Minnipokamenn


Þessi grein er loksins, loksins í Mogganum í dag, en nú eru liðnar tæpar sex vikur síðan ég skrifaði hana og sendi inn. Hún er þó einkar tímabær, því fleiri en ég virðast vera farnir að veita því athygli, hvernig landið er rægt og nítt af Íslendingum sjálfum, fyrst og fremst mensévíkunum og landsölumönnunum í Samfylkingunni. Þessi útgáfa af greininni er agnarlítið frábrugðin þeirri, sem er í Mogganum.

 

Ditmar Blefken kom aldrei til Íslands en heimildarmenn hans voru erlendir menn sem hingað komu í stutta heimsókn og tal höfðu haft af Íslendingum. Upphaflegir heimildarmenn hans voru þannig vafalaust Íslendingar.
Sagan er nú að endurtaka sig. Hver Íslendingurinn á fætur öðrum stígur fram og gefur fáfróðum, fákænum útlendum fjölmiðlamönnum, sem ekkert vita um Ísland yfirlýsingar um gífurlega “spillingu” og “glæpi” hérlendra ráðamanna, sem beri ábyrgð á núverandi ástandi. Útlendingarnir, sem ekki vita betur, prenta þetta athugasemdalaust. Síðan er einhvert erlent heimsblað eða fjölmiðill borinn yfir rógnum, sem þó kom upprunalega frá íslenskum heimildarmönnum fjölmiðilsins. Til dæmis hefur íslensk blaðakona lýst því yfir á fjölsóttri útlendri vefsíðu, Huffington Post, að ástandið hér sé fyllilega sambærilegt við ástandið í Zimbabve og Geir Haarde engu betri en Robert Mugabe. Enginn lyftir augabrún hér á Íslandi þótt svona sé sagt í íslenskum fjölmiðli eða vefsíðu. Útlendingar taka hins vegar svona tal í fullri og fúlustu alvöru. Er einhver hissa á því að orðstír landsins sé í rúst? Það er gömul saga og ný, að sá sem talar illa um sjálfan sig, þarfnast ekki óvina.

Það eru að sjálfsögðu fyrst og fremst þeir Íslendingar, sem tilheyra Samfylkingar/Baugs- klíkunni, sem gleiðastir hafa verið og duglegastir að sverta og svívirða eigin land frammi fyrir útlendingum. Gamalt orð fyrir sósíaldemókrata, liðsmenn þeirrar hugmyndafræði undanlátsseminnar, sem Samfylkingin stendur fyrir er “mensévíki”. Ekki þarf að taka fram, að þetta er fólkið, sem vill koma landinu undir erlent vald.

Saga mensévíka er vörðuð ósigrum og harmi. Á fundi einum í flokki sósíaldemókrata upp úr aldamótunum 1900 varð flokksbrot Lenins í meiri hluta. Það gefur góða innsýn í hugarheim og starfsaðferðir þess samviskulausa óþokka og ósvífna lygara, sem Lenin var, að upp frá þessum fundi nefndi hann ávallt fylgismenn sína “meirihlutamenn” (bolsévíka). Það segir þó enn meiri sögu um sálarlíf og skapgerð andstæðinga hans, sem höfðu yfirgnæfandi meirihluta í flokki sósíaldemókrata, að þeir létu það yfir sig ganga að láta kalla sig “minnihlutamenn” (mensévíka). Þeir létu Lenin komast upp með þetta og nafnið festist smám saman við þá. Foringinn, Kerensky, hélt að hann mundi eiga í fullu tré við Lenin af því að þeir höfðu þekkst í æsku. Hann var heppinn að sleppa lifandi úr landi. Í borgarastyrjöldinni á Spáni létu mensévíkar bolsévíka valta alveg yfir sig og Franco hrifsaði völdin. Í stríðlok reyndu mensévíkar í Austur- Evrópu enn að vinna með bolsévíkum, en voru í staðinn fangelsaðir, skotnir eða fleygt út um glugga. Hér á Íslandi hafa ménsévíkar skilið eftir sig langa slóð misheppnaðra og fallít hugsjóna og fyrirtækja: Alþýðuprentsmiðjan, Alþýðuhúsið, Alþýðublaðið, Alþýðubankinn, Alþýðubrauðgerðin og, eftir fjölmargar greiðslustöðvanir: Alþýðuflokkurinn. Gömlu mensévíkarnir þar gáfust endanlega upp fyrir ný- mensévíkum, fyrrverandi bolsévíkum, sem eftir fall alræðis og gúlags í austri voru farnir að kalla sig, af þeirri sýndarmennsku sem þessu fólki er svo lagin, “lýðræðiskynslóð” Alþýðubandalagsins. Þeir hrifsuðu strax öll völd. Ekkert varð eftir af Alþýðuflokknum nema eitthvert tuð um Evrópusambandið. Flokkurinn mun nú vera niðurkominn í skrifborðsskúffu í Svíþjóð. 

Nýliðnir atburðir eiga ekkert sameiginlegt með falli járntjaldsins 1989 eins og sumir vinstri sinnaðir einfeldningar hafa haldið fram. Líkindin eru hins vegar mikil við það, þegar lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Ítalíu og Þýskalandi gáfust upp fyrir ofbeldismönnum á millistríðsárunum.

Í lok fyrri heimstyrjaldar ríkti mikil upplausn í Evrópu og upp spruttu fjölmargar “grasrótarhreyfingar”. Í Rússlandi hafði lítill hópur “aðgerðarsinna” undir stjórn Lenins hrifsað völdin frá ráðlausri, ráðvilltri stjórn mensévíka og á Ítalíu stofnaði gamall marxisti, Benito Mussolini, nýja “grasrótarhreyfingu” og náði völdum skömmu síðar.
Um 1930 skall svo kreppan yfir af fullum þunga. Efnahagur Þýskalands var í kalda koli og stjórnvöld vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Hópar “mótmælenda” af ýmsu tagi óðu um götur og torg. Þeir heimtuðu “nýja menn” til valda og fengu að lokum vilja sínum framgegnt. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld gáfust upp og allir vita hvernig fór.

Hérlendis hafa litlir hópar, samanlagt álíka margir eða færri en kusu Ástþór í forsetakosningum, farið um götur og torg með ofbeldi og stöðugum hótunum í fylgd fáeinna nytsamra sakleysingja. Þeir hafa m.a. kastað múrsteinum, matvælum og, eins og apar í dýragarði, sínum eigin úrgangi að Alþingishúsi og Stjórnarráði. Ný- mensévíkunum í Samfylkingunni hljóp hland fyrir hjarta. Þeir eru sama marki brenndir og hinir eldri. Þeir gáfust því upp fyrir ofbeldinu og hlupu í fangið á gömlu bolsévíkunum í VG. Þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur. Sagan endurtekur sig alltaf. Fyrst sem harmleikur, síðan sem farsi. 




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Níelsson

Þetta eru prýðis varnaðarorð, vegna þess að sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig.

Gústaf Níelsson, 23.3.2009 kl. 16:29

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Heyr heyr Vilhjálmur ! Það er gott að skoða söguna til að skilja söguna sem er að gerast núna. Hún vill svo oft endurtaka sig.

Halldór Jónsson, 23.3.2009 kl. 22:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband