Alíslensk heimsfrétt

 Fyrst ég er nú á annað borð að birta gamlar greinar finnst mér rétt að birta þessa, sem er frá því í mars 2004, því í henni er að finna ýmislegt, sem á fullt erindi, t.d. um vopnasölu, eiturgasframleiðslu, ”fréttastofu allra starfsmanna" og róginn, sem vinstri menn beita með algerlega ósvífnum hætti. Fréttamaðurinn, sem ég vil nefna "eiturefna- Kristján", er nú hættur hjá sjónvarpinu.

.

ÞAÐ eru nú komin meira en 100 ár síðan Alfred Nobel fagnaði uppgötvun eiturgassins einlæglega með því fororði, að þetta vopn væri svo hræðilegt, að hann taldi það mundu binda enda á öll stríð. Enginn mundi þora að beita því. Þessi fróma ósk hins heimskunna friðarsinna og vopnaframleiðanda rættist þó ekki. Eiturgasið reyndist gagnslítið í fyrra stríði og Hitler beitti því aldrei, þótt hann ætti miklar birgðir. Ekki einu sinni kjarnorkusprengjan hefur bundið enda á styrjaldir, þær virðast mannkyninu áskapaðar.

Það er hins vegar ekkert leyndarmál, hvernig staðið er að gerð eiturgass og sýklavopna, þetta er afar einföld og ódýr framleiðsla, og hér á Íslandi, svo ekki sé farið lengra, er fjöldi efnafræðinga og lyfjafræðinga, sem gætu framleitt eiturgas ef þeir vildu, og fjöldi lífefnafræðinga, lækna og jafnvel meinatækna, sem gætu, ef þeir væru þannig innréttaðir í sálarlífinu, framleitt sýklavopn. Það er ekki langt síðan ungur Japani dreifði allra hættulegasta og eitraðasta taugasinu, Sarin, sem hann hafði framleitt í bílskúr, á lestarstöð, og drap fjölda manns.

Öll tól og tæki, sem til þarf, eru tiltæk í landinu og efnin má kaupa í Lyfjaverslun ríkisins eða annars staðar, þar sem slíkt er selt. Víða má kaupa skordýraeitur, en því getur maður með lágmarks efnafræðiskunnáttu hæglega 

breytt í Sarin. Þarna er engin hátækni til staðar og öll þekkingin hefur legið fyrir í áratugi. Vanti menn upplýsingar um nánari atriði framleiðslunnar má fá þær á Netinu.

Flestallar, ef ekki allar þjóðir heims geta þannig framleitt efna- og sýklavopn, þar á meðal að sjálfsögðu Írakar. Eitrinu þarf að vísu að koma fyrir í vopnum, en slíkt hafa menn kunnað síðan í fyrra stríði. Saddam Hussein hafði allþróaðan vopnaiðnað sem hann byggði upp í samvinnu við Sovétmenn (ekki Bandaríkjamenn) og gat hæglega komið eitrinu fyrir í fallbyssukúlum, flugvélasprengjum og skamm- og meðaldrægum flugskeytum, sem hann framleiddi sjálfur. Það eru einmitt þessar verksmiðjur, sem vopnaeftirlitsmenn SÞ voru að kanna í mörg ár og leita að öðrum í skúrum og vörubílum, því þessi framleiðsla er, sem fyrr sagði, afar ódýr og fyrirferðarlítil. Ég endurtek: Engin hátækni er til staðar.

Mér þætti þess vegna gaman að vita eitt: Hvaðan kemur sú þekking, að Bandaríkjamenn hafi selt Saddam Hussein gereyðingarvopn? Hver er heimildin? Getur einhver hjálpað mér?

Ég hef nú heyrt þetta þrisvar í íslensku sjónvarpi. Fyrst hélt einn fréttamanna ríkissjónvarpsins þessu margítrekað fram við utanríkisráðherra, síðan sagði þingflokksformaður VG það sama í þætti á sömu stöð og síðast formaður VG á Stöð 2, þannig að það er búið að segja íslensku þjóðinni þetta a.m.k. þrívegis, án þess að andmæli hafi komið fram, og því hlýtur almenningur að telja, að þetta sé satt.

Ég fylgist nokkuð með alþjóðlegum fjölmiðlum, aðallega bresk- bandarískum, sænskum og spænskum og hef hvergi nokkurs staðar séð þessu hreyft. Allir aðrir en þeir sem ég nefndi hafa hingað til haldið, að Saddam hafi framleitt eiturgasið sjálfur, jafnvel allra ofstækisfyllstu hatursmenn Bandaríkjamanna víða um heim.

Ég hef ekki einu sinni séð þessu haldið fram í meginheimild fréttastofu Ríkisútvarpsins-hljóðvarps (og þar með íslensku þjóðarinnar) um utanríkismál, þ.e. vinstri öfga- og kollóra-blaðinu Independent.

Þetta langminnsta og áhrifaminnsta dagblað á Bretlandi (en áhrifamest á Íslandi), sem helst höfðar til uppgjafa Albaníu-komma og Pol Pot-ista auk fréttastofu RÚV, er höfuðmiðstöð Bandaríkjahaturs þar í landi. Samt hafa þeir mér vitanlega aldrei haldið þessu fram. Þeir skamma hins vegar Bandaríkjamenn hástöfum fyrir að hafa ekki bannað Saddam að beita eiturgasinu, því í ofstæki sínu, fáfræði og heimsku telur Independent í fúlustu alvöru, að slíkt hafi verið á valdi Bandaríkjamanna.

Þessi meintu viðskipti eiga að sjálfsögðu að hafa átt sér stað í Íran- Íraksstríðinu 1980-1988, en þá eiga Bandaríkjamenn, að sögn vinstri manna, að hafa selt Saddam ókjör af hergögnum. Jafnvel er reynt að láta líta svo út, að Rumsfeld, nú varnarmálaráðherra, hafi selt Saddam eitrið. Sá hængur er þó á, að þeir Rumsfeld og Saddam hittust fyrst í desember 1983 en Saddam hóf að beita eiturgasi gegn Írönum snemma árs 1981.

Frá upphafi til loka átakanna voru nánast öll vopn Saddams frá Sovétríkjunum og öðrum kommúnistaríkjum, en dálítið frá Frakklandi, aðallega Etendard- og Mirage-þotur og Exocet-flugskeyti.

Íranir börðust hins vegar að miklu leyti með bandarískum vopnum frá dögum keisarastjórnarinnar. Það er vitað, að þótt Bandaríkjamenn væru opinberlega hlutlausir, jafnvel hlynntir Írönum í laumi, einkum framan af, fóru þeir heldur að halla sér að Írökum þegar á leið. Eftir að íraskt flugskeyti hæfði bandaríska herskipið Sark 1987 og drap 37 menn hóf Bandaríkjafloti mikil umsvif á Persaflóa. Þó er það svo, og þótt ótrúlegt kunni að virðast, að einu vopnin, sem vitað er til, að Bandaríkjamenn hafi sent stríðsaðilum 1980-1988, eru þau frægu vopn og varahlutir, sem Íranir, ekki Írakar, fengu að kaupa í skiptum fyrir gísla skæruliða í Líbanon. Féð var svo notað til að fjármagna Contra- skæruliða í Nicaragua (Íran- Contra-hneykslið).

Bandaríkjamenn seldu Írökum hins vegar allmargar óvopnaðar þyrlur, fimm Boeing-þotur og veittu þeim ábyrgð fyrir 400 milljón dala láni. Að öðru leyti voru þeir, sem fyrr sagði, opinberlega hlutlausir. Þó telja menn sig vita, að þeir hafi fengið Írökum myndir af herafla Írana úr njósnagervihnöttum sínum.

Ísraelsmenn, dyggustu bandamenn Bandaríkjanna, seldu hins vegar Írönum (ekki Írökum) gífurlegt magn vopna í þessu stríði án þess að Bandaríkjamenn skiptu sér af.

Ekkert er eins einfalt og það sýnist vera.

                          Dollaramagn og vopnamagn
Eitt er vert að hafa í huga um þetta stríð: Hermenn beggja aðila kunnu lítt eða ekki að fara með skriðdreka og hátæknivopn eða halda þeim við. Því var, á svipaðan hátt og í Afríku og annars staðar í þriðja heiminum, að langmestu leyti barist með hríðskotarifflum, vélbyssum, sprengjuvörpum og öðrum léttvopnum. Hátæknivopn komu helst við sögu í upphafi stríðsins, áður en þau biluðu eða voru eyðilögð.

Ég sá nýlega í undarlegasta og lítilmótlegasta anga Baugs-pressunnar, þ.e. DV, þá staðhæfingu, að Bandaríkjamenn bæru ábyrgð á flestum eða öllum styrjöldum víða um heim, af því að þeir seldu mest af vopnum.

Þarna var verið að beita eldgömlu trixi vinstri manna frá dögum kalda stríðsins, því að sjálfsögðu er vopnasalan talin í bandaríkjadölum. Borin er saman annars vegar sala Bandaríkjamanna á háþróuðum orrustuþotum, eldflauga- og ratsjárkerfum og öðrum fokdýum hátæknibúnaði til Breta, Þjóðverja eða annarra bandamanna sinna og hins vegar sala Rússa, Kínverja, Norður-Kóreumanna og annarra fyrrverandi og núverandi sósíalista á hræódýrum léttvopnum til fátækra ríkja.

Sem dæmi má taka, að ein B-2-sprengjuflugvél Bandaríkjamanna kostar yfir milljarð dollara, en fyrir slíka upphæð má fá, ekki eitt skip, heldur heila skipalest, drekkhlaðna Kalashnikov-hríðskotarifflum (AK-47), skriðdrekabyssum, handsprengjum, jarðsprengjum og sprengjuvörpum, Meira að segja má bæta við góðum slatta af T-55- og T-62-skriðdrekum, kínverskum Silkworm-flugskeytum og Scud- flaugum frá Rússlandi, Kína eða Norður-Kóreu.

Þetta eru vopnin, sem notuð eru nánast eingöngu í vel yfir 90%, hugsanlega í allt að 99% þeirra styrjalda sem nú eru í gangi víðs vegar í þriðja heiminum.

Það væri raunar stórfrétt, ef það vitnaðist, að bandarískum léttvopnum væri beitt í einhverjum mæli í einhverju af þessum stríðum. Þar ræður AK-47-riffillinn einn, sem sjálfmenntaður vélvirki, Mikhail Kalashnikov, fann upp 1942 og hefur verið undirstöðuvopn allra herja kommúnista síðan hann komst fyrst í framleiðslu 1947.

Því má bæta við, að þess er aldrei getið, að nánast allar jarðsprengjur, sem enn drepa og limlesta fólk víða um heim, eru framleiddar í ríkjum kommúnista og lagðar af þeim, ekki síst í Indó-Kína og sunnanverðri Afríku. Þetta eru afar ódýr "vopn" og henta einkar vel baráttuaðferðum launmorðingja í "þjóðfrelsisbaráttu". Í Angóla og Mósambík lögðu herir Castros og bandamenn þeirra t.d. um 8 milljónir jarðsprengna. Um þetta er þó aldrei talað, heldur látið að því liggja, að Bandaríkjamenn beri í einhverjum skilningi ábyrgðina. Blóðsletturnar festast ekki við Castro eða bandamenn hans og jábræður, "friðarsinna" og "mannnréttindafrömuði" á Vesturlöndum.

Þær hlutfallslega fáu jarðsprengjur, sem Bandaríkjamenn hafa þó framleitt og lagt, eru nánast allar á landamærum Kóreuríkjanna eða á öðrum afmörkuðum, vel kortlögðum svæðum.

                       Að rægja Bandaríkin
Það er ótrúlega ódýrt sport að bölva Bandaríkjamönnum, ljúga upp á þá og svívirða þá. Það er meira að segja hægt að búa til eld- og íkveikjusprengju, sömu gerðar og notaðar eru í styrjöldum til að kveikja í húsum og granda skriðdrekum, kveikja í henni og varpa að húsi, þar sem fjöldi manns er innandyra, ef umrætt hús er sendiráð Bandaríkjanna. Þá er þetta einhvers konar "póltísk aðgerð", og ef hún beinist gegn Bandaríkjunum, þarf ekki að búast við alvarlegum eftirmálum. En hvað hefði verið sagt ef húsið hefði verið sendiráð Kínverja? Eða Stjórnarráðið? Eða skrifstofur ríkissaksóknara? Hefði það ekki líka getað verið "pólitísk aðgerð"? Hver hefði ákæran þá verið?

En víkjum aftur að þeim stórmerkilegu upplýsingum, að Bandaríkjamenn hafi selt Saddam gereyðingarvopnin.

Þetta er stórfrétt, í raun heimsfrétt, og ég sé ekki betur en að forystumönnum VG og fréttastofu sjónvarps beri beinlínis skylda til að deila þessari vitneskju sinni með heiminum. Þessar upplýsingar gætu jafnvel valdið straumhvörfum á alþjóðavettvangi. Það mætti til dæmis ímynda sér, að þær þjóðir, sem voru andvígastar hernaði Bush forseta í Írak, t.d. Frakkar, Þjóðverjar og Rússar mundu grípa þetta á lofti og vafalaust bera fram málið á vettvangi SÞ. Þetta er svo merkilegt, að það er áreiðanlegt, að alþjóðlegir fjölmiðlar mundu ekki tala um annað næstu vikurnar, mánuðina og árin, því það umbreytir öllum hugmyndum manna um Íraksstríðið frá grunni.

Hér er nýtt dæmi, tekið af handahófi, um fréttaflutning "Hljóðviljans" (sjálfrar fréttastofunnar, ekki aðeins "Spegilsins") hjá RÚV: "Innfæddir á Haiti mótmæla harðlega "hernámi Bandaríkjamanna"".

Er þetta fólk með réttu ráði?

Hvenær sem orðinu er hallað vegna slíkra og þvílíkra hluta fara fjölmiðlamenn strax að hrópa hátt um sína eigin "fagmennsku" og byrja svo að fimbulfamba eitthvað um "starfsheiður blaðamanna". Það er ekki heiglum hent að gagnrýna þá, síst nú, eftir að meginhluti hinnar "sjálfumglöðu stéttar" hefur hreiðrað um sig í djúpum vösum Bónus- feðga.

Að rægja Bandarikjamenn þykir harla léttvægt mál, ef ekki beinlínis lofsvert í þessum herbúðum. En, eins og Stefán Valgeirsson sagði einu sinni og af öðru tilefni: "Þegar sannleikurinn er kominn upp að Elliðaám, er lýgin komin norður á Langanes". Rógurinn loðir við, og sé honum ekki svarað trúir fólk honum.

Sé eitursölutalið sannleikur, er hér komin fram alíslensk heimsfrétt. En hvers vegna talar enginn um þetta nema einn fréttamaður ríkissjónvarpsins og forystumenn VG hér uppi á Íslandi?

Vilja þeir ekki verða heimsfrægir? Eru þeir svona feimnir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband