Ei veldur sá, er varar

 

 

Í tilefni af nýrri umræðu um eldgos og hættu af þeim finnst mér rétt að endurbirta þessa grein sem stendur enn alveg fyrir sínu
Hún birtist í Morgunblaðinu í júlí 1993 í tilefni þess að þá var nýafstaðin goslokahátið í minningu 20 ára án frekari eldvirkni. Hvers kyns umræða um þá gífurlegu hættu, sem vofir yfir Vestmanneyingum hefur verið kæfð. Þó má geta þess að Páll Imsland jarðfræðingur skrifaði prýðilega og málefnalega grein til andsvars mér, þar sem hann bendir m.a. á að til séu margir aðrir staðir þar sem aðstæðum svipar til Vestmannaeyja, en það breytir því ekki að hættan þarna er gífurleg. Ég er svolítið tengdur eyjunum, því afi minn, Gunnar Ólafsson kaupmaður,útgerðarmaður og alþingismaður ættaður frá Sumarliðabæ í Holtum,  stofnaði á sínum tíma m.a. Tangaverslun í Eyjum. Faðir minn var þar uppalinn og leit á sig sem Vestmannaeying, þótt fæddur væri uppi á landi. Sjálfur hef ég oft komið til Eyja og verið þar á vertíðarbátum. Hættan vofir enn yfir Vestmannaeyjum og fer síst minnkandi með árunum.

Á þessu ári er minnst í Vestmannaeyjum atburðar, sem gert hefur þær frægar um allan heim. Ekki skilja allir hve litlu munaði að úr yrði hryllileg martröð. Fyrir tuttugu árum hefðu getað orðið þarna mestu voðaatburðir sem dunið hafa yfír þessa þjóð frá upphafi byggðar í landinu. 

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mjög víða á íslandi, aðallega á suðvestur- og norðausturhlutum landsins, háttar svo til að byggð er í nágrenni eldstöðva. Þannig er öll byggð á Suðurnesjum, og einnig sjálf Reykjavík, í mismikilli fjarlægð frá sprungum sem vitað er að gosið hafa á sögulegum tímum eða a.m.k. ekki löngu fyrir landnámsöld. Fram hjá slíku er ekki hægt að komast, ef byggð á að haldast í landinu. Einn staður hefur þó algera sérstöðu, ekki aðeins á Íslandi, heldur trúlega í öllum heiminum. Þar er einn af fjölmennustu kaupstöðum landsins ekki aðeins byggður í nágrenni við virka eldstöð, sem gaus fyrir fáum árum og getur gosið aftur hvenær sem er, heldur beinlínis ofan á henni. Á þessu tvennu er reginmunur. 

Í mjög grófum dráttum er Heimaey eldfjall á hafsbotni, miðdepill mikils, ungs eldstöðvaklasa undan suðurströnd landsins. Myndar Heimaey ásamt nálægum minni eldfjöllum á sjávarbotni (eyjum) hæstu tinda klasans. Undanfarnar árþúsundir hafa ýmsar sprungur á Heimaey gosið öflugum gosum, sem fjöll hafa myndast af. Meðal þeirra er t.d. Heimaklettur (sem er ekki ólíkur Eldfelli, en nokkuð sorfinn af brimi), Stórhöfði o.fl. Öll fjöll á Heimaey eru mynduð á svipaðan hátt: Sprungur opnast og mynda fjöll, sem eru nú mismikið veðruð af sjávargangi. Stundum rennur einnig hraun. Þannig hækkar Heimaey úr sjó smátt og smátt. Yngst hinna eldri fjalla er Helgafell, en Eldfell myndaðist eftir langt goshlé sem einskonar afleggjari frá því. Þessi fjöll eru þó nánast sem þúfur á baki hinnar eiginlegu eldstöðvar, sem er Heimaey öll. í kvosinni milli þriggja slíkra þúfna stendur Vestmannaeyjakaupstaður. 

Í Árnesog Rangárvallasýslum, og reyndar víðar, hafa menn oft orðið fyrir skakkaföllum af völdum Heklu. Að búa í grennd fjallsins felur í sér nokkra hættu og engum dettur í hug þar um slóðir að byggja sér íbúðarhús, hvað þá heilan kaupstað, á sjálfum Heklutindi. Einmitt þetta hefur þó verið að gerast ofan á annarri stórri og virkri eldstöð í grenndinni í tuttugu ár og enginn sér neitt athugavert við það. 

Vestmannaeyjar höfðu haft hægt um sig í þúsundir ára og er það og ekki síður hitt, að fyrir einhverja Guðs mildi varð ekki mannskaði 23. janúar 1973 er vafalaust höfuðskýring þessa andvaraleysis. Með Surtseyjargosinu, og svo Heimaeyjargosinu varð þessi mikla eldstöð hins vegar virk á ný. Enginn jarðvísindamaður treystir sér nú til eða reynir að hafna þeim möguleika að þarna kunni að gjósa aftur innan fárra ára eða áratuga. Margir þeirra segja raunar án þess að geta byggðar í eyjunum, eins og það sé aukaatriði í málinu — að eldvirknin, sem lengi hefur verið í Kötlu, hafi nú flutt sig um set til Vestmannaeyja. Er þögn þeirra um uppbygginguna í Heimaey undarleg, ekki síst vegna þess að einna flest gos í Vestmannaeyjaklasanum hafa einmitt orðið í Heimaey, enda er hún af þeim sökum langstærst. Þó munu einhverjir þeirra hafa varað við þessu skömmu eftir gos, en ekki var hlustað. 

 Þrátt fyrir framkvæmdagleðina, sem hefur verið svo einkennandi fyrir þjóðina síðustu öldina eða svo, kemur stundum upp einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart tilteknum verkefnum, sem voru fyrri kynslóðum ofvaxin. Þannig þótti um langa hríð óhugsandi að brúa Ölfusá eða Þjórsá, leggja veg yfír Skeiðarársand eða leggja vegi eða byggja brýr yfirleitt. Forfeðurnir höfðu ekki treyst sér til þess. Þetta væri alltof dýrt. Enn eimir eftir af þessu þegar malbikun vega ber á góma, þótt hæglega mætti teppaleggja nánast hvern einasta vegarspotta á landinu fyrir andvirði örfárra af þeim skuttogurum, mjólkurbúum, fiskeldisstöðvum, loðnubræðslum, frystihúsum eða loðdýrabúum, sem byggð hafa verið að óþörfu og eru nú minna en einskis virði. Eitt þessara mála er höfn við Dyrhólaey. Það þykir svo dýrt. Vestan Dyrhólaeyjar má vel gera ágæta höfn með minni tilkostnaði en margir halda, en frá þeirri höfn mætti sækja öll helstu mið Vestmannaeyjabáta, allt austan frá Ingólfshöfða vestur fyrir Þorlákshöfn. Slík höfn kæmi ekki aðeins Vestmanneyingum og öðrum íbúum Suðurlandskjördæmis til góða, heldur mundi hún skapa tímamót í samgöngu-, byggða- og atvinnusögu landsins alls. Þessa dagana er mjög rætt um að auka framkvæmdir, ekki síst í vega- og samgöngumálum m.a. vegna vaxandi atvinnuleysis. Fé það sem nýlega hefur verið varið til bygginga þeirra ágætra sem vondir menn nefna stundum „Borgarbragga" og „Stórubólu" hefði dugað til að hrinda framkvæmdum vel af stað, svo ekki séu taldir þeir fjármunir sem fyrrum menntamálaráðherra setti í endurbyggingu Þjóðleikhússins, sem var að mestu óþörf. Öfugt við þessar byggingar og fjöldamargar aðrar mundi slík hafnargerð skila öllu þjóðarbúinu geysimklum arði, því höfn á þessum stað hlýtur að verða einhver besta fjárfesting sem landsmenn hafa ráðist í áratugum saman. 

En víkjum aftur að eldgosum. Dyrhólaey er vissulega í nágrenni Mýrdalsjökuls, sem iðulega hefur gosið, ekki síst í Kötlu. Þó munu þess vart dæmi að jökulhlaup hafi gengið yfir Mýrdal vestan Dyrhólaeyjar. Vert er að benda á að þótt hraunflóð og jökulhlaup séu miklar náttúruhamfarir, er hægt að forðast þau, sé landrými nægt og viðvörun gefin. Allt öðru máli gegnir í Heimaey. Þar er sá möguleiki raunverulega fyrir hendi, eins og sannaðist 1973, að jörðin bókstaflega opnist undir fótum manna, spýjandi eldi og eimyrju. Hvert á þá að flýja? Það mætti halda, að einhverjir hefðu þurft að farast í eldinum þegar sprungan opnaðist 23. janúar 1973 til þess að Vestmanneyingar og aðrir skildu, hvílík dauðans alvara hér er á ferðum. Þá hefði verið farið varlegar í að flytja aftur heim. Skynsamlegast væri að yfirgefa eyjuna alfarið. Annar kostur væri að sjúklingar, börn og gamalmenni flyttu til meginlandsins, en enn væri þarna verstöð þar sem starfaði fullfrískt fólk á besta aldri, tilbúið til að hlaupa í bátana jafnskjótt og sírenur væru þeyttar til marks um gosóróa undir eyjunni. Ég verð að játa að ég er ekki bjartsýnn á að á þetta verði hlustað fremur en Kassöndru hina grísku til forna. Engir Íslendingar eru jafn bundnir heimahögum sínum og Vestmanneyingar. Þeir hafa skapað sína eigin menningu og barist við náttúruöflin og sigrað frá upphafi Íslandsbyggðar. Þeir sigruðu meira að segja jarðeldinn 1973, og halda kannski sumir að þeir geti það aftur. En jafnvel þeir geta ekki ráðið því hvar jarðskorpunni þóknast að rifna. 1973 var það austan Helgafells. Næst gæti hún opnast annars staðar, kannski vestan Helgafells. Þá duga engin mannalæti. 

Það er ekki ætlun mín með þessari grein að hræða fólk og skelfa, öllu heldur er ég að reyna að koma viti fyrir það. Sjálfur er ég dálítið tengdur Vestmannaeyjum og þykir vænt um eyjarnar og íbúa þeirra. Einhver verður að taka blað frá munni um þetta mál. Kannski eru líkurnar á gosi litlar, vonandi engar. Hver veit það? Eitt er þó alveg víst: Áhættan er allt of mikil. Of mikið er í húfi. Það er til of mikils ætlast að reikna með, að kraftaverkið frá janúar 1973 endurtaki sig.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakk fyrir góða grein eins og svo oft áður. Greinin þín um lífsloftið var frábær.

Egilsstaðir, 26.05.2021   Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 27.5.2021 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband