar, 1920 í Sunday Herald, á blaðsíðu 5. 

Við það vill ég bæta að ýmsar skemmtilega upplýsingar eru núna að koma fram um það 'sérstaka' fólk,Júðana.  Á eftirfarandi síðu getur þú kynnt þér málið betur og EKKI með augum flathyggjunar.  http://www.michaelbradley.info/ (tókst ekki að búa til link)

Snilld, tær og hrein snilld, er grein þín Eyja Sancho Panza. 

Einfaldlega, besta íslenska greinin sem ég hef lesið, neglir þetta fullkomlega niður.

Algjörlega á pari við snillinginn sjálfan, Bob Whitaker, og það sem hann skrifað t.d. í bókinni 'Why Johnny can't think'.

Eitt lítið skref sem Bob hefur tekið er að hann er með svar - Möntru, sem er að virka verulega vel.  Svo vel að fljótlega ferðu að verða var við hana.  Möntru, sem mun taka niður þetta sjúka samfélag flathyggjunar, rétt eins og setning og ræða Ronalds Reagans "Mr. Gorbachev, tear down this wall!'"  varð upphafið að falli Berlínarmúrsins alræmda.

Það sem í grein þinni er lýst sem allra, allra verst, ber ég með stolti.  Hef verið uppnefndur, yfirheyrður, ásakaður og sjaldan skemmt mér eins vel.

Skúli Jakobsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 23:01

4 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þetta er mjög góð grein hjá þér Vilhjálmur og það er ekki hægt annað en að vera sammála hverjum einasta stafkrók sem í henni stendur.

Ég var mjög glaður þegar ég las um eyju Saco Panza vegna þess, að þá sá ég loksins að ég var ekki einn um þessa skoðun og ég er farin að nota æði oft þetta frábæra orð "flathyggja".

Ef það eru fleiri að lesa á þessari síðu og eru á sama máli og við, alla vega þrír, þá hvet ég menn til að rita á þessum nótum, þetta heyrist allt of lítið í samfélaginu.

Ég hef verið virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum lengi og telst nokkuð vel "innmúraður" þar. Oft hef ég viðrað þessa skoðun mína á vinstri stefnunni, hún er bæði hættuleg og skaðleg öllum samfélögum, ég er hissa á hvað fáir eru mér fullkomlega sammála þar innandyra.

Það þarf hugsanlega samtök fólks sem vill halda óskertu tjáningarfrelsi. Mér er t.a.m. ekkert illa við samkynhneigða og aðra litarhætti. Bróðir minn er kvæntur svartri konu og á með henni börn, hennar fólki hef ég kynnst og vitanlega á ég dökk bróðurbörn sem mér finnst hreint út sagt falleg og yndisleg.

En ef mér væri illa við svertingja svo dæmi sé tekið, af hverju ætti þá að banna mér að tjá mig um það?

Vissulega mætti ég ekki ráðast á þá með ofbeldi eða þess háttar, en ég ætti að hafa frelsi til að hafa mína skoðun og viðra hana á opinberum vettvangi.

Nú veit ég það að ég fer í taugarnar á ansi mörgum vegna minna skoðana, sumir einfaldlega þola mig ekki af þeim sökum

Mér ekki vitund illa við það fólk sem hefur þetta álit á mér, það eru þeirra sjálfsögðu mannréttindi og ekkert annað.

Mér er ekki illa við vinstri menn, en ég gjörsamlega þoli ekki þeirra stefnu, þótt ég vilji ekki banna hana, því við eigum öll að hafa frelsi.

Það að halda uppi upplýstri umræðu þar sem skoðanir allra fá að njóta sín er hollt fyrir samfélagið. Þegar ólíkar skoðanir takast á, þá verður ákveðin gerjun sem leiðir af sér þekkingu að lokum.

Öll niðurbæling mannsandans er af hinu illa.

Jón Ríkharðsson, 1.10.2010 kl. 10:09

5 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég þakka góð orð. Sjálfur er ég algerlega frábitinn félagsmálabrölti hvers konar, fer helst ekki á fundi og starfa ekki í Sjálfstæðisflokknum, þótt ég hafi stutt hann nánast frá fæðingu. Þar hefur aldrei nein breyting orðið á. Með flathyggju á ég ekki við pólitíska rétthugsun sem slíka, heldur við þær hugmyndir sem liggja til grundvallar henni og eru nú að grafa undan tjáningarfrelsinu með svívirðilegum hætti.

Vilhjálmur Eyþórsson, 1.10.2010 kl. 12:39

6 identicon

Ég nota orðið Bókstafstrú (Wordism) yfir það sama og þú kallar, réttilega einnig, flathyggju.

Skerðingin á tjáningarfrelsinu er aðeins eitt einkennið af mörgum sem Bókstafatrúar/Flathyggju lýðurinn hefur beitt sér fyrir, eins og þú bendir svo réttilega á, Vilhjálmur.   En allt ber þetta að sama brunni.  Linnulausar árásir Flathyggju/Bókstafstrúar lýðsins síðustu áratugina hafa allar aðeins eitt takmark og það er útrýming.  Rétt eins og við aðra sjúkdóma þá er nauðsyn að uppræta rótina en til þess þarf að átta sig á því hver hún er.  

Rótin í hamagangi B/F lýðsins er nú augljós tilraun til að útrýminga Hvíta Kynstofninum.  Þjóðarmorð með samlögun.

Þjóðarmorð eru skilgreind hjá Sameinuðu þjóðunum með eftirfarandi hætti:

Grein 2 á þinginu árið 1948, þýðir þjóðarmorð einhver af eftirfarandi aðgerðum, framin með það í huga að eyðileggja, sem heild eða að hluta, hóp, sem stendur saman af ríkisborgurum, þjóðerni, kynþætti eða trúarlegum skoðunum, sem svo:

(a) myrða meðlimi hópsins;

(b) valda alvarlegum andlegum eða líkamlegum skaða á meðlimum hópsins;

(c) veita hópnum viljandi lífsskilyrði sem ætlað er til að koma á líkamlegri eyðileggingu að hluta til eða í heild sinni;

(d) koma á ráðstöfunum sem ætlað er til þess að koma í veg fyrir fæðingar innan hóps;

(e) flytja börn hópsins með valdi til annars hóps.

Kærur vegna útrýmingatilraunar eru byrjaðar að berast til Mannréttinda dómstóls Sameinuðu Þjóðanna.





Skúli Jakobsson (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 14:15

7 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég þori ekki að segja að ég sé þér sammála um kjarnann í því sem þú ert að segja, það gæti varðað við 233. grein. En um allt þetta mál þyrfti ég að skrifa meira, helst bók. Ég er nú þegar kominn með nafn á hana: „Bókin, sem verður bönnuð“.

Vilhjálmur Eyþórsson, 2.10.2010 kl. 15:17

8 identicon

Panta hér með áritað eintak

Væri nú hámark vitleysunnar ef maður gerist brotlegur við landslög þegar maður bendir á þjóðarmorð og útrýmingarstefnu sem varðar við æðstu mannréttindalög heims.  Kæmi manni ekki á óvart en hvílík skemmtun.

Alls ekki í fyrsta skipti sem sjálfsvörn væri dæmd refsiverð og að sannleikurinn væri engin vörn.

Held samt að þú þarft að vera snöggur að skrifa bókina því hlutirnir eru að breytast mjög hratt.

Hljóð er það eina sem tekur niður lokuð samfélög. Ekki hægt að afheyra hljóð, hljóð smýgur um allt.

Lúðurinn hefur verið smíðaður, blásarinn hefur blásið, hljóðið er byrjað að streyma út, útbreiðslan byrjuð.

Jafnvægis pendúllinn sem B/F lýðurinn togaði öfgakennt til hliðar er að komast á fullt í hina áttina

Skúli Jakobsson (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 19:00

9 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Ég vona að þú skrifir þessa bók Vilhjálmur því ég er strax farinn að hlakka til að lesa hana, vonandi fær maður hana í hendur áður en hún verður bönnuð.

Jón Ríkharðsson, 3.10.2010 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband