Þessi greinaflokkur birtist upphaflega í Mogganum 1996 að mig minnir en er í öllum aðalatriðum alveg jafn tímabær nú og hann var þá og hrópin um "lýðræði" og "mannréttindi" frá íslenskum liðsmönnum kúgaranna og böðlanna eru nú enn hærri, meira ærandi og óþolandi en þau voru þegar þetta var skrifað.
Þeir sem áður studdu Albaníu og Austur- Þýskaland styðja nú Hamas, Hizbollah,
Talíbana og al -Qaida. Þeir munu alltaf styðja ytri óvini Vesturlanda, hverju nafni sem þeir nefnast, því þeir eru sjálfir innri óvinir þeirra. Þetta er í rauninni ritgerð í fjórum köflum, sem birtust fjóra daga í röð í Morgunblaðinu sumarið 1996, og hún er að minnsta kosti jafn tímabær nú og þá var. Vinstri menn eru nefnilega enn ósvífnari í "lýðræðis"- og "mannréttinda"- bröltinu núna en þeir hafa nokkurn tíma áður verið. V.E.
FISKURINN HEFUR FÖGUR HLJÓÐ...
Nú er hún Rússa-Grýla dauð.
Hún gafst upp á rólunum á jólunum - þegar Sovétríkin voru endanlega leyst upp fyrir fimm árum.
Frá fæðingu 1917 hafði Rússa- Grýla dreift ógn og skelfingu, falsi, flærð og lygum um gjörvalla heimsbyggðina. Hundruð milljóna manna urðu bergnumdar, einkum meðan Grýla var ung og falleg. Tugþúsundir Íslendinga úr öllum stéttum, ekki síst mennta- og listamenn leituðu í helli Grýlu, lentu í tröllahöndum og ærðust. Rússa-Grýla setti mark sitt á sögu aldarinnar meira en nokkuð annað, og setur enn.
En þótt hún Grýla gamla sé dauð ganga aðrir fjölskyldumeðlimir ennþá ljósum logum víðsvegar i þjóðlífinu. Meinlausastir eru orðnir gömlu Leppalúðarnir, sem ungir vígðust Grýlu og studdu hana fram í rauðan dauðann. Þeir hafa nú misst lífsförunaut sinn.
Verri eru afkvæmin, sem enn eru á besta aldri, Leppir og Skreppir í stjórnmálum og fjölmiðlum, og Leiðindaskjóður í menningarlífinu.
Grýlubörnin þrífast vel, og þau eru góð börn. Alveg ýkt góð, eins og unglingarnir segja. Þau tala um lýðræðið. Og þau tala um friðinn. Og þau tala um mannréttindin. Þau tala eins og þau hafi fundið þetta allt saman upp.
Þau telja sig vera stikkfrí eftir lok kalda stríðsins og láta eins og Grýla hafi aldrei verið til. Hver sem nefnir hana á nafn er sekur um "úreltar skoðanir", "kaldastríðsáróður", "fortíðarhyggju" eða eitthvað ennþá verra.
Það er ekkert nýmæli, að reynt sé að þurrka út söguna með þessum hætti, því þegar þriðja ríki Hitlers hrundi voru liðsmenn þess, erlendir sem innlendir, hvergi finnanlegir. Allir höfðu verið á móti nasistum.
Íslenskir jábræður Gúlagsins beita nú svipuðum brögðum, en þó er að einu leyti reginmunur á, nefnilega þessi:
Fyrrum stuðningsmenn Hitlers hafa aldrei verið orðaðir við "lýðræðis"- eða "friðarbaráttu". Enn síður hafa nasistar talið sig sérstaklega útvalda til að hafa forystu um "mannréttindabaráttu".
Hvað sem annars má segja um nasista mega þeir eiga það, að þeir kunna að skammast sín.
Þegar ég var lítill, á sjötta áratugnum, dvaldi um skeið kornung flóttastúlka frá uppreisninni í Ungverjalandi á heimili foreldra minna. Um það leyti varð mér ljóst, að í landinu bjó sérstakur þjóðflokkur manna, sem kváðust málsvarar "lítilmagnans", en studdu jafnframt ofsækjendur stúlkunnar og vildu koma hér á því kerfi sem ríkti í Ungverjalandi. Í slagtogi með þeim voru aðrir, sem ekki vildu koma á slíku kerfi, nema þá að hluta, en með þögn, hálfvelgju eða jámennsku voru í reynd einnig liðsmenn alræðisins. Þetta voru "aðrir vinstri menn".
Mannréttindabarátta var þá öðru vísi og miklu hættulegri en síðar varð, því hún fólst ekki, eins og nú, í því að vandlætast yfir ástandinu í fjarlægum löndum hjá ríkisstjórnum sem enga stuðningsmenn áttu á Íslandi. Hér var við að eiga virka, íslenska alræðissinna, sem áttu mikil ítök menningarlífinu og réðu afar miklu á fréttastofu einu útvarpsstöðvar landsins. Þeir héldu hlífiskildi yfir harðstjórunum, afsökuðu og réttlættu illvirki þeirra eða þögðu um þau. Mannréttindabaráttan fór þannig fram á innanlandsvettvangi, því við íslenska liðsmenn kúgunar var að eiga. Hver sá sem reyndi að segja sannleikann um það sem fram fór austan tjalds mátti eiga von á öllu illu, ekki aðeins frá kommúnistum, heldur vinstri mönnum sem heild. Auðveldast var þá, og er enn, að þekkja "aðra vinstri menn" á því að þótt þeir segðust ekki styðja kommúnista, stimpluðu þeir alla, sem í einhverri alvöru gagnrýndu ástandið austan tjalds sem "hægri öfgamenn", "fasista", eða jafnvel "nasista".
Þannig varð mér fyrst ljóst hvar skilin lágu milli "hægri" og vinstri. Skilin lágu einfaldlega um afstöðuna til þess þjóðskipulags, sem löngu síðar var farið að kenna við Gúlagið. Þeir sem studdu alræðisherrana eða réttlættu þá voru vinstri menn, alveg afdráttarlausir andstæðingar, hverju nafni sem þeir annars nefndust og hverjar sem skoðanir þeirra að öðru leyti voru, nefndust "hægri menn". Þannig eru til dæmis þeir Hitler og Hayek taldir "hægri menn", einfaldlega vegna þess að þeir voru báðir svarnir andstæðingar Gúlagsins. Ég skrifa "hægri" með gæsalöppum, en vinstri ekki, því andstæðingar einhvers málefnis eiga alltaf miklu minna sameiginlegt en liðsmenn þess.
Þessi skilgreining hefur reynst mér vel.
Reglan gildir ennþá, þótt sjálft höfuðbólið sé fallið. Enn standa eftir nokkrar hjáleigur, aðallega Kína, Víetnam, Norður-Kórea og Kúba. Af afstöðunni til þeirra má enn ráða hvort menn teljast til hægri eða vinstri. Vinstri mann má enn þekkja á því t.d., að hann ber ávallt í bætifláka fyrir Castro.
Nei-þýðir-já-lögmálið
Annað atriði vakti einnig fljótlega athygli mína í æsku og gerir enn, nefnilega þetta: Þeir vinstri menn sem voru afdráttarlausastir liðsmenn stjórnarfarsins í Austurvegi og studdu af alefli hernað kommúnista ("þjóðfrelsisbaráttu") víðs vegar í heiminum, töluðu mest og hæst allra um "friðinn", "mannúðina", "tjáningarfrelsið" og - ekki síst - "lýðræðið" og "mannréttindin".
Þeir töluðu reyndar um fátt annað og gera enn. Þeir höfðu beinlínis tekið út patent á því góða í heiminum.
En hvers vegna?
Af hverju endurtaka einmitt þeir þessi orð svona oft?
Eftir mikil heilabrot tel ég mig hafa uppgötvað tilekið lögmál til skýringar á þessu og ýmsu fleira í háttlagi vinstri manna. Um nafngift finnst mér rétt að leita innblásturs til Stígamóta og kalla þetta því einfaldlega "Nei-þýðir-já-lögmálið". Það hljóðar svo: Menn fordæma það ávallt harðast í orði sem þeir styðja afdráttarlausast á borði .
Til þess að vísindalögmál teljist marktækt verður það að hafa spásagnargildi, en svo vill til, að afar auðvelt er að ganga úr skugga um gildi nei-þýðir-já-lögmálsins. Þannig hafa Alþingistíðindi verið tölvusett í mörg ár og því vandalaust að orðtaka þau með tilliti til "mannréttindabaráttunnar", t.d. með því að kanna notkun á orðunum "lýðræði" og "mannréttindi".
Ég spái því, samkvæmt fyrrnefndu lögmáli, að verði þetta gert komi í ljós, að það séu þingmenn Alþýðubandalagsins, sem oftast allra hafa úr ræðustól býsnast út af skorti á "lýðræði" og "mannréttindum" heima og erlendis undanfarin tuttugu ár eða svo. Sumir þeirra opna varla munninn, án þess að endurtaka þessi orð nokkrum sinnum, eins og þeim sé ekki sjálfrátt.
Metið munu vafalaust eiga þeir þingmenn, sem dvalist hafa langdvölum austan tjalds undir handarjaðri herranna, hafa verið tíðir gestir þar á tímabilinu og mest og best hafa starfað í sérstökum "vináttufélögum" við alræðisríki fyrir fall Berlínarmúrsins 1989 og síðar (samtímis virkri og háværri þátttöku í "mannréttindabaráttunni").
Samkvæmt nei-þýðir-já-lögmálinu má m.ö.o. reikna með því að stuðningsmanna kúgunar sé að leita meðal þeirra sem harðast berjast fyrir mannréttindum, liðsmenn friðar séu þeir sem hvetja til ófriðar o.s. frv.
Við nánari athugun kemur í ljós, eins og ég mun sýna fram á, að þetta er einmitt lóðið.
...FINNST HANN OFT Á HEIÐUM
AFAR margt er skylt með kommúnistum og nasistum og freistandi að spyrða þá saman. Báðir eru alræðissinnar, en þeir síðarnefndu hins vegar ekki nógu miklir hræsnarar til að geta talist vinstri menn.
Báðir áttu erlenda liðsmenn, grimmdin og kúgunin var svipuð, sömuleiðis sjálft stjórnskipulagið, áróðurstæknin og margt fleira, en of langt mál er að rekja það hér. Nasistar sögðu sig hins vegar, öfugt við kommúnista, opinberlega úr lögum við siðferði og siðmenningu og virtu ekkert boðorð nema það fyrsta, sem þeir sneru upp á sjálfa sig á sama hátt og kommúnistar höfðu áður gert. Það boðorð sýnist mér vera ein meginstoð stórasannleika af öllu tagi, þar með talinni alræðishyggju, en einnig einn helsti grundvöllur ofstækis, umburðarleysis og trúarbragðastyrjalda.
Hinum boðorðunum níu, sem eru sammannleg undirstaða siðmenningar hvarvetna, óháð kristinni trú, vörpuðu nasistar fyrir róða. Alveg ólíkt vinstri mönnum fóru þeir hvergi í launkofa með fyrirlitningu sína á lýðræði, mannúð og manngæsku og frömdu ekki, eins og kommúnistar, illvirki sín undir formerkjum hins góða.
Fanturinn og frelsishetjan
Ágætt dæmi um afstöðu heimsins til svonefndra "hægri manna" og vinstri manna má finna í ferli tveggja harðstjóra, þeirra Pinochets, fyrrum Chileforseta og Castros Kúbuleiðtoga:
Pinochet hélt góðan frið við aðrar þjóðir, en engir friðarsinnar sóttu þó á hans fund.
Castro hefur hins vegar stofnað til eða haldið gangandi styrjöldum allt frá Suður-Ameríku til Suður- Jemens, en herjaði þó allra lengst og mest í Afríku. Því hafa kunnir friðarsinnar og mannvinir mjög sótt á hans fund (García Márquez, Olof Palme o.fl.), enda er enn vandfundinn sá vinstrisinnaði "mannréttindafrömuður" og friðarsinni, sem ekki hefur eitthvað hlýlegt að segja um Castro.
Þegar stór hluti verkfærra manna á Kúbu var annað hvort flúinn, fangelsaður eða farinn til Afríku til að drepa svarta menn fyrir Rússa, flykktust áhugamenn um "frið", "lýðræði", "tjáningarfrelsi" og "mannréttindi" hvaðanæva að úr heiminum til Kúbu til að fylla í skörðin á sykurekrum Castros, þ. á m. fjöldi Íslendinga.
Enginn "hægri maður" hafði hins vegar slíka aðdáun á stjórnarfari í Chile að hann færi til Pinochets að vinna í koparnámum, og engin "vináttufélög" voru stofnuð við hann.
Pinochet tók við landi sínu í fátækt og upplausn, en skilaði af sér blómlegu búi.
Kúba var, ásamt Argentínu ríkasta land rómönsku Ameríku og efnahagur í örum vexti þegar Castro tók við völdum . Landið er nú rjúkandi rúst og er ásamt Haiti langfátækasta landið í álfunni, þrátt fyrir gífurlegan fjáraustur Rússa, og þótt flestöll lönd önnur en Bandaríkin geti verslað við Castro.
Vinstri menn settu af stað einhverja umfangsmestu "mannréttindaherferð" sögunnar gegn Pinochet.
Um Kúbu ríkin þögn, að heita má.
Pinochet stofnaði til kosninga, skilaði sjálfviljugur af sér völdum og breytti óumbeðinn landinu í lýðræðisríki.
Á Castro er ekkert fararsnið, og engar kröfur eru uppi um slíkt frá vinstri- "mannréttindafrömuðum". Samt eru flóttamennirnir og fangarnir fleiri, áþjánin og fátæktin margfalt verri en nokkurn tímann í Chile.
Á því er enginn vafi að Castro hefur verið þjóð sinni miklu óþarfari en Pinochet var sinni þjóð, þótt sá síðarnefndi hafi beitt andstæðinga sína álíka mikilli harðýðgi og Kúbuleiðtoginn. Flestir, en þó ekki allir þessir andstæðingar voru reyndar kommúnistar, sem hugðust koma á svipuðu stjórnarfari og ríkir á Kúbu og hefðu því sjálfir beitt sömu aðferðum á valdastóli.
Fyrir aðfarir sínar uppskar Pinochet með réttu fordæmingu heimsins, en því er ekki að heilsa um Castro. Þvert á móti er hann ennþá beinlínis hetja, jafnvel "frelsishetja" í augum þeirra friðelskandi vinstrisinnuðu mannvina sem gera sér hetjur úr herskáum, fjarlægum harðstjórum. Enginn gerir frelsishetju úr Pinochet, þótt hann hafi, ólíkt Castro, komið á lýðræði. Umfjöllun um Castro er enn sem fyrr með allt öðrum og vinsamlegri hætti en nokkur dæmi eru til um Pinochet sem kunni ekki sem "hægri maður" lagið á því að fremja illvirki undir yfirskini hins góða.
"Eigir þú vin..."
Ég hef á liðnum árum stöku sinnum skrifað um vinstrimennskuna hér í blaðið og þá aldrei látið hjá líða að nefna "vináttufélögin" sérstaklega, bæði vegna þess hvað mér finnast þau vera merkileg og eins vegna þess hvað fáir aðrir hafa vakið á þeim athygli. Þau eru allrar athygli verð. Þar stofnuðu íslenskir menn, af ást og aðdáun einni saman til sérstakrar vináttu við stjórnirnar í löndum á borð við Sovétríkin (MÍR), Albaníu, Norður- Kóreu, Víetnam, Kína, Kúbu, Austur-Þýskalandi og raunar flestöllum öðrum alræðisríkjum.
Þessi samtök bera allra gleggstan vott um raunverulegan hug vinstrafólks til alræðisins, kúgaranna og böðlanna, þótt raunar sé af nógu öðru að taka.
Það voru ekki aðeins Alþýðubandalagsmenn sem tóku þátt í "vináttufélögunum", heldur einnig fólk úr þeim stjórnmálaflokkum, sem gátu yfirleitt hugsað sér samstarf og jafnvel vináttu við erlendar alræðisstjórnir (sbr. vinstri-Gúlag-regluna sem ég nefndi í fyrstu grein). Þannig má t.d. nefna þátttöku framsóknarmanna í "vináttufélaginu" við Búlgaríu.
Á verksviði "vináttufélaganna" var m.a. að fá hingað listamenn, fengju þeir yfirleitt brottfararleyfi (fjölskyldumeðlimir voru hafðir í gíslingu á meðan). Var ítarlega sagt frá öllu í alræðisríkinu og jafnframt látið í það skína, að hér væri um samskipti "alþýðu" landanna að ræða, enda höfuðmarkmið hinna erlendu stjórna að réttlæta sig gagnvart eigin þegnum með því að vísa til þess víðtæka stuðnings og samúðar, sem þær nutu meðal vinstri manna vestan tjalds. Starf "vináttufélaganna" var þannig ætlað til stuðnings alræðisstjórnunum og til að villa um fyrir þegnum þeirra.
Tóku fjölmargir stjórnmála-, mennta- og listamenn þátt í þessu brölti, þ.e. væru þeir ekki önnum kafnir við að fordæma "kúgun", "ritskoðun", eða önnur "mannréttindabrot", sem þeir sáu þá - og sjá enn - í hverju horni hér á Vesturlöndum. Margir vinstri menn, aðallega liðsmenn Alþýðubandalagsins, hafa einnig notið góðs af starfsemi "vináttufélaganna" á annan hátt, t.d. í tengslum við ferðalög til alræðisríkja, því þangað var þeim tíðförult meðan fært var (sbr.: "Eigir þú vin / farðu að finna hann oft").
Ég vil aftur undirstrika, að aldrei hefur þetta varpað skugga á "lýðræðis- og "mannréttindabaráttu" þessa góða fólks, sem fram fór samtímis.
... ÆRNAR RENNA EINA SLÓÐ
ÞAÐ liggur í sjálfu eðli allra mannréttindasamtaka, eins og t.d. Amnesty, að þau hljóti að draga að sér hræsnara, enda gera þau það. Vafalaust er erfitt að halda þeim frá.
Þessi samtök voru þau fyrstu sem í alvöru tóku að gagnrýna ástand mannréttindamála í kommúnistaríkjunum og voru því sjálfkrafa stimpluð "hægri sinnuð" af vinstra fólki í upphafi. En það er eitt höfuðeinkenni allra hræsnara, hvað þeir eru hugfangnir af fallegum orðum og sjálft orðið "mannréttindabarátta" var einfaldlega ómótstæðilegt, enda gafst óvíða betra tækifæri til að setja sjálfan sig á háan hest, fordæma og vandlætast. Því leið ekki á löngu, áður en mjög fór að bera á vinstra fólki innan þessara samtaka. Náði það öllum völdum hóf þá m.a. herferð fyrir málstað dæmdra morðingja í bandarískum fangelsum.
Þó er enginn vafi er á að samtökin hafa unnið gott starf, einkum fyrstu árin. Einhverjir þeirra, sem enn starfa innan þessara samtaka hafa hugsanlega aldrei lagt fjarlægum harðstjórnum lið.
Nei-þýðir-já-lömálið segir að menn fordæmi það ávallt harðast í orði sem þeir styðja afdráttarlausast á borði. Það er ágæt staðfesting þessu lögmáli að hver sá sem því nennir getur grafið upp skjalfestar heimildir um vinstra fólk sem starfað hefur með Amnesty en hefur einnig starfað í sérstökum "vináttufélögum" við ýmsar grimmúðlegustu harðstjórnir aldarinnar samtímis starfi með Amnesty, svo merkilegt - og vemmilegt - sem það nú er.
Lýðræðið
"Lýðræði" er eins og "mannréttindi" eitt af þessum fallegu orðum sem vinstri menn endurtaka ótt og títt án þess að botna upp né niður í því hvað í orðinu felst. Í meginatriðum felur það í sér að meirihluti kjósenda eigi að ráða.
"Fái þjóðirnar að kjósa milli harðstjórnar og stjórnleysis, velja þær alltaf harðstjórann," sagði Aristóteles fyrir margt löngu. Í mörgum löndum er "lýðræði" einungis annað orð fyrir aðgerðarleysi, spillingu og upplausn og það er alls ekki sjálfgefið að almenningur kjósi lýðræði, fái hann að velja. Í Weimar-lýðveldinu höfðu andstæðingar lýðræðis, kommúnistar og nasistar, t.d. meirihluta atkvæða samanlagt.
Í Alsír reyndi herforingjastjórn að halda lýðræðislegar kosningar, en þá kom í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þegnanna hugðist kjósa andstæðinga lýðræðis sem einnig vilja afnema flest það sem við nefnum grundvallarmannréttindi að fyrirmynd Khomeinis. Kosningarnar voru stöðvaðar og eru "mannréttindafrömuðir" síðan með böggum hildar út af öllu saman. Hvert eiga þeir að snúa sér með vandlætingu sína og fordæmingu? Eiga þeir að býsnast út í herforingjana sem vilja koma á vestrænum gildum, svipað og Íranskeisari á sínum tíma, eða á að fárast út í lýðræðislegan vilja kjósenda sem vilja afnema allt sem heitir lýðræði og mannréttindi?
Lítill vafi er á að Khomeini naut stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þegna sinna. Sama má segja um Þýskaland Hitlers, Rússland Stalíns eða Norður-Kóreu undir Kim Il Sung. En voru þessar stjórnir "lýðræðislegar?" Svarið hlýtur að vera neitandi. Hitler var, eins og prestar þjóðkirkjunnar, lýðræðislega kosinn einu sinni. Síðan sátu menn uppi með hann.
Frjálsar kosningar voru ekki tíðkaðar í þeim ríkjum sem ég nefndi, né heldur ríkti tjáningarfrelsi. Án tjáningarfrelsis er lýðræði óhugsandi, jafnvel þótt þessar stjórnir og fleiri slíkar hafi örugglega fullnægt því skilyrði að hafa stuðning meirihluta þegnanna.
Mjög margt fleira mætti segja um þetta, en stjórnarformið og hugtakið "lýðræði" er miklu flóknara en svo að unnt sé að gera því sæmileg skil í stuttu máli. Orðið hentar hins vegar ágætlega til að slá um sig með því.
Mannréttindin
Eins og lýðræðið eru mannréttindin vissulega afstæð, eins og einhver sagði. Svipað gildir reyndar um fátæktina. Sá einn er kúgaður eða fátækur sem sjálfur telur sig vera það.
Svo einfalt dæmi sé tekið telja munkar sig hvorki kúgaða né fátæka, þótt þeir séu í klaustrum sínum sviptir flestum mannréttindum og lífsgæðum. Fólk í frumstæðum þjóðflokkum, sem býr fjarri siðmenningunni er fullsátt við hlutskipti sitt þótt frá sjónarmiði Vesturlandabúa ríki þar kúgun og fátækt.
Svipað gildir um konur í löndum Múslima. Þær telja sig langflestar alls ekki vera kúgaðar. Má benda á að margir hörðustu stuðningsmanna Khomeinis erkiklerks á sínum tíma voru konur og meðal þeirra mátti finna konur, menntaðar í frjálslyndum háskólum á Vesturlöndum.
Keisarinn vann sér það m.a. til óhelgi að svipta konur blæjunni og reyna að koma á vestrænum lifnaðarháttum og gildismati í landi sínu. Við andstæðinga beitti hann þó hefðbundum aðferðum í þessum heimshluta. Í klóm SAVAK, lögreglu hans, lentu annars vegar kommúnistar og hins vegar bókstafstrúarmenn af gerð Khomeinis.
Vinstri menn taka alltaf og ósjálfrátt afstöðu sem er andstæð hagsmunum Vesturlanda. Því studdu þeir, með Amnesty í fararbroddi, stjórnarandstæðinga af alefli, að sjálfsögðu undir formerkjum "lýðræðis" og "mannréttinda", þótt það væri alltaf deginum ljósara hvaða stefnu andstæðingar keisarans fylgdu og við hverju mætti búast, næðu þeir völdum.
Klerkarnir náðu svo völdunum að lokum, við mikinn fögnuð mannvina og mannréttindafrömuða víðsvegar. Síðan þeir tóku við, hefur "lýðræðis"- og "mannréttindabaráttu" vinstri manna gegn Íransstjórn alveg linnt. Vandlætingarhrópin heyrast ekki lengur. Þar ríkir þögnin ein.
Ég held að það væri athugandi fyrir "mannréttindafrömuði" utan og innan Amnesty að kynna sér betur málstað þeirra sem gerðir eru að píslarvottum. Khomeini sjálfur lenti sem "ofsóttur trúarleiðtogi" um skeið efst á listum Amnesty ásamt fjölmörgum áhangendum sínum, væntanlega fyrir "lýðræðis"- og "mannréttindabaráttu" sína.
Ef dæma má af reynslunni frá Íran mætti reikna með, að þeir Lenin, Stalin og Hitler hefðu orðið "samviskufangar" á vegum Amnesty.
Þeir voru nefnilega allir fangelsaðir fyrir skoðanir sínar.
... EFTIR SJÓNUM BREIÐUM
VINSTRI menn hafa nú misst glæpinn, eða öllu heldur, glæpnum var beinlínis stolið af þeim. Eyjólfur hresstist nefnilega aldrei. Hann dó. Syrgjendurnir leita nú nýrra patentlausna dyrum og dyngjum, en finna fátt sem fútt er í.
Það er viss eftirsjá í Eyjólfi. Meðan hann tórði var auðveldara að fylgjast með þeim sem önnuðust hann. Í Þjóðviljanum, sem andaðist skömmu eftir fráfall Eyjólfs, mátti t.d. ávallt ráða í hvað vinstra fólk bar helst fyrir brjósti þá stundina. Til dæmis komst blaðið yfir það í liðlega hálfrar aldar sögu sinni að styðja flestalla þá ógnarbílda, sem herjuðu á mannfólkið á tímabilinu. Má minna á afdráttarlausan stuðning Þjóðviljans við Hitler og hernað hans árin 1939-41, sem varð til þess að Bandamenn stöðvuðu útgáfu blaðsins og fangelsuðu aðstandendur þess. Ekki þarf að tíunda lofgerðirnar óteljandi um hina harðsvíruðu alræðisherra kommúnistalandanna, en auk þeirra lenti hver sá, sem barðist gegn hagsmunum vestrænna lýðræðisþjóða, sjálfkrafa í náðinni. Má þar nefna Khomeini og hans menn, og undir lokin átti Saddam Hussein athvarf á síðum blaðsins, þ.e. ef rúm gafst fyrir "friðarbaráttunni", sem fékk æ meira rúm ásamt "mannréttindabaráttunni".
Einnig birtust gjarnan í blaðinu auglýsingar um fundi samtaka sem tengdust áhugamálum áhangenda þess, svo sem hinum ýmsu "vináttufélögum", sem íslenskir menn stofnsettu við miskunnarlausar, erlendar alræðisstjórnir. Þá mátti finna í Þjóðviljanum, eins og við var að búast í höfuðmálgagni "mannréttindabaráttunnar", tilkynningar um fundi Amnesty. Vakti sérstaka athygli mína að stundum stóð sama fólkið að þeim og auglýsingum "vináttufélaganna".
Ekkert skorti heldur á um "friðarbaráttuna" sem rekin var samhliða stuðningi við "þjóðfrelsisbaráttuna" (þ.e. hernað kommúnista). M.a. fengu "Menningar- og friðarsamtök kvenna", sem Stalín sjálfur stofnaði pláss, ásamt öðrum "friðarsamtökum" sem ekki voru jafn afdráttarlaust rekin á vegum Sovétríkjanna (að því er sýndist, a.m.k).
Friðaruppeldi og föðurlandsást
Það er freistandi að álykta að summa lastanna og dyggðanna verði alltaf hin sama. Því meiri dyggðir, þeim mun meiri lestir. Allir kannast við kristna vandlætara og siðapostula sem hafa verið sekir um ýmiss konar glæpi. Dæmi má finna um menn sem orðið hafa þjóðkunnir fyrir baráttu sína gegn fíkniefnavandanum, en síðan dæmdir fyrir eiturlyfjasmygl.
Þetta má skýra með nei-þýðir-já- lögmálinu sem segir að menn fordæmi það ávallt harðast í orði, sem þeir styðji afdráttarlausast á borði. Miklu fleiri dæmi má finna en þau, sem ég hef þegar nefnt:
Í stríðslok kom upp í Þýskalandi hreyfing um "friðaruppeldi" og var Ulrike Meinhof, sem seinna varð heimskunn í tengslum við hryðjuverk, eitt fyrsta barnið, sem fékk alveg skipulegt friðaruppeldi frá barnæsku. Má því segja, að Baader-Meinhof- hryðjuverkasamtökin hafi verið skilgetið afkvæmi "friðaruppeldis".
Ég missti reyndar trúna á "friðarbaráttunni" fyrir margt löngu, um líkt leyti og tveim hópum friðarsinna lenti saman á "heimsfriðarmóti" í Japan og tugir manna voru drepnir.
Í "verkamannalýðveldum", t.d. á Kúbu, er hver sá, sem reynir að stofna til verkfalla eða berjast fyrir hag verkamanna tafarlaust fangelsaður. Þetta er gert með þeim rökum að "verkamenn" hafi völdin og sé verkalýðsbarátta því "gegn hagsmunum verkalýðsins".
Það leiðir því af sjálfu sér að vinstri menn, vinir Castros og annarra slíkra, hafa alltaf talið sig vera alveg sérstaka fulltrúa og kraftbirtingu verkalýðs og verkalýðsbaráttu hér á jörðu.
Íslenskir verkalýðsleiðtogar sóttu því t.d. þing opinberra "verkalýðsfélaga" alræðisríkjanna á Kúbu fyrir nokkrum árum, einmitt um það leyti, sem "hægri sinnaðir" (andkommúnískir) verkamenn í Samstöðu voru að berjast fyrir lífi sínu í Póllandi. Þingið samþykkti að sjálfsögðu ýmsar ályktanir, sem fordæmdu "kúgun verkamanna" víðs vegar á Vesturlöndum.
Einn stjórnmálaflokkur, sem hefur heitið ýmsum nöfnum, telur sig alveg sérsakan og útvalinn andstæðing erlendra stórvelda. Liðsmenn hans hafa því í gegnum tíðina vandlætast afar mikið og m.a. mjög sakað andstæðinga sína um "landsölu" og jafnvel "landráð".
Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að nú er fullsannað og skjalfest í Moskvu, að einmitt þessi flokkur þáði samtímis mikla fjárstyrki og var um áratugaskeið beinlínis stjórnað úr ráðuneytum erlends stórveldis.
Af illum verkum...
Nú, að Rússa-Grýlu liðinni, er í sjálfu sér ágætt að þurfa ekki lengur að sitja undir því að vera kallaður "fasisti" fyrir þær sakir einar að benda á staðreyndir um ástandið í sæluríkjum. Þeim staðreyndum mótmælir enginn lengur.
Mér fannst miklu verra fyrr á árum, og finnst enn, að vita af málsvörum alræðis og kúgunar meðal áhrifamanna hvarvetna í þjóðfélaginu, ekki aðeins í stjórnmálum, heldur einnig og ekki síst í lista- og menningarlífi þjóðarinnar.
Hitt fannst mér þá og finnst enn allra verst, og reyndar óþolandi, að sitja undir tali þess sama fólks í síbylju um "lýðræðið", "tjáningarfrelsið", "lítilmagnann" og "mannréttindin".
Havel Tékklandsforseta var örugglega ekki kunnugt um, þegar hann var hér á ferð fyrir nokkrum árum, í hvaða félagsskap hann var. Mér fannst beinlínis viðbjóðslegt að fylgjast með því að þeir sem flöðruðu allra mest upp um forsetann voru einmitt þeir áhrifamenn í stjórnmálum, listum og menningarlífi sem af mestu alefli höfðu stutt kvalara hans fáum árum áður meðan hann var andófsmaður og fangi.
Þetta fólk kann ekki að skammast sín. Það kunna nasistar.
Rússagrýla er dauð. En Grýlubörnin lifa og munu halda áfram að geta af sér afkvæmi, því skýringar á háttalagi þeirra er fremur að leita á vettvangi sálfræði en stjórnmála. Vinstrimennskunni verður varla útrýmt, fremur en sýndarmennskunni, vandlætingunni eða óskhyggjunni. Hún mun skjóta upp kollinum í einhverri mynd, undir einhverju nafni. Blekkingin er fallegri en raunveruleikinn, og menn munu halda áfram, enn sem fyrr, að berjast af miklu meiri sannfæringu fyrir lyginni heldur en sannleikanum.
Því munu íhaldsmenn seint öðlast þann töfraljóma, sem umlykur málsvara blekkingarinnar. Við það verður að búa.
Barnið í ævintýri Andersens hefur örugglega fengið skömm í hattinn. Svo var a.m.k. um okkur sem reyndum að benda fólki á úr hvaða efni nýju fötin væru sem skraddararnir Marx og Lenin höfðu saumað á keisarana í Kreml. Boðberar válegra tíðinda verða aldrei vinsælir, og fólk er alltaf reiðubúnara til að trúa lyginni heldur en sannleikanum.
Kíkóti skildi hvarvetna eftir sig slóða eyðileggingar. Það gera vinstri menn, stuðningsmenn, jábræður og umþegjendur alræðisherranna og böðlanna, líka. Fulltrúar og arftakar Rýssa- Grýlu eru hins vegar ekki meinlausir, sjónumhryggir riddarar. Auðvelt er samt að þekkja þá: Þeir tönnlast nefnilega í síbylju á fallegum orðum.
Nafni minn frá Skáholti orðaði nei-þýðir-já-lögmálið dálítið öðru vísi en ég, nefnilega svona:
Af illum gjörðum sínum þekkjast þeir,
sem þykjast geta frelsað heiminn.
Það er vissulega rétt að auðveldlega má þekkja þá af illum gjörðum þeirra.
En það er jafn auðvelt að að þekkja illvirkjana af fögrum orðum sínum.