Hugsanamálaráðuneyti stofnað

 

 Þessi grein er í nýjasta hefti Þjóðmála, sem kom út fyrir nokkrum dögum.

 „Ég fyrirlít skoðanir þínar, en mundi fórna lífinu fyrir rétt þinn til að setja þær fram“, sagði Voltaire fyrir margt löngu.Hin síðari ár verða þessi orð hins franska hugsuðar og ólíkindatóls sífellt áleitnari.

„Alræði“ er eitt af þessum orðum, sem svo oft er misskilið og misnotað í „umræðunni“, en eiginlegt alræði felur ekki aðeins í sér veraldleg völd, heldur fyrst og fremst völd yfir hugsun þegnanna. Það voru reyndar ítalskir fasistar, sem fyrstir komu fram með orðið („totalitarianismo“), en Mussolini, sem þurfti að kljást við kóng og páfa í ríki sínu, náði aldrei fram raunverulegu alræði. Hitler komst lengra, en nasistar og fasistar tóku aldrei af þegnum sínum eignar- og umráðarétt yfir öllum fasteignum, fyrirtækjum, föstu og lausu og urðu aldrei, eins og kommúnistar, vinnuveitendur bókstaflega allra þegna þjóðfélagsins. Alveg hreint, ómengað alræði er aðeins og finna í kommúnistaríkjum, nú orðið er allra besta dæmið Norður- Kórea. En sem fyrr sagði felur alræði fyrst og fremst í sér völd yfir sjálfri hugsun þegnanna.

Á Vesturlöndum hefur frá fornu fari völdunum verið skipt í tvennt, veraldleg völd kónga og keisara, herforingja eða annarra pótintáta annars vegar, en hins vegar hin geistlegu völd, völdin yfir sjálfu sálarlífi þegnanna, sem kirkjan hefur annast lengst af. (þ.e. að gjalda Guði það sem Guðs er og keisaranum það sem keisarans er). Alræðisstjórnir taka hins vegar líka til sín þann hluta, sem áður var á vegum kirkjunnar, völdin yfir sjálfu sálarlífi þegna sinna. Til að ná þessum völdum og halda þeim er alræðisstjórnum lífsnauðsyn að hafa hugmyndafræði (eða trúarbrögð) sér til styrktar. Klerkastjórnin í Íran hefur sterk alræðiseinkenni og sömuleiðis stjórn Talibana í Afganistan. Þar ræður hugmyndafræðin (trúin) en sjálfir höfundar hugmyndafræðinnar er þó ekki við völd í eigin persónu eins og í alveg hreinu alræði.

Einna fyrsta alræðisherrann í þeim skilningi má telja Móses sem stýrði fólki sínu jafnt í andlegum sem veraldlegum efnum. Sömuleiðis Múhammeð, meðan hann lifði, en eftir dauða hans færðust veraldlegu völdin til eftirmanna hans. Arftakar þessara spámanna á tuttugustu öld hafa ekki stuðst við hefðbundin trúarbrögð, heldur himnaríkis- á- jörðu kenningar kommúnista og nasista. Þeir hafa ekki lofað eilífri sælu á himnum, heldur hér á jörðu, kommúnisma eða þúsund ára ríki. Þeir Lenin, Stalín, Mússolini, Hitler, Mao, Castro og Kim Il Sung eiga það sameiginlegt með Móses og Múhammeð að vera sjálfir að miklu leyti höfundar, túlkendur og boðberar hugmyndafræðinnar og stjórna í nafni hennar ásamt því að ráða yfir lögreglu og her.

Kaþólska kirkjan hefur því aðeins völd, að fólk sé kaþólskt. Á sama hátt hafa kommúnistar (og nasistar eða islamistar) einungis völd, ef þegnarnir trúa á hugmyndafræði og kenningar valdhafa. Eitt allra sterkasta einkenni alræðisstjórna er því gífurlega umfangsmikil innræting og heilaþvottur þegnanna frá blautu barnsbeini. Kóngar fyrri alda og sömuleiðis flestar einræðis- og herforingjastjórnir samtímans, t.d. í Suður- Ameríku eða Afríku hafa látið sér að mestu nægja hin veraldlegu völd. Slíkar stjórnir byggja lítt á hugmyndafræði og eiga því ekki áhangendur meðal erlendra manna.

Hugmyndafræði nasista- og þó einkum kommúnistastjórna hefur hins vegar aflað þeim liðsmanna langt út fyrir landamæri sín, meðal annars er það bláköld staðreynd að tugþúsundir Íslendinga hvarvetna í vinstri- hreyfingunni hafa verið aðdáendur og misjafnlega ákafir stuðningsmenn erlendra alræðisstjórna í áratugi. Einn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur gengið lengst allra í aðdáun á og virkum stuðningi við þessa erlendu kúgara og böðla. Hann hefur gengið undir ýmsum nöfnum, en kallast nú Vinstri grænir (fyrirgefið, það heitir víst „Vinstri græn“). Til dæmis er sjálfur „mannréttindaráðherra“ þess flokks alkunnur Kúbuvinur.

Fjölmiðlalögin, sem Alþingi hefur nýlega samþykkt bera með sér, að þótt kalda stríðinu sé lokið, eru íslenskir alræðissinnar í fullu fjöri og þeir koma hér fram, að orwellskum sið eins og alltaf, undir formerkjum, „lýðræðis“og „mannréttinda“. Í þessu tilviki hyggjast þeir lögleiða ritskoðun í nafni „tjáningarfrelsis“.

Ég hef annars staðar sagt, að með samþykkt 233. greinar almennra hegningarlaga hafi fyrsta og stærsta skrefið í átt til alræðis hér á landi verið stigið, en samkvæmt henni getur hver sá sem ekki sýnir ýmsum svokölluðum „minnihlutahópum“, aðallega konum, hommum, svertingjum, múslímum o.fl. tilhlýðlega nærgætni í orðum að dómi stjórnvalda, átt von á allt að tveggja ára fangelsi. Annað skref hefur nú verið tekið í framhaldinu. Samkvæmt hinum nýju fjölmiðlalögum er stofnað nýtt „hugsanamálaráðuneyti“ í mynd svonefndrar „fjölmiðlanefndar“. Um hana segir m.a. í lögunum:

„Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin annast eftirlit samkvæmt lögum þessum daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Ákvörðunum fjölmiðlanefndar samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til annarra stjórnvalda“.

Stjórnvöld hafa þannig yfirumsjón með öllu því sem birta má í fjölmiðlum. Rekstur fjölmiðils má m.a. stöðva fyrirvaralaust ef nefndin telur að fjölmiðill fylgi ekki nægilega vel stefnu stjórnvalda í því sem í daglegu tali er gjarnan kallað „pólitísk rétthugsun“.

Þegar lög þessi eru skoðuð, kemur æ betur í ljós að höfundar þeirra aðhyllast þá kenningu, að fjölmiðlar séu einhvers konar stýrandi afl sem stjórnvöld þurfi að hafa yfirumsjón með. Höfundarnir eru augljóslega, eins og islamistar, nasistar og kommúnistar,„þjóðfélagsverkfræðingar“ þ.e. útópistar, sem líta á fjölmiðla sem tæki til að ná fram fyrirmyndarríkinu, útópíunni. Hér er eitt dæmi af mörgum:

Til að fylgjast með framvindu jafnréttismála getur fjölmiðlanefnd óskað eftir upplýsingum frá fjölmiðlaþjónustuveitendum um greiningu starfsfólks eftir kyni og stöðu (starfsheitum). Þá getur fjölmiðlanefnd óskað eftir samstarfi við fjölmiðlaþjónustuveitendur um upplýsingar um birtingarmyndir kynjanna, þ.e. hlutfall kvenna og karla í fréttum, bæði viðmælendur og fréttamenn, hlutfall kynjanna í unnu dagskrárefni o.fl. Hér getur einnig verið um að ræða upplýsingar um hvernig fjölmiðlaþjónustuveitendur vinna gegn staðalímyndum kynjanna og efla stöðu kvenna á og í fjölmiðlum.“

Bragð er að þá barnið finnur: Eins og Jakob Bjarnar Grétarsson bendir á í ágætri grein í Fréttablaðinu er hér beinlínis verið að fara fram á að fjölmiðlar skýri rangt frá í nafni pólitískrar rétthugsunar samtímans, en hann segir m.a.:

„Algerlega burtséð frá því hvað fólki finnst um femínisma í sinni róttækustu mynd – í þessu kristallast grundvallarmisskilningur á eðli fjölmiðla. Þarna er verið að fara fram á að þeir séu einhverskonar gerandi í þjóðfélaginu; að þeim beri að taka virkan þátt í að betra þegnana í samræmi við hugmyndir þingmanna. En ekki bregða upp mynd af þjóðfélaginu eins og það er: Sumsé að sinna sinni frumskyldu, sem er að veita upplýsingar. Óbeint er verið að fara fram á að fjölmiðlar hagræði sannleikanum. Það fer ekki saman að vera í uppeldishlutverki og að sinna frumskyldunni, sem er að veita sem óbjagaðastar upplýsingar svo menn geti brugðist við í framhaldi ef þeim sýnist svo. Af hverju í ósköpunum ætti almenningur að sætta sig við að fjölmiðlar, sem einkum eiga að veita hinu opinbera aðhald, taki við skipunum frá þeim hinum sama um hvernig haga beri fréttaflutningi? Á þingi sitja nú vel á þriðja tug sem hafa starfað við fjölmiðla eða verið viðloðandi þá. Við hljótum að spyrja þá hvað í ósköpunum þeim gangi til með þessu hlálega bulli?“

  Spurningu Jakobs er auðvelt að svara: Höfundar þessara laga og ríkisstjórnarflokkarnir hyggjast með þessari löggjöf nota hin nýju yfirráð sín yfir fjölmiðlum til að stýra skoðanamyndun og þjóðfélaginu í heild eftir sínu höfði. Hér á, með skipulegri innrætingu og heilaþvotti þegnanna (sem þetta fólk kallar yfirleitt „fræðslu“, eða jafnvel „menntun“) að skapa nýtt þjóðfélag, útópíu þar sem allir eru pólitískt rétthugsandi og eins, konur og karlar, svartir og hvítir, hommar og við hinir, kristnir og múslimar, ungir og aldnir, gáfaðir og heimskir, litlir og stórir, feitir og grannir, ljótir og fallegir o.s. frv. Í stuttu máli: Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir. Hver sá sem efast er sekur um „fordóma“, ef ekki beinlínis „hatur“ (t.d. „kynþáttahatur“, „kvenhatur“ eða „hommahatur“) og slíkan mann má nú handtaka og dæma í allt að tveggja ára fangelsi samkvæmt 233. grein almennra hegningarlaga, sem þáverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, átti frumkvæði að 1996. Raunar var þetta ekki prívathugmynd eða einkaframtak Þorsteins, slík lög hafa verið sett í mörgum Evrópulöndum undanfarin ár og hvarvetna vakið andstöðu og reiði. Fjölmiðlalögin nýju eru rökrétt framhald þessarar lagasetningar, en með þeim á að kæfa allar efasemdarraddir í fæðingu.

Sums staðar mætti ætla að George Orwell hafi sjálfur verið að verki þegar þessi lög voru samin. Þetta á m.a. við þegar talað er um „ritstjórnarlegt sjálfstæði“, en þetta er feluorð þeirra um yfirráð stjórnvalda yfir fjölmiðlum. Þar segir m.a.:

„Fjölmiðlaveita skal setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Slíkar reglur skulu mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra eða samtök.... Reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skulu sendar fjölmiðlanefnd til staðfestingar. Reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skulu endurskoðaðar árlega. Tilkynna skal fjölmiðlanefnd þegar endurskoðun hefur farið fram og senda henni nýja útgáfu af reglunum til staðfestingar hafi breytingar verið gerðar“.

Þetta þýðir að sjálfsögðu í raun að stjórnvöld hafa síðasta orðið um „ritstjórnarlegt sjálfstæði“ fjölmiðilsins. Enn segir um auglýsingar m.a.:

  „Viðskiptaboð og fjarkaup skulu ekki fela í sér nokkra mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar eða þjóðernis, ríkisfangs, trúarbragða eða trúarskoðana, fötlunar, aldurs, kynhneigðar eða vegna annarrar stöðu, Þau skulu ekki hvetja til hegðunar sem er hættuleg heilbrigði eða öryggi, eða hvetja til hegðunar sem er í áberandi andstöðu við umhverfisvernd.

Og til að hnykkja betur á, hver hefur raunverulega völdin yfir fjölmiðum er eftirfarandi:

„Ákvarðanir fjölmiðlanefndar samkvæmt lögum þessum eru fullnaðarúrlausnir innan stjórnsýslunnar og sæta ekki stjórnsýslukæru. Ákvarðanir fjölmiðlanefndar um stjórnvalds- og dagsektir eru aðfararhæfar... Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort brot eru framin af ásetningi eða gáleysi“.

Og áfram:

Ábyrgðarmaður, starfsmenn fjölmiðlaveitu eða stjórnarmenn sem framkvæma eða láta framkvæma brot gegn ákvæðum laga þessara skulu sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar“.

  Um eitt heitasta deilumálið fyrir nokkrum árum, þ.e. eignarhald á fjölmiðlum, er ekkert talað nema í viðauka, þar sem segir að skipa skuli nefnd sem eigi að gera tillögur fyrir fyrsta júní 2011. Eins og menn muna var það einkum ætlunin með lögunum 2004 sem forseti synjaði, að hindra yfirráð stóreignamanna yfir fjölmiðlun. Vegna afskipta forsetans hafa Jón Ásgeir og kó getað haft afgerandi áhrif á umræðu og skoðanamyndun í landinu undanfarin ár og ekki verður séð að frumvarpshöfundar sjái neitt athugavert við það. Baugs- menn gátu þó ekki sektað eða fangelsað þá, sem þeim voru ekki að skapi. Það getur ríkið hins vegar og nú á að taka völdin.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ Villi.

Þetta er fræðilega vel uppbyggð grein, eins og vænta mátti, og þú ert mjög trúr þínum gömlu kreddum, eins og um allt það sem varðar "minnihlutahópa", konur, homma, svertingja, börn, komma og flesta aðra sem ekki eru í ástarsambandi við biblíuna þína um yfirburði Norður-Ameríska sambandsveldisins, sem á sennilega ekki eftir að lifa börn okkar.

En hvað finnst þér um misnotkun barna á kaþólskum skóla í Reykjavík og endurtekin ofbeldisverk hvítra presta sem hafa misnotað íslenskar konur, börn, hugsanlega svertingja, komma, homma, lesbíur... um árabil. Ég tók þessa setningu að hluta úr orðasafni þínu, Villi.

Skrifaðu nú eitthvað um mál dagsins, því að það er óþarfi að leita sáluhjálpar hjá glæpalýð sem ræður ríkjum í upptalningu þinni í greininni. Það er nefnilega þannig, að enginn heilbrigður maður sækir sér rökstuðnings í vandaða grein í hin svörtu öfl, sem löngu eru útskúfuð úr heimi þeirra manna, sem vilja fá að lifa heilbrigðu lífi í húsi andanna. Veröldin er ekki slæm fyrir góða menn, en getur verið erfið fyrir þá, sem halda uppi merki hins illa.

 Vale,

 E.

Einar Garðar (IP-tala skráð) 28.6.2011 kl. 21:26

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Einar minn! Mér sýnist á öllu að þú hafir verið að hlaða í kvöld. Samhryggist með bróðurinn. Kveðja, V.

Vilhjálmur Eyþórsson, 28.6.2011 kl. 21:29

3 Smámynd: Óskar Arnórsson

Vel skrifuð grein hjá þér. Þú ert nú meiri maðurinn að skaffa þér ekki mannsæmandi hugsunarhátt og pólitíska stefnu Vilhjálmur!

Annars trúi ég að Illuminati stjórni allt og öllu í heiminum og hafi gert í þúsundir ára. Stjórn á fólki er gert einfaldari með að plata gáfaða fólkið á glapstigu með peningum, stöðum og stéttaskiptingu. Verlaunaveitingar, fálkaorður og ýmislegt barnalegt tildur, smyr síðan egóið hjá fína fólkinu með þeirri fyrru að menn séu frjálsir í að segja það sem þeir vilja, hugsa frjálst eða skrifa án afleiðinga...ællum er stýrt og þér líka Vilhjálmur minn.

Ég vil gera Jón Ásgeir að fjármálaráðherra svo hægt sé að koma viti í landsmálin...

Óskar Arnórsson, 28.6.2011 kl. 22:22

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Hugmyndin um Jón Ásgeir sem fjármálaráðherra er vissulega skemmtileg. Annars eru það fyrst og fremst markaðsfræðingarnir, sem stýra hugsun fólks, ekki fjölmiðlamennirnir, þó þeir haldi það sjálfir. Ég er hins vegar mjög vantrúaður á samsæriskenningar. Fólk er eins og sauðahjörð, og forystusauðirnir eru líka sauðir. Það eina sem þeir hafa fram yfir hina sauðina er frekjan.

Vilhjálmur Eyþórsson, 28.6.2011 kl. 22:25

5 Smámynd: Óskar Arnórsson

Það er í sjálfu sér ekkert merkilegt með frekju. Ég hef verið að æfa upp frekju í mörg ár og gengur ekkert. Enn aðalvandmálið á Íslandi er neikvæðni yfirvalda eða bjartsýnisgeggjun sem jaðrar við ranghugmyndir. Fólk skilur ekki að komminism er hugarfarslegur sjúkdómur, ólæknandi með öllu og allt eftir því. Meðan komminista stjórn landsins hugsar um þjóðina eins og bóndi um búfémað, mun ekkert gerast. Það er bara að þola þessa sjórn eins og hverjar aðrar hamfarir náttúrunnar.

Annars þurfa yfirvöld að eiga fjölmiðla sjálfir og veita þeim aðhald með glerharðri samkeppni...

Óskar Arnórsson, 29.6.2011 kl. 08:29

6 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Þetta er fín grein hjá þér Vilhjálmur, eins og þær eru allar.

Kjarninn í þínum skrifum að mínu mati er sá, að við eigum að virða hvert annað og berjast fyrir frelsi allra til að tjá sínar skoðanir.

Tvískinnungsháttur og hræsni er því miður alls ráðandi hér landi og eflaust í heiminum öllum.

Vinstri mönnum þykir satt og rétt að kalla okkur hægri menn glæpamenn, gjörspillta og gráðuga, í besta falli telja þeir mig og fólk af mínu sauðahúsi viljalaus verkfæri í höndum starfsfólks Valhallar.

Allt eru þetta góð og gild sjónarmið, vinstri menn hafa fullan rétt á því, að hafa þessa skoðun á okkur sjálfstæðismönnum. Ég las það einhversstaðar í netheimum fyrir nokkru síðan, að ég, óbreyttur háseti á togara, væri í hópi afkastamestu skítadreifara ásamt AMX, Davíð oddsyni, Hannesi Hólmstein og Skafta Harðarsyni.

Mér þótti vænt um að vera í hópi með þessum ágætu mönnum, sem ég reyndar þekki ekki neitt en ber samt virðingu fyrir.

Svo ef hægri maður lætur í ljósi neikvæða skoðun á vinstri mönnum, þá þola þeir það ekki heldur væla eins og stungnir grísir, þeir eru brjálaðir yfir bókinni "Sovét-Ísland" og ef einhverjum er illa við svertingja og homma, þá ætlar allt vitlaust að verða.

Mér er ekkert illa við svertingja og homma, þeir hafa aldrei gert mér neitt, þótt ég hafi lítinn áhuga á að skoða ýmsar athafnir homma, en þá virði ég þeirra frelsi.

Sumir hafa einfaldlega þessar tilfinningar, þeir þola hvorki svertingja né homma, en það er víst bannað að tjá þessar tilfinningar.

En það er fyllilega löglegt að segja hvað sem er, ef viðkomandi einstaklingur hallast til hægri á væng stjórnmálanna.

Sumir hægri menn taka eflaust persónulegar árásir jafn nærri sér og svertingjar, vinstri menn og hommar, en þeir eiga sér enga málssvara.

Þeim sem hafa gaman af að skammast út í hægri menn er bent á að skammast bara út í mig, ég tek ekkert nærri mér það sem sagt er um mig og mína persónu, ég veit það fullvel hversu flottur ég er og enginn vinstri maður breytir þeirri skoðun hjá mér.

Jón Ríkharðsson, 29.6.2011 kl. 10:52

7 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Þetta er allt satt og rétt sem þú segir Jón. Þótt hættan af kommúnismanum sé á undanhaldi eru nýjar alræðiskenningar á lofti undir yfirskini „pólitískrar rétthugsunar“. Ég skrifaði um þetta í greininni „Eyja Sancho Panza“, en þyrfti ef ég nennti því að fara miklu betur í þetta. Undirróðurstarfsemi vinstri manna er mesta ógnin sem að Vesturlöndum stafar og þeir svífast einskis og komast upp með það, enda ráða þeir fjölmiðlun og menntakerfi meira eða minna alls staðar.

Vilhjálmur Eyþórsson, 29.6.2011 kl. 11:46

8 identicon

Ha ha :Þ

Þú ert meistari Vilhjálmur !

Farðu svo að skrifa meira "kall"

Þú ert orðinn allt of latur..

runar (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 11:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband