Jökullinn kemur


Ég sendi þessa grein inn á Moggann undir fyrirsögninni "Er heimurinn að verða geggjaður?" hinn 21. nóvember s.l., en breytti fyrirsögninni og gerði smávægilegar breytingar á texta. Hún kemur núna í sunnudagsblaðinu, nokkuð seint, því ráðstefnu fáráðlinganna á Bali er lokið. Þó ég sé enginn sérstakur aðdáandi Bush forseta, er það vafalaust hans mesta afrek að koma í veg fyrir að grautarhausinn Al Gore yrði forseti.

Það sem oftast vantar í alla þessa umræðu er, að allir, jafnvel andstæðingar "umhverfisverndarsinna" 

virðast telja að einhvers konar "umhverfisvandi" fylgi því að eitthvað hlýni. Þetta er alrangt. Jafnvel þótt hitastig hækki um 4-5 gráður (sem er óhugsandi) væri það í rauninni hið besta mál. Ekkert er að óttast.


Ég man það vel, þegar ég var í Austurbæjarskólanum fyrir hálfri öld eða svo, löngu áður en hann varð “fjölmenningarskóli”, að mér og jafnöldrum mínum var sagt, að veður hér hefði verið miklu hlýrra fyrr á öldum en það er nú. Ekki þyrfti annað en fara í næstu mógröf, þar sem stórir trjástofnar vitnuðu um miklu gróskuríkara Ísland en það sem við þekkjum. Ég man líka, þegar ég var skömmu síðar í gagnfræðaskólanum við Lindargötu, að okkur var bent á þá staðreynd, að fyrir örfáum árþúsundum, skömmu fyrir daga Forn- Egypta, var Sahara- eyðimörkin grasi gróin slétta, yfir að líta eins og þjóðgarðar Austur- Afríku eru í dag, jafnframt því að Ísland var jöklalaust að mestu. Þetta skýrði kennarinn svo, að uppgufun úr höfunum hefði verið meiri. Auk þess hafa allir lært, í síðasta lagi í eðlisfræði 9. bekkjar grunnskóla, að hlýtt loft tekur til sín margfalt meiri raka en kalt. Raki í gufuhvolfinu var því miklu meiri en nú og þar með úrkoman.

Um þetta þarf ekki að deila. Miklar mannvistarleifar í eyðimörkum hvarvetna, árhringir trjáa, jurta- og dýraleifar og ótalmargt annað er til vitnisburðar um þessa staðreynd, sem mjög lengi hefur verið vituð. Jöklar á Íslandi hafa t.d. aldrei verið meiri síðan á jökulskeiði (sem fáfróðir kalla “ísöld”) en þeir voru um aldamótin 1900. Þessi hæga kólnun og þornun jarðarinnar gengur, eins og alltaf er um veðurfar, í sveiflum, og sveiflum innan í sveiflum. Hita- og rakakúrfan er hlykkjótt, en hún hefur vísað, þrátt fyrir allar sveiflur, afdráttalaust niður á við í 6-7 þúsund ár. Allir kannast við “litlu ísöldina” sem náði (gróflega) yfir tímabilið frá 1300-1900, en önnur “lítil ísöld” sem þó var miklu hlýrri, hefur lengi verið kunn, en hún hófst eitthvað kringum 500 f. Kr. og náði inn á fyrstu aldir okkar tímatals. Þá lagðist byggð af í norðanverðri Skandinavíu og gresjur Mið- Asíu skrælnuðu og urðu þær eyðimerkur sem þar eru nú, en þetta hvoru tveggja átti mikinn þátt í að hrinda af stað þjóðflutningunum miklu.

Loftslag er nú 4-5 stigum kaldara, jöklar stærri og eyðimerkur miklu víðáttumeiri en var fyrir fáeinum þúsundum (ekki milljónum) ára. Meginjöklar á Suðurskautslandinu og Grænlandi bráðnuðu ekki og meðalyfirborð sjávar, að frátöldu landirsi og landsigi, hefur sáralítið breyst. Þetta eru óumdeildar, óhagganlegar staðreyndir, sem ég hef vitað um síðan í æsku og hélt þar til fyrir fáeinum árum að væru alþekktar. Ef af hverju koma þær hvergi fram í “umræðunni”? Hvar hafa þessir menn verið, sem tala um einhvern voðalegan “loftslagsvanda”, ef veðrið hlýnar svolítið aftur? Ég næ þessu ekki. Hvað er að ske?
Meira að segja íslenskir ráðamenn taka undir þetta undarlega tal. Það er kannski hægt að fyrirgefa útlendingum, því náttúrufræðikennsla virðist í molum erlendis, en Íslendingar ættu að vita meira. Ég get fullyrt, að það var ógerlegt að ná stúdentsprófi frá eina menntaskólanum í Reykjavík í minni tíð og þótt aðalnámsgreinin væri latína, án þess að vita þetta. Hvers vegna tala þeir þá svona?

Sameinuðu þjóðirnar, sem minna æ meira á málfundafélag í grunnskóla eða einhvers konar gjörspilltan saumaklúbb undirmálsmanna og kvenna, hafa nýlega borgað fyrir og sent frá sér skýrslu. Það er ekki það sem stendur í þessari skýrslu, sem er merkilegt, heldur það sem ekki stendur í henni, og það er þetta litla orð: “aftur”.

Þar kemur hvergi fram, að jafnvel þó það væri rétt (sem er nær örugglega fásinna) að hitastig hækki um 2- 4 gráður á þessari öld, táknar það ekki annað en afturhvarf til þess raka, hlýja loftslags, sem ríkti á tímum víkinga, eða þá Rómverja (enn hlýrra) eða Forn Egypta (hlýrra og rakara en hjá Rómverjum), eða, sem væri best af öllu loftslagið sem ríkti á svonefndum “boreölskum” tíma, fyrir 7-10 þúsund árum, þegar Ísland var jöklalaust og Sahara algróin. Tölvulíkön eru gjörsamlega óþörf. Aðeins þarf að rekja mannkynssöguna (ekki jarðsöguna) afturábak um fáeinar árþúsundir.


Nú hef ég enga trú á því að sú smávægilega endurhlýnun og uppsveifla í hitastigi, sem nú ríkir verði varanleg, og hér er ekkert rúm til að ræða þá fáránlegu og furðulegu steypu, sem hrærð hefur verið í kringum þá lofttegund, sem ásamt vatni og sólarljósi myndar sjálfa undirstöðu lífsins á jörðinni, nefnilega koldíoxíð. Þó vil ég benda á, að ef aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu getur orðið til að hægja á þeirri hægu, en öruggu þróun í átt til nýs jökulskeiðs, sem virðist óumflýjanleg er hún hið besta mál. Það er alveg ljóst, að Íslendingar ættu þá, jafnframt því að segja sig alveg frá Kyoto- ruglinu að ganga í lið með jarðhitasvæðum og eldfjöllum landsins og veita sem allra mestu koldíoxíði út í gufuhvolfið, því jökulskeiðið (“ísöldin”) kemur fyrr eða síðar og landið verður enn einu sinni skafið niður í klöpp. Ekkert verður þá eftir af byggingum og streði Íslendinga annað en fáeinar borholur og jarðgöng djúpt undir jöklinum. Það er þetta sem “umhverfisverndarsinnar” hyggjast koma til leiðar með Kyoto- brölti sínu, og ég spyr: Er heimurinn orðinn geggjaður?











« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Vilhjálmur, heimurinn er ekki orðinn geggjaður, hann hefur alltaf verið það!

Greta Björg Úlfsdóttir, 19.12.2007 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband