Það heitir endurhlýnun, ekki hlýnun

ÉG gat ekki orða bundist að skrifa þetta í ljósi þeirrar fjöldageðveiki, sem nú er í gangi.


Og hvar í ósköpunum er þetta litla orð „aftur“? Af hverju tala allir, ekki síst þeir sem titla sig „vísindamenn“ um „hlýnun“ þegar rétt er að segja „endurhlýnun?
Það er ekki eins og það séu nein ný tíðindi að loftslag á jörðinni hefur verið að kólna og þorna í ca.7-8 þúsund ár. Til dæmis man ég það vel, þegar ég var í Austurbæjarskólanum fyrir hálfri öld eða svo, löngu áður en hann varð  „fjölmenningarskóli”, að mér og jafnöldrum mínum var sagt,  að veður hér hefði verið miklu hlýrra fyrir landnám en það er nú. Ekki þyrfti annað en fara næstu mógröf, þar sem stórir trjástofnar vitnuðu um miklu gróskuríkara Ísland en það sem við þekkjum.
Ég man líka, þegar ég var skömmu síðar í gagnfræðaskólanum við Lindargötu, að okkur var bent á þá staðreynd, að fyrir örfáum árþúsundum, skömmu fyrir daga Forn- Egypta, var Sahara- eyðimörkin grasi gróin slétta, yfir að líta eins og þjóðgarðar Austur- Afríku eru í dag, jafnframt því að Ísland var jöklalaust að kalla. Þetta skýrði kennarinn svo, að uppgufun úr höfunum hefði verið meiri.
Meðan sólin skín mun ferskt vatn gufa upp úr höfunum og því meira sem loftslag er hlýrra. Ekki aðeins það, heldur eykst rakadrægni loftsins gífurlega við tiltölulega litla hækkun hitastigs. Gróflega þýðir þetta að hlýnun gufuhvolfsins um eitt stig veldur hækkun vatnsgufu í því um sjö rakastig.  Ef loftslag skyldi hlýna mundi að því þýða stóraukna úrkomu, svipað og var fyrir 7-8 þúsund árum þegar Ísland var jöklalaust og Sahara algróin eins og aðrar eyðimerkur. Hlýnun þýðir því stóraukið vatn, ekki síst á þurrlendum svæðum, öfugt við það sem fáfróðir kjánar ímynda sér.
Málið er alls ekki umdeilt. En af hverju talar enginn lengur um það?
Það var nefnilega fyrir langalöngu, um aldamótin 1900, sem Norðmaðurinn Axel Blyth og Svíinn Rutger Sernander gerðu grein fyrir rannsóknum sínum á gróðri í mýrum Skandínavíu með tilliti til loftslags fyrri alda og árþúsunda. Nýrri rannsóknir, m.a. á borkjörnum í Grænlandsjökli og Suðurskautlandinu hafa síðan fyllt út í myndina en í raun litlu bætt við niðurstöður Blyth-Sernanders.  Má t.d. benda á ágæta bók Helga Björnssonar jöklafræðings, en þar kemur m.a. fram, að Vatnajökull fór fyrst að myndast um sama leyti og Forn- Egyptar reistu pýramída sína, þ.e. fyrir um 4.500 árum.
„Ísöldin“ eins og síðasta jökulskeið er oftast kallað er miklu nær okkur í tíma en flestir skilja. Sé sagan rakin aftur til þess tíma sem pýramídarnir voru reistir og Súmerar skráðu Gilgamesh- kviðuna, fyrstu söguna af syndaflóði, eru menn þegar komnir hálfa leið aftur á „ísöld“ og flóðinu mikla í „hamfarahlýnuninni“ (án afskipta mannanna) þegar hitastig hækkaði skyndilega um tíu stig eða meira á örstuttum tíma þannig að jökulskildirnir miklu bráðnuðu og yfirborð sjávar hækkaði um marga tugi metra. Þetta flokkast undir mannkynssögu, ekki jarðsögu, eins og flestir halda, árþúsundir, ekki ármilljónir.
Loftslag á jörðinni hefur nefnilega verið að kólna og þorna síðan fyrrnefnd „hamfarahlýnun“ náði hámarki fyrr 7-8 þúsund árum, en það tímabil nefndu Blytt- Sernander „atlantíska skeið bórealska tímans“ sem einnig er nefnt „holocen-hámarkið“.
Þessi kólnun og þornum verður í sveiflum og rykkjum, en þrátt fyrir allar sveiflur og sveiflur innan í öðrum sveiflum kólnar og þornar jörðin hægt og sígandi og stefnir óhjákvæmilega í nýtt jökulskeið („ísöld“), en þær eru þegar orðnar um 20 á ísöldinni miklu eða kvartertímanum, sem staðið hefur í 2,5-3 milljónir ára.  Enn fyrr, á tertíertíma var loftlag hér svipað og nú í Norður- Kaliforníu eins og steingervingar risatrjáa bera vott um. En það er jarðsaga, ármilljónir, ekki árþúsundir.
Ekkert bendir til annars en að okkar hlýskeiði muni ljúka eins og öllum hinum og það er nú þegar orðið sæmilega langt. Því væri vitlegra að búa sig undir hnattkólnun, ekki hnatthlýnun.
Nýlegar rannsóknir á Norður- Grænlandi og Svalbarða sýna, að á atlantíska skeiðinu uxu þar jurtir sem þurfa um sjö stiga hærri meðalhita en nú er þar. Þetta þýðir, að íshafið hefur verið að mestu íslaust a.m.k. á sumrin. Þó lifðut ísbirnir af og lifa enn þótt sum hinna ýmsu hlýskeiða hafi verið mun hlýrri en það núverandi. Jörðin var sem aldingarður því hlýnun er öllum fyrir bestu, mönnum dýrum fuglum, fiskum, jurtum og öllu sem þrífst á jörðinni.
Grænland var líka á sínum stað eins og Suðurskautslandið, þótt eitthvað kvarnaðist úr báðum, einkum Grænlandi og meðal sjávarstaða var aðeins einhverjum fáum tugum sentimetra hærri en nú. Fyrir því eru nokkrar ástæður: Miklu meira vatn var bundið í gufuhvolfinu, sem stuðlar að lækkun sjávarmáls og ekki síður hitt, að þrátt fyrir hærri meðalhita var enn frost mestallt eða allt árið á hábungu meginjökla, en það er ákoma, þ.e. snjókoma umfram sumarbráðnun sem mestu ræður um vöxt og viðgang jökla. Miklu meiri snjór olli því hækkun jöklanna, þótt kvarnaðist úr nær sjávarmáli.
Að sögn þess vísindamanns, Nils Mörners, sem lengst og mest allra hefur rannsaka sjávarborð hefur engin breyting orðið á hækkun sjávarborðs síðustu öldina a.m.k. Hann hefur líka, eins og margir aðrir alvöru vísindamenn yfirgefið IPCC, sem hann sakar um gervivísindi og falsanir. Það gera líka margir aðrir merkir vísindamenn, t.d. Richard Lintzen hjá MIT o.m.fl.
Í stuttri blaðagrein er ógerlegt að fjalla um svo viðamikið mál sem þetta, en hef þó rætt miklu nánar um allt þetta annars staðar t.d. í ritgerðinni „Gróðurhúsaáhrif væru góð, eða að flýta ísöldinn“, sem nú er á bloggsíðu minni (vey.blog.is). Þar er líka Moggagrein mín um koldíoxíð, „Hugleiðing um undirstöðu lífsins“.
Um koldíoxíð vil ég þó segja þetta: Allar jurtir, ofansjávar og neðan eru að miklu leyti úr kolefni, oft 30-50% og bókstaflega allt þetta kolefni kemur úr koldíoxíði. Menn og dýr eru líka að miklu leyti úr kolefni, sem upphaflega hefur komið úr koldíoxíði gufuhvolfsins gegnum jurtalífið og fæðuna. Auk þess kemur bókstaflega allt súrefnið, sem við öndum að okkur upphaflega úr koldíoxíði.
Jurtirnar þurfa gífurlegt magn koldíoxíðs á hverjum degi til að vaxa og dafna, mynda nýjar frumur og vefi og nýtt súrefni. Þessi hringrás tekur aðeins fáein ár.
Raunar byggir C 14 aldursgreining fornleifafræðinga einmitt á þeirri staðreynd, að þetta er hringrás sem sífellt endurnýjast, koldíoxíð eyðist og nýtt tekur við á innan við tíu ára fresti.  Þannig hefur þetta verið í milljarða ára, síðan jörðin var ung.
Í samanburði við þessa risavöxnu hringrás sem nær til allra jurta og þörunga í öllum löndum og höfum verður brölt mannanna heldur lítilfjörlegt og beinlínis hjákátlegt. Þáttur mannanna hefur verið talinn um 3,5% af koldíoxíði gufuhvolfsins, en er vel hugsanlega miklu minna. Koldíoxíð, náttúrulegt og manngert, er nú ca. 400 grömm í hverju tonni gufuhvolfsins og þar af er hlutur Íslendinga eitthvað brotabrotabrotabrot úr nanógrammi.
Og ekki nóg með það: Þetta koldíoxíð endurnýjast á um eða innan við tíu ára fresti, því þetta er hringrás.
Að lokum vil ég hér bera fram tvær spurningar: Í fyrsta lagi, þegar talað er um koldíoxíð, af hverju er aldrei nefnt að þetta er hringrás sem hefur endurnýjað sig í milljarða ára?
Í öðru lagi: Hvers vegna tala allir, vísindamenn og aðrir, alltaf um „hlýnun“ en aldrei, eins og rétt er, um „endurhlýnun“ og af hverju heyrist þetta litla orð „aftur“ aldrei?
Og ég vil fá svör!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þetta er sannkölluð "fjöldageðveiki", það er sannarlega rétta hugtakið yfir þessa þvælu sem er í gangi tongue-out Takk fyrir flottann pistil.

Alexander S Gjöveraa (IP-tala skráð) 18.8.2019 kl. 21:22

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Loksins heyrum við aftur í þér Vllhjálmur. Það var kominn tími til í þeirri fjöldasefjun sem nú á sér stað.

Halldór Jónsson, 18.8.2019 kl. 22:13

3 Smámynd: FORNLEIFUR

Nafni, þú gleymir metangasi, sem hefur miklu meiri áhrif á "heimshitnun" en koltvísýringur. Hvort það er svo réttmætt að kenna beljum, uxum, MS og McDonalds um, líkt og sumir "stórir" vísindamenn gera í dag, ætla ég mér ekki að álykta um, en mér þykir það ólíklegt. Fjölgun nautpeninga í heiminum er vart hægt að tengja við jökuleyðingu, sem átti sér stað fyrir löngu síðan. Menn eru að minnast "jökuls" vegna landmæliskekkju íslensks jarðfræðings í lok 19. aldar. Að nota kort hans af Okinu eða jafnvel teikningar Collingwoods, þar sem fjöll og náttúrueinkenni voru ávallt stórum ýkt, er hreint og beint rugl.

FORNLEIFUR, 19.8.2019 kl. 03:02

4 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

1. Það er alkunna að um hringrás er að ræða og á þeirri staðreynd byggja m.a. þær aðgerðir sem grípa þarf til, s.s að binda kolefni í gróðri t.d. með skógrækt og að koma í veg fyrir losun þess úr fornum gróðri eins og mó og kolum.

2. Það er vegna þess að nú hlýnar. Hitastig hefur gengið upp og niður og það vita allir, en nú hlýnar og þess vegna er talað um hlýnun.

Góðar stundir :)

Haraldur Rafn Ingvason, 19.8.2019 kl. 10:48

5 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldarpistill hjá þér Vilhjálmur.

Takk fyrir.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 19.8.2019 kl. 18:44

6 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Mér líður betur, ekki einn um að dásama þessar auka gráður í hitastigi sem birtast þessi misserin. Eitt skil ég þó engan vegin í þessu samhengi og það er massajafnvægi hlutanna. Það er eins og vísindamenn hafi gleymt grundvallarreglu massajafnvægis í þessari umræðu. Það er ekki eins og hlutir gufi upp út frá jörðinni í algeiminn. Það er alltaf jafn mikið af CO2 til staðar, þó sveiflur eigi sér stað.

Sindri Karl Sigurðsson, 19.8.2019 kl. 23:24

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Virkilega góð grein Vilhjálmur sem meira að segja vísindamenn ættu að skilja. Ég fór í gróðurhús þar sem þeir pumpuðu inn CO2 frá AGA og upp í 900ppm og meira að segja veitingahús þar inni reyndar sagði eigandin að úti væri CO2 úti við 25 til tæp 390ppm. Það er engir uppgefnir opinberir CO2 mælar á Íslandi en á Stórhöfða dæla þeir í flöskur og senda til Colorado þar sem ferillin tekur á annað ár.   

Valdimar Samúelsson, 20.8.2019 kl. 20:21

8 identicon

Þú eins og aðrir sem ná ekki heildarmyndinni skilja ekki að þetta snýst um hraðan sem hlýnunin er að gerast á. Síðasta hlýskeið tók nokkur þúsund ár að ná hámarkshita. Núna erum við að ná þessu á bara nokkrum áratugum. Mikill skortur á þekkingu skín í gegnum þetta blog

Þorsteinn Valur Thorarensen (IP-tala skráð) 13.10.2019 kl. 18:04

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þorsteinn Valur ef ég má. Hvaða þekkingu ert þú að tala um og ef þessi þekking er rétt er þá ekki dæmið að þetta tekur styttri tíma að fara inn í ísöld aftur.Þar fyrir utan þegar búið er að rafvæða bílanna þá verða þeir ónothæfir þegar frost eru eins og í miðnorður ríkjunum BNA í fyrra og mér sýnist þetta ár en bara núna er mínus 20C° niður undir Hudson bay ásamt Grænlandi mínus 10 til 30C°á Grænlandi. 

Valdimar Samúelsson, 13.10.2019 kl. 20:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband