Þjóð vill, þá þrír vilja

Ég var að gramsa á netinu og fletti þar m.a. upp sjálfum mér og fann þá þetta gamla “bréf til blaðsins” frá því uppistandið mikla var í kringum auglýsinguna frægu í New York Times. Gyðingarnir, sem eiga blaðið eru ákafir stuðningsmenn Ísraels og veita fé þangað. Það er öruggt, að eitthvað af peningunum sem safnað var meðal fátækra íslenskra hugsjónamanna hefur runnið til að styrkja ísraelsku hernaðarmaskínuna, sem er reyndar hið besta mál.

Ekkert bendir til að nokkur maður í Bandaríkjunum eða annars staðar á Vesturlöndum hafi lesið þessa auglýsingu eða tekið hið minnsta mark á henni. Hitt er ljóst, að hún hefur haft áhrif í arabalöndum, því henni voru gerð rækileg skil í arabískum fjölmiðlum, m.a. á Al- arabia og Al -jazeera sjónvarpsstöðvunum. Ísland er nú komið þar á kortið sem óvinur.



"Margur heldur mig sig," segir gamalt máltæki og sú hugsun, eða öllu heldur þráhyggja, að allir aðrir hljóti að vera á sömu skoðun og maður sjálfur er einkennandi fyrir hugsjónamenn, lýðskrumara og einfeldninga allra alda. Raunar er vandfundinn sá harðstjóri og ógnarbíldur á spjöldum sögunnar, sem ekki taldi sjálfan sig vera alveg sérstakan fulltrúa "alþýðunnar", þ.e. fólksins, þjóðarinnar. Það gerði Kleón sútari í Aþenu hinni fornu, Júlíus Sesar var ávallt "maður fólksins" og Napóleon hóf feril sinn sem byltingarleiðtogi á vegum "alþýðunnar". Margir þjóðhöfðingjar töluðu gjarnan um sjálfan sig í fleirtölu, t.d. Viktoría drottning, (sbr.: "We are not amused"). Prívatskoðun eins einstaklings átti þannig að vera skoðun allrar þjóðarinnar.

Hitler lauk aldrei sundur munni án þess að tala í nafni "alþýðunnar", en þýska orðið "Volk" og enska orðið "People" er á íslensku ýmist þýtt sem "þjóð" eða "alþýða".

Eitt af því fjölmarga, sem "róttækir vinstri menn" (kommúnistar) eiga sameigilegt með nasistum er, að þetta fólk endurtekur í sífellu orðin "alþýða" (Volk) og "barátta" (Kampf) og - vel að merkja - bæði kommúnistar og nasistar trúa því í fullri alvöru, að einmitt þeir sjálfir séu hinir einu og sönnu fulltrúar fólksins. Hrokinn, yfirgangurinn og frekjan, sem felst í nafni "Þjóðviljans" sáluga hefði sómt sér ágætlega á einhverju málgagni Hitlers og nasista ("Wille des Volkes").

Þetta blað túlkaði aldrei vilja nokkurrar þjóðar, hvorki hinnar íslensku eða rússnesku, heldur vilja lítillar klíku menntamanna á Íslandi, en þó fyrst og fremst vilja þeirra miskunnarlausu óþokka, sem völdin höfðu í Kreml.

Femínistar tala undantekningarlaust um sínar eigin prívatskoðanir sem skoðanir allra, þótt yfirgnæfandi meirihluti kvenna hafi sáralítinn áhuga á brölti þeirra. Einfeldningar í stétt fjölmiðlamanna éta þetta eftir þeim og tala því gjarnan um "skoðanir kvenna" eða "vilja kvenna" þegar í raun er átt við skoðanir og vilja lítillar klíku femínista.

Því þarf ekki að koma á óvart, að þegar þrír menn komust að því í sumar að þeir væru á tiltekinni skoðun um svonefnt "fjölmiðlafrumvarp", drógu þeir þá ályktun, að öll þjóðin hlyti að vera það líka, eða, eins og einn ágætur ráðherra mundi orða það: "Þar sem þrír menn koma saman, þar er komin Þjóðarhreyfing."

Var efnt til fundar framan við Stjórnarráðið, þar sem þremenningarnir mættu, auk forvitinna vegfarenda og hrópað í kór: "Við viljum lýðræði! Við viljum lýðræði!" alveg eins og börnin gerðu í gömlu auglýsingunni ("Við viljum Vilkó! Við viljum Vilkó!").

Nýjasta uppátæki þremenninganna er að gera sjálfa sig, og það sem verra er, íslensku þjóðina, að viðundri fyrir framan heimsbyggðina með auglýsingu í New York Times.

Ég tel sjálfan mig hluta af íslensku þjóðinni og þessir menn tala ekki í mínu nafni. Vilji þeir sóa fé sínu geta þeir gert það undir eigin nafni, ekki mínu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband