Víetnam, vendipunktur kalda stríðsins


Þessi grein er í nýjasta tölublaði hins afbragðsgóða tímarits Þjóðmála, sem er nánast eini vettvangurinn fyrir sæmilega heilbrigt vit og skynsemi, sem eftir er í landinu á þessum tímum “pólitískrar rétthugsunar”. Ég tel það persónulegan heiður, að vera beðinnn um að skrifa í þetta ágæta blað, sem ég hvet alla skynsama menn til að gerast áskrifendur að.
Áskrift má fá hjá útgefanda, Jakobi F. Ásgeirssyni, Hraunteigi 7, sími 698-9140, netfang nb@simnet.is

Greinin skýrir sig sjálf





Víetnamstríðið er misskildasta, mistúlkaðasta styrjöld allra tíma, en á þessum árum mótaðist sú kynslóð sem völdin hefur núna víðast hvar á Vesturlöndum. Margir þeirra sem af mestu alefli studdu upphafsmenn stríðsins, innrásarheri kommúnista, undir formerkjum “þjóðfrelsis” stýra nú vinstri flokkum, ríksstjórnum og löndum. Þeir eru í áhrifastöðum hvarvetna og halda áfram, enn í dag, að taka undir hvern þann málstað, sem er Vesturlöndum til tjóns. Þeir skrifa söguna og notfæra sér það til að réttlæta eigin orð og gerðir á þessum árum. Þeir hafa ekkert lært og öllu gleymt.

Ég dvaldi í Svíþjóð á þessum tíma, á þeim árum, þegar hatursmenn Andrésar Andar voru þar sem háværastir. Armæðu- og vandræða- bókmenntir, með þungbúnu, “pólitískt meðvituðu” ívafi voru að ryðja sér til rúms á Norðurlöndum með “Félaga Jesús” í fararbroddi, en einnig voru Svíar um þetta leyti, í félagi við Frakka og Ítali, að fullkomna kvikmyndagerð hinnar Þunglamalegu Langloku. Aðalsmerki hennar er, sem kunnugt er, hin Vandræðalega Þögn. Upp úr þessu hættu Íslendingar eins og aðrir Evrópubúar að horfa á evrópskar kvikmyndir, sem fram að því höfðu þó notið vinsælda.

Ekkert komst að annað en Víetnam í Svíþjóð á þessum árum, og það eru ekki miklar ýkjur að segja, að þjóðlíf og stjórnmálalíf í landinu hafi mikið til snúist um stuðning við hernað kommúnista í Suðaustur- Asíu, með sjálfan forsætisráðherrann, Olof Palme, í fararbroddi. Þar, sem annars staðar á Vesturlöndum höfðu menn þá flugu í höfðinu, að innrásarherir kommúnista væru í einhverjum skilningi að “frelsa” þjóðir Indó- Kína- skagans, sem voru raunar þegar frjálsar.


Það er lenska, að tala með fyrirlitningu um svonefnda “Dóminó- kenninngu”, en hana er mjög auðvelt að staðfesta. Aðeins þarf að líta á landakort af Asíu frá vorinu 1945 og annað frá 1975. Kúgunarkerfi kommúnista breiddist út eins og drepsótt, eða öllu heldur sem drep í líkama, á þessum árum.

Það er eins og enginn hafi skilið, hvorki þá né enn í dag, að Víetnamstríðið var í rúman áratug “heitasti punktur” kalda stríðsins, sem var miklu “heitara” í Asíu en í Evrópu. Þar hófst það með hernámi Stalíns á Mansjúríu og Norður- Kóreu strax eftir að kjarnorkusprengjum hafði verið varpað á Japan, en fjórum árum síðar náðu kommúnistar yfirráðum í Kína með vopnavaldi. Árið eftir lét Stalín lepp sinn, Kim Il Sung, ráðast á Suður- Kóreu. Þar útveguðu Sovétmenn vopnin, eins og síðar í Víetnam, en Kínverjar, sem enn voru vinir þeirra, lögðu til hermennina. Róttækir vinstri menn á Vesturlöndum, með “friðarsinna” í fararbroddi, lögðu til siðferðilegan stuðning við hernaðinn og t.d. málaði aðdáandi Stalins, Picasso, fræga “friðardúfu”, þótt hann hljóti að hafa vitað að í Sovétríkjunum lenti hver sá, sem reyndi að mála eins og Picasso sjálfkrafa í gúlaginu. Sovétmenn létu líka vestræn verkfæri sín m.a. stofna “Menningar- og friðarsamtök kvenna” víða um heim um þetta leyti. Stuðningur svonefndra “annarra vinstri manna” af gerð Palmes við þessa árásarstyrjöld kommúnista var þó ekki jafn afráttarlaus og síðar í Indó- Kína.


Samtímis Kóreustríðinu voru átök hafin eða að hefjast á öllu svæðinu frá Burma til Indónesíu. Mikið los hafði komið á nýlendur Breta, Frakka og Hollendinga í heimsstyrjöldinni, en þær höfðu flestar lent í höndum Japana um skeið. Innfæddir, sem margir höfðu barist með herrum sínum gegn Japönum, kröfðust nú sjálfstæðis af sívaxandi þunga. Þarna sáu kommúnistar gullið tækifæri og frjósama jörð til að breiða út fagnaðarerindi Marx og Lenins undir yfirskini “þjóðfrelsis”.

Í Indó - Kína barðist þjóðernissinnahreyfing Viet Minh við Frakka, en markmið flestra þeirra, sem börðust með Viet Minh var einungis að losna undan nýlenduherrunum, alls ekki að koma á sæluríki og breiða út fagnaðarerindi í anda Marx og Lenins. Aðeins sjálfur foringinn, Ho Chi Minh og klíka í kringum hann voru kommúnistar. Þetta minnir mjög á það, sem gerðist á Kúbu fáum árum síðar, þegar Castro sór það fyrir liðsmönnum sínum og heiminum, að hann væri sko aldeilis ekki kommúnisti, og tókst meira að segja um skeið að blekkja Bandaríkjamenn til (óbeins) stuðnings við sig.

Við brottför Frakka 1954 naut Ho Chi Minh að sjálfsögðu gífurlegs persónufylgis, og hefði vafalaust sigrað í kosningum, hefðu þær verið haldnar strax. Almenningur þekkti Ho aðeins sem sigursælan foringja, en fólkið, sem ýmist var búddatrúar eða kaþólskt, þekkti hvorki haus né sporð á kenningum “herra Max Lenins”, sem ýmsir nefndu svo (margir á svæðinu eiga erfitt með að bera fram “r”). Þessi aðdáun á Ho hvarf þó fljótt, þegar í ljós kom, hvers eðlis stjórn hans var. Menn hafa giskað á, að kommúnistar hafi haft innan við 3% fylgi í Rússlandi, þegar Lenin hrifsaði völdin. Ástandið í Indó- Kína var ekki ósvipað og slíkar frjálsar kosningar hefðu án nokkurs vafa orðið þær síðustu. 
 Í Genf fékk Ho Chi Minh Norður- Víetnam til umráða og hófst þegar handa um að innræta þegna sína með himnaríkis- á- jörðu- kenningunum, sem hann aðhylltist sem marxisti og Stalínisti og breyta landinu í alræðisríki og herbúðir. Mikill fjöldi bænda, sem ekki vildu fallast á samyrkjuvæðingu landbúnaðarins var myrtur eins og hjá Stalín. Markmið hans var frá upphafi að innlima Suður- Víetnam með vopnavaldi í ríki sitt og gera Laos og Kambódíu að undirgefnum leppríkjum. Suður- Víetnamar höfðu hins vegar ekki hinn minnsta áhuga á að ráðast á eða sameinast alræðisríkinu í norðri. Stjórnmálaástand var raunar ótryggt í suðrinu, og Diem forseti var óvinsæll, einkum meðal búddista. Eins og í Vestur- Þýskalandi og Suður- Kóreu dreymdi marga um sameiningu, en sameining mundi hins vegar þýða að menn yrðu að beygja sig undir miskunnarlausa ógnarstjórn kommúnista. Suður- Víetnamar vildu leysa mál sín sjálfir og lifa lífi sínu í friði, svipað og Suður- Kóreumenn og Vestur- Þjóðverjar. Árásin kom að norðan. Allt að tvær milljónir manna flúðu Norður- Víetnam á næstu árum, meðan kommúnistar undirbjuggu atlögu sína að nágrannalöndunum, sem hófst fyrir alvöru 1957 með skipulegum launmorðum á þorpshöfðingjum og öðrum leiðtogum í suðrinu.

Stríðið við Frakka, sem lauk við Dien Bien Phu 1954 má vel kalla “þjóðfrelsisstríð”. Árás kommúnista á þrjú frjáls og sjálfstæð ríki, Suður- Vietnam, Laos og Kambódíu, þ.e. hið eiginlega Víetnamstríð, var allt annað. Þarna voru engir franskir, bandarískir eða aðrir erlendir herir og því gjörsamlega út í hött að “frelsa”, hvað þá “þjóðfrelsa” þessi lönd. Þau voru frjáls. Fólk þar vildi aðeins fá að lifa í friði. Raunar væri réttara að kalla þetta Indó- Kína-stríðið fremur en Víetnamstríðið, því Norður- Víetnamar óðu strax inn í Laos og Kambódíu. Þeir virtu landamæri þeirra einskis frá upphafi og notuðu löndin til liðsflutninga og sem herbækistöðvar. Þeir réðust þó ekki beint að máttlitlum ríkisstjórnum þessara landa, heldur vopnuðu og héldu úti innlendum “þjóðfrelsishreyfingum”, Pathet Lao og Rauðum Kmerum. Þeir vissu sem var, að þegar sigur hefði unnist í Suður- Víetnam mundu þau óhjákvæmilega falla í hendur kommúnista eins og þroskaðir ávextir. Sem kunnugt er neituðu Rauðir Kmerar síðar að hlýða herrum sínum og hölluðu sér að Kínverjum. Þá réðust hinir upphaflegu húsbændur þeirra, Hanoi- menn, á Kambódíu og hertóku landið.

           Search and Destroy
Skærur og stríð hafa fylgt mannkyninu frá upphafi, og öll stríð, frá því löngu fyrir daga Neandertalsmanna, hafa snúist um eitt og aðeins eitt: að taka tiltekið landsvæði og halda því. Það er algert aukaatriði hvort eða hve margir óvinahermenn eru felldir. Það getur stundum verið hægt að vinna fullnaðarsigur nánast án þess að fella nokkurn mann úr liði óvinarins, sbr. t.d. hernám Þjóðverja á Danmörku.

Westmoreland yfirhershöfðingi Bandaríkjamanna og hans menn sneru þessu alveg á haus. Þeir aðhylltust nýja kenningu sem einhverjum gáfumanni hafði dottið í hug og nefndist “Search and Destroy”. Raunar höfðu Bretar beitt svipuðum aðferðum á Malakkaskaga fáum árum áður með all góðum árangri, en þar voru kommúnistar fáir og illa vopnaðir og gátu ekki treyst á stöðugan straum nýrra hermanna og vopna frá nágrannalandinu, eins og í Indó- Kína.
Samkvæmt “Search and Destroy” skiptu yfirráð yfir landi engu máli. Aðeins þyrfti að finna og drepa óvinahermenn og stríðið mundi vinnast af sjálfu sér. Bandaríkjamenn sigruðu í bókstaflega öllum orrustum í þessu stríði, líka í hinn frægu Tet- sókn, sem heimurinn taldi mikinn ósigur og átti verulegan þátt í því að Johnson forseti bauð sig ekki fram 1968. Þegar sigur hafði unnist, voru líkin talin (Body Count) en síðan hurfu sigurvegararnir af vettvangi. Þegar þeir voru farnir sneru kommúnistar að sjálfsögðu aftur. Ekkert hafði áunnist.

Hershöfðingjar telja ávallt að þeir séu að berjast í næsta stríði á undan, og Westmoreland og hans menn virtust ímynda sér að í Víetnam yrði hægt að hrekja innrásarmennina aftur inn fyrir landamæri sín og einangra þá þar eins og í Kóreu, en landfræðilegar aðstæður voru allt aðrar og með öllu ógerlegt að loka landamærunum á sama hátt.

Það sýndi sig líka í Víetnam, eins og í síðari heimsstyrjöld, hvað loftárásir eru máttlitlar gegn einbeittum andstæðingi. Hitt skipti þó enn meira máli að Bandaríkjamenn urðu að berjast með aðra hendi fyrir aftan bak. Kalda stríðið stóð sem hæst og Norður- Víetnam var komið inn fyrir “bambustjaldið”, eins og járntjaldið nefndist þar eystra, inn fyrir víglínu óvinanna. Bandaríkjamenn þorðu því ekki, vegna ótta við viðbrögð Sovétmanna og Kínverja, að gera innrás í sjálft óvinalandið. Af þeim sökum fyrst og fremst var þetta álíka vonlaust og ef Bandamenn hefðu reynt að sigra Hitler án þess að ráðast inn í Þýskaland sjálft.

              “Þjóðfrelsishreyfingin” mikla
Ég var unglingur, þegar tilraun Bandaríkjamanna til að stöðva framrás heimskommúnismans í Suðaustur- Asíu var að hefjast á árunum kringum 1960, en man þó vel eftir þessum tíma. Áróðursmaskínan var þá enn ekki komin á fullan skrið og margir, jafnvel sumir vinstri menn skildu enn, að hér var um að ræða útþenslu- og landvinningastyrjöld kommúnista af sama toga og í Kóreu. Þetta átti eftir að breytast.

Til dæmis var þá enn óhætt (og sjálfsagt) að tala um “Viet Cong” (víetnamska kommúnista). Nokkrum árum siðar var svo komið, að hver sá, sem benti á að hér var um kommúnista að ræða, eða notaði Viet Cong um árásarmennina var sjálfkrafa stimplaður sem einhvers konar fasisti, eða þá einfeldningur. Hér væri að sjálfsögðu um að ræða “Þjóðfrelsishreyfinguna". Innrásarherir alræðisríkisins Norður- Víetnams, vopnaðir af heimskommúnismanum, væru með manndrápum sínum nefnilega að “frelsa” þetta vesalings fólk (sem var þegar orðið frjálst) undan vondri kúgun Bandaríkjamanna (sem þó höfðu mætt á vettvang löngu eftir að stríðið hófst).


Í Víetnamstríðinu beindist öll athygli vestrænna fjölmiðla og fordæming þeirra að Suður- Víetnam, landi sem var í miðri styrjöld, undir árás jafnt innri sem ytri óvina. Að sjálfsögðu er ekki hægt að búast við fullkomnu lýðræði og mannréttindum við slíkar aðstæður. Ég minnist þess ekki, að nokkurn tíma hafi verið vakin athygli á þeirri gjörsamlega miskunnarlausu kúgun líkama og sálar, sem ríkti í Norður- Víetnam eins og í öðrum kommúnistaríkjum. Þvert á móti. Smám saman varð það almenn skoðun, að Ho Chi Minh, gamall agent fyrir Komintern og alþekktur aðdáandi Stalíns, væri í raunini lýðræðissinni. Morðsveitir Viet Cong og norður- víetnamski herinn væru í rauninni að færa Suður- Víetnömum langþráð frelsi, mannréttindi og lýðræði með hernaði sínum og manndrápum. Þetta er ótrúlegt, en þó satt. Menn trúðu þessu í fullri alvöru.

Það var Lenin, ekki Göbbels, sem telja má upphafsmann hinnar skipulegu, ósvífnu, orwellsku lýgi, og einnig má líta á Lenin sem helsta upphafsmann nútíma markaðsfræði. Hann nefndi t.d. stjórnkerfi sitt, sem felur í sér fullkomna, algera kúgun líkama og sálar, “lýðræðislega miðstýringu”. Blað sitt nefndi hann “Sannleikann” (Pravda) en bókstaflega allt sem í því blaði hefur staðið frá upphafi er lýgi. Kommúnistar, sem stefndu sjálfir að heimsyfirráðum, nefndu andstæðinga sína “heimsvaldasinna” og styrjaldir, sem þeir hleyptu sjálfir af stað með stuðningi “lýðræðis”- postula, “friðarsinna” og “mannréttindafrömuða” til að koma á miskunnarlausu kúgunakerfi með vopnavaldi nefndu þeir “þjóðfrelsisbaráttu”. Kína, Norður- Víetnam og Norður- Kórea hétu öll “lýðræðisleg lýðveldi alþýðunnar” (People´s Democratic Republic). Íslenskir vinstri menn breyttu nafni Austur- Þýskalands að kommúnistastjórninni forspurðri í “alþýðulýðveldi” (Volksrepublik). Rétt nafn landsins var hins vegar “Lýðræðislega þýska lýðveldið” (Deutsche Demokratische Republik, DDR). Morðingjaríki Rauðra Kmera nefndist “Hin lýðræðislega Kampútsea” (Democratic Kampuchea).

Markaðssetning Hanoi- manna á styrjöld sinni var vissulega meistaraleg, en lykilatriði í henni var að telja mönnum trú um, að stríðið væri Bandríkjamönnum að kenna. Suður- Víetnamar hefðu í rauninni alltaf viljað sameinast þeim, en afskipti Bandaríkjanna hindruðu það. Þetta er merkilegt í ljósi þess að gífurlega mikil og hörð andstaða gegn kommúnistum var hafin löngu áður en Bandaríkjaher mætti á vettvang 1965.

Til staðfestingar þesssari kenningu beittu Norður- Víetnamar mjög fyrir sig “Þjóðfrelsisfylkingunni”, sem þeir sögðu túlka hinn sanna vilja þjóðarinnar, svipað því og nasistar sögðu á sínum tíma, að flokkur Quislings túlkaði raunverulega afstöðu Norðmanna til Þjóðverja.
En hvað var þá þessi “Þjóðfrelsishreyfing?”. Menn muna kannski, að í síðari heimsstyrjöld átti Hitler hópa stuðningsmanna í flestum þeim löndum, sem Þjóðverjar hertóku. Þetta átti einnig við í Suður- Víetnam, einkum í upphafi, meðan aðdáunin á baráttu Ho Chi Minh gegn Frökkum var enn við lýði og áður en í ljós kom, hvers eðlis stjórnarfar hans var. Þessir suður- víetnömsku flugumenn kommúnista nefndu sig að sjálfsögðu “Þjóðfrelsisfylkinguna” (FNL), og beittu, einkum framan af, mjög fyrir sig nytsömum sakleysingjum, aðallega úr hópi búddista. Öll raunveruleg völd í FNL voru að sjálfsögðu í höndum kommúnista. Innfæddum “þjóðfrelsisfylkingarmönnum” fækkaði ört eftir því sem á leið, og þegar komið var fram yfir miðjan sjöunda áratuginn var það nánast eingöngu norður- víetnamski fastaherinn, sem bar hitann og þungann af bardögum í stríðinu. Norður- Víetnamar klæddu þó menn sína framan af gjarnan í hin “svörtu náttföt”, sem voru einkennisbúningur liðsmanna “þjóðfrelsishreyfingarinnar”, en hættu raunar þeirri blekkingu að mestu þegar á leið. Eftir að Bandaríkjamenn hættu þátttöku í bardögum og hurfu af vettvangi eftir friðarsamningana 1973 var þeim þykjustuleik Norður- Víetnama, að hér væri um borgarastyrjöld að ræða, þar sem þeir hefðu mikinn stuðning, alveg lokið í Suður- Víetnam sjálfu. Vestrænir fjölmiðlar héldu þó áfram að trúa því, að FNL væri einhvers konar sjálfstætt afl inni í myndinni. Hanoi- menn söfnuðu nú miklu liði. Þeir rufu friðarsamningana einhliða í desember 1974 og réðust inn í nágrannalandið. Þá var stríðið löngu orðið alveg hreinræktuð, grímulaus styrjöld milli Suður- Víetnama og norður- víetnamska innrásarhersins.

Heimspressan gleypti orwellskan lygaáróður Hanoi- manna hráan, en túlkun fjölmiðlanna á þessu stríði væri efni í margar bækur. Einhver hefur sagt, að Bandaríkjamenn hefðu átt betri von um sigur, hefðu þeir einbeitt sér að því að skjóta blaðamennina. Á Bandaríkjamönnum sannaðist enn einu sinni hið fornkveðna, að “sá sem talar illa um sjálfan sig, þarfnast ekki óvina”.
Mogginn var raunar blaða staðfastastur, en undir lokin var meira að segja Morgunblaðið farið að tala um fastaher Norður- Víetnams, klæddan eigin einkennisbúningum, búinn skriðdrekum og öðrum þungavopnum, sem “þjóðfrelsishreyfinguna”. Aðrir fjölmiðlar, erlendir sem innlendir voru miklu verri.

Lygaþvættingurinn um víðtækan stuðning almennings í Suður- Víetnam við kommúnista var endanlega afhjúpaður í lokin. Ótti og skelfing braust út hvarvetna og allir sem vettlingi gátu valdið lögðu land undir fót í ofsahræðslu til að flýja “frelsara” sína. Það var ekki fyrr en eftir að þjóðarmorðin, kúgunin og flóttamannastraumurinn, sem við höfðum margir spáð í upphafi hófst upp úr valdatöku kommúnista 1975, að aftur var farið að vera óhætt að tala opinberlega um “Viet Cong”. Raunar reyndust aðfarir kommúnista enn miskunnarlausari og blóði drifnari en meira að segja ég hafði búist við.

                Hver myrti Palme?
Andstöðunni við stríðsreksturinn verður að skipta í tvennt. Annars vegar voru þeir, sem sáu að stríðið mundi aldrei vinnast með þeim aðferðum sem beitt var, og því verr af stað farið en heima setið. Ég fyllti raunar sjálfur þennan flokk, því ég leit svo á að annað hvort yrðu Bandaríkjamenn að hertaka Norður- Víetnam eða forða sér af vettvangi.
Andstaða t.d. Frakka og margra málsmetandi manna í Evrópu og Bandaríkjunum, t.d. Roberts Kennedys byggði á þessum gundvelli, ekki á stuðningi við kommúnistaherina. Það magnaði andstöðuna í Bandaríkjunum, að herskylda var enn við lýði og margir ungir menn veigruðu sér við að taka þátt í svo vonlitlu, fjarlægu stríði.

Hins vegar var sá fjölmenni hópur, sem beinlínis studdi árásarmennina, en þann hóp fyllti m.a. mestöll sænska þjóðin með sjálfa ríkisstjórnina í fararbroddi. Ég sat á þessum árum tvívegis fundi um Víetnam, þar sem Olof Palme var frummælandi, og get vottað, að maðurinn var ágætlega greindur, vel að sér og fljótur að hugsa. Ég get líka vottað, að stuðningur hans við upphafsmenn Víetnamstríðsins, innrásarheri kommúnista í Indó- Kína, var alger og óskilyrtur. Hann var hinn ágætasti fulltrúi fyrir þær skoðanir, sem hann deildi með milljónum Vesturlandabúa og tugþúsundum Íslendinga á þessum árum.

En hver myrti Palme? Suður- Afríkumenn hafa verið nefndir, enda var Palme orðlagður fyrir baráttu sína gegn kynþáttamisrétti. En fleiri koma til greina. Þegar innrásarherir kommúnista “þjóðfrelsuðu” loks löndin í Indó- Kína með vopnavaldi við gífurlegan fögnuð “lýðræðis”- postula, “friðarsinna” og “mannréttindafrömuða” hvarvetna, hófu Hanoi- menn skipulegar þjóðflokka- og kynþáttaofsóknir, sem vinir þeirra, vinstri menn, tala aldrei um. Kannski var morðingi Palmes maður af fjallaþjóðflokki eða af kinverskum uppruna, eða þá barn svarts bandarísks hermanns, en átrúnaðargoð Palmes, þessa heimskunna “mannréttindafrömuðar”, herstjórarnir í Hanoi, ofsóttu allt þetta fólk með yfirveguðum, miskunnarlausum hætti. Fullkomið kaldlyndi Palmes gagnvart bátafólkinu var alkunnugt, og morðingi hans gæti vel hafa komið úr þeirra röðum.

Og hvað með fórnalömb Castros? Fræg var heimsókn Palmes til Kúbu í kölfar sigurs “þjóðfrelsisaflanna” í Indó- Kína 1975 þar sem þessi kunni “mannréttindafrömuður” hélt hverja lofræðuna af annarri um gestgjafa sinn, en um það leyti voru pólitískir fangar á Kúbu eitthvað um 40.000. Menn sátu þar í fangabúðum í allt að 20 ár fyrir samkynhneigð, að slátra kú eða biðja um hærra kaup, en á Kúbu, eins og í öðrum “verkamannalýðveldum” er verkalýðsbarátta refsiverð. Morðingi Palmes gæti líka hafa verið úr þeirra röðum. Palme notaði tækifærið á Kúbu til að fagna alveg sérstaklega Pol Pot og Rauðum Kmerum, sem þá voru nýkomnir til valda, en einmitt þá rann blóðið í sem allra stríðustu straumum. Morðingi Palmes gæti verið einn þeirra sem komust undan þjóðarmorðingjunum.

Þegar þessi heimskunni “friðarsinni” var á Kúbu hafði Castro einhvern stærsta her í heimi, um hálfa milljón manna undir vopnum, og hélt her sínum úti til styrjalda og manndrápa í 15 löndum víða um heim, ekki síst í Afríku, þar sem menn hans lögðu um 8 milljónir jarðsprengna. Morðingi Palmes gæti verið úr röðum ættingja þeirra sem hermenn eða jarðsprengjur Castros hafa drepið eða limlest. Möguleikarnir eru óteljandi og sömuleiðis eru fórnarlömb kúgunar, þjóðarmorða og hernaðar vina og átrúnaðargoða Palmes, þessa “lýðræðis”- postula, “mannréttindafrömuðar” og “friðarsinna” óteljandi.
Örlög Palmes voru að sönnu hörmuleg og engum óskandi. Hann hefur á síðari árum orðið píslarvottur, átrúnaðargoð og tákngervingur mikils hluta vinstri manna, fólks þeirrar gerðar sem hérlendis stýrir mensévíka- armi Alþýðubandalagsins, svonefndri “Samfylkingu”. Þetta er fólkið sem sagðist ekki vera kommúnistar, en gekk erinda alræðisaflanna í kalda stríðinu undir formerkjum ”lýðræðis”, “friðar” og “mannréttinda”. Ég kann að mörgu leyti betur við bolsévíka- arminn, sem nú nefnir sig “Vinstri græna”. Þeir ganga hreinna til verks.


              Innri óvinir Vesturlanda
Vinstri menn hafa alltaf rangt fyrir sér. Alltaf. Það má bóka, að taki þeir einhvern málstað upp á sína arma, er hann rangur. Þetta er þumalfingursregla, sem ég hef haft síðan í æsku og hún hefur aldrei brugðist mér. Allt þeirra brölt fer í vaskinn. Þetta klikkar aldrei.

Þeir eru fólkið, sem hyllir keisarann og nýju fötin hans. En þeir eru ekki meinlausir sérvitringar eins og don Quixote. Þeir eru Vesturlöndum hættulegir.

Hatrið er sterkari tilfinnig en ástin og það er ekki draumurinn um betri heim sem hvetur vinstri manninn til dáða eins og þeir ímynda sér sjálfir, heldur hatrið. Hatrið á því umburðarlynda frjálsa þjóðfélagi sem elur þá. Vinstri menn, kommúnistar og aðrir, eru innri óvinir Vesturlanda og taka því ávallt og ósjálfrátt málstað ytri óvina þeirra, hverju nafni sem þeir nefnast, því “óvinur óvinar míns er vinur minn”. Hatur þeirra á eigin þjóðfélagi og stuðningurinn við óvini þess verður því afdráttarlausara, þeim mun “lengra til vinstri” (róttækari), sem þeir teljast. “Róttækir” vinstri menn (kommúnistar) studdu ekki aðeins Stalín, heldur einnig Hitler á árunum 1939-1941, því hann var, eins og Stalín fullkominn óvinur hins “borgaralega” (þ.e. frjálsa og lýðræðislega) þjóðfélags, sem þeir vildu tortíma. Vinstri menn, kommúnistar og aðrir, studdu Khomeini erkiklerk af alefli til valda á sínum tíma, því hann var eins og þeir, hatursmaður “Hins mikla Satans”, Bandaríkjanna. Allir vinstri menn, jafnt “róttækir” sem aðrir, vernda og réttlæta Castro enn í dag, að sjálfsögðu samhliða háværu “lýðræðis”- og “mannréttinda”- hjali. Stuðningsyfirlýsing Vinstri grænna við Hamas er nýlegt dæmi og aðdáun allra vinstri manna á Chávez Venezuelaforseta, vini Hvít- Rússa og Írana er annað. Þeir “róttækustu”, gamlir liðsmenn Pol Pots, Albaníu og Norður- Kóreu eru nú farnir að gæla við og réttlæta Talíbana og Al- Qaida. Þeir taka alltaf málstað óvinarins.

Á Víetnamárunum leit svo út um skeið að lýðræðisríki Vesturlanda kynnu að verða alræðinu að bráð, ekki utan frá, heldur innan frá, fyrir tilstyrk innri óvina sinna, jafnt eiginlegra kommúnista og hinna, þeirra sem sögðust ekki vera kommúnistar, en tóku þá sem nú, ávallt málstað óvinanna. Þessi tilfinning greip mig afar sterkt á þessum árum. Framrás kommúnismans minnti á nánast óstöðvandi atlögu múslima að hinum kristna heimi á sjöundu og áttundu öld. Mér fannst stundum í Svíþjóð ég vera síðasti heiðinginn í Rómaveldi undir lokin, þegar kristnir ofstækismenn voru að kæfa klassíska menningu, tjáningarfrelsi, umburðalyndi og frjálsa hugsun með stórasannleika þess tíma að vopni.

Ég varð vitni að því, að margir æskufélagar sem áður höfðu verið skoðanabræður og höfðu, eins og ég upplifað uppreisnina í Ungverjalandi, ris Berlínarmúrsins og innrásina í Tékkóslóvakíu í barnæsku sinni og æsku, snerust á Víetnamárunum til fullkomins og ákafs stuðnings við alræðisöflin. Eitt af mörgum dæmum er einn, sem dröslaði mér upp í gömlu Valhöll og skráði mig í Heimdall (þar sem ég hef þó aldrei starfað). Sá ágæti maður var fáeinum árum síðar orðinn ritstjóri Þjóðviljans. Þannig var tíðarandinn, en sjálfur hef ég aldrei verið hallur undir hugsana- eða skoðanatískuna.

Þegar alræðiskúgunin, þjóðflokkaofsóknirnar, þjóðarmorðin og flóttamannastraumurinn, sem ég og aðrir höfðum spáð allt frá upphafi hófst upp úr 1975, lagðist yfir vandræðaleg þögn, skyld þeirri, sem verður á mannamótum, þegar vond lykt gýs skyndilega upp. Einhver hafði gert í buxurnar. Víetnam og “þjóðfrelsisbaráttan” var snarlega tekin út af dagskrá. Enginn hirti um örlög þess vesalings fólks, sem lenti í klóm “þjóðfrelsaranna”, frekar en um fórnarlömb Castros. ”Lýðræðis”- postular og “mannréttindafrömuðir” höfðu öðrum hnöppum að hneppa. Þögnin lagðist yfir Indó- Kína.
Það er almenn, viðtekin skoðun að Bandaríkjamenn hafi tapað Víetnamstríðinu. En er það alveg rétt? Orrustan tapaðist vissulega, en tapaðist stríðið? Það sem menn virðast ekki geta séð, er að í Víetnam stöðvaðst holskefla heimskommúnismans, sem virtist allt ætla að gleypa á þessum árum. Hinar ýmsu “þjóðfrelsishreyfingar” kommúnista í Suðaustur- Asíu allt frá Burma um Malaysíu og Thaíland til Indónesíu og Filippseyja höfðu ekki lengur stuðning og gufuðu smám saman upp. Máttvana tilraunir kommúnista til frekari útþenslu í Mið- Ameríku og Afganistan runnu út í sandinn. Rauði blóðflekkurinn á landakortinu hætti að stækka eða smita út frá sér.

Eftir Víetnam fjaraði hægt og örugglega undan, og fjórtán árum síðar hrundu höfuðból kommúnismans í Evrópu. Þótt fáeinar hjáleigur séu enn eftir, er ógninni sem af kommúnistum stóð, lokið.

Gamlir liðsmenn þeirra eru þó enn á meðal vor, og þeir munu halda áfram, enn sem fyrr, að grafa undan eigin þjóðfélagi. Þeir munu áfram taka málstað allra þeirra, hverju nafni sem þeir nefnast, sem vilja hið frjálsa, lýðræðislega, mannúðlega, umburðarlynda þjóðfélag Vesturlanda feigt.

Og þeir munu enn sem fyrr hrópa hæst allra um frið, mannúð og manngæsku, lítilmagna, frelsi, lýðræði, og mannréttindi.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Sæll Vilhjálmur

Ég var að ljúka við að lesa þessa grein þína í Þjóðmálum og vil bara þakka fyrir mig. Hún er leiftrandi vel skrifuð og skemmtileg aflestrar. Mjög áhugaverð og vekur til umhugsunar.

Kveðjur,

Magnús Þór Hafsteinsson, 11.6.2008 kl. 22:36

2 identicon

Sæll Magnús!

Þakka góð orð. Einhver verður að andæfa þessum vitleysingum, ekki síst í seinni tíð, þegar Mogginn er genginn í björg og Sjálfstæðisflokkurinn að miklu leyti líka. Ég hef verið beðinn um að setja saman eitthvað meira fyrir Þjóðlíf, og kemur vonandi í næsta tölublaði.

Kveðja, Vilhjáálmur 

Vilhjálmur Eyþórsson (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:36

3 identicon

Afsakið! Ég meinti að sjáálfsögðu Þjóðmál (hvað annað?)

Vilhjálmur Eyþórsson (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband