Laugardagur, 24. apríl 2010
Einræði og alræði
Þessi grein, eða öllu heldur ritgerð birtist í Morgunblaðinu í mars 1982. Margt, raunar flest sem ég segi þar er í fullu gildi enn í dag og ætti að vekja einhverja til umhugsunar. Allt of margir virðast ekki skilja þann reginmun sem í rauninni er á alræði og gamaldags, hefðbundnu einræði.
Um þetta leyti voru íslenskir alræðissinnar, þeir sömu og í dag styðja ýmist Vinstri græna eða Samfylkingu, mjög uppteknir af stuðningi við uppreisn kommúnista í El Salvador, en samtímis stóðu átökin við Samstöðu sem hæst í Póllandi. Því gaf ég greininni nafn við hæfi.
Frelsarinn og Póló
Margir hafa orðið til þess að skýra þann grundvallarmun, sem er á alræði (totalitarianism) og einræði (dictatorship). Virðist þó ekki vanþörf á að rifja upp nokkur atriði, sem miklu máli skipta í ljósi síðustu atburða heima og erlendis, þegar fantatökum Rússa á þjóðum Austur-Evrópu er jafnað við innanlandsátök í kotríki einu í Mið-Ameríku.
Á útifundi nokkrum, sem haldinn var í tilefni af Póló, (sbr. Ungó og Tékkó), nýjustu uppákomu sovétvaldsins í AusturEvrópu, voru ýmsar kröfur gerðar. Athyglisverðara var þó hvaða krafa var ekki borin fram: Ekki var krafist frjálsra verkalýðsfélaga og grundvallarmannréttinda þegar í stað í öðrum löndum Austur-Evrópu, Sovét, Albaníu, Norður-Kóreu, Víetnam, Kúbu eða Kína. Þó má benda á að stjórn Kína hefur aldrei þessu vant verið treg til að gagnrýna Sovétmenn i Póllandsmálinu, og t.d. stjórnir Kúbu og Víetnam styðja þá alfarið, enda munu frjáls verkalýðsfélög svipta stoðunum undan alræðiskerfi allra þessara landa. Við slíkum kröfum var þó varla að búast, því kenna mátti ýmsa forystumenn vináttufélaga á fundinum. Þess í stað virtust málefni lands eins í Mið-Ameríku fara mjög fyrir brjóstið á fundarmönnum. Land þetta, sem fæstir vissu áður að var til, hvað þá að þeir gætu staðsett það á landakorti, liggur raunar á mörkum Nicaragua, Guatemala og Honduras og er nokkru minna en Norðurlandskjördæmi eystra (20.935 ferkílómetrar). Það ber nafnið Frelsarinn (El Salvador).
Reynt er nú að læða því inn hjá fólki, að herforingjastjórnir séu höfuðandstæðingar lýðræðis. Þessar stjórnir eru þó flestar veikar, eins og ég kem síðar að, en auðvelt er að afla sér stiga með árásum á þær Alræðiskúgun hálfrar heimsbyggðarinnar virðist nú vera gleymd, og ólíklegustu menn taka undir þennan söng.
Það eru einkum þrír hópar manna, sem alræðissinnar beita fyrir sig í sókninni eftir völdum. Þetta eru menntamenn, listamenn og verkamenn, og hafa allir fengið að reyna hvað það táknar, að vera tæki í baráttunni. Hvað verkamenn snertir hefur tekist að læða því inn hjá fólki, andstæðingum jafnt sem stuðningsmönnum, að sú eðlilega ósk allra vinnandi manna, að vilja hærri laun fyrir vinnu sína sé á einhvern hátt tengd hjárænufræði þeirra Marx og Lenins um efnahagsmál. Hefur Marxistum tekist furðuvel að virkja þessa frumþörf allra manna sjálfum sér til framdráttar, en þeir líta á verkamenn sem tæki í baráttunni fyrir eigin völdum, enda athyglisvert, að enginn af helstu spámönnum kommúnista hefur komið úr röðum verkamanna Jafnskjótt og kommúnistar hafa náð völdum er verkalýðsbarátta bönnuð undir því yfirskyni, að verkamenn hafi tekið völdin, og sé hún því óþörf. Það merkilega við þessa röksemdafærslu er, að fjöldi manns trúir henni, heima og erlendis. Hver sá, sem síðan reynir að halda fram málstað verkamanna er handtekinn með þeim rökum, að hann vinni gegn hagsmunum verkalýðsins. Þetta hefur gerst í öllum kommúnistaríkjunum, en ekki einungis í Póllandi. Klykkt er út með því, að nú sé komið á verkamannalýðveldi. Af menntamönnum og listamönnum er svipaða sögu að segja.
Það er ástæða til að benda á, að þótt ástandið sé slæmt í Póllandi eygja Pólverjar nú örlitla von. Þar hefur verið kveikt sú ljósglæta frelsis, sem alræðið óttast mest. Alræðiskerfið, hvort sem er í Kína, Víetnam, Kúbu eða Sovét er nátttröll, sem vinnur verk sín í skjóli myrkurs og blekkinga og óttast ekkert meira en ljósið. Þess vegna eru nú öll kommúnistaríkin sammála um að kæfa Samstöðu í Póllandi. Þótt full ástæða sé til að styðja Pólverja nú, er e.t.v. enn brýnna að rétta þeim hjálparhönd, sem enn búa við svartnætti í hinum kommúnistalöndunum. Þeir hafa enn enga slíka von sem Pólverjar.
Í El Salvador hafa alræðissinnar (kommúnistar) sem nefna sig því þverstæðukennda nafni Lýðræðislega byltingarfylkingin hafið manndráp í því skyni, að þjóðfrelsa landið. Þetta hefur skapað andrúmsloft haturs og tortryggni og leyst úr læðingi það ofbeldi sem víða blundar í löndum, sem búa við hungur og offjölgun. Í raun ríkir nú borgarastyrjold margra ólíkra afla í landinu, svipað og í Líbanon, og stjórnin virðist ekki fá við neitt ráðið. Reynt er, eins og ávallt, með öllu móti að gera Bandaríkjamenn ábyrga fyrir ástandinu í landinu, en allir virðast hafa gleymt, að það voru kommúnistar sem hófu manndrápin. I ríkjum Mið-Ameríku hefur ofbeldi ýmiss konar verið landlægt svo lengi, sem sögur fara af þeim. Trúarbrögð Azteka og Maya voru grimmileg, og ferill Spánverja var blóði drifinn (e.t.v. Bandaríkjunum að kenna?). Þessi lönd hafa verið sjálfstæð í hundrað og sextíu ár, en stjórnarfar hefur verið ótryggt og veður öll válynd. Astandið í landinu nú verður best skýrt í ljósi sögunnar og arfsins frá Spánverjum og indíánum, en ekki með árásum á helsta blóraböggul vinstri manna, Bandaríkin.
Einræðisþjóðskipulag ýmiss konar hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda, og raunar er mannkynssagan að mestu saga einræðisþjóðfélaga. Þessi þjóðfélög hafa verið og eru mismunandi að gerð. Sums staðar hefur einræðið verið harðneskjulegt, annars staðar tiltölulega milt. Skoðanakúgun hefur aldrei náð jafn langt og í alræðisþjóðfélögunum. Hefur líkamlegu ofbeldi sums staðar verið beitt, en það sýnir einmitt veikleika þessara stjórna. Andleg kúgun í alræðisríkjum er hins vegar svo alger, að líkamlegt ofbeldi ætti að vera óþarft. Því er þó iðulega beitt þar einnig, ef þurfa þykir, og þá á eftirminnilegan hátt (aðfarir Stalins, Hitler, Pol Pot o.m.fk). Einræðisskipulag er hið útbreiddasta í heiminum í dag eins og verið hefur um aldir, og ákaflega vandséð, hvernig lýðræðisþjóðum verði um það kennt. Aðgerðir einræðisstjórna beinast fyrst og fremst að virkum andstæðingum þeirra, að hluta til að lýðræðissinnum, en þó ekki síst að kommúnistum, þ.e. þeim, sem sjálfir vilja setjast í stóla pyntingarmeistaranna, hvað þeim hefur sums staðar tekist, svo sem í Indó-Kína og á Kúbu. Í þessum löndum eru þeir, sem ekki ógna beinlínis völdum einræðisherranna yfirleitt látnir í friði. Herforingjastjórnir og aðrar einræðisstjórnir sækjast oft eftir stuðningi ríkjandi kirkju, en taka þó ekki að sér hlutverk hennar að dæmi alræðisstjórna. Ná þær því aldrei algerum andlegum kverkatökum á þegnum sínum. Þær styðjas ekki við efnahagskerfi, sem beinlínis tryggir fátækt eða örbirgð þegnanna eins og alræðisstjórnir kommúnista, og ná því oft góðum efnahagslegum framförum. Þessar stjórnir eru, þó slæmar séu, tvímælalaust skárri kostur en alræðiskúgunarkerfi kommúnista. Þetta stafar ekki af því, að einræðisherrar séu upp til hópa betri menn en alræðisherrar. Skýringin er einfaldlega sú, að einræðisherrar hafa ekki á valdi sínu þá hugmyndafræði, þann Stóra sannleika, sem gerir þeim kleift að kúga þegna sína sálarlega jafnt sem líkamlega. Á síðari árum hefur þrengt mjög að einræðisstjórnum, því sótt hefur verið að þeim úr tveimur áttum, þ.e. af lýðræðissinnum og alræðissinnum, sem telja þær auðvelda bráð. Þessar stjórnir eiga sér formælendur fáa, þær bauka hver í sínu horni, en eiga ekki vísan stuðning pólitískra afla utan heimalandsins. Allir eru vondir við einræðisherra. Bandaríkin hafa þó sent nokkrum þeirra vopn, en það er eingöngu vegna þess, að einræðisherrar, þó vondir séu, eru alltaf betri kostur en alræðiskerfið. Benda má á, að einræðisríkin hafa flest nóg með sig og leitast ekki við að flytja út kúgunarkerfi sitt af trúarlegum ástæðum eins og alræðisríkin (t.d. Sovét, Kúba, Víetnam) hafa gert. Hafa ber í huga, að í stórum heimshlutum hefur aldrei þekkst annað en einræði og virkt lýðræði hefur átt erfitt uppdráttar í flestum löndum þriðja heimsins. Víða um heim, t.d. í Tyrklandi og ýmsum Suður-Ameríkulöndum hafa skipst á veikburða lýðræðisstjórnir og herforingjastjórnir. Þessar herforingjastjórnir hafa flestar haft það að yfirlýstu markmiði að skila af sér völdunum þegar eðlilegt ástand hafi komist á. Margar hafa staðið við það, en sumar ekki. Þessar stjórnir hafa þó reynst furðu veikar og hafa iðulega hrunið því nær fyrirvaralaust.
Gott dæmi um mun þessara þjóðskiplaga er að finna í sjálfu höfuðbóli alræðisins, Rússlandi. Þar ríkti um síðustu aldamót einræðisstjórn, eins og verið hafði síðan í forneskju (kannski var það Bandaríkjunum að kenna?). Þessi stjórn var á ýmsan hátt harðneskjuleg, og margir voru fangelsaðir vegna skoðana sinna. Pólitískir fangar voru þó taldir í þúsundum en ekki í milljónum, eins og síðar varð, því keisarastjórnin lét að hætti einræðisstjórna fyrst og fremst fangelsa raunverulega andstæðinga sína, svo sem Lenin, þ.e. þá, sem hún taldi ógna völdum sínum, en ofsóknarbrjálæðis á borð við hreinsanir Stalíns síðar, gætti ekki. Meðferð þessara fanga var yfirleitt önnur og betri en síðar varð. Lenin stundaði t.d. ritstörf og skotveiðar í fangavistinni. Kommúnistar eru ekki vanir að hafa hátt um þá staðreynd, að síðustu tvo áratugina fyrir fyrri heimsstyrjöld var hagvöxtur örari í Rússlandi en nokkru sinni síðar. Þeim Lenin og Stalin, sem létu fangelsa og myrða milljónir manna í nafni efnahagsframfara og fagurs mannlífs, tókst aldrei að ná jafn örum hagvexti og keisarastjórninni tókst án blóðfórna eða slagorða. Þetta er merkilegt, því hagvöxturinn er kommúnistum einkar hjartfólginn, og afsaka þeir gjarnan ódæði Lenins og Stalins með tilvísun til hans. Undir þessari stjórn, sem svo mjög hefur verið úthúðað, stóðu bókmenntir og listir með miklum blóma, og menn á borð við Dostojefski, Tsjaikovski, Tolstoj, Tsékov, Moussorgski o.m.fl. gerðu garðinn frægan. Rússar horfa enn aftur til þessarar stjórnar með óttablandinni og illa dulinni aðdáun. Keisarastjórnin var að mörgu leyti dæmigerð einræðisstjórn, meingölluð, en hefði hæglega getað þróast í átt til lýðræðis. Lýðræðissinnar náðu raunar völdunum skamma hríð árið 1917, fram að þeim atburðum, sem gjarnan eru kallaðir októberbyltingin, en það var í raun valdarán kommúnista frá lýðræðissinnum. Þar kom einmitt einkar vel í ljós, að höfuðóvinur lýðræðisins er ekki einræðið, heldur alræðið og stuðningsmenn þess. Það er ekki öllum nægilega ljóst, að Lenin hrifsaði ekki völdin af keisaranum, heldur af innbyrðis sundurþykkum lýðræðissinnum. Síðan hefur svartnætti alræðis grúft yfir Rússlandi. Segja má, að þótt einræði sé slæmt, sé þó alltaf von um bjartari framtíð, en þær þjóðir sem hafa orðið alræðinu aö bráð, hafa enga slíka von. Einræði þróast oft yfir í lýðræði (t.d. Spánn, Portúgal og Grikkland), en alræði aldrei. Einungis eitt alræðiskerfi hefur fallið á vorum dögum, þ.e. kerfi Hitlers, og hann barðist til síðasta manns. Stuðningsmenn Hitlers fara nú með veggjum.
Alræðisstjórnir nútímans eru nýtt fyrirbæri, og eiga sér varla sögulegar hliðstæður. Ef til vill má þó segja, að völd Múhameðs spámanns á sjöundu öld yfir þegnum sínum og völd kaþólsku kirkjunnar á miðöldum yfir lífi og limum manna hafi nánast verið alræðisvöld, en þó er reginmunur á: Kirkjan hafði ekki jafnframt framkvæmdavald, það var í höndum aðals og konunga, og kirkjuhöfðingjar sóttust ekki eftir konungdómi. Sæluríki kristinna manna var á himnum, en ekki fólgið í nýskiptingu eignaréttar o.fl. á jörðu.
Það telst varla tilviljun, að sósíalisminn, grundvöllur alræðisins, kemur fram þegar kenningar Darwins og almenn þróun i vísindum og tækni voru að svipta stoðunum undan heimsmynd Biblíunnar, þannig að kirkjan missti smám saman aðdráttarafl sitt. Þessi nýju trúarbrögð koma fram undir dulargerfinu vísindaleg efnishyggja. Trúarbrögðin heita nú hugmyndafræði. Nú á að skapa himnaríki á jörðu á vísindalegan hátt.
Hinn nýi Guð er sósíalisminn sjálfur, og Marx er spámaður hans. Allir vinstri menn, þótt ekki séu taldir alræðissinnar, tala með lotningu um sósíalismann. Hann er friðhelgur, þótt gagnrýna megi kenningar spámannsins og minni postula á borð við Lenin, Mao o.fl. Innbyrðis deilum vinstri manna má því mjög líkja við trúarbragðadeilur kristinna manna: Deila má um túlkunina, en enginn efast um tilveru Guðs. Gagnrýni á sósíalismann sjálfan er guðlast. Það hefur hins vegar sýnt sig, að lýðræði þolir einungis takmarkaðan skammt af sósíalisma, svipað og að unnt er að draga fram lífið þótt neytt sé eiturs daglega. Ef skammturinn verður of stór, deyr sjúklingurinn Sá kínalífselexír, sem sósíalisminn er, það töframeðal, sem á að lækna öll mannanna mein, er í raun banvænt eitur og ríður hverju því þjóðfélagi að fullu, sem of stóran skammt tekur.
Allir alræðisherrar styðjast við sósíalisma, hvort sem þeir heita Stalin, Mao, Hitler eða Pol Pot. í höndum alræðisherranna verður sósíalisminn sá Stóri Sannleikur, sem er í höndum Flokksins og Leiðtoga hans, og gerir þeim kleift að ná andlegum kverkatökum á þegnum sínum og erlendum stuðningsmönnum. Í alræðisþjóðfélögum eru bókstaflega öll völd, andleg jafnt sem veraldleg samankomin hjá þeim, sem ræður kirkjunni (Flokknum). Alræðisherrar og stuðningsmenn þeirra eru því eðli málsins samkvæmt siðlausir, eða öllu fremur siðvilltir (amoral), því þeir geta túlkað athafnir sínar að eigin geðþótta með tilvísun til þess Stóra Sannleika, sem þeir sjálfir ráða yfir. Yfir þeim vofir ekki reiði Guðs, því túlkun vilja Guðs er í þeirra eigin höndum. Þetta minnir nokkuð á hugsunarhátt Torquemada, frægasta pyntingameistara spánska rannsóknarréttarins. Hann var dagfarsprúður, afar guðrækinn maður, sem vann verk sín í þjónustu Drottins, og dó saddur lífdaga í þeirri trú, að athæfi sitt hefði verið Guði þóknanlegt. Hinn trúarlegi þáttur alræðisins er geysimikilvægur og nauðsynlegt að hafa hann í huga, ekki síst til þess að skilja, hvernig alræðisherrum, Hitler jafnt sem Stalin, Ho Chi Minh jafnt sem Pol Pot, hefur reynst auðvelt að afla sér stuðningsmanna erlendis eins og ég vík siðar að, meðan einræðisherrar eiga sér formælendur fáa.
Alræðissinnar eru einkar fundvísir á hugtök, sem hljóma vel í eyrum, og endurtaka í sífellu orð, sem þeim finnast falleg. Þeim hefur þannig tekist að ljá hugtökum eins og sósíalismi eða vinstri stefna einhvern jákvæðan blæ í augum margra, sem m.a. hefur orðið til þess að ýmsir, bæði einstakir menn og heiir stjórnmálaflokkar kenna sig við þessi fögru orð. Jafnframt hefur tekist að koma óorði á svokallaða hægri stefnu, m.a. með því að orða sósíalistann Hitler við hana. Meðal uppáhaldsorða þeirra eru t.d. lýðræði, mannréttindi, friður, verkalýður og alþýða. Í munni kommúnista eru þetta öfugmælin ein. Fangabúðir Rússa í austanverðu Þýskalandi nefnast t.d. ekki Þýska alþýðulýðveldið heldur Lýðræðislega lýðveldið, (die Deutsche Demokratische Republik). Alþýða er hvergi nefnd í nafni landsins. Mér sýnist það hljóti að vera eitthvert séríslenskt afbrigði hlutleysis til vinstri, að svo virðist, sem fjölmiðlar hér óttist þessar nafngiftir kommúnista. Sá ótti er þó ástæðulaus, því ríkisstjórnir þessara landa vilja hafa þetta svona, og nánast móðgun við Austur-Þjóðverja að kalla land þeirra Þýska alþýðulýðveldið. Pol Pot, einhver mikilvirkasti fjöldamorðingi sögunnar, kallaði ríki sitt Lýðræðis-Kampútseu, (Democratic Kampuchea). Íslenskir fjölmiðlar (sem flestir fögnuðu valdatöku hans), þorðu hins vegar ekki að nota það nafn, sem Rauðir Kmerar sjálfir ákváðu og kölluðu ríkið því Alþýðulýðveldið Kampútseu. Þá kom babb í bátinn. Víetnamar, sálufélagar Rauðra Kmera, gerðu innrás í Kambódíu. Þeir komu sér fljótlega upp leppstjórn, sem hlaut nafnið Alþýðulýðveldið Kampútsea (People's Republic of Kampuchea). Hér var úr vondu að ráða fyrir fjölmiðla.
Öfugmælafræðin er eitt megin einkenni alræðisríkjanna, en Orwell gerir vel grein fyrir henni í bók sinni 1984, sem enn er sennilega merkasta ritið um þessi vísindi. Ef nógu stórt er logið, og endurtekið í sífellu, fara menn að efast. Ef endurtekið er nægilega oft: Hvítt er svart, hvítt er svart, fara menn að hugsa: Er hvítt hvítt? Eða kannski svart? Niðurstaða alltof margra verður, að hvítt sé grátt, að sannleikskorn hljóti að leynast í lyginni. Þessir menn verða fulltrúar hlutleysis til vinstri. Þeir eru hinir nytsömu sakleysingjar, sem kommúnistar beita hvarvetna fyrir sig. Þeir neita því nú, gegn ollum rökum, að þjóðfrelsishreyfing hinnar lýðræðislegu byltingarfylkingar í El Salvador sé í raun undir stjórn kommúnista, þrátt fyrir atburðina í Nicaragua, þar sem kommúnistar hafa undanfarið verið að losa sig við þá nytsömu sakleysingja, sem studdu Sandinista til valda og komu á alræðiskerfi að kúbanskri fyrirmynd. Sagan frá Indó-Kína virðist ætla að endurtaka sig. Kórvilla þessara manna í Víetnam-málinu var fólgin í því, að þeir fóru að trúa því, að alræðissinnað kommúnistaríki á borð við Norður-Víetnam væri að berjast fyrir frelsi með hernaði í nágrannalöndum sínum. Suður- Vietnam, Laos og Kambódía voru þegar frjáls og sjálfstæð ríki þegar Ho Chi Minh hóf þjóðfrelsishernað gegn þeim. Hlutleysingjar til vinstri lögðu þannig blessun sína yfir blóði drifna útþenslu- og landvinningastyrjold Hanoi-manna. Þjóðfrelsishreyfingarnar reyndust vera þjóðkúgunarhreyfingar og jafnvel þjóðarmorðshreyfingar, eins og dæmin sanna.
Kommúnistar reyna nú að notfæra sér þjáningar fólks í El Salvador til árása á Bandaríkin, og sjálfum sér til framdráttar. Sagan sýnir, að þjáningar fólks í fjarlægum heimshlutum skipta þá því aðeins máli, að með þeim sé unnt að stuðla að framgangi sósíalismans.
Vandræðaleg þögn grúfir yfir Víetnam-málinu, skyld þeirri, sem verður á mannamótum, þegar vond lykt gýs skyndilega upp. Einhver hefur gert í buxurnar. Armæðu-vandræða og berrassabókahöfundar Norðurlanda hafa verið í sárum vegna þessa máls, en virðast nú hafa tekið gleði sína. Þeir, sem ekki hafa fundið annað skotmark hentugra til árása á Bandaríkin en Andrés Önd, sem þeir hafa veist að með offorsi miklu, hafa nú fundið El Salvador, en þar er vissulega einnig ráðist á garðinn, þar sem hann er lægstur. Fyrst á annað borð er verið að vekja athygli manna á slíkum afskekktum Krummavíkum heimsbyggðarinnar sýnist nærtækara að ræða t.d. um Laos, því þetta fólk leið einmitt sérstaka önn fyrir Indó-Kínabúa þar til fyrir fáum árum. I Laos (sem er liðlega ellefu sinnum stærra en El Salvador), fer óvígur þjóðfrelsisher Víetnama sem logi yfir akur. Sérstök áhersla er lögð á að útrýma búddatrú innfæddra og eru reist líknesi Ho Chi Minh á helgistöðum þeirra, sem fólki er sagt að dýrka í nafni hr. Max Leníns, en munkar hvíla hjá garði í fjöldagröfum. Sem kunnugt er (sbr. meðferðina á Kínverjum) eru Víetnamar kynþáttahatarar miklir, og beita þeir helst aðferðum Hitlers til að losa sig við minnihlutahópa. Þeim er ekki síst í nöp við Hmongþjóðflokkinn og strá banvænu eitri yfir þorp hans, sem innfæddir nefna gula regnið. Þessu eitri hafa Sovétmenn og leppar þeirra einnig beitt í Kambódíu, Jemen og Afganistan Laótar eiga sér nú formælendur fáa. Fréttir eru fáar og strjálar, og reynt er að varpa grun á þær. Vinstri menn og hlutleysingjar til vinstri hafa öðrum hnöppum að hneppa. Þeir, sem áður lögðu á sig ómælt erfiði og gönguferðir til stuðnings fögru mannlífi í Indó- Kína, eru nú illa fjarri góðu gamni. El Salvador skal það vera, og þeim hefur einstaklega vel tekist að beina athygli heimsins frá Indó-Kína og að blórabögglum sínum. Stórmannlegra væri það, ef vinstri menn, ekki síst félagar í vináttufélaginu við Hanoi beittu áhrifum sínum austur þar til bjargar Laótum og Kmerum.
Merkilegt er það, hvað vinstri menn og hlutleysingjar til vinstri sýna kúgun hvers konar mikið tómlæti ef hún fer fram í nafni sósíalismans. Ýmsar einræðis- og herforingjastjórnir kenna sig við sósíalisma og vinstri stefnu og njóta stuðnings Sovétmanna og leppa þeirra. Þetta eru t.d Eþíópía, Mosambik, Angóla, Sýrland, Írak, Suður-Jemen, Gínea-Bissau o.fl. Ástandið í mörgum þessara landa er síst betra en í El Salvador og sums staðar miklu verra. Þetta eru yfirleitt óvenju hrottalegar stjórnir. Þær njóta hins vegar að því er virðist friðhelgi fyrir gagnrýni vinstri manna og hlutleysingja til vinstri. Enginn hirðir um örlög þess fólks, sem verður fyrir barðinu á þeim. Nytsamir sakleysingjar krefjast þess ekki, að Alþingi álykti um ástandið í þessum löndum. Þessar stjórnir eru ekki í hópi blóraböggla vinstri manna og geta því farið sínu fram án þess að óttast gagnrýni vinstri manna eða þeirra, sem þeir hafa í taumi.
Eitt af því, sem einkennir alræðisstjórnir, og skilur þær frá einræðisstjórnum, er sú staðreynd, að þær eiga fjölda dyggra stuðningsmanna erlendis sem jafnan halda fram málstað þeirra, og draga fjöður yfir það sem miður fer. Fróðlegt hefur verið að fylgjast með málflutningi þeirra undanfarin tuttugu ár eða svo. Nú má enginn skilja orð mín svo, að þetta fólk sé einhverjar ófreskjur. Því fer víðs fjarri. Yfirleitt er hér um að ræða vammlaust fólk og góðviljað. í röðum þess má jafnvel finna nánast heilaga menn. Orð þess og athafnir verða einungis skýrð í ljósi hins trúarlega inntaks alræðisins. Þannig er varasamt að leggja siðferðilegt mat á stuðningsmenn alræðis, því þeir haga sér, eins og fyrr sagði samkvæmt því siðferði, sem þeir búa til sjálfir, til að ná fram baráttumálum sínum, og er yfirleitt alls ekki ljóst, að neitt sé athugavert við framferði sitt (sbr. Torquemada). Guð er með þeim. Til skamms tíma studdu þessir menn alræðiskúgun kommúnista undanbragðalaust hvar sem var í heiminum. Til þess arna eyddu þeir gífurlegri orku og prentsvertu, og margir dálkakílómetrar finnast á söfnum því til staðfestingar. Ástæðulaust er að gleyma þessu. Þjóðvilji fyrri ára er nú sú beinagrind í fataskáp kommúnista, sem þeir helst vilja gleyma. Nokkrir jónmúlar halda enn tryggð við þessa stefnu, og er þeirra afstaða karlmannlegust. Þeir verða e t.v sakaðir um tvöfalt siðgæði, en síður um hræsni. Allir vita hvar þeir standa Margir úr röðum kommúnista hafa dvalið langdvölum í sæluríkjum austan tjalds, og ættu því að vera hnútum þar kunnugastir. Merkilegt var og er það tómlæti, og jafnvel fjandskapur, sem þeir hafa sýnt þeim fáu ofurhugum, sem þora að berjast fyrir mannréttindum í löndum, sem enn búa við svartnætti alræðis, ekki síst þeim, sem eru andstæðingar sósíalisma sem slíks. Það virðist ekki vera fyrr en andstaðan er komin á það stig, að nánast jafngildir pólitísku sjálfsmorði, að taka málstað sovétvaldsins, eins og í Tékkóslóvakíu á sínum tíma og nú í Póllandi, að rokið er upp til handa og fóta og kveðjast menn allt í einu hafa fundið sitthvað athugavert við framkvæmd sósíalismans, en þó einungis í því landi, sem er á oddinum hverju sinni. Þeir kveðjast nú styðja Samstöðu í Póllandi. Verkalýðsleiðtogar úr þeirra röðum fara þó austur fyrir tjald á fund opinberra verkalýðsfélaga austur þar, sem beinlínis eru stofnuð til höfuðs verkamönnum. Erfitt er að hugsa sér að vestrænir verkalýðsleiðtogar þægju boð frá hliðstæðum verkalýðsfélögum, sem einræðisstjórnir ráða t.d. í Suður-Ameriku, eða að vináttufélög yrðu stofnuð við slíkar stjórnir.
Þessi vináttufélög eru merkileg fyrir margra hluta sakir Með þátttöku í þeim vilja kommúnistar sýna hollustu sína við viðkomandi alræðisstjórn. Félagar í slíkum samtökum geta með engu móti skorast undan að teljast stuðningsmenn alræðis. Má hugsa sér viðbrögð þeirra, ef vináttufélög yrðu hér stofnuð við einræðis- og herforingjastjórnir, t.d í Suður- Ameríku. Félög þessi eiga m.a. að annast menningartengsl. T.d. eru fengnir listamenn, sem eru stjórnvöldum þóknanlegir, og látið í það skína, að hér sé um samskipti alþýðu landanna að ræða. Í heimalandinu er síðan látið svo, sem félagar vináttufélagsins túlki hinar réttu skoðanir almennings í viðkomandi vestrænu ríki Samtök af þessu tagi eru þannig beinlínis stofnuð til stuðnings alræðisstjórnunum, og til höfuðs þegnum þeirra. Félagar í vináttufélögum við t.d. Kúbu, Kína, Víetnam, Sovét eða Albaníu munu seint krefjast þess, að grundvallarmannréttindum verði komið á í þessum löndum, hvað þá að þar verði stofnuð frjáls verkalýðsfélög. Öfugmælafræði alræðisherranna gætir einnig mjög í málflutningi erlendra stuðningsmanna þeirra. Þeir, sem láta sig örlög þjóða Austur-Evrópu, Indó-Kína, Sovétríkjanna, Norður-Kóreu, Kína eða Kúbu engu skipta, saka gjarnan andstæðingana um mannhatur. Þeir, sem hvetja til blóðsúthellinga í nafni þjóðfrelsis, kenna sig gjarnan við frið. Meistarar persónuníðs ásaka mótherjana fyrir dólgshátt, ef þeim þykir á sig hallað Þeir sem sjálfir ala á hatri milli þjóðfélagshópa heima og erlendis, hrópa hæst um hatursáróður. Þeir sem eru í sérstöku vináttusambandi við alræðisríki, saka andstæðinga sína um tvöfalt siðgæði. Þannig mætti endalaust halda áfram.
Nú eru dregin fram kröfuspjöld og blóðlitaðir fánar. Það er löngu kominn tími til, að lýðræðissinnar geri sér grein fyrir því, að höfuðóvinir þeirra eru ekki máttvana herforingjastjórnir, heldur alræðið og stuðningsmenn þess.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:39 | Facebook
Athugasemdir
Sæll vertu,
Þetta var skemmtileg og áhugaverð lesning.
Þakka þér kærlega fyrir að hafa birt hana.
Kveðja
Stefán Gestsson
Stefán Gestsson (IP-tala skráð) 24.4.2010 kl. 12:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.