Grýlubörnin meðal okkar




Þessi fyrri grein um Amnesty hét í Mogganum "Snemmbúin minningargrein", (um Castro), en mér finnst réttara að kalla báðar þessar greinar saman "Grýlubörnin meðal okkar", því börn Rússa- Grýlu ganga enn ljósum logum hvarvetna í þjóðfélaginu. Þetta er fólkið, sem studdi alræðisöflin, kúgarana, þjoðarmorðingjana og böðlana í kalda stríðinu, en reynir nú, með ótrúlega góðum árangri að þurrka út söguna, og þar með sína eigin fortíð. Eitt ættu menn að hafa í huga: hjalið um "lýðræði" og "mannréttindi" hefur streymt í óstöðvandi síbylju úr þessari átt í  marga áratugi. Það hljómaði alveg jafn hátt þegar stuðningur vinstri manna við kúgarana var grímulaus.
Eins og fram kemur í greinunum tveimur var það þátttaka æðstu forningja Alþýðubandalagsins í Amnesty, sem fyrst vakti athygli mína á því, hvernig komið var fyrir þessum samtökum, sem höfðu byrjað svo vel undir stjórn stofnandans, Peters Benenson.

Geislabaugurinn, sem þeir stálu af Benenson er núna orðinn skáldaður og snjáður. Þessi samtök eru í mínum augum ekki einungis sérlega ógeðfelld, heldur beinlínis ógeðsleg, eftir að algerlega virkir, yfirlýstir, skjalfestir og óumdeildir stuðningsmenn og aðdáendur kúgunar, en það hljóta stofnendur og liðsmenn sérstakra "vináttufélaga" að teljast, fóru að predika á fundum Amnesty um "lýðræðið" og "mannréttindin".




Ég skrúfaði frá útvarpinu eitt síðdegi á fyrsta desember fyrir nokkrum árum, en þá stóðu að vanda yfir hátíðahöld stúdenta, að sjálfsögðu undir yfirskriftinni: “Gegn fordómum”. Ræðumaður, fulltrúi homma, fjallaði um “fordóma” í íslenskum fjölmiðlum. Hann tiltók alveg sérstaklega sem dæmi um “fordóma”, að einn ágætur fréttamaður ríkissjónvarpsins hafði nokkru áður bent á, að Castro hefði um áratuga skeið getað verslað við flestöll lönd heims, önnur en Bandaríkin, auk gífurlegs fjárausturs Sovétmanna til hans. Fátæktin og kúgunin á Kúbu væri því ekki Bandaríkjamönnum að kenna, eins og er almenn skoðun vinstri manna, og hefur verið sagt í sumum skýrslum Amnesty, heldur af sama toga og fátæktin, eymdin og kúgunin í öllum öðrum löndum kommúnista.

Þarna var ísleskur hommi að segja fólki, sem var svo ungt, að foreldrar sumra voru ekki fæddir þegar Castro hrifsaði völdin á nýársdag 1959, að gagnrýni á harðstjórann væri “fordómar”. Mér finnst gaman að svona. . Það er skemmtilega “kinkí”, og hét í mínu ungdæmi “að kyssa vöndinn”.Það gefur líka innsýn í hugarheim vinstri mannsins, enn á 21.öld. Hver sagði að kalda stríðinu væri lokið?

Þetta kom þó ekki á óvart.. Ég var þarna nýkominn heim eftir langa dvöl á Spáni, en þar hafði ég nokkrum árum fyrr séð í sjónvarpi viðtal við kúbanskan homma, sem sagði farir sínar ekki sléttar af þingi “baráttusamtaka” homma í Svíþjóð.
Á þinginu reyndi hann að skýra fundarmönnum frá pyntingunum, nauðgununum og svívirðunni sem hann varð fyrir í fangabúðum Castros vegna kynhneigðar sinnar, þar á meðal rafmagnspyntingum, en Guantánamo er trúlega eina fangelsið á Kúbu, þar sem rafmagnspyntingar eru ekki stundaðar. Viðbrögð fundarmanna í sænsku homma-“baráttusamtökunum” voru merkileg.

Hann var hrópaður niður og kallaður “CIA- agent” og “fasisti”. Maðurinn var gráti næst þegar hann sagði frá þessu, því hann kvaðst ávallt hafa talið sig vinstri mann.

Ofsóknir Castros gegn hommum eiga sér nefnilega enga hliðstæðu í gjörvallri veraldasögunni síðan á dögum Hitlers. Ég minnist þess vel, að um þær var oft talað í skýrslum Amnesty á sjöunda áratugnum, meðan stofnandinn, Benenson, var enn við völd og samtökin marktæk. Ég minnist þess líka, að þá voru pólitískir fangar á Kúbu taldir um 70.000, miklu fleiri en dúsuðu í öllum dýflissum allra hinna ýmsu “hægri sinnuðu” herforingja og pótintáta annars staðar í Mið- og Suður- Ameríku samanlagt. Þetta var að sjálfsögðu löngu áður en forysta Alþýðubandalagsins (nú Samfylking og VG) gekk í Amnesty á áttunda og níunda áratugnum, en eins og allir geta séð í Þjóðviljanum frá þessum árum (finnst í Þjóðarbókhlöðu og víðar) voru þar í fararbroddi stofnendur og liðsmenn fjölmargra “vináttufélaga”, sérstakra stuðningshópa íslenskra manna við ýmsa miskunnarlausustu harðstjóra og böðla samtímans, þar á meðal “Kúbuvinafélagsins”. Hliðstæð þróun varð hvarvetna erlendis eftir að Benenson var endanlega hrakinn frá völdum 1973.
Á sjöunda áratugnum var stofnandinn, hins vegar við völd og samtökin marktæk. Amnesty voru þá enn hjálparsamtök, ekki “baráttusamtök”, ætluð til að ná fram pólitískum markmiðum félaga sinna, fyrst og fremst með því að ala á hatri á Bandaríkjunum. Þar ber hæst árásir Amnesty á bandarískan almenning, sem situr í kviðdómum og fellir stundum dauðadóma yfir morðingjum.

En víkjum aftur að Castro. Hann er nú hættur að bleyta smjörið. Hans verður sárt saknað af vinum hans og verndurum, “lýðræðis”-postulum og “mannréttindafrömuðum” á vinstra kanti, utan og innan Amnesty.

Afstaðan til Castros myndar enn í dag vatnaskil milli hægri og vinstri. Sá sem segir sannleikann um þenna siðvillta böðul er hægri maður. Vinstri maður er sá sem ber blak af ódæðisverkunum eða reynir að kenna Bandaríkjunum um, og þeir sem lengst eru til vinstri (“róttækastir”) beinlínis styðja harðstjórann og dá. Enn á 21. öld myndar afstaðan til Castros allra skýrustu víglínuna milli hægri og vinstri. Hans verður, sem fyrr sagði, sárt saknað.

Þótt 16 ár séu liðin síðan Rússa- Grýla gafst upp á rólunum á jólunum 1991 með upplausn Sovétríkjanna, eru Grýlubörnin enn á meðal vor, Leppir og Skreppir í stjórnmálum og fjölmiðlum og Leiðindaskjóður í menningarlífinu. Völd þeirra eru gífurleg hvarvetna í þjóðlífinu, og þeim hefur furðu vel tekist að stimpla hvern þann sem rifjar upp þeirra eigin fortíð sem “kaldastríðshermann”. Nasistar komast ekki upp með slíkt, en nasistar ganga ekki heldur í Amnesty.

Nasisti, sem gengi í Amnesty yrði örugglega rekinn úr Flokknum.



Þegar fyrri greinin hafði birtst kom í Mogganum áminning til mín frá Amnesty- forkólfunum í yfirlætislegum, föðurlegum tón.
 Ég skrifað þessa síðari grein samdægurs, þótt Mogginn þyrfti hálfan mánuð til að birta svarið.



                              Svolítið meira um Amnesty   

Þegar breskur lögfræðingur, sem nú er nýlátinn, Peter Benenson, stofnaði Amnesty 1961 vakti fyrir honum að stofna hjálparsamtök, sem ekki berðu sér á brjóst í heilagri vandlætingu, heldur hjálpuðu þeim, sem sættu ofsóknum stjórnvalda og sætu í fangelsi vegna skoðana sinna. Hann forðaðist þó boðbera vopnaburðar og ofbeldis, því hann vissi vel, að ekki eru allir svonefndir “samviskufangar” saklausir fulltrúar lýðræðis og mannréttinda. Margir “samviskufangar” hafa beitt ofbeldi og hvetja til styrjalda, ofbeldisbeitingar og þjóðskipulags, þar sem allt lýðræði og öll mannréttindi eru fótum troðin. Þeir Lenin, Stalin og Hitler voru t.d. allir “samviskufangar” á sínum tíma, fangelsaðir vegna skoðana sinna.
Þetta vakti andstöðu vinstri sinnaðra “aðgerðarsinna”, sem fljótlega þyrptust í samtökin, Benenson var hrakinn út í horn, og lauk svo að hann hætti alveg afskiptum af Amnesty 1973. Foreldrar eru alltaf tregir til að afneita börnum sínum og hann mun aldrei hafa fordæmt valdaræningjana opinberlega, mætti á afmælishátíðir og kveikti á kertum, en það duldist engum, að hann hafði fullkomna andstyggð á stefnu hinna nýju herra, sem breyttu Amnesty í þann nánast marklausa, og heldur ógeðfellda þrýstihóp vinstri manna, sem samtökin eru nú og hafa lengi verið.
Umskiptin voru að mestu orðin þegar valdaræningjarnir tóku við friðarverðlaunum Nóbels 1977, ekki fyrir störf sín, heldur Benensons. Upp úr því hófst herferðin mikla gegn Íranskeisara, sem var kunnur stuðningsmaður Bandaríkjanna. Ástand mannréttindamála í Íran var vissulega slæmt, en þó engu verra en í nágrannalöndum sem Amnesty þagði um, svo sem Írak og Sýrlandi, þar sem stjórvöld voru alfarið á bandi Sovétmanna.
Merkilegri var þó þögnin háværa, sem fylgdi í kjölfarið eftir að “ástmögur Amnesty”, Khomeini erkiklerkur, náði völdunum og blóðbaðið hófst fyrir alvöru. Upp úr því sneri Amnesty sér beint að Bandaríkjunum sjálfum, þ.e. almenningi, sem þar situr í kviðdómum og fellir sjálfur dauðadómana í landi þar sem yfirgnæfandi stuðningur er við dauðarefsingar, líka í þeim ríkjum, þar sem fylkisþingmenn hafa afnumið þær í óþökk kjósenda sinna. Því má bæta við, að ólíkt því annars staðar gerist eru dómarar, saksóknarar og lögreglustjórar kjörnir fulltrúar almennings í Bandaríkjunum, ekki valdir af stjórvöldum og í raun verkfæri þeirra eins og á Íslandi, Kúbu og flestöllum öðrum löndum heims. Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi bandarísks réttarfars eða stuðningsmaður dauðarefsinga, en hvers vegna lýsti núverandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar því yfir fyrir nokkru, þegar fjöldamorðingi einn var tekinn af lífi samkvæmt fyrirskipun hóps samborgara sinna í kviðdómi, að “bandarísk stjórnvöld” hefðu “myrt” morðingjann?
Hvers vegna ber Amnesty athugasemdalaust saman aftökur í Kína, þar sem menn eru teknir af lífi fyrir að hafa stolið svíni, eða í Íran þar sem konur eru grýttar til bana af því að eiginmaðurinn segir þær ótrúar, og aftökur þeirra sárafáu bandarísku morðingja, sem allra viðbjóðlegustu glæpina hafa framið og eru fyrirskipaðar af kviðdómi, skipuðum almennum borgurum? Amnesty heyrir ekki neyðar- og kvalaóp kvennanna eða grát barnanna, sem þessir illvirkjar hafa nauðgað, pyntað og myrt. Samúðin er öll með ódæðismanninum, þ.e. sé hann bandarískur.
Irene Khan, aðalritari Amnesty International , lagði nýlega að jöfnu fangabúðirnar í Guantánamo, þar sem miskunnarlausir Al- Qaida- liðar og tilvonandi sjálfsmorðs- morðingjar eru hafðir í haldi, menn sem eru reiðubúnir til að myrða fangaverði sína þó það kosti þá sjálfa lífið, og Gúlag Stalins, þar sem milljónir saklausra manna og kvenna voru myrtar með köldu blóði vegna þess að vera taldir á annari skoðun en harðstjórinn.
Hver tekur mark á slíkum samtökum? Meira að segja því kunna vinstra- blaði, Washington Post, ofbauð þessi “samanburðarfræði”. Og hvers vegna talar Amnesty nú bara um Guantánamo? Hvað með þá vesalings menn, sem sæta pyntingum í öðrum fangabúðum á Kúbu og hafa ekkert til saka unnið annað en kynhneigð sína? Er það kannski vegna þeirrar staðreyndar að liðsmenn “Kúbuvinafélagsins” hafa um langt skeið verið í Amnesty? Hvað veit ég?
Það var á árunum í kringum 1980 sem ég varð þess fyrst var á smáauglýsingasíðum Þjóðviljans, að sömu menn, úr forystusveit Alþýðubandalagsins (nú Samfylking og VG) voru að auglýsa fundi í “vináttufélögum”, stuðningshópum við stjórnvöld á t.d. Kúbu, í Austur- Þýskalandi, Sovétríkjunum (MÍR), Víetnam, Albaníu, Norður- Kóreu, o.s.frv. og fundi í Amnesty, þar sem þeir höfðu gjarnan framsögu um “lýðræði” og “mannréttindi”. Þjóðvilinn liggur fyrir, og ekki þarf um þetta að deila. Þetta fólk er enn í fullu fjöri og ég veit ekki til að það hafi sagt sig úr Amnesty, þótt “vináttufélögunum” hafi fækkað.
Ég lít svo á, að þeir, sem telja sig geta starfað að mannréttindamálum við hlið fólks sem starfar eða hefur starfað samtímis í skipulegum stuðningshópum við stjórnir af þessu tagi viti einfaldlega ekki hvort þeir séu að koma eða fara.
Í sporum þeirra mundi ég fara.


















« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband