Söngljóð um vinstrisinnaðan hugsjónamann

Ég hljóður spyr þig. Hver er leikur þinn,

Þú hrokafulli róttæklingur minn?

Gegn órétti var allt þitt mikla geð.

En óréttlæti sjálfur stóðst þú með.

Gegn valdníðingum var þín heita trú.

En valdníðinga sjálfur styður þú.

Og færa vilt þú frelsi á hærra stig.

En fyrir einræðinu beygir þig.

Og fyrir sannleikanum berst þú best.

En blekkingunum sjálfur hampar mest.

Og hræsni slík og heimska valda því,

að harmleik mannfélagið breytist í.

Ég hlýt að spyrja. Hver er leikur þinn,

þú hrokafulli róttæklingur minn?

- En hræðilega einfalt er það svar,

því alræði þín leynda hugsjón var.

Um fólksins vald hér hæst nú hrópar sá,

sem hyggst þar sjálfur yfirráðum ná.

En veruleikinn vonum þínum brást,

því verksins menn þeir smáðu þína ást.

Og alþýðan hún vildi ei vininn sinn,

og vildi á alþing fremur senda, - hinn.

Þig dreymir því að sigri alræðið,

og innleitt getir þú hinn nýja sið.

Þá almenningur mætti eiga sig.

hann ekki skipti máli fyrir þig.

En fánýt gleði finnst mér bylting sú,

því fyrsta máltíð hennar yrðir þú.

 

Gunnar Dal, 1923-2011, Söngljóð um vinstrisinnaðan hugsjónamann, II og III, birt í Öld fíflsins, 1981.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Waage

Þarna er mikill sanleikur á ferð, því miður.

Gunnar Waage, 21.9.2011 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband