Laugardagur, 12. júní 2010
Wikileaks : launaðir njósarar eða nytsamir sakleysingjar?
Gróa á Efsta- Leiti, eins og Þórarinn Eldjárn hefur sagt svo hnyttilega um fréttastofu RÚV, (eða, ef menn vilja, Egil Helgason) vill nú leggja sitt af mörkum til að grafa undan hagsmunum Vesturlanda og spilla enn samskiptum við Bandaríkin, eins og þau Ólafur Ragnar, Ingibjörg Sólrún, Össur og Jón Baldvin hafi ekki unnið nægilega gott starf í þá veru. Það er ljóst að stofnunin styður heilshugar undirróðurs- og njósnastofnunina Wikileaks og ýmislegt bendir til að íslensk stjórnvöld hyggist beinlínis skjóta skjólshúsi yfir þessa flugumenn og njósara, allt í nafni tjáningarfrelsis. Vestanafs verður þetta án nokkurs vafa túlkað sem enn eitt óvinabragðið og einn nagli til viðbótar í líkkistu samskipta Íslands og Bandaríkjanna.
Gagnrýni er ekki aðeins nauðsynleg, heldur beinlínis einn helsti undirstöðuþáttur lýðræðis, og því er tjáningarfrelsið lífsnauðsyn. Tjáningarfrelsið má ekki skerða. Gagnrýni er varnarkerfi þjóðfélagsins á sama hátt og ónæmiskerfið er varnarkerfi mannslíkamans. En í sumum sjúkdómum snýst ónæmiskerfið gegn sjálfum líkamanum. Þetta gerist t.d. í gigtarsjúkdómum. Þá ræðst ónæmiskerfið á vöðva og liði, og hindrar þannig eðlilega hreyfigetu líkamans án þess að drepa hann. Allra verstur er þó sá sjúkdómur, eyðni, þar sem ónæmiskerfið ræðst á sjálft sig. Þeir sem ættu að verja líkamann fá röng skilaboð, ráðast á sjálft ónæmiskerfið og fremja þannig sjálfsmorð.
Síbyljuárásir hinna hófsamari vinstri manna á Bandaríkin og málstað Vesturlanda, sem t.d. má heyra og sjá hjá Amnesty, fréttastofu RÚV og raunar flestöllum stærri fjölmiðlum hin síðari ár líkjast meira árásum ónæmiskerfisins í gigtarsjúkdómum. Þær skaða Vesturlönd og Bandaríkin, en drepa ekki. Kommúnismi, nasismi og islamismi, kenningar, sem afneita sjálfum grundvelli lýðræðisins. eru annað og verra. Þeir nota ónæmiskerfið, þ.e. gagnrýnina og tjáningarfrelsið beinlínis til að tortíma sjálfu þjóðfélaginu sem þeir lifa í.
Vinstri róttæklingarnir sem standa að Wikileaks, tilheyra síðari hópnum, eins og eyðniveiran. Þeir, án þess að gera sér grein fyrir því sjálfir, nota frelsið til að drepa frelsið, með því að ganga alveg kinnroðalaust erinda óvinanna. Þeir gorta sig nú mjög af myndbandinu fræga, þar sem gamall atburður, að vísu hryggilegur var rifjaður upp og skellt á sjónvarpsskjái um allan heim við mikinn fögnuð islamista hvarvetna. Tilgangurinn var einn og aðeins einn: Að vekja hatur og espa upp fólk gegn Bandaríkjamönnum. Jafnframt gátu Wikileaks- menn barið sér á brjóst í einfeldni sinni og sagt eins og fariseinn: Sjáið þið mig! Ég er sko ekki eins og þeir!
Spurningin er hins vegar þessi: Fá Wikileaks-menn greitt frá óvinum Vesturlanda, t.d. í Íran eða annars staðar fyrir að vera í þjónustu þeirra, m.a. með því að ljóstra upp ríkis- og hernaðarleyndarmálum? Ég hallast að því að svo sé ekki. Mér sýnist líklegra, þótt hitt sé ekki útilokað, að starf þeirra í þágu islamista og hatursmanna Bandaríkjanna og Vesturlanda sé unnið í sjálfboðavinnu.
Það þarf ekki að koma á óvart að Wikileaks - menn njóta aðdáunar vinstri- undirmálslýðs, fólks af því tagi, sem kaus Jón Gera Narr í síðustu borgarstjórnarkosningum. Lágkúran nær kannski hámarki hjá þeim sem skrifa athugasemdir við blogg Gróu á Efsta- Leiti, Egils Helgasonar, en Egill hefur lýst yfir áköfum og fullum stuðningi við undirróðursstarf Wikileaks- manna. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Menn muna kannski að fyrir nokkru reyndi Egill að gera landi sínu álitshnekki og vinna því fjárhagslegt tjón með bréfaskriftum til stofnunar, Transparency International sem leggur mat á spillingu. Erlendir fjárfestar, aðilar og stofnanir taka álit TI mjög alvarlega, auk þess sem mat stofnunarinnar hefur áhrif á almennt álit útlendinga á Íslandi.
Sagði Egill stofnunina meta spillinguna of lága. Hún verði að bæta sig og gera útlendingum, ferðamönnum, erlendum fjárfestum og öðrum sem hingað koma ljóst, að Ísland sé gjörspillt. Rógur af þessu tagi hefur örugglega valdið þjóðinni gífurlegu fjárhagslegu tjóni auk álitshnekkisins. Þannig er t.d. öruggt, að erlendur fjárfestir, sem tekur mark á Agli, mun aldrei leggja fé í neitt sem íslenskt er.
Það eru liðin mörg ár síðan ég hætti að líta svo á, að háttalag vinstri manna mætti einungis skýra með hliðsjón af marxisma/sósíalisma. Þeir eru fyrst og fremst það, sem áður fyrr var stundum kallað niðurrifsöflin og eiga sér andlega forfeður langt aftur í aldir, frá því löngu, löngu áður en sósíalismi eða marxismi urðu til. Þeir eru innri óvinir Vesturlanda og styðja því ávallt ósjálfrátt og nánast sjálfkrafa ytri óvini þeirra, hverju nafni sem þeir nefnast. Hatrið á eigin þjóðfélagi verður því afdráttarlausari, þeim mun lengra til vinstri, þ.e. róttækari, sem þeir teljast. Það er nefnilega ekki draumurinn um betri heim, sem knýr vinstri manninn til dáða, eins og þeir sjálfir og margir aðrir ímynda sér, heldur hatrið á eigin þjóðfélagi. Þarna gildir reglan, óvinur óvinar míns er vinur minn. Hver sá einræðis- eða alræðisherra, ofbeldis- eða hryðjuverkahópur, sem hatar Vesturlönd og beitir sér gegn þeim á vísan stuðning, eða a.m.k. samúð þessa fólks.
Vinstri menn lentu í sálarkreppu við fall alræðis og gúlags 1989-1991. Í alræðisherrum kommúnistaríkjanna höfðu þeir séð vini, sem eins og þeir sjálfir hötuðu og vildu kollvarpa og tortíma þjóðfélagi Vesturlanda. Það mistókst og nú leitar ný kynslóð sér nýrra bandamanna meðal hinna ýmsu hryðjuverkahópa og hatursmanna Vesturlanda í þriðja heiminum.
Að sjálfsögðu fá Talibanar og Al- Qaida vinsamlega, mildilega umfjöllun hjá fréttastofu RÚV, Amnesty og öðrum þeim stofnunum sem sigla undir fölsku flaggi hlutleysisi en eru í raun útbreiðslu- og útungunarstöðvar vinstri manna. Islamistar hata jú Bandaríkin og Vesturlönd og eru því samherjar.Vinstri menn reyna líka að gera sem minnst úr atburðunumm 11. september 2001 og jafnvel hafa sumir látið að því liggja, að Al- Qaida sé ímyndun ein, uppfinning CIA og annarra bandarískra illmenna. Þetta er þó ekki (ennþá) beinn stuðningur, heldur er reynt eftir mætti að verja ódæðin og kenna hinum raunverulegu illmennum: Bandaríkjamönnum. Róttækir vinstri menn hafa enn ekki gengið svo langt að stofna sérstök vináttufélög við Hamas, Hizbollah, Talibana og Al- Qaida, eins og þeir gerðu fyrr á árum við Stalín, Mao, Kim Il Sung og Pol Pot, en að því kann að koma. Það leynir sér hvergi hvar samúðin er. Islamistar vilja gera Bandaríkjunum, hinum mikla Satan og Vesturlöndum allt til miska eins og þeir. Óvinur óvinar míns er vinur minn.
Til dæmis er einn harðasti stuðningsmaður Rauðra Kmera á Íslandi Hjálmtýr Heiðdal, sem á sínum tíma skrifaði margar og langar greinar í Moggann til stuðnings við Pol Pot og morðingjana þegar blóðbaðið stóð sem hæst, nú orðinn ein aðalsprautan í félaginu Ísland- Palestína, og vinur Hamas og Hizbollah. Eins og feministar og hómósexúalistar ættu að vita hafa Hamas lýst yfir Sharia- lögum á Gaza. Konur sem ekki ganga með blæju eru hýddar og hommar pyntaðir og/eða hengdir í næsta ljósastaur. En þetta eru óvinir Bandaríkjanna og Vesturlanda og njóta því velþóknunar og samúðar vinstra fólks hvarvetna.
Bandaríkjahatrið, sem ný kynslóð vinstra fólks á sameiginlegt með andlegum (og oft einnig líkamlegum) forfeðrum sínum, kemur víða fram. Afstöðu vinstri manna til Bandaríkjanna svipar reyndar mjög til afstöðu sníkilsins til hýsils síns. Rótttækir vinstri menn af eldri kynslóð voru gjarnan nánast helteknir af jazz og fleiri þáttum bandarískrar menningar, en studdu af alefli Stalin og aðra þá sem vildu tortíma Bandaríkjunum. Þessi tvískinnugur er enn meira áberandi meðal hinnar nýju kynslóðar. Hugarheimur þessa fólks er að miklu leyti skapaður í Bandaríkjunum, ekki síst sú pólitíska rétthugsun, sem þeir aðhyllast af alefli, en þeir, eins og raunar bandarískir vinstri menn sjálfir, gera samtímis allt sem í þeirra valdi stendur til að níða, sverta og svívirða Bandaríkin. Sníkillinn nærist á hýsli sínum en vinnur honum jafnframt tjón.
Lítilmótlegur hugsunarháttur þessa fólks kemur oft fram í bloggheimum, t.d. hef ég fengið yfir mig óbótaskammir þegar ég hef gert athugasemd við eitthvert af áhugaefnum þeirra.
En við Wikileaks- menn vil ég segja þetta: Íslensk stjórnvöld hafa varla afl til að vernda ykkur, þótt ekki skorti viljann. Hættið líka að stunda iðju ykkar ókeypis. Farið heldur á fund þeirra sem geta og vilja örugglega borga ykkur vel, raunverulegra vina ykkar við botn Miðjarðarhafsins. Þar hafa margir djúpa vasa og geta verndað ykkur betur. En látum það ekki vitnast um heiminn að Íslendingar gangi erinda Írana, Al Qaida, Haimas, Hizbollah og annarra slíkra. Nóg er samt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll; Vilhjálmur !
Ég vildi bara minna þig á; að Bandaríkin eru, viðlíka Evrópusambandinu, jafn fjandsamleg Íslendingum - sem íslenzkum hagsmunum, þegar á Hólminn er komið.
Mér finnst virðingarvert; af hálfu þeirra Wíkileka manna, að fletta rækilega, og sem oftast, ofan af ráðabruggi gömlu nýlenduveldanna - sem og upplýsa og fræða, um tilgangslausan hernað, á hendur fremur uppburðarlitlum pokabuxnaklæddum Afghönum og Írökum, til dæmis, sem eru ekki nokkur ógn, við okkar heimshluta.
Alexander mikli - Rússar og Bretar, auk ýmissa annarra, hafa reynt að koma á einhvers konar skipulagi, í þessum löndum, sem víðar, eins og þú veist - og aldrei haft erindi, sem erfiði.
En; hver er árangurinn, Vilhjálmur ?
Væri ekki rétt; að biðja ''vinaþjóðir'' okkar, Breta og Hollendinga um kvittanir, fyrir uppgjöri þeirra, við gamlar nýlendur þeirra, áður en Íslendingar svo mikið, sem hæfu máls á, að greiða Ísþræla (Icesave´s) reikningana, ágæti drengur, til dæmis að taka ?
Að lokum; vil ég benda þér á, að Persía (Íran), líkt og Ísrael, eru þróttmestu samfélög Vestur- Asíu í dag, svo; til haga skuli haldið.
Einu vandkvæðin þar á; eru trúarkenningar þær, sem ríkja, í þeim ágætu löndum. Væru annars; komin mun lengra, líkt og margar þjóða Austur- Asíu, eins og þér er kunnugt, svo sem.
Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 12.6.2010 kl. 20:14
Athugasemd þín er merkileg, eins og alltaf, Óskar. Um pólitík vil ég þó ekki ræða. Annars var amma mín fædd á Reykjum á Skeiðum, svo ég er líka svolítill Árnesingur. Kveðja í Árnesþing.
Vilhjálmur Eyþórsson, 12.6.2010 kl. 20:22
Heill; á ný, Vilhjálmur !
Þó svo; þú viljir ekki ræða stjórnmálalegu hlið málanna - þætti mér forvitnilegt að sjá, af hvaða meið Reykjaættarinnar, á Skeiðum suður, þú munir vera.
Með beztu kveðjum; á ný /
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 13.6.2010 kl. 02:54
Sjúklegur tvískinnungsháttur, en einnig frumstæðustu kenndir mannsins öfund og hatur. Frábær pistill nafni!
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.6.2010 kl. 05:41
Óskar! Móðuramma mín hét Þórdís Þorsteinsdóttir, ein fjölmargra systkina á Reykjum, en maður hennar og afi minn sem ég heiti eftir, hét Vilhjálmur Vigfússon, fæddur norður í Húnavatnssýslu, en þó einnig ættaður af Skeiðunum. Annars er ég fremur linur í ættfræði.
Vilhjálmur Eyþórsson, 13.6.2010 kl. 09:47
Orð í tíma töluð. Góður pistill hjá þér
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 13.6.2010 kl. 11:21
Það vakti furðu mína er RÚV sendi sveit féttamanna á kostnað landsmanna til ÍRAK nýverið til að gera sérstaka frétt um eitt tiltekið atvik úr stríðinu þar í landi.
Júlíus Valsson, 13.6.2010 kl. 13:43
Einkum þegar haft er í huga að ár voru liðin síðan atvikið átti sér stað.
Vilhjálmur Eyþórsson, 13.6.2010 kl. 13:47
Heill og sæll Vilhjálmur
Hversvegna skyldi ég ekki hafa haft spurnir af því trúarástandi sem Hamas hefur komið á á Gaza? Ég hef hvergi séð þessu haldið á loft í íslenzkum fjölmiðlum. Ég velti fyrir mér af hverju ?
Ég var svo ánægður með Wikileaks þegar þeir birtu lánabók Kaupthings að ég hef haft stofnunina í hávegum. Ég hef ekki áttað mig á því hlutverki sem þú lýsir. Á agli Helgasyn hef ég átað mig og liðinu sem honum fylgir. En hvað með þennan Heiðdal ? Þarf ekki að rifja upp einhver skrif þessa manns ?
Halldór Jónsson, 15.6.2010 kl. 07:41
Heiðdal, Atli Rúnar Halldórsson o.fl. skrifuðu greinar í Moggann og fleiri blöð til liðs við þjóðarmorðingja Pol Pots, eins og menn geta kynnt sér á Tímarit.is. Þetta með lánabók Kaupþings er aðeins aukageta. Wikileaks- menn eru fyrst og fremst einfaldlega njósnarar og vinstri- undirróðursmenn sem beita mest öllu afli sínu gegn Vesturlöndum og hagsmunum þeirra.
Vilhjálmur Eyþórsson, 15.6.2010 kl. 12:40
Sæll Viljálmur. Hef verið að fylgjast með þessum Wikileaks félögum á netiu aðeins. Held að þú hafir tekið aðeins rangan pól í dæmið. Þeir eru helst í því að bera fram það efni sem þeim berst. Ef það eru bandaríkjamenn að skjóta saklaus, þá er það þar. Ef það eru Talibanar að skjóta einhverja, þá er það lík þar. Stóri munurinn er einfaldega sá að þegar Talibanarnir skjóta einhvern og það er til video af því, þá er það þegar sýnt á CNN. Þegar myndavélar úr þyrilvængjum bandaríkjana taka þær myndir þá reyna þeir að fela þetta eins og best er hægt. Ég held að það sé viss kostur af kerfi sem þessu, þar sem þeir sem slæma samvisku hafa yfir Kaupþingi eða manndrápum, geta komið uppýsingum á framfæri án þess að upp um þá komist.
Jón "Nonni" (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 00:35
Andskoti ertu frábær í að skrifa Vilhjálmur. Synd að þú skulir vera laumukommi, ergilegur og hafa allt á hornum þér. Wikileak reynir að fá fram upplýsingar um moldvörpustarfsemi stórveldanna, enn þú talar fyrir eins mikilli ritskoðun og hægt er þó þú haldir fram hinu gagnstæða...prófaðu að skrifa það sem þú meinar og meina það sem þú skrifar. Amen.
Óskar Arnórsson, 30.7.2010 kl. 18:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.