Úðabrúsar Eldlendinga


Ég man vel ósónlyktina í ljósastofunni í Austurbæjarskólanum fyrir löngu og ef vitað síðan þá, að útfjólublátt ljós breytir súrefni andrúmsloftsins í ósón. Í tilefni af umræðu um ósón yfir Íslandi finnst mér tilvalið að birta þetta. Þessi grein birtist fyrst í Mogganum í ágúst 1999, en hún hefur í engu tapað gildi sínu. Þvert á móti. Ósóngatið hvarf nokkrum árum eftir birtingu greinarinnar, en kom svo aftur, jafn stórt og áður, og það er orðið alveg ljóst, að hér er um náttúrufyrirbæri að ræða, óháð brölti mannanna. Barnalegar yfirlýsingar um að eitthver alþjóðasáttmáli um ísskápa og úðabrúsa hafi átt þátt í minnkun ósóngatisns er ekki annað en hjákátlegt yfirklór. Menn munu kannski veita því athygli að ég tók nokkrar línur og setningar úr þessari grein þegar ég skrifað nýjustu grein mína um þessi mál, Þjóðmálagreinina "Að flýta ísöldinni" V.E.

HEIMSENDAFÁR gengur nú yfir löndin og á nýja árþúsundið vafalaust þátt í því. Þetta er ekki í fyrsta sinn, því á síðari hluta tíundu aldar breiddist sú hugmynd sem eldur í sinu um hinn kristna heim, að dómsdags væri að vænta árið 1000. Mundu þá kristnir einir bjargast, en heiðnir brenna í víti. Hófst nú eitt mesta kristinboðsátak sögunnar, og kristnaðist Mið- og Austur-Evrópa á fáum árum ásamt Garðaríki, svo og Danmörk, Noregur, Grænland og Ísland.
Heimsendirinn, sem lofað hafði verið árið 1000, lét þó á sér standa, og hefur kirkjan æ síðan ekkert viljað ræða fárið. Hún hélt þó fast í hina gífurlegu landvinninga sína. Heimsendafársins mikla er t.d. hvergi getið í þeirri ritskoðuðu Íslendingabók sem varðveist hefur. Raunar hefur lengi verið prívatskoðun mín, að það hafi verið heiðnir menn, sem bentu á umhverfið og sögðu: "Hverju reiddist Guð..." (ekki goðin) þegar eldgos hófst þar sem þingheimur, eða a.m.k. hinn kristni hluti hans, beið í ofvæni eftir heimsendi, skjálfandi á beinunum, á Þingvöllum árið 1000. Eldgosið var túlkað sem upphaf heimsendisins. Íslendingabók er eina fornritið, sem vitað er um með vissu, að kirkjan ritskoðaði og beinlínis breytti og mér finnst afar líklegt, að hin fleygu orð Ara um að "hafa það, sem sannara reynist" vísi til ritskoðara hans. 
Heimsendafræði (eskatólógía á lærðra manna máli) var eitt höfuðviðfangsefni miðaldaguðfræðinga. Töldu hinir lærðustu menn miðalda einsýnt, að syndugt líferni mannanna, græðgi og illska mundi fljótlega kalla yfir þá eld og brennistein, pestir og kýli uns mannkynið tortímdist með öllu fyrir sakir vonsku sinnar, synda og almennrar fúlmennsku. Eskatólógum tókst þó aldrei að dagsetja heimsendi almennilega, hann dróst von út viti og er ekki kominn enn. Minnir þetta afar mikið á málflutning þeirra, sem grænastir eru og vitlausastir í "umræðunni" nú til dags.
Fárið, sem núna steðjar að er að sögn þessa fólks í tvennu lagi. Í fyrsta lagi valdi syndugt líferni mannanna, græðgi þeirra og illska alveg voðalegri mengun, sem hafi gert gat á ósónlagið, þó ekki á norðurhveli þar sem flestallt fólkið býr, heldur í óbyggðum hinum megin á hnettinum. Þeir, sem ekki brenni lifandi sleppi þó ekki, heldur drukkni. Það sé nefnilega að hlýna í veðrinu af völdum títtnefnds syndugs lífernis mannfólksins. Muni því ísinn bráðna, en hann er nánast allur í fyrrnefndum óbyggðum hinum megin á hnettinum. Hafið muni síðan flæða yfir löndin.
Tölvufræðingar, framleiðendur og seljendur hafa svo komið sér upp þriðja fárinu, en um þá matarholu þeirra verður ekki fjallað hér, enda fellur "2000-vandinn" fremur undir markaðsfræði en eiginlega heimsendafræði.

            Útfjólublátt ljós myndar ósónlagið
 Byrjum á ósónvandanum: Ég játa fúslega, að ég man næsta fátt úr þeirri takmörkuðu efna- og eðlisfræði sem kennd var í máladeild MR á sjöunda áratugnum. Þó man ég nokkur mikilvæg atriði um ósón, sem ég veit ekki betur en séu enn almennt viðurkennd og standi óhögguð. Hefur vakið sívaxandi undrun mína undanfarin ár, að enginn skuli hafa á þau bent, svo alkunn sem þau eru.
Í fyrsta lagi: Ósón er ekki fágæt lofttegund, sem aldrei kemur aftur þegar hún eyðist, heldur einfaldlega hreint súrefni í annarri mynd. Sameind ósóns hefur þrjár frumeindir í stað tveggja í venjulegu súrefni og hefur það því allt aðra eiginleika, er m.a. eitrað. Í öðru lagi: Stöðug nýmyndun ósóns úr súrefni á sér stað í náttúrunni, t.d. við eldingar, og allir þekkja ósónlykt, sem gýs upp þegar skammhlaup verður í rafmagnstækjum. Það myndast einnig m.a. í bílvélum og í útfjólubláum lömpum.
Í þriðja lagi, og það sem mestu máli skiptir: Ósónlagið verndar ekki einungis jörðina gegn útfjólubláum geislum sólar, heldur er beinlínis myndað af þeim.
Þetta má sjá einkar vel við bæði heimskautin, en þar er ósónlagið þykkast á haustin, þegar útfjólubláir geislar sólar hafa skinið á þunnt súrefnið í efstu lögum gufuhvolfsins mánuðum saman og breytt því í ósón. Jafnskjótt og heimskautanóttin skellur á fer ósónið aftur að breytast í súrefni og lagið að þynnast, enda er ósón miklu óstöðugra en venjulegt súrefni. Þá taka við svonend kolflúorsambönd (CFC), sem eyða ósóni og ekki koma nema af afar litlu leyti úr ísskápum og úðabrúsum, heldur hafa streymt úr iðrum jarðar í örlitlu magni frá því hún var glóandi eldhnöttur og hafa alla tíð verið til staðar sem snefilefni í gufuhvolfinu. Þegar sólin fer aftur að skína þykknar lagið á ný þar til það nær hámarksþykkt. Fjarri heimskautunum, þar sem útfjólublátt ljós sólar skín á súrefnið í gufuhvolfinu alla daga ársins er ósónlagið stöðugt allan ársins hring, og engin marktæk breyting á þykkt þess hefur þar nokkurn tíma mælst.

                                 Hvar er ósóngatið á norðurhveli?
Samkvæmt kenningum græningja veldur loftmengun ósóngatinu á suðurhveli.
Þetta er skrýtið. Vegna snúnings jarðar og miðflóttaafls skiptast veðurkerfi norður- og suðurhvels að mestu í tvennt við miðbaug (Coriolis- kraftar). Sú mengun, sem verður til í iðnríkjunum á norðurhveli kemst ekki nema að afar litlu leyti suður í hitabelti, hvað þá langt suður fyrir það. Og hvers vegna er þá ekkert ósóngat á norðurhveli, þar sem yfir 90% mengunarinnar verða til?
Samkvæmt nýlegum tölum S.þ. fara um 6,4% iðnaðarmengunar heimsins fram í hitabelti og á suðurhveli. Löndin, sem nefnd eru, eru þó flestöll í hitabeltinu að meira eða minna leyti. Stórborgir í tempraða beltinu syðra má telja á fingrum sér, og þær eru allar í næsta nágrenni hitabeltis, álíka langt frá suðurskauti og Flórida er frá norðurskauti. Þar fyrir sunnan er mengun nánast engin, trúlega langt innan við 0,001% af heildinni. Tempraða beltið syðra er að mestu þakið víðáttumesta, fáfarnasta, og jafnframt ómengaðasta úthafi á jarðarkringlunni, og sunnan til búa miklu fleiri sauðkindur en menn. Á sömu breiddargráðum norðurhvels, sem er jafn stórt, er hins vegar m.a. að finna Bandaríkin, Evrópu, Rússland, Kína og Japan. Þar verða 93.6% heildarmengunarinnar til, samkvæmt fyrrnefndum tölum, að hluta til inni á sjálfu norðurheimskautssvæðinu. En hvar er ósóngatið?
Umferð flugvéla í háloftunum er talin einkar skaðleg ósónlaginu. Á Suðurskautslandinu hafa aðsetur fáeinir vísindamenn, miklu færri en íbúar við Grettisgötu í Reykjavík. Fáeinar lágfleygar flutningavélar færa þeim vistir að sumarlagi nokkrum sinnum á ári. Um aðra mengun er ekki að ræða.
Um háloftin yfir norðurheimskautssvæðinu, sem er jafn stórt, fara hins vegar risastórar farþegaþotur meira en hundrað þúsund sinnum á ári hverju. Þar búa milljónir manna og stórar, mengandi borgir á borð við Murmansk eru langt inni á sjálfu heimskautasvæðinu. Og ég spyr aftur: Hvar er ósóngatið á norðurhveli?

                                    Kuldi meginástæðan
Ég sá ágæta skýringu á ósóngatinu í lítilli grein í erlendu blaði fyrir nokkrum árum og var hún höfð eftir hópi vísindamanna við bandarískan háskóla, sem verið höfðu við rannsóknir á Suðurskautslandinu. Þessi skýring samrýmist ekki þeirri "pólitískri rétthugsun" sem nú er í tísku að fylgja, því mengunarkenningunni er alfarið hafnað, enda segja þeir enga slíka mengun hafa fundist. Var greinin því höfð á lítt áberandi stað á innsíðu, en meginatriðin voru eftirfarandi: 

Gufuhvolfið sé dálítið grynnra yfir Suðurskautslandinu, enda heimskautið sjálft í um þriggja kílómetra hæð, en miklu meira máli skipti frostið, sem þar ríkir, sem getur orðið allt að 100 stig. Þessi fimbulkuldi hægi á öllum efnabreytingum, þar á meðal ummyndun súrefnis í ósón á sumrin. Hitastig hafi farið lækkandi þar syðra undanfarin ár og sé það, ásamt sólblettum líklegasta skýringin á tímabundinni stækkun ósóngatsins. Þá telja þeir líklegt að ósóngat hafi verið til staðar alla núverandi ísöld, eða um 3 milljónir ára, stækkað á kuldaskeiðum, en minnkað á hlýviðrisskeiðum eins og því sem nú ríkir. Á norðurhveli sé miklu hlýrra og því ekkert ósóngat.
Skýringu á því, hvers vegna ekkert ósóngat fannst á alþjóðlega jarðvísindaárinu 1958 segja þeir líklega vera, að mælingaaðferðir hafi þá verið frumstæðari en nú, enda hafi þá enginn verið að leita sérstaklega að þessu fyrirbæri, sem þá var enn óþekkt.
Það er athyglisvert, hve fáir alvöru vísindamenn hafa viljað koma nálægt "umræðunni" um ósóngatið og það sama gildir einnig og ekki síður um hina "umræðuna", þ.e. þá um "gróðurhúsaáhrifin" en um hana mun ég fjalla síðar. Þeir, sem á annað borð tjá sig eru gjarnan með próf í einhverri allt annarri fræðigrein. Yfirlýsingar dýrafræðings eða grasafræðings um veðurfræðileg efni eru álíka marktækar og t.d. yfirlýsingar tannlæknis um verkfræði eða jarðfræðings um stjörnufræði.
Því er það, að þessi "umræða" hefur að mestöllu leyti verið í höndum erlendra blaðamanna, sem augljóslega skortir lágmarks undirstöðumenntun, ekki aðeins í náttúruvísindum, heldur í barnaskólalandafræði, vita t.d. ekki, hve sáralítil byggð er á suðurhveli jarðar og halda í einfeldni sinni að fyrst norðurhvelið sé mengað hljóti suðurhvelið að vera eins. Stjórnmálamenn, sem eru álíka grænir í landafræði sem öðru, taka síðan ákvarðanir út frá skrifum æsifréttablaðamanna, enda líklegt til vinsælda. Það stríðir nefnilega gegn ríkjandi "pólitískri rétthugsun" að malda í móinn gegn "umhverfisverndarsinnum", er álíka viðsjárvert og að hallmæla konum, hommum, svertingjum, dvergum, feitu fólki eða öðrum, sem eiga undir högg að sækja í lífsbaráttunni.

Sem dæmi um endaleysuna má taka þá kenningu að ósóngatið sé af völdum úðabrúsa. Syðstir jarðarbúa eru Eldlendingar. Samkvæmt kenningum "umhverfisverndarsinna" hlýtur úðabrúsanotkun þessa fátæka fólks að vera ein meginástæðan fyrir ósóngatinu, því að frátöldum fyrrnefndum vísindamönnum á Suðurskautslandinu, sem nota örugglega mjög lítið hárlakk, er ekki um aðra úðabrúsa að ræða á suðurhveli jarðar nær heimskautinu. Mikil er því synd Eldlendinga, sem eru álíka margir og íbúar í Breiðholtshverfi í Reykjavík og álíka langt frá suðurskauti og Lundúnabúar eru frá norðurskauti.
Eða eiga kannski sauðkindur Patagóníumanna sökina?
Að lokum: Vandamálið er ekki skortur á ósóni, heldur offramleiðsla þess. Það myndast sem fyrr sagði í bílvélum og er ein meginuppistaðan í stórborgarmengun nútímans. Hefur ósóneitrun orðið þar þúsundum að bana undanfarin ár.
Ósóngatið hefur engan drepið.
Og ég spyr í allra síðasta sinn: Ef mengun er orsökin, hvar í ósköpunum er þá ósóngatið á norðurhveli?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Thakka stórgódan og fraedandi pistil. Thar sem ég dvel stóran part ársins á Eldlandinu (Tierra del Fuego) get ég stadfest ad rollurnar hér, sem eru reyndar fjandi margar, ásamt hinum sárafáu manneskjum sem hér búa, hafa ekki yfir ad ráda meira magni af údabrúsum eda biludum ísskápum, en adrir ábúendur thessarar jardar. Thví frábydjum vid okkur ad vera kennt um gatid á osonlaginu, sem madur finnur vel fyrir, thegar sólin skín. Thad beinlínis stingur í húdina undan geislum hennar, thegar hún er hvad sterkust. Umraedan um thessi mál er komin langt út í skurd og hlutur fjölmidla hreint átakanlegur á köflum. Til ad kóróna sídan delluumraeduna er fjörtíu thúsund bjúrókrötum smalad saman til Parísar yfir eina helgi, med raudvíni og ostum, á kostnad skattborgaranna. Thar vard nidurstadan sú ad nú skuli völdin tekin af módur náttúru og ráduneyti og stjórmálamenn, ásamt sölumönnum mengunarkvóta (T.D. Al Gore)taki vid og hafi stjórn á náttúruöflunum, hér eftir gegn gjaldi. Thvílíkt og annad eins daudans rugl.

Gódar stundir, med kvedju ad sunnan.  

Halldór Egill Guðnason, 17.2.2016 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband