Barrabas og beint lýðræði

 Þessi grein er í nýasta hefti Þjóðmála, sem komið er út. Hún er örugglega mjög holl lesning fyrir suma. Ég fer reyndar hérna yfir hluti sem hafa sumir hverjir komið fram annars staðar, m.a. í bloggfærslum, en þetta er þó alveg ný grein.

 

Frægasta „þjóðaratkvæðagreiðsla“ sögunnar fór fram í Jerúsalem fyrir tæpum tvö þúsund árum, þegar Barrabas var kosinn, en Jesús krossfestur. Ég minni á þetta vegna þess að upp á síðkastið hafa orðið æ háværari hrópin um „beint lýðræði“, að „þjóðin“ eigi að ráða og koma að ákvarðanatöku um hin aðskiljanlegustu mál.

Ýmsir halda því fram, að ákvarðanir skuli teknar með sífelldum skoðanakönnunum meðal lýðsins. En væri það skynsamlegt? „Lýðræði“ er, eins og „mannréttindi“ eitt af þessum fallegu orðum sem menn, einkum þó vinstri menn, endurtaka ótt og títt án þess að botna upp né niður í því hvað í orðinu felst. Í meginatriðum felur það í sér að meirihluti kjósenda eigi að ráða. En: „fái þjóðirnar að kjósa milli kúgunar og stjórnleysis, velja þær alltaf kúgarann“, sagði Aristóteles. Í mörgum löndum er „lýðræði“ nefnilega einungis annað orð fyrir aðgerðarleysi, spillingu og upplausn og það er alls ekki sjálfgefið að almenningur kjósi lýðræði, fái hann að velja. „Fólkið“ eða „þjóðin“ vill stundum fá „nýja menn“, til valda í stað stjórnvalda, sem ekki eru talin vanda sínum vaxin. Þetta var t.d. raunin á Ítalíu og í Þýskalandi millistríðsáranna. Það voru nefnilega ekki illmenni, heldur kjánar sem settu Hitler og Mussolini á valdastóla, Þeir komust báðir til valda með víðtækum stuðningi almennings, sem vildi fá „nýja menn“ með „nýjar lausnir“á valdastóla.

Í Weimar-lýðveldinu höfðu andstæðingar lýðræðis, kommúnistar og nasistar, meirihluta atkvæða samanlagt. Í Alsír reyndi herforingjastjórn að halda lýðræðislegar kosningar, en þá kom í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þegnanna kaus islamista, andstæðinga lýðræðis sem einnig vildu afnema flest það sem við nefnum grundvallarmannréttindi að dæmi Khomeinis eða talíbana. Kosningarnar voru ógiltar og eru „mannréttindafrömuðir“ síðan með böggum hildar út af öllu saman. Hvert eiga þeir að snúa sér með vandlætingu sína og fordæmingu? Eiga þeir að býsnast út í herforingjana sem vildu koma á vestrænum gildum, svipað og Íranskeisari á sínum tíma, eða á að fárast út í lýðræðislegan vilja kjósenda sem vildu afnema allt sem heitir lýðræði og mannréttindi? Ekki aðeins íranskur almenningur, heldur líka Amnesty og gjörvöll vinstri hreyfingin á Vesturlöndum studdi Khomeini til valda, enda var keisarinn talinn hliðhollur Bandaríkjamönnum og Vesturlöndum, en vinstri menn taka ávallt málstað andstæðinga þeirra (og sinna eigin). Það er varla nokkur vafi á því, að Íransstjórn, sú sem nú ógnar heimsbyggðinni með kjarorkuvopnum er lýðræðisleg, því hún nýtur stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta landsmanna. Hvað er þá vandamálið?

Sagan frá Íran virðist nú vera að endurtaka sig í „arabíska vorinu“ svokallaða, en margt bendir til að „vormenn Islams“, séu flestir af sama sauðahúsi og Khomeini og klerkar hans. Það allra versta og hættulegasta sem nú gæti gerst í Norður- Afríku og Sýrlandi væri, að lýðræði yrði komið á. „Margur heldur mig sig“, segir máltækið og einfeldningar á Vesturlöndum virðast alls ekki geta skilið að fólk í þriðja heiminum hugsar alls ekki eins og þeir. Dulið hatur á Vesturlöndum ólgar hvarvetna undir niðri, samfara öfund og reiði. Það sem fer einna mest fyrir brjóstið á þriðja heims búum, og alls ekki aðeins múslimum, eru einmitt helstu baráttumál bandamanna þeirra, vinstri manna, nefnilega allt lauslætið, homma- og kvennabröltið, klámið og margt annað sem þetta fólk fyrirlítur. Þekkt birtingarmynd þessa haturs er, þegar múslimar, búsettir á Vesturlöndum, myrða dætur sínar með köldu blóði ef þeir telja að þær séu farnar að temja sér siði innfæddra. „Heiðursmorðin“ eru eitt dæmi um hið falda, undirliggjandi hatur á Vesturlandabúm, blandað dúpstæðri öfund, sem fékk fyrst útrás í Íran, en ólgar hvarvetna undir meðal þriðja heims búa, og ekki aðeins múslima. Þeir vilja þó ómir njóta góðs af lífsgæðum okkar.

Menn, allra síst fjölmiðlamenn, virðast alls ekki skilja, að í hugum verulegs hluta almennings í múslimaheiminum er Osama bin Laden ekki aðeins hetja, heldur allt að því heilagur maður. Nái lýðræðið fram að ganga og almenningur komi fram vilja sínum er líklegast að t.d. í Egyptalandi verði strax skrúfað fyrir öll vinsamleg samskipti við Ísrael. Í staðinn muni koma fullur fjandskapur. Kristnir menn og fleiri minnihlutahópar munu lenda í miklum þrengingum. Þeir styðja því núverandi valdhafa. Líklegt er, að ofbeldis- og hryðjuverkahópar muni einnig njóta velþóknunar hinna nýju stjórnvalda. Sagan frá Íran 1978-79 mun trúlega endurtaka sig og raunar er sennilegt, að falli Egyptaland og Sýrland muni flest önnur lönd á svæðinu einnig verða „lýðræðisleg“, þ.e. lendi undir stjórn fulltrúa meiri hluta almennings, þ.e. islamista.

Nú er í tísku hérlendis að halda því fram, að „fólkið“, eða „hinn almenni maður“, þ.e. Jón Jónsson í Breiðholtinu, eigi að ráða. En er Jón nokkur maður til þess? Og kærir hann sig yfirleitt nokkuð um það? Flestir hafa nóg með sig og hafa mjög takmarkaðan áhuga, og enn síður þekkingu á flestum þeim oft flóknu málum sem koma til kasta stjórnvalda. Alls staðar í náttúrunni, þar sem búið er í hóp ríkir einræði og sömuleiðis miskunnarlaus stéttaskipting. Gildir einu hvort það er í maurabúinu, úlfahópnum eða hænsnahúsinu. Einnig í mannheimum er einræði elsta og upprunalegasta stjórnarformið, en lýðræði í víðustu merkingu sinni, þ.e. samráð um ákvarðanatöku, er einnig mjög gamalt og sú kenning alröng, sem hver hefur étið upp eftir öðrum í aldir, að Forn- Grikkir hafi fundið það upp. Samráð elstu og virtustu manna ættflokksins hefur tíðkast meðal frumstæðra þjóðflokka víða um heim í árþúsundir, t.d. meðal amerískra indíána og þjóðveldið íslenska er eitt afbrigði af því. Hliðstætt skipulag ríkti víða meðal germana og trúlega einnig annarra fornþjóða Evrópu. En lýðræði og samráð nýtur sín best í lítt stéttskiptum þjóðfélögum og á friðartímum. Þegar mikið liggur við hentar einræðið betur. Því aflögðu Grikkir og stundum einnig Rómverjar lýðræði tímabundið þegar ógn steðjaði að, enda er ekki hægt að stýra her með lýðræðislegum hætti fremur en skipi, hljómsveit eða skólastofu. Raunar bjuggu þrjár af helstu þjóðum við Miðjarðarhaf í fornöld, Grikkir, Rómverjar og Karþagómenn allar við lýðræði í einhverri mynd, þó konur og þrælar hafi að sjálfsögðu hvergi komið að ákvarðanatöku. Slíkt hefði fornmönnum þótt álíka fráleitt og að veita húsdýrum kosningarétt. „Jafnréttisumræðan“ var nefnilega enn ekki komin á skrið.  

Ástæða þess, hve margir vilja eigna Grikkjum lýðræðið er trúlega sú, að þeir komu fyrstir fram með orð yfir fyrirbærið og fundu jafnframt upp einhverja undarlegustu og vitlausustu útgáfu af lýðræði sem verið hefur, þar sem menn voru kosnir til ábyrgðarstarfa með hlutkesti. Þeir virðast nefnilega hafa verið haldnir sömu þráhyggju og „pólitískt rétthugsandi“ vinstri menn og einfeldningar samtímans og ímyndað sér að fyrst menn væru jafnir fyrir lögunum væru þeir alveg eins. Vegna þess að menn væru jafningjar væru þeir líka jafnokar og því jafn hæfir til allra hluta. Þetta er sama hugsun og veldur því t.d. að þroskaheftum er nú veittur kosningaréttur og kjörgengi þótt margt af þessu ágæta fólki hafi ekki meira vit í kollinum en fimm ára börn. Þroskaheftir eru hið besta fólk, en þeir eru einfaldlega ekki jafnokar okkar hinna til allra hluta, svo ágætir sem þeir annars kunna að vera. Kjánarnir sem fyrir þessu standa ímynda sér að þetta sé á einhvern hátt „lýðræðslegt“ og komi einhverjum „mannréttindum“ við. En þetta er einfaldlega heimska, og má spyrja sig hvor hefur meira vit í kollinum, þeir þroskaheftu eða hinir, sem fyrir þessu standa. En því ekki þá að veita fimm ára börnum kosningarétt?

Þetta uppátæki Aþeninga með hlutkestið mislukkaðist að sjálfsögðu enda eru engir tveir einstaklingar eins og jafn hæfir til allra hluta þó þeir séu jafningjar fyrir lögunum og hafi sama atkvæðisrétt. Allir hafa mismunandi áhugamál, hæfileika og getu á ýmsum sviðum og alls ekki allir, þótt þeir séu að öðru leyti ágætismenn, eru færir um að stjórna borg eða ríki, hvort sem er í Grikklandi hinu forna eða hér í Reykjavík. Beint lýðræði, völd múgsins er ekki svarið við vandamálum heimsins.

Maðurinn er félagsvera og það liggur djúpt í eðli flestra að hlýða, ekki stjórna, taka við skipunum, ekki gefa þær. Sauðahjörðin fylgir forystusauðnum, en það gleymist stundum, að forystusauðurinn er líka sauður. Það eina sem hann hefur fram yfir hina sauðina er frekjan. Valið á forystusauðnum skiptir því öllu máli. Vondur forystusauður gæti leitt hjörðina fyrir björg. Hjörðin sjálf verður eitthvað að hafa til málanna að leggja. Þetta vandamál hafa menn á Vesturlöndum leyst með því að blanda saman einræði og lýðræði í hæfilegum skömmtum. Almenningur gegnir hlutverki ráðningarstjórans („mannauðsstjórans“ eins og hinir pólitískt rétthugsandi segja) og ræður tiltekinn einstakling og/eða flokk manna með honum til hafa í meginatriðum einræðisvöld í tiltekinn tíma. Stjórnvöld fá þannig vinnufrið en eiga á hættu að missa völdin ef ekki tekst vel til. Þessi blanda af einræði og lýðræði, þ.e. fulltrúalýðræði hefur reynst vel og betri lausn er ekki í sjónmáli.

En eins og ég hef margoft bent á annars staðar eru hvorki lýðræði né mannréttindi hugsanleg án tjáningarfrelsis. Víkjum aðeins að Þýskalandi Hitlers, Rússlandi Stalíns eða Norður-Kóreu samtímans. Stuðningur almennings við stjórnvöld var þarna yfirgnæfandi. En eru slíkar stjórnir „lýðræðislegar?“ Hitler var, eins og prestar þjóðkirkjunnar, lýðræðislega kosinn einu sinni. Síðan sátu menn uppi með hann. Stuðningi almennings var nefnilega í þessum ríkjum viðhaldið með skipulegum áróðri, miskunnarlausri innrætingu þegnanna og ritskoðun. Þó hafa þessar stjórnir og fleiri slíkar örugglega fullnægt því skilyrði að hafa stuðning þegnanna og verið í þeim skilningi „lýðræðislegar“. Fólk í þessum löndum var á valdi Grillunnar, hugmyndafræðinnar, hins eina, stóra sannleika og vei þeim sem ekki vildi samþykkja hina opinberu, „pólitísku rétthugsun“ ríkjandi valdhafa.

Í Biblíunni segir: „Þú skalt enga aðra guði hafa“. Í skjóli þess áttu þeir sem létu í ljósi efa um þágildandi „pólitíska rétthugsun“ yfir höfði sér að vera taldir, jafnt af stjórnvöldum sem almenningi, í tygjum við djöfulinn og voru iðulega brenndir. Í því andrúmslofti ofstækis og haturs, sem ríkjandi „pólitísk rétthugsun“ hefur getið af sér hér á Vesturlöndum undir forystu vinstri manna verður sífellt hættulegra að efast um hinn opinbera sannleika stjórnvalda. Slíkur maður á yfir höfði sér að teljast „hommahatari“, „karlrembusvín“, eða, sem er allra verst, „rasisti“, jafnt af almenningi sem stjórnvöldum en það er fyllilega sambærilegt við að vera talinn í tygjum við djöfulinn á miðöldum.  

Með hjálp talhlýðinna einfeldninga hefur verið komið upp lagasetningu, sem getur sent hvern þann sem lætur í ljós minnsta efa um opinberar kenningar í tveggja ára fangelsi og refsingarnar munu vafalaust þyngjast með tímanum. Það furðulega og hlálega er, að allt fer þetta fram í nafni „lýðræðis“ og „mannréttinda“. Þetta eru falleg orð og vinstra fólk er hugfangið af orðum og endurtekur orð sem því finnast falleg í sífellu. Þeir vilja ólmir styðja „góðan málstað“, en af því að þetta eru nú einu sinni vinstri menn þarf alltaf að segja þeim hvaða málstaður sé góður. Orðin hljóma fallega, en sjálft inntak þeirra virðast ekki skipta þetta fólk máli. En við hverju er að búast í landi, þar sem sjálfur „mannréttindaráðherrann“ er alkunnur Kúbuvinur og flest allir ráðherrar og sjálfur forseti landsins koma úr þeim stjórnmálaflokki, Alþýðubandalaginu, sem gekk í kalda stríðinu lengst allra í stuðningi við og aðdáun á gúlagi og alræðiskúgun? Í landi, þar sem ýmsir núverandi æðstu valdamenn hafa sýnt í verki raunverulega afstöðu sína til lýðræðis og mannréttinda m.a. með því að gera sér það ómak að ganga í eða beinlínis stofna alveg sérstök „vináttufélög“ við blóði drifnar alræðisstjórnir í fjarlægum heimshlutum? (Hvað hefði verið sagt ef einhverjir sjálfstæðismenn hefðu stofnað „vináttufélag“ við Pinochet eða Batista?) En meðan slíkur skilningur á lýðræði og mannréttindum er ríkjandi meðal æðstu valdamanna er ekki við öðru að búast.

Auk þess virðast menn almennt ekki skilja, að í alveg hreinu alræði er engin þörf á ritskoðun. Allir eru sammála. Í Norður- Kóreu t.d. þarf í rauninni ekki að ritskoða, því allir fjölmiðlamenn og aðrir sem tjá sig á opinberum vettvangi eru starfsmenn ríkisins og hafa hlotið menntun sína á vegum stjórnvalda. Þeir endurtaka því, (svipað og t.d. fréttamenn RÚV) að sjálfsögðu þær skoðanir sem þeim hafa verið kenndar og ríkjandi eru hvarvetna í þjóðfélaginu. Hver sem lætur í ljós minnsta efa um hina opinberu kenningu lendir í sömu stöðu og sá, sem er sakaður um að vera hommahatari, karlrembusvín eða rasisti hér á Vesturlöndum. Hann verður útskúfaður og dæmdur, ekki aðeins af stjórnvöldum, heldur einnig af öllum almenningi.

Mér dettur í hug múgurinn, sem safnast í kringum „gleðigöngu“ hommanna. Gangan sjálf er meinlaus skemmtun, en lýðurinn sem kemur til að „sýna samstöðu“ minnir mig óþægilega á fjöldafundi nasista og kommúnista, og hver sá sem dirfist að efast mundi vafalaust fá sömu útreið og gyðingur hefði fengið á fundum Hitlers í Nürnberg. Alræði felur í sér að almenningur hefur verið forritaður með ríkjandi skoðunum, kristni, nasisma, kommúnisma eða pólitískri rétthugsun samtímans og hver sem efast er einhvers konar glæpamaður. Skríllinn sem safnast andaktugur í kringum hommana til að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum hvað allir séu víðsýnir og umburðarlyndir er í engu frábrugðinn liðinu, sem hyllir hinn heittelskaða leiðtoga í Norður- Kóreu. Fólkið mætir til að sýna að það hafi hina réttu, viðurkenndu skoðun.  Alræðið er miklu nær okkur en flestir gera sér grein fyrir.

Ég nefndi kosningu Barrabasar hér í upphafi. og væri kannski ráð fyrir þá sem hæst hrópa um „beint lýðræði“ að hafa þá frægu „þjóðaratkvæðagreiðslu“ í huga. Menn ættu stundum að fara varlega í því sem þeir óska sér. Hvað mundi þetta góða fólk segja t.d. ef farið væri fram á þjóðaratkvæðagreiðsu um að stöðva flutninga á svertingjum og múslimum til landsins? Það er enginn vafi á að slíkt á mikinn hljómgrunn meðal almennings, þótt hljótt fari og alls ekki óhugsandi að slíkt yrði samþykkt í leynilegri atkvæðagreiðslu. En hver yrðu örlög þess, sem mundi bera fram tillögu um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu? Jú, hann mundi svo sannarlega fá að heyra hrópin hátt og snjallt: „Krossfestið hann!“

 

Raunar má geta þess, að ég er ekki alfarið á móti þjóðaratkvæðagreiðslum þótt það komi ekki fram í þessari grein. En þær verða að vera um tiltölulega einföld, afmörkuð og mikilvæg mál. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Emilsson

Eimitt það sem skeði á Islandi, múgurinn kaus Barrabas. Semsagt Steingrím J og Besta Flokkinn. Ekki annað að sjá en að lýðnum vel líki.

Björn Emilsson, 14.6.2012 kl. 14:28

2 identicon

Það er merkilegt hvernig mislukkaðir fréttamenn Smugunnar reyndu einmitt að klína hommahatri á Ólaf Ragnar Grímsson, fyrir það eitt að hafa ekki mætt á hvern einasta fund og ráðstefnu á vegum Samtakanna 78 (maður sem hefur nóg annað að gera, og mikilvægara, því mál samkynhneigðra hér á landi eru í óvenju góðum farvegi að mörgu leyti). Þeir komast líka upp með, ásamt fasíska skriffinninum í '78 upp með að vera ekki kærðir fyrir meinyrði, þó forsetinn sé yfirlýstur stuðningsmaður mannréttinda samkynhneigðra, og hafi aldrei látið neitt út úr sér eða unnið gegn þeim á nokkurn hátt. En skriffinninum fasíska fannst hann ekki hafa hrópað "Heil!" nógu hátt og nógu skírt og vildi því láta "brenna hann á báli" fyrir þá "djöfladýrkun", rétt eins og fara skyldi með múg sem ekki mætir nógu reglulega til kirkju og borgar ekki nógu há aflátsgjöld, þó ekki sé hægt að sanna upp á þá "heiðni" heldur. En skortur á táraflóði á réttum stöðum, tilfinningalegum viðbröðgum við senditíkum páfa og slök kirkjusókn gat verið alveg nóg til að senda menn á bálið. Það er greinilega enn svo...Þessi skriffinnur og fíflin á Eyjunni ættu að sjálfsöðgu að taka næstu vél til Norður Kóreu, því svona menn hata allt lýðræði.

K (IP-tala skráð) 14.6.2012 kl. 22:30

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sem sagt, enga þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB? Er það ekki það sem þú ert að segja.

Afsakaðu hreinskilni mín, en þú veður úr einu óskyldu efni yfir í annað, og það er enginn samhangandi punktur í þessu essay þínu, annað en að þú telur "lýðinn" ekki vera þess um kominn að hafa réttmæta skoðun. Mér er næst að halda að það sé blanda af ismunum kommúnisma, fasisma og nasisma krydduðum með sömu kenndum og í öfgaíslamisma og frumstæðri kristni.

"Maðurinn er félagsvera og það liggur djúpt í eðli flestra að hlýða, ekki stjórna, taka við skipunum, ekki gefa þær. Sauðahjörðin fylgir forystusauðnum, en það gleymist stundum, að forystusauðurinn er líka sauður." Þessi tál- eða draumsýn þín á aðeins við í fasísku einræðisþjóðfélagi, þar sem stjórnandinn, stjórnin eða "sterki maðurinn" eru iðulega hin verstu fól.  Í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem ríki frelsi einstaklingsins, er maðurinn félagsvera og tekur sameiginlegar ákvarðanir með öðrum sem flestum í hag. Mistök eru hins vegar mannleg og ekkert lýðræði er fullkomið, en þó fullkomnara en þetta svartnættis karlaraus þitt. Þú ert í raun að mæla því bót að minnka mannréttindi vegna þess að þú telur það besta sem nú ríkir í heiminum ekki nógu gott. 

Barrabas-líkingin er ekkert annað en myndmál í áróðri kristinna áróðursmeistara gegn gyðingum sem þeir stimpluðu saklausa sem morðingja manns, sem við höfum ekki minnstu sönnun fyrir að hafi verið til. Þær milljónir manna sem drepnir hafa verið vegna þeirrar fígúru eru kannski besta sönnun þess að það er ekki alltaf best að hafa stofnanir yfir sér sem hugsa fyrir mann. 

Þátttaka í gleðigöngum og pólitískri rétthugsun varðandi samkynhneigða, homma og lesbíur, er persónulegt val fólks í lýðræði, en á Íslandi, þar sem fólk er dellukennt, er auðvitað afar fyndið að sjá allt hallilújaið fyrir "rétti" samkynhneigðra, þegar forsætisráðherrann og 10. hver maður er samkynhneigður, meðan sama fólk hefur ekkert vandamál með að skilja gyðingahatrið í Passíusálmunum öðruvísi en yndislegan og uppbyggilegan boðskap sem kemur okkur við á 21. öld, þótt hatrið sé frá vanþekkingu þeirrar 17. Önnur dellan er t.d. sú áhersla sem málefni Palestínu fá á Íslandi, meðan að ráðamenn landsins hafa leitað til morðingja eins og Assads um stuðning við setu Íslands í öryggisráðinu. Enginn gengur niður á torg og fer hamförum út af því þjóðarmorði sem hann fremur, meðan allir berrassa sig þegar deila á á eina lýðræðið í miðausturlöndum fyrir að verja sig gegn villimönnum eins og t.d. Assad, sem lýst hefur útrýmingu Ísraels sem nauðsynlegu takmarki fyrir Sýrlendinga sem þurfa að láta sér nægja að landakort þar sem Ísraelsríki er ekki að finna. Enginn hefur spurt almenning á Sýrlandi vilja. 

Vilhjálmur Eyþórsson, fólk er enn að velja rangan Barrabas til að friða sál sína og til að eltast við duttlunga og dellur, og þú ert einn af þeim. Stundum þarf líka fleiri "synduga" til að velja á milli. Það er lýðræði. Að stilla því versta upp gegn því besta er fornöldin.

En meiri trú á almenning væri kannski við hæfi. Það eru ekki allir vitlausir og flestir eru þannig gerðir að þeir geti tekið sönsum, þótt þeir hafi kosið rangt síðast.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 15.6.2012 kl. 04:05

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta er nú meiri steypan, nafni minn sæll, en þó hóflega blönduð barnaskap, t.d. : „Í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem ríki frelsi einstaklingsins, er maðurinn félagsvera og tekur sameiginlegar ákvarðanir með öðrum sem flestum í hag“. Eins og þú getur stundum verið skemmtilegur og skarpur í mörgum málum vill öllu slá saman og kortslútta þegar gyðingar eru annars vegar. Stjórn Assads er vissulega arfavond, en fátt ef nokkuð bendir til að andstæðingar hans séu hótinu betri. Líklegra er að þeir sé enn verri og hati gyðinga hálfu meira en núverandi stjórnvöld. Annars eru „lýðræði“ og „mannréttindi“ orðaleppar, sem menn leggja í þá merkingu sem þeim hentar og bæði orðin nánast marklaus.

Vilhjálmur Eyþórsson, 15.6.2012 kl. 04:21

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þetta er góð og athyglisverð grein hjá þér Vilhjálmur.

Ég verð að játa að ég hef talsvert skipt um skoðun varðandi beint lýðræði, en fyrir nokkru síðan var ég algerlega andsnúinn því og notaðist við svipuð rök og þú, varðandi efasemdir um áhuga fólks að taka ákarðanir um hin ýmsu mál, ég var mikill þingræðissinni.

Svo þegar núverandi ríkisstjórn komst til valda, þá sá ég að dómgreindarskert fólk gat komist til valda, eins og hver annar. Núna finnst mér þingliðið í heild, með undantekningum þó, ekki státa af meiri visku og dómgreind en gengur og gerist.

Þá fór ég að hallast í átt að beinu lýðræði, þ.e.a.s. að almenningur gæti hugsanlega haft vit fyrir kjánum í valdastólum.

Ég veit ekki hvort ég hef rétt fyrir mér, en mér finnst almenn viska hafa farið þverrandi með árunum, fólk er orðið hálf veruleikafirrt. Eflaust er það þessi pólitíski réttrúnaður og skoðanakúgun umræðunnar sem er einn aðal orsakavaldurinn.

Þess vegna tel ég þörf á breytingum, beint lýðræði getur verið leið til að fá fólk til að hugsa. Í þjóðaratkvæðagreiðslum geta verið tekið kolrangar ákvarðanir, það getur líka gerst á þingi.

Mannkynið er í heild sinni meingallað, þótt við státum líka af góðum kostum. Við þurfum að þjálfa dómgreindina, beint lýðræði getur verið leið til þess, en það er ekki sjálfgefið. Einræði, þingræði og beint lýðræði. Allt getur þetta leitt til rangra ákvarðanna, en hugsanlega getur beint lýðræði aukið þroskann að einhverju marki.

En vitanlega á það að vera jafneðlilegt og sjálfsagt að vera á móti hommum og svertingjum, eins og hægri mönnum og kristnum. Mér líkar ágætlega við allt fólk, óháð litarhafti, stjórnmálaskoðunum og kynhneigð. Mér finnst óþægileg tilfinning að vera illa við fólk.

En sjálfsagt er að allir fái að blása út og segja sínar skoðanir, við verðum að geta tekið því þótt einhverjir séu ekki ánægðir með okkur en hinir hóparnir verða að geta tekið við óánægju annarra með sig líka. Frjáls og opinská umræða leiðir að lokum til sátta.

Jón Ríkharðsson, 16.6.2012 kl. 01:05

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta er mjög skynsamlegt innlegg hjá þér Jón svo sem við var að búast. Mesta hættan stafar alltaf af stórasannleika, þegar ein hugsun eða kenning ræður og útilokar allan efa með valdi, eins og nú er að gerast með pólitíska rétthugsun.

Vilhjálmur Eyþórsson, 16.6.2012 kl. 01:12

7 Smámynd: Óskar Arnórsson

Vel orðuð og vel skrifuð "hræra" hjá þér Vilhjálmur. Ég er sammála sumu og sumt er tóm þvæla manns sem gæti verið á biturleika- og gáfnafylleríi eða er glerharður kommúnisti. Hroki gagnvart almenningi er óstjórnlegur í þessari grein. Það er samt gaman að lesa greinarnar þínar bara af því að þær eru svo vel skrifaðar. Skrítinn kall þú ert og ótrúlega athyglisverður...

... fólk á að vera þakklátt að þú ræður nákvæmlega engu í íslensku þjóðfélagi ...

Óskar Arnórsson, 17.6.2012 kl. 14:03

8 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Þar sem þú ferð um víðan völl,

velltist ég um af hlátri,

í grein þinni eru mikil spjöll,

nóg af misfærslu þrálátri.


Í beinu lýðræði er það ekki bara almenningur sem ræður. Heldur fellst beint lýðræði með þátttöku almennings á a) umræðuvettfangi þar sem fólk getur komið með hugmyndir sínar og b) með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þátttaka almennings í umræðum snýst um að búa til aðstæður og rétt umhverfi til þess. Í því fellst meðal annars 1) hvati 2) áhugi  og 3)  þekking. Þar sem öll þessi atriði haldast í hendur.

Beint lýðræði er ekki sambærilegt við fulltrúalýðræði. Ástæðan er meðal annars sú að fulltrúalýðræði býður ekki upp á miklar breytingar á því kerfi. En beint lýðræði bíður upp á jafnvel miklar útfærslur og breytingar.

Aðstæður fyrir beint lýðræði eru bestar inni í smærri umhverfi (samveru og umræðu lýðræði). Því þar getur hvatinn og áhuginn verið mestur og auðveldara að viðhalda áhuga og hvata til þess.

Beint lýðræði snýst EKKI um að lýðurinn eigi að ráða. Heldur að almenningur fái að tjá sig um skoðanir sínar á hvað betur mætti fara í þjóðmálunum. Og tillit verði tekið til skoðana þeirra.

Svo ég nefni hugsanlegt dæmi

Beint lýðræði getur skiptst þannig:

1. almenningur kemur saman þar sem hvati, áhugi og þekking haldast í hendur (með tilbúnum aðstæðum til þess). Ef þekkingarskortur er þá kemur hún inn með margvíslegu móti, eins og þátttaka sérfræðinga, efling þekkingar með aðgangi að efni bæði útprentað og tölvutengdu.

2. kosið um hugmyndir þeirra
3. kosnar hugmyndir berist svæðisþingi (þriðja stjórnstigið)

4. svæðisþing tekur tillit til hugmynda og tekur ákvarðanir með tillit til þeirra

5. alþingi tekur við mikilvægum málefnum og tekur við ákvörðunum samkvæmt þeim

Osfrv.

Guðni Karl Harðarson, 23.6.2012 kl. 13:26

9 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Að er alveg ljóst að þú ert alræðissinni, sem skilur alls ekki hvað „lýðræði“ er. Lýðræði snýst um mjög einfaldan hlut: Meiri hlutinn á að ráða. punktur basta. Þessar hugmyndir þínar eiga heima í Norður- Kóreu. Annars er þetta innlegg þitt þvílík steypa að mér beinlínis svelgist á.

Vilhjálmur Eyþórsson, 23.6.2012 kl. 13:33

10 identicon

"Mér dettur í hug múgurinn, sem safnast í kringum „gleðigöngu“ hommanna. Gangan sjálf er meinlaus skemmtun, en lýðurinn sem kemur til að „sýna samstöðu“ minnir mig óþægilega á fjöldafundi nasista og kommúnista, og hver sá sem dirfist að efast mundi vafalaust fá sömu útreið og gyðingur hefði fengið á fundum Hitlers í Nürnberg. Alræðið er miklu nær okkur en flestir gera sér grein fyrir."

Mikið er þetta vafasöm staðhæfing. Fyrst að gangan er "meinlaus skemmtun" gæti þá ekki verið að fólkið sem mætir á svæðið sé þarna til að skemmta sér? Ég veit ekki til þess að nokkur sé neyddur til að mæta. Og varðandi þá sem "dirfast að efast", þá veit ég ekki betur til þess að það ríki skoðannafrelsi á Íslandi og það sé í góðu lagi að takast á um hlutina. Að tengja réttindabaráttu samkynhneigðra við alræðisstjórnir er frekar langsótt tenging.

Gutti (IP-tala skráð) 23.6.2012 kl. 14:20

11 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég er hvergi neinn alræðissinni Vilhjálmur. Þvert á móti hef ég kynnt mér þessi mál mjög vel. Meðal annars tekið þátt í umræðulýðræð inni í Lýðræðisfélaginu Öldu.
Fullyrðingar þínar um Norður Kóreu standast ekki meðal annars að þar er alræði kommúnistmans og almenningur hefur mjög lítið að segja. Beint lýðræði hafa akkúrat ekkert með kommúnisma að gera. ALRÆÐI er RÆÐI þess sem ræður. Lýðræði er þegar að FJÖLDINN kemur að ákvörðunum.

Þú ert algjörlega á villum vegar að lýðræði snúist um að meirihlutinn eigi að ráða. Lýðræði felst meðal annars í orðinu sjálfu. Að hliðstæðu þess í öllu þessu er þó möguleikinn að meirihlutinn ráði. Vegna þess að allstaðar er kosið um atriðin og útkoman er vegna ákvarðana fjöldans.

Ein helsta andstæða þeirra sem eru frekar á móti beinu lýðræði er “almannavalsfræðinnar” (að tld. niðurstaða kosningar velti ekki á einu atkvæði) og hitt að lítil þekking sé hjá almenningi á umræðu, eins og tildæmis fátæku fólki. Ritgerðir hafa verið skrifaðar um þetta sem ég m.a. hef lesið og kynnt mér.
Einnig er áhyggjuefni prófessora eða sérfræðinga er sú að lítil þátttaka yrði í beinu lýðræði. Alltaf lyggur þar eitthvað að baki eins og tildæmis að snúa sér að gefa sér að það sé eitthvað sem ER og hafa sjálfir kannski aðra skoðun tengdum fulltrúaræðsins. Oft þegar að talað er um beint lýðræði er verið að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur og hefur sá hluti beins lýðræðis verið tekið inn í fulltrúalýðræði eins og tildæmis í Sviss. En ekki eitthvað sem geti ORÐIÐ til. Eins og að búa til HVATA, ÁHUGA og ÞEKKINGU.

Athugaðu eitt að í beinu lýðræði er allur möguleiki fyrir hendi a) meirihlutinn ræður þegar að kosið er hvar sem er innan þess kerfis b) flokkar geta verið með í beinu lýðræði.

Guðni Karl Harðarson, 23.6.2012 kl. 14:24

12 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það er alveg ljóst, Gutti minn, að þú botnar hvorki upp né niður í því sem ég er að segja hér og ég nenni bókstaflega ekki að reyna að skýra það út fyrir þér. Þó má benda á, að alræði felur í sér að almenningur hefur verið forritaður með ríkjandi skoðunum, kristni, nasisma, kommúnisma eða pólitískri rétthugsun samtímans og hver sem efast er einhvers konar glæpamaður. Skríllinn sem safnast andaktugur í kringum hommana til að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum hvað allir séu víðsýnir og umburðarlyndir er í engu frábrugðinn liðinu, sem hyllir hinn heittelskaða leiðtoga í Norður- Kóreu. Fólkið mætir til að sýna að það hafi hina réttu, viðurkenndu skoðun.

Vilhjálmur Eyþórsson, 23.6.2012 kl. 14:28

13 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Guðni minn sæll! Þetta síðara innlegg þitt er enn meiri og undarlegri steypa en hið fyrra. Í hvaða heimi lifir þú? Hvaða bölvað bull er þetta?

Vilhjálmur Eyþórsson, 23.6.2012 kl. 14:31

14 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Vil lík benda þér á að öll þau atriði sem ég hef nefnt að ofan (fyrra innlegg mitt) er kosið um og meirihlutinn tekur ákvörðun. Ákvörðun eins meirihluta berst hinum til að fara yfir og taka ákvörðun.

Guðni Karl Harðarson, 23.6.2012 kl. 14:31

15 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég sé það nú að þú ert ekki viðræðuhæfur á grundvelli svara þinna. Því er þetta loka færsla mín hér. 

Guðni Karl Harðarson, 23.6.2012 kl. 14:33

16 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég verð bara að taka undir spurningu Vilhjálms, Guðni! "Þú ert algjörlega á villum vegar að lýðræði snúist um að meirihlutinn eigi að ráða" segir þú. Ef lýðræði er ekki beintengt því að meirihluti ráði, þá skil ég orðið lýðræði allt öðruvísi enn þú gerir. Og að Vilhjálmur sé ekki viðræðuhæfur, segja bara börnin. Að hægt sé að vera sammála Vilhjálmi í öllu, það er algjörlega ómögulegt fyrir mig. Hann er með svo margar eldgamlar skoðanir sem hann þyrfti að vera búin að henda fyrir löngu.

Lýðræði að mínu mati það frelsi til að vera maður sjálfur sem allir þurfa til að þroskast. Það verður erfiðara með hverju árinu þegar þingkosnir trúa því að þeir séu til þess eins og setja ný lög og halda áfram að prjóna reglugerðar spennitreyju fyrir skrílinn og skattleggja þá sem mest.

Ég hef t.d. aldrei litið á kommúnisma sem pólitík. Frekar hugsýki, stjórnunar áráttu eða tegund af týranisma. Það eru fullt af týrunum meðal kapitalista líka, enn þeir eru ekkert að fegra sjálfan sig né þykjast vera eitthvað annað enn þeir eru.

Að ætla að yfirgefa síðunna vegna þess að þér líki ekki svörin segir meira um þig enn svörin hans Vilhjálms. Ég les næstum alla hans pistla af því að þeir eru skemmtilegir. Ekki af því að ég sé alltaf sammála þeim...

Óskar Arnórsson, 24.6.2012 kl. 15:53

17 identicon

Kærar þakkir fyrir síðuna, en bæði er að ég hef haft gaman að lestrinum en einnig orðið mér umhugsunarefni. Ef ég má vildi ég nú freista þess að skrifa litla athugasemd.

brynjar (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 23:33

18 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég þakka kærlega. Mér finnst alltaf gaman ef einhver les þetta sem ég er að böggla saman.

Vilhjálmur Eyþórsson, 1.7.2012 kl. 23:59

19 identicon

Æ, ég kann ekkert á þetta. Jæja, - fyrir margra hluta sakir hygg ég að beint lýðræði geti verið varasamt, einkum þó ef menn telja að hægt sér að stjórna landi með sífelldum þjóðaratkvæðagreiðslum. Það sem villir sýn er að Icesave og ESB, eru raunar dæmi um hluti sem hægt er að kjósa um á þann hátt, því þau eru þess eðlis að hægt er að segja af eða á, - borga Icesave eður ei, ganga í ESB, eður ei. Ennfremur varða málin þjóðarhag á þann hátt að varða landsmenn tiltölulega jafnt, og nógu einföld til að drjúgur hluti kjósenda geti haft einhvern skilning og skoðun á málinu. - Stundum er sagt að, að byrja að skilja(eða telja sig skilja) álitaefni er að byrja að hafa skoðun á því(þótt vissara sé að hafa rétt hlutfall milli skilningsins og hversu sterk skoðun manns er). - En ágætt dæmi til að skilja vandræðin við beint lýðræði er hins vegar stjórnlagaþingskosningin. Að vísu var kosið um fulltrúa, en þeir voru svo margir að engin leið var að mynda sér skoðun á því hverjum þeirra menn treystu best. Tilgangur þeirra kosninga var sá að semja nýja stjórnarskrá, - en hversu margir kjósenda skyldu hafa lesið þá gömlu? Og hvað skyldi kjósendum hafa þótt miður fara við hana (fyrir utan að vera gömul og dönsk, en „gömul“ og „dönsk“ held ég að séu ekki beinlínis efnisatriði hennar).

Franski stærðfræðingurinn Condorcet, sem uppi var á átjándu öld, sagði að í kosningum gæti vel gerst að meirihlutinn yrði í minnihluta í meirihluta mála. Ja, ég kann ekki að skýra það af neinu viti en sem dæmi mætti nefna óskarsverðlaunin vestan hafs (það er auðvitað ekki pólitísk kosning - ekki bindandi fyrir neinn - en það gerir ekkert til í þessu samhengi). Mér skilst að kjósendur skrifi lista, kannski 1-5 um þær myndir sem þeim líkaði best, en þá getur hæglega gerst að engin þeirra mynda sem neinn setti í fyrsta sæti verði fyrir valinu.

Annað dæmi gæti verið ef kosið er um mál sem menn haga mjög misjafnan áhuga fyrir. Segjum að eitthvað sé mikið hagsmuna- eða hjartans mál fyrir fjórðung þjóðarinnar, hinir séu lítt hrifnir, en nenni ekki að eyða mikilli orku í það. Þá er hætt við að kjörsókn nái ekki helmingi svo minnihlutinn ráði för, og slík dæmi gætu endurtekið sig býsna oft.

Ennfremur getur gerst að kjörseðill feli í sér einhvers konar afarkosti, til að mynda ef kosning væri þannig að menn ættu ýmist að krossa við ESB, eða Icesave en hefðu ekki þann möguleika að hafna hvoru tveggja, bara svo mjög einfalt dæmi sé tekið.

Þegar menn segja „þjóðin“ þetta, „þjóðin“ hitt, mætti minna á að „sækjast sér um líkir,“ svo þótt þeir sem maður sjálfur þekkir séu manni sammála um eitthvað er ekki þar með sagt að „þjóðin“ sé það, og ekki víst að sífeldar þjóðaratkvæðagreiðslur yrðu til þess að hlutirnir yrðu manni meir að skapi en þeir eru nú.

Í venjulegum þingkosningum er kosið um framboðslista (flokka) sem hafa almennar áherslur, en um leið tiltekna menn. Ef nú sömu flokkar starfa árum saman hafa menn drjúgan tíma til að mynda sér skoðun á því hver þeirra er mönnum líkar best, miklu lengri en um tilfallandi stök málefni. Þeir sem fylgjast grannt með stjórnmálum mættu hafa í huga að margir kjósendur hafa ekki sömu tök á að fylgjast með og þeir sjálfir; sjá, eða heyra illa (eða alls ekki), eru lesblindir - ja, margt getur valdið því að fólk mætir mun fremur í fulltrúakosningar til þings en þjóðaratkvæði. Einfalt dæmi er að í eina tíða var ég stundum í uppgripavinnu á sumrum, og gerði vart nokkurn hlut allt sumarið en að vinna og sofa. Hefði þjóðaratkvæðagreiðsla framið fram á slíku sumri hefði ég naumst vitað af henni, en stefnu flokkana er kannski hægt að kynna sér þegar menn sjálfir hafa tíma til þess.

Jæja, ég vildi nú bara prófa að leggja orð í belg og held að ég sé nokkuð sammála þessari grein, hafi ég skilið rétt. - Takk fyrir mig.

brynjar (IP-tala skráð) 2.7.2012 kl. 01:45

20 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Brynjar minn sæll! Þetta er alveg prýðilega skynsamlegt sem þú ert að segja hér og ég gæti skrifað undir það mest allt, ef ekki allt. Ég er, eins og ég tók fram í eftirskrift ekki alfarið á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, en þær verða að vera um tiltölulega einföld, auðskilin prinsípmál. Icesave var eitt slíkt, en almenningur á ekki að borga fyrir uppátæki einkabanka. Annað sem þú segir er líka rétt svo langt sem það nær og óvenju skynsamlegt. Ég er satt að segja orðinn óvanur því að sjá merki um sæmilega heilbrigða skynsemi í „pólitískri umræðu“ samtímans. 

Vilhjálmur Eyþórsson, 2.7.2012 kl. 01:58

21 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Annars, ef þú hefur gaman af að lesa eitthvað af þessu má benda á nokkrar mikilvægar greinar innan um, t.d. „Eyja Sancho Panza“ þar sem ég fjalla um grundvöll pólitískrar rétthugsunar, sem ég nefni „flathyggju“, líka „Að flýta ísöldinni“ um gróðurhúsaáhrifa- steypuna, einnig sögulega grein eins og „Krossferðir og hálfmánaferðir“, eða grein um nútímalist, „misskilinn brandari“. Gerðu svo vel!

Vilhjálmur Eyþórsson, 2.7.2012 kl. 02:12

22 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég ætlaði að yfirgefa síðuna vegna svara Vilhjálms. Vegna þess að hann kallaði allt sem ég skrifaði steypu. Hafði engin önnur svör en það.

>Ef lýðræði er ekki beintengt því að meirihluti ráði, þá skil ég orðið lýðræði allt öðruvísi enn þú gerir.

Ef þú lest það sem ég skrifaði þá sérðu að vissluega er að meirihluti ráði þáttur á lýðræði.  Og að í beinu lýðræði (þátttökulýðræði utan fulltrúlýðræðis).


einföld útskýring á lýðræði:

Lýðræði erjöfnuður ríki í þjóðar mynd og þar sé ríkisstjórn þar sem allir borgarar og þjóð saman hafi ákveðna allsherjarreglu, og lög og aðgerðir ríkis þeirra, og krefjast þess að ALLIR borgarar (sem uppfylla ákveðin hæfisskilyrði) hafa jöfn tækifæri til að tjá skoðun sína.
Í lýðræði felast orð eins og Réttlæti, Jafnrétti, Frelsi og Bræðralag.

Ég tek það líka fram að fleiri en einn möguleiki er á kosningu í lýðræði eins og Consensus ákvörðunarferli sem er hópur ákvarðanatöku ferlis sem leitast eftir samþykki, ekki endilega samþykki þátttakenda og upplausnar andmæla. Consensus er skilgreint í Merriam-Webster sem, fyrst og fremst sem almennu samkomulagi og í öðru lagi hópur samstöðu um trú eða eftir væntingum. Það hefur uppruna sinn í latneska orðinu sem skilningi bókstaflega finnst saman. Það er notað til að lýsa bæði ákvörðun og ferlið við að ná ákvörðun. Consensus ákvörðunarferli er svona umhugað um ferli að ná consensus ákvörðun og félagsleg og pólitísk áhrif með því að nota þessa aðferð.

Þetta er þekktur aðferðarmöguleiki og er fræðilegt. 

Ég vil benda þér Óskar sem ég er að semja um hliðstæðu beins lýðræðis (innan þátttöu klýðræðis) þar sem kenningin um "integralisma" kemur líka við sögu.

Og mun greinilega vera birt fljótlega. Eða í ágúst. Þetta er sérstakt verk sem ég er að vinna að. 

Ég hef viðað mér miklar þekkingar um þetta svið. 

Guðni Karl Harðarson, 3.7.2012 kl. 00:11

23 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þú lýsir hér ágætlega þjóðfélagi Norður- Kóreu, þar sem allir eru í raun sammála. Þar ríkir „consensus“. Þú segir að allir hafi rétt til að tjá skoðun sína. En skoðanir eru jafn margar einstaklingunum, nema þar sem stóri sannleikur ræður, t.d. í Norður- Kóreu. Vegna þess að engir hafa sömu skoðun veður einfaldlega aldrei consensus fenginn fram nema með valdi og/eða miskunnarlausri innrætingu og heilaþvotti lýðsins. Eins og ég sagði strax í upphafi: Þú ert alræðissinni. Í alræðisríkjum er alger consensus. Allir eru í raun og sannleika sammála um ást „hins mikla sonar“.

Vilhjálmur Eyþórsson, 3.7.2012 kl. 00:19

24 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Ég hafði sérstaklega gaman að þessu innleggi þínu Vilhjálmur.  Vegna þess að það eru til viðræður þegar á Íslandi þar sem "consensus" er og hefur verið notað. Og þar er sko ekkert vald góurinn eins sem ræður. Ég hef sjálfur tekið þátt í slíkri umræðu og líkað bara ágætlega.

Guðni Karl Harðarson, 3.7.2012 kl. 00:24

25 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Það er viðurkennd regla í allri gerð lýðræðis að allir hafi rétt á að tjá skoðun sína.

Guðni Karl Harðarson, 3.7.2012 kl. 00:25

26 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Vissulega ríkir consensus í sértrúarsöfnuðum. En ef einhver dirfist að afneita sjálfum þeim grundvelli, sem sértrúarsöfnuðurinn byggir á endar allt með ósköpum. Þessi consensus þinn verður aldrei fenginn fram nema með valdi. Sorrý. Þú ert, sem fyrr sagði alræðissinni.

Vilhjálmur Eyþórsson, 3.7.2012 kl. 00:33

27 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Eigum við ekki bara að segja þá að ég tilheyri þeim sértrúarsöfnuði sem þú fullyrðir að "Lýðræðisfélagið Alda" sé?

Ég hef annars samið þetta hérna sem hefur ómað um þjóðfélagið (sem engrar athugasemdar er krafist á hér!).

Náðu þér í skjalið:
"Nýi Sáttmáli" það eru þó nokkrir búnir að ná sér í það og skoða og lesa.

http://www.mediafire.com/view/?a79twh65n3g902o

Guðni Karl Harðarson, 3.7.2012 kl. 01:28

28 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Vil þó bæta við að þó ég hef tekið þátt í consensus þá var ég ekki þar með að segja að ég hafi sérstakan áhuga fyrir consensus reglu. Nefndi það líka hvergi að ég veldi hana umfram annað, heldur nefndi á nafn aðeins.

Guðni Karl Harðarson, 3.7.2012 kl. 12:05

29 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Mjög vönduð grein hjá þér VIlhjálmur. Ég á eftir að lesa hana nokkrum sinnum yfir og vega og meta ýmislegt, kannski er ég ekki sammála öllu, en ég er samt hrifinn af því hversu vel þú setur mál þitt fram og rökfestan er aðdáunarverð.

Magnús Óskar Ingvarsson, 3.7.2012 kl. 18:55

30 Smámynd: Óskar Arnórsson

Guðni Karl er áhugaverður í umræðu um lýðræði af öðrum ólöstuðum. Hann er nær þeirri hugmynd sem ég hef um lýðræði enn nokkur annar. Og að fyrsta boðorðið sé frelsi til að hafa skoðun á hverju sem er.´

Lýðræði í mínum huga er algjört frelsi. Það frelsi þýðir alls ekki það sama og að ekki þurfi samfélagsreglur. Lýðræði í umferðinni þýðir að menn séu sammála á hvaða vegarhelmingi þeir keyra. Lýðræði í hjónabandi þýðir að bæði virði hvert annað. Lýðræði í skatti ætti að ráðast av heiðarleika þess sem ráðastafar skattpeningunum.

Lýðræði er hugmynd, eða ástand sem engin getur náð, enn það nægir að menn hafi það af stefnu í lífinu. Ekkert er svo létt en að misnota lýðræði. Sérstök tegund af glæpum verður til í lýðræðisríkjum og þrífst bara þar..

Samt er lýðræði best í augnablikinu.

Í framtíðinni mun fólk skilja að ekki þarf ríkisstjórnir í þeirri mynd þeir eru núna. Allir leiðtogar framtíðarinnar munu verða kosnir eftir alvöru lýðræðishugmyndum. Alvöru ekta lýðræði er nefnilega ekki hægt að byggja á stjórnmálaflokkum og annari hjarðmennskupólitík nútímans....

Óskar Arnórsson, 4.7.2012 kl. 22:21

31 Smámynd: Guðni Karl Harðarson

Þakka þér fyrir þessa áhugaverðu athugasemd Óskar Arnórsson.

'Eg vil benda á að ég mun leggja til nokkuð algjörlega nýtt með skjali mínu sem verður birt þann 23. Júlí. Kannski eitthvað sem má athuga hvort taka mætti upp?

Guðni Karl Harðarson, 9.7.2012 kl. 18:07

32 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég kíki endilega á það Guðni. Ég trúi sjálfur að það þurfi miklu meiri umræðu um hvað sé lýðræði og hvað sé lýðræðishugsun. Ég trúi ekki lengur á flokkapólitík eða þessar frægu "stefnur" þeirra í málum sem varða alla. Það þarf miklu meiri sveigjanleika og lipurð í stjórn mála.

Málið snýst ekki að setja einhver málefni flott upp með reglugerðum og lögum sem virka svo öfugt í lífinnu sjálfu.

Þegar fólk er með hugmyndir um að lýðræði sé hreinlega í hættu með þjóðaratkvæðagriðslu um sem flest mál, passar það allavega ekki við minar hugmyndir. Það mætti t.d. alveg leyfa fólki að kjósa um hverjir stjórna fjármálakerfinu og hverjir eiga að eiga banka.

Ef það yrði kosið um það yrði líklegast engin banki í einkaeign...aldrei. Og af hverju ekki? Af því að þjóðfélaginu er stjórnað þaðan og ekki frá Alþingi eins og fólk heldur.

Ef lýðræði á að ganga út á það að fólk fái að kjósa hverjir stjórna í landinu ætti að kjósa bankastjóranna og svo getur nefnd í bönkunum ráðið því hverjir verða þingmenn....eða embættismenn. Valdið er allt komið þangað og þess fyrr sem fólk gerir sér grein fyrir því, því betra fyrir þróun lýðræðissins...

Óskar Arnórsson, 9.7.2012 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband