Gróðurhúsaáhrif væru góð

Þessi grein er í Mogganum í dag, en ég vil benda lesendum sérstaklega á greinina, hér fyrir neðan, sem skrifuð var sumarið 1999 um ósóngatið. Ég hef raunar fjöldamargt fleira að segja um þessi mál, en um Kyoto- bókunina, "umræðuna" og alla þessa steypu má hafa orð Ólafs Pá í Laxdælu:

"Vond eru heimskra manna ráð, en því verri, sem þeir koma fleiri saman".




Ég veit vel, að þegar menn lesa fyrirsögn þessarar greinar munu þeir telja, að nú hafi ég endanlega farið úr límingunum. En svo er alls ekki. Mér er full alvara.
Ég lærði, eins og aðrir sem gengið hafa í gegnum skólakerfið hér að við lifum nú á ísöld, þótt hlýskeið sé. Í raun er loftslag nú afar kalt, sé miðað við jarðsöguna í heild, og raunar einnig á mælikvarða núverandi hlýskeiðs, sem hófst með gífurlegu flóði fyrir eitthvað um tíu-tólf þúsund (ekki milljón) árum. Hlýjast og rakast var fyrstu árþúsundin, en síðan fyrir um 6-7 þúsund árum, skömmu fyrir daga Forn- Egypta, fer loftslag hægt kólnandi og þornandi. Þessi kólnun er ekki jöfn, en þótt hita- og rakakúrfan sé hlykkjótt, liggur hún afdráttarlaust niður á við, mönnunum og gjörvöllu lífríkinu til ómælanlegs tjóns.

Menn hafa fundið merki um 20 eða fleiri hlýskeið á núverandi ísöld, sem staðið hefur í allt að þrjár milljónir (ekki þúsundir) af 4.500 milljóna ára sögu jarðarinnar, og hafa sum þeirra augljóslega verið miklu hlýrri en það sem nú ríkir. Um ástæður þeirra, og sjálfrar ísaldarinnar, er ekkert vitað með vissu. Fundist hafa merki um nokkrar aðrar ísaldir á fyrri tímaskeiðum, en þær hafa verið tiltölulega stuttar sé miðað við heildarlengd jarðsögunnar.

Menn hljóta að hafa lært eins og ég, að mest alla milljarða ára sögu jarðarinnar hefur hiti verið allt frá tíu og stundum allt að 20 stigum hærri en nú, og lítill, og oftast enginn ís við heimskautin. Mest alla jarðsögu Íslands, þ.e. fyrstu 15-20 milljón (ekki þúsund) árin þar til núverandi ísöld hófst, var loftslag og gróður hér svipaður og nú er í Norður- Kaliforníu, svo sem sjá má á surtarbrandslögum og steingervingum á Tjörnesi og víðar. Slíkt loftslag er Íslandi og jörðinni allri eðlilegt, ekki ísaldarkuldinn, sem nú ríkir, þrátt fyrir hlýskeið.

Fyrstu árþúsundin eftir flóðið mikla, sem markar upphaf núverandi hlýskeiðs var loftslag á norðurslóðum a.m.k. 4-5 stigum hlýrra en nú er, miklu heitara en jafnvel ofstækisfyllstu spámenn heimsendafræðinga nútímans, svokallaðra “umhverfisverndarsinna” gera ráð fyrir í “svörtustu” spám sínum. Meginjöklar á Suðurskautslandinu og Grænlandi bráðnuðu þó ekki og yfirborð sjávar var sáralítið hærra en nú. Ísbirnir lifðu góðu lífi örlítið norðar en nú.
Þá var Ísland nánast paradís á jörðu í samanburði við það sem nú er, enginn Vatnajökull, aðeins fáeinar jökulhettur á hæstu tindum og landið allt grænt og gróðri vafið. Allt lífríkið tók við sér. Gífurleg landflæmi víða um heim, sem höfðu verið lítt byggileg vegna kulda eða þurrka, urðu nú aftur lífvænleg mönnum, dýrum og jurtum. Uppgufun úr höfunum jókst, og hið hlýja loft gat tekið til sín meiri raka en áður. Sahara- eyðimörkin var grasi gróin og þéttbyggð mönnum og skepnum. Síðan kólnaði hægt og hægt og þornaði, svo byggðin færðist til strandar og í Nílardalinn. Þessi þróun náði hámarki um aldamótin 1900, en þá voru jöklar á Íslandi og annars staðar meiri en nokkru sinni frá því á jökulskeiði. Jafnframt því að Vatnajökull og aðrir smájöklar á norður- og suðurhveli hafa verið að myndast hafa eyðimerkur hvarvetna verið að stækka, uppgufun minnkar úr höfunum, og kalt loftið inniheldur minni raka en fyrr. Enn á tímum Rómverja voru borgir reistar í blómlegum landbúnaðarhéruðum Norður- Afríku, þar sem nú eru sandöldur einar.
Jörðin stefnir óhjákvæmilega inn í nýtt jökulskeið eftir nokkur þúsund ár. Allt að þriggja kílómetra þykkur  jökull mun þá aftur leggjast þar yfir, sem ýmsar helstu borgir Vestur-Evrópu og Norður- Ameríku standa nú.
Þetta er engin barnaleg heimsendaspá, þetta hefur gerst 20 sinnum eða oftar á núverandi ísöld og mun alveg örugglega gerast aftur. “Gróðurhúsaáhrifin”, ef einhver eru, gætu hugsanlega hægt á þessari þróun eða stöðvað hana. Vonandi fer svo.


Það eru engin sérstök tíðindi, að mesti óvinur alls sem lifir, er frost og kuldi. Þetta vita allir. Skynlausar skepnur, fuglar, fiskar, skordýr, grös og jurtir vita þetta og leita því ávallt í hlýjuna. “Umhverfisverndarsinnar”, vita þetta hins vegar augljóslega ekki. Þeir, og margir stjórnmálamenn, t.d. Al Gore fyrrum varaforseti, hafa fengið þá flugu í höfuðið að hlýjan, vinur alls sem lifir, sé vond. Hin meinlokan er þó enn undarlegri, en hún er sú, að heimurinn muni farast, ef hlýnar eitthvað agnarlítið aftur á næstu hundrað árum.

Ég vil undirstrika þetta litla orð “aftur” alveg sérstaklega. Það heyrist nefnilega aldrei í “umræðunni”. Alltaf er talað um “hlýnun” aldrei, eins og rétt er, um “endurhlýnun”. En af hverju allur þessi ótti við hlýjuna? Mér sýnist ástæðan vera augljós: Ömurlegt ástand náttúrufræðikennslu austan hafs og vestan. Það er slæmt hér, en utanlands virðist ástandið enn miklu verra. Hinir erlendu fjölmiðlamenn, sem áttu upptökin að “umræðunni” um “gróðurhúsaáhrifin”og ráða henni, virðast almennt hafa verið tossar í skóla, og stjórnmálamennirnir, sem ákvarðanir taka, að mestu út frá skrifum fávísra æsifréttablaðamanna, sýnast hafa verið álíka grænir í flestum námsgreinum.

Ég endurtek og undirstrika: Gróðurhúsaáhrif væru góð!






« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nákvæmlega! Fátt yrði vistkerfi sjávar t.d. mikilvægara en bráðnun jökla. Og ekki sé ég hvað gæti glatt meira hinar "moldríku" Afríkuþjóðir en uppþornun stöðuvatna og vaxandi eyðimerkurstormar. Ef Holland til dæmis hyrfi af kortinu gæti svo farið að íbúarnir flyttu sig til okkar. það myndi hleypa lífi í byggingaiðnaðinn og stórauka allan hagvöxt okkar. Þarna er fjölmargt ótalið.

Gróðurhúsaáahrif væru góð. Ekki spurning.

Okkur vantar vitra menn og góðgjarna eins og þig til að stýra þjóðum.

Árni Gunnarsson, 30.9.2007 kl. 09:24

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Hr. Árni! Ef þú nenntir að lesa greinina mundir þú sjá, að hlýnun jarðar leiðir til aukinar úrkomu, þannig að eyðimerkur í Afríku og annars staðar munu aftur dragast saman og/eða hverfa. Lestu betur!

Vilhjálmur Eyþórsson, 30.9.2007 kl. 12:01

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það væri ókurteisi að taka dýpra í árinni en að kalla þessar kenningar þínar hvatvíslegar og grunnfærnislegar. Það læt ég nægja.

Hinir "svokölluðu umhverfissinnar" hafa byggt ályktanir sínar á niðurstöðum sem lærðir vísindamenn líffræðinnar og með sérþekkingu hafa komist að sameiginlega. Þessir fræðimenn eru taldir í þúsundum og starfa við þekktar vísindastofnanir og háskóla efti því sem ég best veit.

Allt frá upphafi þessarar umræðu hafa hægri sinnaðir pólitíkusar og trúarbragðaleiðtogar frjálshyggjunnar afneitað þessum niðurstöðum með háðulegum tilburðum. Enda er ljóst að öll viðbrögð hlytu að verða þau að draga úr neyslunni sem hagvöxtur iðnríkja byggir á. þessi síðasta ályktun mín vona ég að sé nokkuð rökrétt.

Ég er tilbúinn að taka undir einhverjar efasemdir um að við mennirnir getum haft þessa þróun í höndum okkar nema þá að litlu leyti.

Nú er ég ekki lærður í þeim efnum sem þetta varða og hef líklega ekki lesið það sem þú telur að allir eigi að hafa lesið. Hvar þú hefur náð í þá yfirgripsmiklu þekkingu sem "afsannar" í stuttum pistli niðurstöður þær sem ég vitnaði til er mér ómögulegt að geta mér til um. Maður á þínum aldri og með alla þá margvíslegu starfsreynslu sem þú upplýsir um í kynningu vefsíðu þinnar hefur ekki setið auðum höndum í sínum hjáverkum ef hann getur afsannað flóknustu líffræðikenningar þessarar sérhæfðu vísindaakademíu. Fyrr má nú vera höfuðið!

En nú slæ ég af öllum fáviskulegum trúnaði við umræddar "heimsendaspár."

Skítt með aukningu fellibylja og flóðbylgjur þeim samfara og hækkun sjávarborðs í kjölfar bráðnandi jökla. Skítt með válegar horfur í lífríki sjávar af sömu orsök.

Og skítt með það þó búsvæði nokkurra Afríkuþjóða eyðileggist tímabundið og íbúarnir fari að lifa á verðbréfaviðskiptum.

Eftir líklega svona tvö til þrjú ár verður þetta gleymt því þá renna upp nýir og betri tímar á jörðinni. Og þessi tímabundnu óþægindi gleymast er íbúarnir flytja tölvur sínar og glæsijeppa inn á grösugar sléttur Sahara.

Ég ætla að kaupa fyrir slikk nokkur þúsund hektara af sandöldum til að selja aftur í hárri elli. Þá verða þær þaktar ilmandi gróðri og verðmætari en jarðirnar í Skorradalnum.

Og ég ætla að muna eftir regnhlífinni.  

Hún er kannski ekki svo erfið lífsgátan ef einhver nennti að ganga í það að leysa hana. Bara svona í hjáverkum.

En þú hefur leyst slæmt vandamál á ótrúlega einfaldan hátt. Ég þakka þér fyrir mitt leyti.

Árni Gunnarsson, 30.9.2007 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband