Heimspekingur ofbeldis

Ég hef lengi haft það fyrir þumalfingursreglu, að maður, sem titlar sig „skáld“ í símaskránni eða annars staðar sé alls ekki skáld, heldur í allra besta falli leirskáld. Sama gildi um mann sem kallar sig „heimspeking“ á opinberum vettvangi. Slíkur maður sé ekki aðeins ekki heimspekingur, heldur beinlínis kjáni.

Prýðileg staðfesting á þessari meginreglu fékkst í Silfri Egils í dag þar sem mættur var ungur fulltrúi fáráns- eða skegg- vinstri manna af yngri kynslóð, titlaður „heimspekingur“ og hélt ákaft fram, með „lýðræði“, „mannréttindi“ og „frið“ á vörum málstað ofbeldismannanna, sem m.a. réðust á Alþingi. Ég skrifaði grein um þetta fólk í Þjóðmál fyrir nokkrum árum, (Ný kynslóð, gamalt hatur), en hér á eftir fara nokkrir kaflar úr þeirri grein:

„Þetta fólk er flest svo ungt, að það komst ekki til vits og ára fyrr en eftir fall Berlínarmúrsins 1989 og endanlegt hrun þeirrar ógnar, sem stóð af heimskommúnismanum, sem varð með upplausn Sovétríkjanna á jólunum 1991, en þá lentu stuðningsmenn, jábræður, meðhlauparar og umþegjendur alræðisins, vinstri menn, í hugmyndafræðilegri kreppu, sem kunnugt er. Hatrið á Vesturlöndum er þó samt við sig, því það er ekki draumurinn um betri heim, sem knýr vinstri manninn til dáða, eins og þeir sjálfir og margir aðrir ímynda sér, heldur hatrið á eigin þjóðfélagi. Þarna gildir reglan, „óvinur óvinar míns er vinur minn". Hver sá einræðis- eða alræðisherra, ofbeldis- eða hryðjuverkahópur, sem hatar Vesturlönd og beitir sér gegn þeim á vísan stuðning, eða a.m.k. samúð þeirra“.

Kaflinn hér á eftir á vel við „heimspekinginn“ fyrrnefnda og trúbræður hans, en greinin í Þjóðmálum var „umsögn“ fremur en ritdómur um bókina „Múrinn“, sem róttæklingar höfðu þá nýlega gefið út, en þar voru greinar af samnefndri bloggsíðu birtar:

„Í lítilli grein kemur fram djúp samúð með ETA- mönnum á Spáni. ETA hefur myrt með köldu blóði þá blaðamenn, sem þeim eru andvígir og sömuleiðis þá stjórnmálamenn og bæjarfulltrúa sem þeim eru ekki að skapi. Ég hef dvalið langdvölum á Spáni og eitt af því sem einkennir forsprakka þessara morðóðu ofbeldismanna er, að þeir, eins og „róttækir” íslenskir vinstri menn, eru gjarnan fremstir í flokki í „friðargöngum” hvarvetna um Evrópu og opna helst aldrei munninn án þess að prédika um „tjáningarfrelsi”, „lýðræði” og „mannréttindi” . Margt er líkt með skyldum. 

Að sjálfsögðu fá Talibanar og Al- Qaida vinsamlega, mildilega umfjöllun hjá MÚR- fólkinu. Þeir hata jú Bandaríkin og Vesturlönd og eru því samherjar. Reynt er að gera sem minnst úr atburðunumm 11. september 2001 og annars staðar er látið að því liggja, að Al- Qaida sé ímyndun ein, uppfinning CIA og annarra bandarískra illmenna. Þetta er þó ekki (ennþá) beinn stuðningur, heldur er reynt eftir mætti að verja ódæðin og kenna hinum raunverulegu illmennum að dómi MÚR- fólks: Bandaríkjamönnum.

 „Róttækir” vinstri menn hafa enn ekki gengið svo langt að stofna sérstök „vináttufélög” við Hamas, Hizbollah, Talibana og Al- Qaida, eins og þeir gerðu fyrr á árum við Stalín, Mao, Kim Il Sung og Pol Pot, en að því kann að koma. Það leynir sér hvergi hvar samúðin er. Islamistar vilja gera Bandaríkjunum, hinum „mikla Satan” og Vesturlöndum allt til miska eins og MÚR- menn. Sem fyrr sagði: „Óvinur óvinar míns er vinur minn”.  

Ekki þarf að taka fram, að Chávez Venesúelaforseti, vinur Hvít- Rússa og Írana er hátt skrifaður á þessum bæ og ekki kemur heldur á óvart sorgin sem þarna kemur fram yfir sviplegu fráfalli Che Guevara. Hann var sem kunnugt er skotinn eins og óður hundur í fangaklefa í Bólivíu og fór einkar vel á því. Guevara var nefnilega sjálfur böðull. 

Þetta átrúnaðargoð allra sannra mannúðar- og menningarmanna á vinstri væng (eins og „heimspekingsins“ fyrrnefnda) var þarna statt í því skyni að hrinda af stað nýjum styrjöldum um gjörvalla Suður- Ameríku. Með styrjaldarrekstrinum átti að koma á kúgunarkerfi kommúnista, en svoleiðis styrjaldir kallar vinstra fólk „þjóðfrelsisbaráttu”. Það klikkaði, sem betur fór. 

Ekki þarf að koma á óvart, að Che Guevara er alveg sérstakt uppáhald og verndardýrðlingur allra sannra „friðarsinna” og þátttakenda í „ofbeldisumræðunni”. 

Sem fyrr sagði var Guevara böðull, ekki aðeins í óeiginlegri, heldur líka í alveg eiginlegri merkingu orðsins og örlög hans fyllilega verðskulduð. Í stríðinu í Sierra Maestra, sem Castro hrinti af stað á sínum tíma til að ná völdum fyrir sig og kenningu sína sá Che um böðulsverkin. Hann tók þá afsíðis, sem ekki vildu makka rétt og skaut eigin hendi með skammbyssu sinni. Í hreinsunum miklu og fjöldaaftökunum, sem fylgdu í kjölfar valdatöku Castros hafði Guevara líka yfirumsjón með aftökunum. Um þetta blóðbað, eins og önnur illvirki Castros er þó aldrei talað. Che krafðist þess líka margsinnis í opinberum ræðum í Kúbudeilunni, að kjarnorkusprengjum yrði varpað á Bandaríkin.

Allir vinstri menn, „róttækir” og aðrir, réttlæta Che og slá skjaldborg um Castro  enn í dag. Hvers kyns alvarleg gagnrýni á þennan miskunnarlausa alræðisherra, kúgara og böðul kostar fastistastimpil, ekki aðeins frá þeim ungu rótttæklingum sem hér um ræðir, heldur frá gjörvallri vinstri hreyfingunni sem heild“.

Einnig segi ég eftirfarandi um hugarheim þeirra: 

„Vinstri menn, hvort sem þeir kalla sig „róttæka” eða ekki, haga sér um fjölmargt eins og evangelískur (þ. e. trúboðssinnaður) trúflokkur. Skoðanir hreinræktaðra kommúnista má, eins og skoðanir hefðbundinna trúflokka, finna í helgum bókum, sem spámenn þeirra hafa skráð. Að rökræða við þessa eiginlegu marxista er algjörlega út í hött, svipað og að deila við „frelsaða" menn eða geðbilaða. Þeir eru líka félagsverur, og fara því gjarnan í flokkum. Hugsun þeirra hlýðir ávallt staðli þess hóps, sem þeir tilheyra. Þeir eru, eins og t. d. mormónar eða vottar Jehóva, prógrammeraðir, þannig að þeir hafa ætíð á reiðum höndum afdráttarlaus svör við hinum aðskiljanlegustu vandamálum og þessi svör eru fyrirframvituð og stöðluð. Aðeins þarf að þrýsta á hnapp. Fyrir andstæðinga hefur þetta ýmsa kosti, því alltaf má vita fyrirfram, hvaða skoðun þeir muni hafa í hverju máli. Þó gerir þetta allar rökræður við „róttækt” vinstra fólk leiðinlegar, því það er þreytandi að hlusta sífellt á sömu fyrirframvituðu tugguna. Þeir telja sig búa yfir þekkingu — eða leyndum dómum — og nota hvert tækifæri til að koma þessari „þekkingu” sinni á framfæri enda álíta þeir að hún muni frelsa heiminn. Þetta er því meira áberandi, þeim mun “lengra til vinstri” (róttækari) sem þeir teljast. Eiginlegum kommúnistum af gömlum skóla hefur nú fækkað verulega, þótt allnokkrir séu eftir, en sömu tilhneigingar gætir einnig meðal þeirra, sem telja sig „hófsamari” (þ.e. „lengra til hægri”) innan vinstri hreyfingarinnar. Hér er um stigsmun að ræða, ekki eðlismun.

Og ég held áfram:

„Af þessum sökum leitar vinstra fólk mjög í störf, þar sem besta tækifærið gefst til að breiða út fagnaðarerindið, svo sem við ritstörf, kennslu- og uppeldismál eða fjölmiðlun. Afrakstur þessarar tilhneigingar þeirra hefur komið sífellt betur í ljós hin síðari ár, m.a. í því, að vinstri menn, „róttækir” og aðrir einoka nú orðið mest alla menntun og nánast alla fjölmiðlun í landinu.

Sem áður sagði lenti vinstri hreyfingin í sálarkreppu við fall alræðis og gúlags 1989-1991. Í alræðisherrum kommúnistaríkjanna höfðu andlegir forfeður hinna ungu „aðgerðarsinna“ séð vini, sem eins og þeir sjálfir hötuðu og vildu kollvarpa þjóðfélagi Vesturlanda. Það mistókst og nú leitar ný kynslóð sér nýrra bandamanna meðal hinna ýmsu hryðjuverkahópa og hatursmanna Vesturlanda í þriðja heiminum.

Bandaríkjahatrið, sem „aðgerðarsinnar“ eiga sameiginlegt með andlegum (og oft einnig líkamlegum) forfeðrum sínum, kemur víða fram. Afstöðu vinstri manna til Bandaríkjanna svipar reyndar mjög til afstöðu sníkilsins til hýsils síns.

„Rótttækir” vinstri menn af eldri kynslóð voru gjarnan nánast helteknir af jazz og fleiri þáttum bandarískrar menningar, en studdu af alefli Stalin og aðra þá sem vildu tortíma Bandaríkjunum. Þessi tvískinnugur er enn meira áberandi meðal hinnar nýju kynslóðar. Hugarheimur þessa fólks er að miklu leyti skapaður í Bandaríkjunum, ekki síst sú „pólitíska rétthugsun”, sem þeir aðhyllast af alefli, en þeir, eins og raunar bandarískir vinstri menn sjálfir, gera samtímis allt sem í þeirra valdi stendur til að níða, sverta og svívirða Bandaríkin. Sníkillinn nærist á hýsli sínum en vinnur honum jafnframt tjón.  

Þeir „róttæku” ungu „rapparar”, sem vörpuðu logandi íkveikjusprengju að bandaríska sendiráðinu fyrir nokkrum árum voru einkar dæmigerðir fyrir hina nýju kynslóð róttæklinga. Þetta gerðist skömmu fyrir atburðina 11. september 2001 þannig að enn var óhætt að ráðast að Bandaríkjamönnum á þennan hátt án alvarlegra eftirmála. Nú þyrfti til þess meira hugrekki en þetta fólk býr yfir, en slíkar sprengjur eru í styrjöldum notaðar til að kveikja í skriðdrekum og húsum. Sem kunnugt er var ákæran nánast hjákátleg (móðgun við erlent ríki). Þótt fjöldi manns væri í húsinu og kviknaði í undan íkveikjusprengjunni var hvorki kært fyrir íkveikju né morðtilraun. Þeir borguðu ekki einu sinni skaðabætur.  

Ég er raunar ekki þeirrar skoðunar, að senda hefði átt þessa ungu menn austur fyrir fjall og gera þannig að píslarvottum í hópi skoðanabræðra sinna sem eru margir. Fólkið sem safnaðist á Austurvöll um árið var margt sömu gerðar og þeir. Miklu réttlátari refsing hefði verið að senda rapparana vestur um haf á fund hinna svörtu smáglæpamanna, sem þeir sækja hugarheim sinn og andlega næringu til. Þar gætu þeir fengið að „chilla” að vild um áhugamál þessara manna, sem svo ljóslega koma fram í rapptextum, nefnilega eiturlyfjasölu, útgerð vændiskvenna, rán, morð, hópnauðganir og, ekki síst það skrítna fyrirbæri, „móður- kynhneigð”, sem nánast gegnsýrir allt og kemur hvarvetna fram í orðum þeirra og æði. En böggull fylgir skammrifi: “They don´t Talk the Talk, they don´t Walk the Walk”, eins og átrúnaðargoðin mundu segja. Ég mundi ekki spá hinum ungu íslensku gervi- Könum langlífi þar vestra. Þessir svörtu smákrimmar eru, eins og títt er um glæpamenn, þrátt fyrir allt miklir föðurlandsvinir“.

Og að lokum:

„Gagnrýni er ekki aðeins nauðsynleg, heldur beinlínis einn helsti undirstöðuþáttur lýðræðis, og því er tjáningarfrelsið lífsnauðsyn. Tjáningarfrelsið má ekki skerða. Gagnrýni er varnarkerfi þjóðfélagsins á sama hátt og ónæmiskerfið er varnarkerfi mannslíkamans. En í sumum sjúkdómum snýst ónæmiskerfið gegn sjálfum líkamanum. Þetta gerist t.d. í gigtarsjúkdómum. Þá ræðst ónæmiskerfið á vöðva og liði, og hindrar þannig eðlilega hreyfigetu líkamans án þess að drepa hann. Allra verstur er þó sá sjúkdómur, eyðni, þar sem ónæmiskerfið ræðst á sjálft sig. Þeir sem ættu að verja líkamann fá röng skilaboð, ráðast á sjálft ónæmiskerfið og fremja þannig sjálfsmorð.

Síbyljuárásir hinna „hófsamari” vinstri manna á Bandaríkin og málstað Vesturlanda, sem t.d. má heyra og sjá daglega hjá fréttastofu RÚV og raunar flestöllum ef ekki öllum stærri fjölmiðlum hin síðari ár líkjast meira árásum ónæmiskerfisins í gigtarsjúkdómum. Þær skaða Vesturlönd og Bandaríkin, en drepa ekki.

Kommúnismi, nasismi og islamismi, kenningar, sem afneita sjálfum grundvelli lýðræðisins. eru allt annað og verra. Þeir nota ónæmiskerfið, þ.e. gagnrýnina og tjáningarfrelsið beinlínis til að tortíma sjálfu þjóðfélaginu sem þeir lifa í. „Aðgerðarsinnarnir“, jámenn alræðisherra og hryðjuverkahópa tilheyra síðari hópnum, eins og eyðniveiran. Þeir, án þess að gera sér grein fyrir því sjálfir, nota frelsið til að drepa frelsið“.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu að lýsa sjálfum þér?

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 8.5.2011 kl. 17:55

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Mér sýnist af þessari athugasemd og vefsíðu þinni, að þú þurfir að endurfæðast a.m.k. 46 sinnum áður en þú verður viðræðuhæfur.

Vilhjálmur Eyþórsson, 8.5.2011 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband