Fimmtudagur, 24. júní 2010
Á að refsa þeim?
Þessi grein er í nýjasta hefti Þjóðmála, sem komið er út. Þar endar greinin hins vegar fyrir mistök í umbroti á kafla úr gömlu blaði eftir einhvern annan mann. Gallinn er að erfitt er að sjá samskeytin. Síðustu orðin í minni grein eru: Þeir ættu að minnsta kosti að þegja. Allt það sem á eftir kemur er mér óviðkomandi þótt það sé vafalaust ágætt, en það truflar mjög slagkraft greinarinnar eins og hún birtist í blaðinu.
Eins og raunar kemur fram í greininni hef ég áður skrifað um náskylt mál í greinaflokknum eða ritgerðinni Öfugmælavísu, sem er ágætis viðauki við það sem hér er skrifað, en þar fer ég nánar í aðalefni þessarar greinar.
Þess má geta að Davíð Oddsson vitnaði í löngu máli í þessa grein í Reykjavíkurbréfi 26. júní s.l.
Vinstri menn, kommúnistar og aðrir hafa mjög lengi vakið athygli mína. Fjöldamargt í háttalagi og uppátækjum þessa fólks hefur valdið mér undrun og heilabrotum allt síðan í barnæsku fram á þennan dag. Fyrir hverju gengur það? Af hverju hagar það sér svona?
Það er þó réttast að reyna að skýra strax hvað ég á við með vinstra fólk. Stundum er talað um að hægri og vinstri séu óljós og úrelt hugtök í stjórnmálum. Ég tel svo ekki vera. Þessi skipting í fylkingar er enn jafn afdráttarlaus og hún hefur lengi verið. Vinstri menn eru þeir sem ávallt taka málstað óvina Vesturlanda, hverju nafni sem þeir nefnast. Á kaldastríðsárunum sáu þeir bandamenn og/eða beinlínis vini í alræðisherrum kommúnistalandanna, sem vildu eins og þeir sjálfir tortíma þjóðfélögum Vesturlanda. Það mistókst, en þeir standa þó enn, eftir mætti, vörð um Castro.
Eftir lok kalda stríðsins leita þeir nýrra bandamanna og reyna t.d. (að sjálfsögðu með lýðræði og mannréttindi á vörum) að réttlæta Hamas og Hisbolla, jafnvel Talíbana eða Al Qaida eða þá Chávez, vin Írana og Hvít- Rússa. Þetta fólk hefur alltaf verið og er enn innri óvinir Vesturlanda og hefur ávallt tekið og mun áfram taka málstað óvinanna og reyna með öllum ráðum að níða Vesturlönd og bregða fæti fyrir hagsmuni þeirra á öllum sviðum og í smáu jafnt sem stóru. Meira að segja geta þeir ekki látið sögu Vesturlanda í friði. Þar hagræða þeir og/eða beinlínis falsa sögulegar og aðrar staðreyndir Vesturlöndum í óhag.
Ég er upp alinn í kalda stríðinu og komst mjög snemma niður á afar einfalda skilgreiningu á því hvað greindi vinstra fólk frá hægri: Stuðningur, ýmist virkur eða þögull, við hina algeru kúgun líkama og sálar sem fram fór í alræðisríkjum kommúnista. Þeir sem studdu eða báru blak af böðlunum voru vinstri menn. Þeir sem höfðu fullkomna, ómengaða andstyggð á því sem fram fór í sæluríkjunum voru hægri menn.
Þegar framsóknarmenn vildu til dæmis á sínum tíma höfða til vinstri manna stofnuðu þeir vináttufélag við valdhafa í Búlgaríu (kommúnistar kölluðu sig þar Bændaflokkinn). Þeir vissu sem var, að hvers kyns blíðuhót við alræðiskúgarana í austri yrði túlkað sem vinstri stefna.
Ég veit raunar fullvel að þessi einfalda skilgreining segir fjarri því alla sögu, auk þess að hún er að verða úrelt eftir lok kalda stríðsins en er þó enn vel gjaldgeng sem sést best á því að ekki þarf annað, enn þann dag í dag, til að komast að því hvort einhver sé til hægri eða vinstri en að spyrja viðkomandi um ástandið á Kúbu. Sá sem bregst til varnar fyrir Castro og/eða reynir að réttlæta ódæðisverkin er vinstri maður. Sá sem ekki reynir að bera í bætifláka fyrir kúgarann og harðstjórann er hægri maður.
Fyrir dómstólum er venja að dæma ekki aðeins hinn seka, heldur líka hinn meðseka, sökunautinn, yfirhilmarann. Því má alls ekki gleyma jábræðrum kommúnista úr röðum annarra vinstri manna, sem voru og eru miklu, miklu fleiri en eiginlegir kommúnistar. Þeirra hlutverk í kalda stríðinu var fyrst og fremst að þegja um eða gera sem minnst úr ódæðisverkum kommúnista og ekki síst, að stimpla hvern þann fasista, sem sagði sannleikann um það sem fram fór í alræðisríkjunum. Mér finnst don Quixote merkilegri en Sancho Panza. Ég er líka þannig gerður, að mér finnst þjófurinn, þótt vondur sé, að flestu leyti markverðari persóna en þjófsnauturinn. Þess vegna finnast mér, þrátt fyrir allt, Vinstri grænir miklu, miklu, miklu merkilegri en Samfylkingin og Framsókn.
Þeir sem yfirleitt eru taldir til hægri í stjórnmálum eru hins vegar afar mislitur hópur. Þeir eiga í rauninni nánast ekki neitt sameiginlegt annað en fullkomna andúð á kommúnistum og jámönnum þeirra á vinstri væng. Til dæmis eru þeir Hitler og Hayek báðir taldir til öfga- hægrimanna af vinstra fólki, sem spyrðir þá jafnvel saman í einfeldni sinni. Ég skrifa því hægri með gæsalöppum en vinstri ekki.
Stuðningsmenn einhvers málefnis eiga nefnilega alltaf miklu meira sameiginlegt en andstæðingar þess.
Ég ætla ekki að ræða hér í löngu máli stuðning þúsunda núlifandi Íslendinga, margra þeirra enn valdamikla í stjórnmálum, fjölmiðlun og menningarlífi við kúgara og þjóðarmorðingja kommúnista. Það hafa aðrir gert. Mér finnst miklu merkilegra síbyljuhjal þeirra samtímis um lýðræði og mannréttindi, sem kristallast í þátttöku margra þeirra, sem hæst hafa í mannréttindabaráttunni samtímis og samhliða í Amnesty og í sérstökum vináttufélögum við ýmsar blóði drifnustu alræðisstjórnir tuttugustu aldar, en um slíkt er auðvelt að finna skjalfest dæmi meðal manna sem enn gegna háum stöðum.
Nú eru að alast upp nýjar kynslóðir í landinu, sem ekki muna fortíð þeirra, sem enn hafa mest öll völd í vinstri hreyfingunni, jafnt í stjórnmálum sem í fjölmiðlun og menningarlífi. Þessi völd hrifsuðu þeir fyrir mörgum áratugum og beita þeim nú óspart til að eyða eigin fortíð og þar með sögu þjóðarinnar á 20. öld. Hver sá sem hreyfir athugasemd er umsvifalaust sakaður um kaldastríðshugsunarhátt og fortíðarhyggju og stimplaður fasisti, ef ekki eitthvað ennþá verra. Vinstri menn beita purrkunarlaust aðstöðu sinni til að þurrka út söguna og hefur tekist það ótrúlega vel. Það unga fólk, sem nú kýs Alþýðubandalagsflokkana tvo og Framsókn þekkir ekki fortíð foringja sinna. Hún hefur verið þurrkuð út, ekki síst vegna gífurlegra sterkar stöðu vinstri manna í menntakerfinu, fjölmiðlun og menningarlífi og ég tel það aðalástæðu þess, að þeir komast að því er virðist átölulaust upp með lýðræðis- og mannréttinda- hjalið. Jafnvel hörðustu andstæðingar þeirra, a.m.k. af yngri kynslóð hreyfa engum andmælum.
Einhverjir kunna að halda, að þessi háværu hróp um lýðræði og mannréttindi séu það sem kalla mætti afturbatapíku- syndróm. þ.e. að eftir hrun járntjaldsins 1989-1991 hafi þeir, eins og Páll postuli á leiðinni til Damaskus séð villu síns vegar og turnast, en það er alrangt. Hrópin um mannúð og manngæsku, frið, lýðræði, tjáningarfrelsi og mannréttindi hafa streymt frá þessu fólki í látlausri, óstöðvandi síbylju í marga, marga áratugi.
Enginn getur stjórnað í tómarúmi. Allir harðstjórar sögunnar hafa átt sér stuðningsmenn og aðdáendur. Annars gætu þeir ekki stjórnað. Því er það alls ekkert nýtt eða sérstaklega merkilegt að íslenskir menn hafi hrifist af og stutt fjarlæga harðstjóra. Meira að segja Pol Pot átti sér dyggan hóp íslenskra liðsmanna sem skrifuðu m.a. langar greinar í Moggann til liðs við Rauða Kmera þegar blóðbaðið stóð sem hæst. Þetta er slæmt, en slíkt er þó hægt að skilja, a.m.k. í ljósi sögunnar og jafnvel fyrirgefa og gleyma. Það er nefnilega ekki stuðningurinn, beinn eða óbeinn, og aðdáunin á kúgurum, böðlum og þjóðarmorðingjum, sem alltaf hefur farið mest fyrir brjóstið á mér, heldur lýðræðis- og mannréttindahjalið, sem fram fer alveg samtímis. Það voru einmitt þessi háværu hróp um verkalýðinn, sem kommúnistar svínbeygja og kúga, lítilmagnann, sem þeir troða í svaðið, friðinn, þegar þeir sjálfir hrinda af stað styrjöldum, mannréttindin, sem þeir þverbrjóta hvarvetna og lýðræðið sem þeir svívirða og saurga, sem fyrst og fremst ollu fullkominni andstyggð minni á kommúnisma og hvers kyns vinstrimennsku strax í barnæsku á sjötta áratugnum og allt fram á þennan dag.
Ég hef á liðnum árum stöku sinnum skrifað um þetta áhugamál mitt, vinstri mennskuna, aðallega í Moggann og glöggir lesendur hafa kannski veitt athygli sérstakri áherslu minni á vináttufélögin. Þau stofnuðu íslenskirlýðræðis- og mannréttindafrömuðir, undantekningarlaust ákafir friðarsinnar, menningar- og mannúðarmenn, við t.d. Sovétríkin (MÍR), Kína Maos, Austur- Þýskaland, Kúbu, Víetnam, Norður- Kóreu, Albaníu o.s,frv. Mér finnast þau alveg einstaklega merkileg og hafa verið stórlega vanrækt af andstæðingum vinstri manna. Þátttaka vinstri- stjórnmálamanna og ekki síður menningar- og mannúðarmanna í þeim sýnir í hnotskurn hve ólíkt vinstra fólk er svonefndum hægri mönnum í raun. Hvað hefði verið sagt, ef einhverjar íslenskar hægri bullur hefðu á sínum tíma stofnað vináttufélög við Batista, Franco, Stroessner, Papa Doc eða Pinochet? Hefði þeim verið leyft að strika yfir og gleyma fortíð sinni? Hefðu slíkir menn verið kosnir á þing eða á Bessastaði? Hefði þeim verið hampað í menningarlífinu? Hefðu þeir gengið í Amnesty samtímis vináttufélaga- bröltinu og hrópað hátt og snjallt á torgum um lýðræði og mannréttindi? Ég held ekki. Engin slík vináttufélög voru stofnuð og enginn fasisti/nasisti með snefil af sjálsvirðingu mundi nokkurn tíman ganga í Amnesty. Slíkur maður yrði líka trúlega rekinn úr flokknum. Það er einfaldlega ekki þeirra stíll. Hvað sem annars má segja um þá verður að segjast að þeir hafa vissa sómatilfinningu.
Þáttur vestrænna vinstri manna, fjölmiðlafólks og listamanna, ekki síst rithöfunda, í því að viðhalda kúgun og alræði innan kommúnistaríkjanna í kalda stríðinu var mikill, en fáir hafa þó veitt þessu þá athygli sem vert er. Með rangfærslum sínum og síbyljugagnrýni á allt það, sem þeir töldu miður fara hér vestanmegin, sáu þeir nefnilega áróðursmeisturum austantjalds fyrir ómetanlegum skotfærum, sem síðan voru notuð til að villa um fyrir þegnum Gúlagsins. Sú kænlega upplogna mynd, sem þetta fólk fékk af Vesturlöndum, var að verulegu leyti dregin upp af vestrænum rithöfundum, kommúnistum og öðrum vinstri mönnum jámönnum þeirra og af vinstra- fjölmiðlafólki, sem nóg er af. Fréttastofa RÚV er ágætt dæmi um slíkan málflutning, sem til forna var kenndur við Hildiríðarsyni. Erfitt er eða ómögulegt að bregðast við þessu, og notfæra vinstri menn sér þannig það tjáningarfrelsi, sem er undirstaða vestrænnar menningar, til þess að grafa undan henni. Þeir nota frelsið til að drepa frelsið.
Þáttur í þessu var starf fyrrnefndra vináttufélaga. Með þátttöku í þeim vildu hinir róttækari í hópi vinstri manna sýna hollustu sína við viðkomandi alræðisstjórn. Félagar í slíkum samtökum geta með engu móti skorast undan að teljast virkir stuðningsmenn alræðiskúgunar. Má, sem fyrr sagði, hugsa sér viðbrögðin ef vináttufélög yrðu hér stofnuð við einræðis- og herforingjastjórnir í þriðja heiminum, t.d í Súdan eða Burma. Félög þessi áttu m.a. að annast menningartengsl. Þannig voru fengnir listamenn, sem voru stjórnvöldum þóknanlegir, og látið í það skína, að hér væri um samskipti alþýðu landanna að ræða (ættingjum listamannanna var yfirleitt haldið í gíslingu á meðan til að tryggja endurkomu þeirra). Í heimalandinu var síðan látið svo, sem íslenskir félagar vináttufélagsins túlkuðu hinar réttu skoðanir íslensks almennings. Samtök af þessu tagi voru þannig beinlínis stofnuð til stuðnings alræðisstjórnunum, og til að villa um fyrir og blekkja þegna þeirra. Félagar í t.d. vináttufélaginu við Kúbu, sem enn er starfandi, munu seint krefjast þess, að grundvallarmannréttindum verði komið á hvað þá að þar verði stofnuð frjáls verkalýðsfélög, þótt þarna sé um að ræða ákafa mannréttindafrömuði og sanna verkalýðssinna.
Bókstaflega allir stjórnar- og og framámenn í Alþýðubandalaginu tóku þátt í þessu brölti, einnig þeir sem nú mynda mensévíka- eða kjána- arm þess, sem nefnist Samfylkingin. Til dæmis hefur sá ágæti maður og fyrrum Þjóðviljaritstjóri sem nú fer með utanríkismál þjóðarinnar skýrt frá ferðalögum sínum um Austur- Evrópu á vegum hinna ýmsu vináttufélaga við kúgarana. Eins og allir geta gengið úr skugga um í blaðinu frá þessum árum hrópaði hann alveg jafn hátt um lýðræði og mannréttindi þá og hann gerir nú.
Þáttur þeirra Íslendinga, sem hafa fundið innra með sér ákafa þörf til að ganga í eða beinlínis stofna sérstök vináttufélög við blóði drifnar alræðisstjórnir samtímis og samhliða Amnesty- starfi er kapítuli út af fyrir sig, en ég fór fyrst að veita þessu atriði athygli í greinum og auglýsingum í Þjóðviljanum á árunum kringum 1980, þar sem forystumenn fyrrnendra vináttufélaga voru m.a. kynntir sem framsögumenn um lýðræði og mannréttindi á Amnesty- fundum. Nú hef ég ekki undir höndum félagaskrár vináttufélaganna, en þar störfuðu sem fyrr sagði flest allir eða allir helstu forkólfar í Alþýðubandalaginu. Mjög gott og þarft framtak væri, ef einhver ungur fræðimaður mundi taka sig til og bera saman félaga í vináttufélögum og félagaskrár Amnesty á sama tíma. Ég er hér ekki endilega að tala um rannsóknir í stjórnmálafræði. Miklu frekar ætti slík rannsókn að fara fram undir formerkjum sálfræði ef ekki beinlínis sem doktorsverkefni í geðlæknisfræði, því sálarlíf þessa fólks er og hlýtur að vera stórmerkilegt rannsóknarefni. Þessir ágætu vinstri menn sjá nefnilega ekki nokkurn skapaðan hlut athugaverðan við framferði sitt, ekki ósvipað og menn sem eru beinlínis haldnir alvarlegum og þungbærum geðsjúkdómum. Það væri líka alls ekki úr vegi að skoða fortíð ýmissa hinna löglærðu manna sem hæst berja sér á brjóst í mannréttindabaráttunni. Hafa þeir kannski líka verið í vináttufélögum? Og jafnvel þótt svo sé ekki, hvers vegna styðja þeir þá og starfa með stjórnmálaflokkum og mönnum sem hafa sýnt raunverulega afstöðu sína til lýðræðis og mannréttinda með svo afdráttarlausum og ótvíræðum hætti?
Raunar tel ég mig hafa uppgötvað tilekið lögmál til skýringar á þessu og ýmsu fleira í háttlagi vinstri manna. Um nafngift finnst mér rétt að leita innblásturs til Stígamóta og kalla þetta því einfaldlega Nei-þýðir-já-lögmálið. Það hljóðar svo: Menn fordæma það ávallt harðast í orði sem þeir styðja afdráttarlausast á borði.
Til þess að vísindalögmál teljist marktækt verður það að hafa spásagnargildi, en svo vill til, að afar auðvelt er að ganga úr skugga um gildi nei-þýðir-já-lögmálsins. Alþingistíðindi hafa verið tölvusett í mörg ár og því vandalaust að orðtaka þau með tilliti til mannréttindabaráttunnar, t.d. með því að kanna notkun á orðunum lýðræði og mannréttindi.
Ég spái því, samkvæmt fyrrnefndu lögmáli, að verði þetta gert muni koma í ljós, að það séu þingmenn úr báðum örmum gamla Alþýðubandalagsins, einkum þó VG, sem oftast allra hafa úr ræðustól býsnast út af skorti á lýðræði og mannréttindum heima og erlendis undanfarin tuttugu ár eða svo. Sumir þeirra opna varla munninn, án þess að endurtaka þessi orð nokkrum sinnum, eins og þeim sé ekki sjálfrátt.
Metið munu vafalaust eiga þeir þingmenn, sem mest og best hafa starfað í títtnefndum vináttufélögum við alræðisríki fyrir fall Berlínarmúrsins 1989 og síðar, samtímis virkri og háværri þátttöku í mannréttindabaráttunni.
Samkvæmt nei-þýðir-já-lögmálinu má m.ö.o. reikna með því að stuðningsmanna kúgunar sé að leita meðal þeirra sem harðast berjast fyrir mannréttindum, þeirra sem hvetja til styrjalda sé helst að leita meðal friðarsinna o.s. frv., en hér gefst ekki rúm til að gera nánari grein fyrir nei-þýðir-já lögmálinu. Um það fjallaði ég raunar í greinaflokki í Mogganum sem nefnist Öfugmælavísa, (nú á bloggsíðu minni) fyrir mörgum árum.
En víkjum að lokum að fyrirsögn þessarar greinar. Á að refsa þeim?
Þriðja ríki Hitlers drukknaði í blóði. Það var upprætt og forkólfarnir dregnir fyrir rétt. Stuðningsmenn þess hafa farið með veggjum síðan, en eru þó enn ofsóttir, þótt þeir sem þá voru unglingar séu nú örvasa gamalmenni. Þar talar enginn um fortíðarhyggju. Allt öðru máli gegnir um þá sem studdu hina alræðiskúgarana og þjóðarmorðingjana. Þeir hafa þó valdið enn miklu meiri hörmungum í nærfellt öld en nasistar komust yfir á tólf ára valdaskeiði sínu. Ég væri þó í rauninni jafnvel tilbúinn til að láta kyrrt liggja og stroka yfir sögu 20. aldar að mestu leyti, ef ekki væri vegna grundvallarþáttar í háttalagi vinstri manna sem greinir þá alfarið frá svonefndum hægri mönnum. Þeir hafa tekið út patent á öllu því góða í lífinu og það sem meira er, þeir hafa komist að mestu upp með það óáreittir. Fyrrum stuðningsmenn Hitlers hafa aldrei verið orðaðir við lýðræðis- eða friðarbaráttu. Enn síður hafa liðsmenn nasista talið sig sérstaklega útvalda til að hafa forystu um mannréttindabaráttu. Þeir virðast að minnsta kosti kunnna að skammast sín.
Það kunna íslenskir stuðnings- og jámenn alræðiskúgunarkerfis kommúnista hins vegar alls ekki. Á þeim er engan bilbug að finna. Nú eru þeir meira að segja búnir að stofna mannréttindaráðuneyti. Enginn virðist sjá neitt athugavert við það. Þeir fara ótrauðir sínu fram og enginn virðist sjá neitt athugavert við lýðræðs- og mannréttinda- bröltið nema kannski ég.
Skiptir sagan máli? Skiptir fortíðin yfirleitt máli? Á ekki að strika alveg yfir hana og byrja upp á nýtt? Skiptir sú blákalda staðreynd máli að ýmsir þeirra sem nú fara með æðstu völd og embætti í landinu voru þar til fyrir fáeinum árum ákafir stuðnings- og jámenn einhverrar algerustu og miskunnarlausustu kúgunar líkama og sálar sem dæmi eru um í gjörvallri mannkynssögunni, þar á meðal félagar í sérstökum vináttufélögum við blóði drifnar harðstjórnir?
Þennan stuðning er þrátt fyrir allt hægt að skilja og jafnvel fyrirgefa. Ég væri reyndar tilbúinn að gleyma þessu öllu ef ekki væri lýðræðis- og mannréttinda- hjalið.
Því mun ég ekki gleyma og seint fyrirgefa. Fyrir það ætti að refsa þeim. Þeir ættu a.m.k. að þegja.
Hér tekur við í Þjóðmálum sem fyrr sagði lokakafli fyrir slysni sem er mér og Jakobi ritstjóra með öllu óviðkomandi en þar er rætt um hugmyndafræði. Gallinn er að samskeytin eru nánast ósýnileg þannig að menn gætu haldið að ég hefði skrifað þetta, en þessi kafli stórspillir greininni og nánast eyðileggur hana. Ég er alls ekki viss um að skýringa á framferði vinstra fólks sé að leita í hugmyndafræði, þótt það sé skoðun þess sem þarna skrifar. Ég hallast fremur að því að skýringarnar séu sálrænar, faldar djúpt í sjálfu sálarlífi vinstri mannsins. Sönn hræsni kemur frá hjartanu og góður vinstri maður, sem starfar t.d. samtímis í Amnesty og Kúbuvinafégaginu sér í raun og sannleika ekki nokkurn skapaðan hlut athugaverðan við framferði sitt.
Ég vil raunar hér að lokum bæta við dáltilum kafla sem er undir lok Öfugmælavísu, en þá ritgerð ættu menn gjarnan að lesa að aflokinni þessari grein:
Rússagrýla er dauð. En Grýlubörnin lifa og munu halda áfram að geta af sér afkvæmi, því skýringar á háttalagi þeirra er fremur að leita á vettvangi sálfræði en stjórnmála. Vinstrimennskunni verður varla útrýmt, fremur en sýndarmennskunni, vandlætingunni eða óskhyggjunni. Hún mun skjóta upp kollinum í einhverri mynd, undir einhverju nafni. Blekkingin er fallegri en raunveruleikinn, og menn munu halda áfram, enn sem fyrr, að berjast af miklu meiri sannfæringu fyrir lyginni heldur en sannleikanum.
Því munu íhaldsmenn seint öðlast þann töfraljóma, sem umlykur málsvara blekkingarinnar. Við það verður að búa.
Barnið í ævintýri Andersens hefur örugglega fengið skömm í hattinn. Svo var a.m.k. um okkur sem reyndum að benda fólki á úr hvaða efni nýju fötin væru sem skraddararnir Marx og Lenin höfðu saumað á keisarana í Kreml. Boðberar válegra tíðinda verða aldrei vinsælir, og fólk er alltaf reiðubúnara til að trúa lyginni heldur en sannleikanum.
Don Quixote skildi hvarvetna eftir sig slóða eyðileggingar. Það gera vinstri menn, stuðningsmenn, jábræður og umþegjendur alræðisherranna og böðlanna, líka. Fulltrúar og arftakar Rýssa- Grýlu eru hins vegar ekki meinlausir, sjónumhryggir riddarar. Auðvelt er samt að þekkja þá: Þeir tönnlast nefnilega í síbylju á fallegum orðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.8.2010 kl. 13:49 | Facebook
Athugasemdir
Ég er ánægður með þig vinur!
runar (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 14:42
Mörg orð um lítið mál. Kommúnismi er ekki pólitík. Það er geðsjúkdómur og aldrei hægt að ræða öðruvísi.
Óskar Arnórsson, 24.6.2010 kl. 17:55
Snilldargrein Vilhjálmur og fátt við hana að bæta.
Annarar kynslóðar kommúnistar, það er það sem sumir "hægri" menn kalla nútíma umhverfisverndarsinna. Það breyttust undarlega margir vinstri menn í umhverfisverndarsinna, ásamt mannréttindar- og lýðræðissinna, við fall Sovietríkjanna. Í mínum huga er raunveruleika firring þessa fólks gríðarleg og mjög svo vert rannsóknarefni. Segja eitt og gera svo allt annað. Verst er hvað fólk lætur blekkjast af orðum þessara manna í kosningum í stað að meta þá af gjörðum þeirra.
Annars, þá er það hreinlega hroðalegt hversu "aulagóðir" "hægri" menn hafa verið síðustu áratugina í að sýna ekki, greinilega, "aulahátt" vinstri manna. Bæði hér á landi og annars staðar.
Skúli Jakobsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 18:01
Sorrý. Vinstri mennska, þar á meðal kommúnismi er ekki lítið mál. Í aðalatriðum hefur ekkert breyst síðan í kalda stríðinu. Hinir gömlu stuðnings- og jámenn kúgarnna þjóðarmorðingjanna og böðlanna sitja enn í háum stöðum hvarvetna í þjóðlífinu. Ekki síst er þeir gjarnan helstu sprauturnar í fjölmenningarbröltinu, „kvennabaráttunni“ og „Samtökunum ´78“.
Vilhjálmur Eyþórsson, 24.6.2010 kl. 18:11
Skúli. Þú hefur ekki lesið greinina nægilega vel. Þeir breyttust ekki í lýðræðissinna og mannréttindafrömuði eftir fall járntjaldsins. Þeir hrópuðu alveg jafnt hátt um þau mál og um friðinn, mannúðina og manngæskunna fyrir mörgum áratugum. Þeir hafa ekkert breyst. Hitt er rétt að „umhverfis“- bröltið er orðið meira áberandi upp á síðkastið.
Vilhjálmur Eyþórsson, 24.6.2010 kl. 18:15
Rétt Vilhjálmur.
En að refsa þeim? Eiginlega óþarfi ef "hægri" menn myndu einhvern tímann hætta að taka þá alvarlega og hjálpa þeim svona endalaust.
Finna það augljósa (t.d. barnaleg efnahagsstjórn) og benda svo á mótsagnirnar (t.d. allir eru jafnir en sumir jafnari en aðrir).
Mikið einfaldara að vera vel að sér í lögmálum náttúrunnar, hlæja svo og skemmta sér vel þegar þeir fara gegn þeim.
Fátt sem fer verr í vinstra liðið en almennur hlátur á þeirra kostnað.
Skúli Jakobsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 21:02
Satt segir þú.
Vilhjálmur Eyþórsson, 24.6.2010 kl. 21:06
Öfgakommúnismi veldur skorti og lélegu efnahagskerfi.
En öfgakapítalismi er líka hættulegur því þar fá þeir fáu ríku mestu völdin og þeir fátækeari geta hafa oft lítil réttindi
Enn eitt dæmi um hið fornkveðna "allt er best í hófi"
Úlfur (IP-tala skráð) 5.8.2010 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.