Þriðjudagur, 24. mars 2009
Þjóðin, það er ég!
Það er bjargföst skoðun mín, að margt í háttalagi vinstri manna verði einungis skýrt í ljósi sálfræði, ef ekki beinlínis geðlæknisfræði. Rök fyrir þessari skoðun eru fjölmörg, en ekki er hægt að fara nánar út í það í þetta sinn. Ef til vill síðar.Eins og menn sjá, var Morgunblaðið þarna enn í eigu Bjórgólfseðga og með Ólaf Stephensen á ritstjórastóli.
"Margur heldur mig sig," segir gamalt máltæki og sú hugsun, eða öllu heldur þráhyggja, að allir aðrir hljóti að vera á sömu skoðun og maður sjálfur er einkennandi fyrir hugsjónamenn, lýðskrumara og einfeldninga allra alda. Raunar er vandfundinn sá harðstjóri og ógnarbíldur á spjöldum sögunnar, sem ekki taldi sjálfan sig vera alveg sérstakan fulltrúa "alþýðunnar", þ.e. fólksins, þjóðarinnar. Það gerði Kleón sútari í Aþenu hinni fornu, Júlíus Sesar var ávallt "maður fólksins" og Napóleon hóf feril sinn sem byltingarleiðtogi á vegum "alþýðunnar". Margir þjóðhöfðingjar töluðu gjarnan um sjálfan sig í fleirtölu, t.d. Viktoría drottning, (sbr.: "We are not amused"). Prívatskoðun eins einstaklings átti þannig að vera skoðun allrar þjóðarinnar.
Hitler lauk aldrei sundur munni án þess að tala í nafni "alþýðunnar", en þýska orðið "Volk" og enska orðið "People" er á íslensku ýmist þýtt sem "þjóð" eða "alþýða".
Eitt af því fjölmarga, sem "róttækir vinstri menn" (kommúnistar) eiga sameigilegt með nasistum er, að þetta fólk endurtekur í sífellu orðin "alþýða" (Volk) og "barátta" (Kampf) og - vel að merkja - bæði kommúnistar og nasistar trúa því í fullri alvöru, að einmitt þeir sjálfir séu hinir einu og sönnu fulltrúar fólksins. Hrokinn, yfirgangurinn og frekjan, sem felst í nafni "Þjóðviljans" sáluga hefði sómt sér ágætlega á einhverju málgagni Hitlers og nasista ("Wille des Volkes").
Þetta blað túlkaði aldrei vilja nokkurrar þjóðar, hvorki hinnar íslensku eða rússnesku, heldur vilja lítillar klíku menntamanna á Íslandi, en þó fyrst og fremst vilja þeirra miskunnarlausu, blóðþyrstu óþokka, sem völdin höfðu í Kreml. Raunar er nafnið eldra en alræðismálgagnið, Stofnandi hins elsta Þjóðvilja, Skúli Thoroddsen virðist, eins og svo margir aðrir hugsjónamenn í gegnum tíðina, og ekki aðeins kommúnistar og nasistar, hafa verið haldinn þeirri þráhyggju að vilji hans sjálfs hlyti að vera vilji allra.
Femínistar tala undantekningarlaust um sínar eigin prívatskoðanir sem skoðanir allra, þótt yfirgnæfandi meirihluti kvenna hafi sáralítinn áhuga á brölti þeirra. Einfeldningar í stétt fjölmiðlamanna éta þetta eftir þeim og tala því gjarnan um "skoðanir kvenna" eða "vilja kvenna" þegar í raun er átt við skoðanir og vilja lítillar klíku femínista.
Klausuna hér að framan skrifaði ég fyrir nokkrum árum í stuttri grein í Mogganum þegar hávaðinn var sem mestur í Þjóðarhreyfingunni út af frægri auglýsingu, sem sett var í New York Times. Hún á einkar vel við nú, í ljósi nýjustu atburða, þegar svonefndar grasrótarhreyfingar spretta nú upp víðs vegar.
Þjóðarhreyfingin er nú að mestu eða öllu leyti fyrir bí, en hún er einmitt ágætt dæmi um það, þegar fáeinir menn fá þá flugu í höfuðið, að allir aðrir hafi sömu skoðun og þeir sjálfir. Ekkert bendir til annars en að forkólfar hennar, sem voru í upphafi þrír, hafi trúað því í fullri alvöru að öll þjóðin deildi skoðunum þeirra á svonefndu fjölmiðlafrumvarpi, sem varð tilefnið að stofnun hreyfingarinnar. Um þetta mætti segja: þjóð vill, þá þrír vilja, eða, svo vitnað sé í Guðna: Þar sem þrír menn koma saman, þar er komin Þjóðarhreyfing. Meðal annars var efnt til fundar við Stjórnarráðið, þar sem þremenningarnir mættu, auk forvitinna vegfarenda og hrópað í kór: "Við viljum lýðræði! Við viljum lýðræði!" alveg eins og börnin gerðu í gömlu auglýsingunni ("Við viljum Vilkó! Við viljum Vilkó!").
Síðar bættist Kona í hópinn, þannig að úr varð fjórmenningaklíka, eins og hjá Mao. Í það sinn snerist baráttan um að safna fé til að setja auglýsingu í New York Times til að auglýsa fyrir gjörvallri heimsbyggðinni að þeir sjálfir væru sko alveg á móti stríðinu í Írak. Raunar vissu þá þegar allir sem vildu vita, að þeir voru á móti stríðinu en þeim fannst samt bera brýna nauðsyn til að auglýsa þetta fyrir heiminum með ærnum tilkostnaði.
Ekkert bendir til að nokkur maður í Bandaríkjunum eða annars staðar á Vesturlöndum hafi lesið þessa auglýsingu eða tekið hið minnsta mark á henni. Gyðingarnir, sem eiga blaðið eru hins vegar ákafir stuðningsmenn Ísraels og veita fé þangað. Það er alveg öruggt, að eitthvað af peningunum sem safnað var meðal fátækra íslenskra hugsjónamanna hefur þannig runnið til að styrkja ísraelsku hernaðarmaskínuna, sem er reyndar hið besta mál.
Hitt er ljóst, að hún hefur haft áhrif í arabalöndum. Auglýsingunni voru gerð rækileg skil í arabískum fjölmiðlum, m.a. á Al- arabia og Al -jazeera sjónvarpsstöðvunum. Ísland er því komið þar á kortið sem óvinur. Al Qaida- leiðtogarnir eru margir hverjir menntaðir menn og vel upp aldir og lesa New York Times.
Því fer fjarri að Þjóðarhreyfingin sé eina dæmið um slíka grasrótarhreyfingu, og má til dæmis minna á núll- flokkinn , Sólskins- flokkinn og samtök Ástþórs, Frið 2000, sem naut all nokkurs fylgis um skeið. M.a. lýsti þáverandi forsætisráðherra, Steingrímur Hermannsson stuðningi sínum við hreyfinguna. Þar var um að ræða þráhyggju eins manns, sem tókst að hrinda öllu af stað. Sama gildir um Flokk mannsins var all áberandi í þjóðlífinu fyrir nokkrum árum.
Samtök sú, Raddir fólksins, sem undanfarið hafa staðið fyrir hávaða og óeirðum í miðbæ Reykjavíkur eiga flest sameiginlegt með fyrrnefndum grasrótarsamtökum. Má telja öruggt að stór hluti, vel hugsanlega meirihluti einbeittustu þátttakenda í látunum hafi starfað í einhverjum eða öllum þeim samtökum, sem ég áður nefndi, hafi þeir til þess aldur. Að tvennu leyti skera þau sig þó alveg úr: Þeim hefur tekist að draga til sín nokkurn fjölda nytsamra sakleysingja, mun fleiri en fyrri hliðstæð samtök og í öðru lagi hafa þessi samtök, ólíkt þeim fyrrnefndu, ekki hikað við að beita ofbeldi. Eins og allir vita hafa þeir skipulega reynt að hindra eðlileg störf kjörinna fulltrúa þjóðarinnar með látlausum, ærandi hávaða. Þeir hafa líka ráðist að lögreglunni og kastað matvælum, múrsteinum og, eins og margir þekkja af háttalagi apa í dýragörðum, sínum eigin úrgangsefnum að Alþingishúsi og Stjórnarráði. Þetta er ólíkt fyrri mótmælum. Í látunum í kringum fjölmiðlafrumvarpið hér um árið létu þannig forystumenn blaðamanna sér nægja, þegar þeir urðu hræddir um vinnuna sína hjá Baugi, að bera banana að Alþingishúsinu. Dálætið á banönum segir í mínum huga ýmislegt um hina sjálfhverfu, sjálfumglöðu stétt.
Þáttur fjölmiðlamanna og eindreginn stuðningur flestallra, ef ekki allra stærri fjölmiðla við óeirðaseggina á líka geysimikinn og afgerandi þátt í nýafstöðnum ólátum. Hnignun blaðamannastéttarinnar, kom þarna berlega í ljós. Það kann að koma mönnum á óvart að ég set þessa hnignun í beint samband við auknar kröfur um menntun (þe. forritun) blaðamanna, svo sem nám í svonefndri fjölmiðlafræði.
Fyrr á árum voru blaðamenn afar mislitur söfnuður. Mest bar á prófleysingjum af ýmsu tagi, oft vínhneigðum, afdönkuðum lögfræðingum, prestum eða öðrum menntamönnum, sem rekið hafði á land í þessari stétt. Þeir höfðu þrátt fyrir allt oft víðtæka reynslu og góða yfirsýn yfir mannlíf og þjóðfélag. Fyrir þeim vakti fyrst og fremst að skýra frá atburðum ekki að stýra þeim eða dæma og vandlætast. Þeir töluðu fátt um fjórða valdið, ábyrgð fjölmiðla eða hlutverk blaðamanna. Þeir voru bara að vinna vinnuna sína.
Þetta hefur mikið breyst með kröfum um fagmennsku, þ.e. nám í fjölmiðlafræði. Kennslu í þessari fræðigrein hafa um langt skeið að mestu annast gamlir liðsmenn hins íslenska stuðningsflokks alræðis og gúlags, Alþýðubandalagsins, en hann klofnaði fyrir nokkrum árum, eins og menn vita Helstu kennarar (og þar með forritarar) fjölmiðlamanna hafa lengi komið úr gamla bolsévíka- arminum, nú VG, en afgangurinn mikið til úr mensévíka- arminum, sem nefnist Samfylking, en sá flokkur hefur án nokkurs vafa hæst kjána- hlutfall allra íslenskra stjórnmálaflokka. Þetta er undantekningarlítið fólk af því tagi, sem enn í dag réttlætir Castro samhliða háværu lýðræðis- og mannréttindahjali.
Nemendur þeirra koma úr leikskólakynslóðinni, fólk sem frá blautu barnsbeini hefur haft mest samskipti við önnur börn og kennara, en ekki við foreldra sína, oft fráskilda. Afraksturinn verður eins og til var stofnað. Hópsálin, hjarðhvötin verður ráðandi. Hugsun engrar stéttar eða hóps er auðveldara að stýra nema ef vera skyldi börn undir kynþroskaaldri. Frá þessum ungu menntuðu fjölmiðlamönnum streymir fyrirframvitað, pólitískt rétthugsað, utanaðbókarlært blaður vinstri manna í látlausri, óstöðvandi síbylju. Geri einhver athugasemd bregðast þeir ókvæða við. Þeir fara þá strax að hrópa hátt um sína eigin "fagmennsku" og byrja svo að fimbulfamba eitthvað um "starfsheiður blaðamanna". Það er ekki heiglum hent að gagnrýna þá, síst eftir að meginhluti stéttarinnar hreiðraði um sig í djúpum vösum Bónus- feðga. Nú er loksins að verða grisjun í stéttinni og er það vel. Hún hafði bólgnað út fyrir öll velsæmismörk.
Þáttur fjölmiðla í að halda ólátunum gangandi var, sem fyrr sagði afar mikill. Það er staðreynd að fjölmiðlar, ekki aðeins Baugsmiðlarnir heldur enn frekar RÚV, og, sem kemur kannski mest á óvart, sjálft Morgunblaðið, hafa réttlætt aðfarir mótmælenda ef ekki beinlínis hvatt til þeirra, m.a. með sífelldum auglýsingum um væntanleg mótmæli og útsendingum í útvarpi og sjónvarpi frá uppátækjum mótmælenda. Lengst allra hefur gengið Konan, sem undanfarið hefur sent út vídeofréttir í stíl gamla Þjóðviljans undir merkjum Mbl.is. þar sem fram kemur afdráttarlaus, kinnroðalaus stuðningur við skrílinn. Hún hefur nú af fjölmiðlamönnum verið kosin blaðamaður ársins, sem undirstrikar og staðfestir allt það sem ég sagði um hina sjálfhverfu, sjálfumglöðu stétt hér að ofan, en velþóknun ritstjórnar Morgunblaðsins sýnir líka hvernig komið er fyrir þessu blaði og hvers vegna gamlir tryggir stuðningsmenn þess eru nú sem óðast að yfirgefa það.
Menn muna kannski, þegar ungliðar Samfylkingar og VG söfnuðust á palla í Ráðhúsinu og gerðu hróp að nýskipuðum borgarstjóra. Fjölmiðlar fullyrtu þá hver um annan þveran að almenningur hefði mótmælt. Sagan endurtók sig nú. Fáeinir aðgerðarsinnar, með Hörð Torfason í fararbroddi boðuðu til mótmæla á Austurvelli. Fjölmiðlar gripu þetta á lofti og voru óðara farnir að tala um að almenningur vildi mótmæla vonsku stjórnvalda. Fólk var opinskátt hvatt til að mæta til að hlusta á Hörð og menn hans og í rauninni furðulegt hve fáir létu sjá sig, tíu- fimmtán sinnum færri en mættu á gleðigöngu hommanna. Þátttakendur í mótmælunum hafa langoftast verið miklu færri en þeir, sem kusu Ástþór í forsetakosningum og það er líka öruggt, að hlutfall kjósenda Ástþórs í röðum mótmælenda var afar hátt. Fjölmiðlamenn sjá hins vegar ekkert athugavert við segja almenning, eða jafnvel þjóðina hafa mótmælt. Þeir hafa líka vísvitandi beint athyglinni frá þeirri staðreynd að hér er fyrst og fremst um að ræða liðsmenn ýmissa öfga- og jaðarhópa. Þess í stað hafa þeir beint athyglinni að þeim nytsömu sakleysingjum, sem stundum slógust í hópinn um lengri eða skemmri tíma og segja þá sýna að hér sé um almenning að ræða, sem er alrangt.
Sem fyrr sagði var það einkennandi fyrir þessa atburði, auk ofbeldisins, hve marga nytsama sakleysingja vinstrimennirnir, sem forystu höfðu tókst að blekkja til liðs við sig, a.m.k. um skamma hríð. Saklaustast var trúlega átta ára barnið, sem var látið halda ræðu. Ræða háskólakennara nokkurs var hins vegar nytsömust. Hann var gerður að ráðherra.
Ingibjörg Sólrún, lýðræðislega réttkjörinn fulltrúi á þingi þjóðarinnar, fékk skömm í hattinn þegar hún benti hópnum á, sem sat í Háskólabíói á frægum borgarafundi, að þeir væru ekki þjóðin. Fjölmargir, jafnt innan fjölmiðla og utan þeirra töldu þetta sýna hroka Ingibjargar. Það er alveg ljóst að fundarmenn, sem enginn hafði kosið og voru sem fyrr sagði álíka margir og kusu Ástþór, töldu sjálfa sig í raun vera þjóðina. Ekki nóg með það. Þeir samþykktu ályktun, þar sem þess var krafist, að fundarmenn fengju framvegis tvo fulltrúa á fundum ríkisstjórnarinnar! Samþykkt þessarar tillögu sýnir betur en flest annað hvers konar fundur þetta var og hvers konar fólk hér var um að ræða.
Ýmislegt stendur upp úr frá þessum atburðum, svo sem heimsókn fáeinna mótmælenda til Bessastaða. Þeir voru ýmist klæddir lambhúshettum eða með klúta fyrir andliti eins og glæponar í gömlum kábojmyndum. Mér fannst gaman að sjá þá reyna að sötra te og súkkulaði í gegnum klútana og skíðagrímurnar.
Það merkilega er, að hvorki mótmælendurnir, eða Ólafur Ragnar, sem einu sinni titlaði sig prófessor í svonefndri stjórnmálafræði, virtust þekkja til hinna fleygu orða Maos: Byltingin er ekkert teboð.
Að lokum:
Sýndarmennskan og sjálfsblekkingin er vinstri manninum ásköpuð og eðlislæg, eins og vandlætingin, og kemur fram hvarvetna í orðum hans og æði. Þetta fólk tekur ávallt fallega lygi fram yfir ljótan sannleika. Þeir eru liðsmenn lyginnar, en jafnframt býr innra með þeim djúpstætt hatur á sínu eigin þjóðfélagi sem þeir reyna að gera allt til miska, og taka því ávallt og ósjálfrátt málstað óvina þess, hverju nafni sem þeir nefnast. Það er ekki hægt að skilja eða skýra háttalag þeirra, sem lengst eru til vinstri eingöngu með tilvísun í marxisma/kommúnisma/sósíalisma, eins og margir ímynda sér. Skýringa á hegðun þeirra er að leita miklu dýpra, á vettvangi sálfræði, ef ekki beinlínis geðlæknisfræði, en það er eitt einkenni alvarlegrar geðveiki (psykosis) að sjúklingurinn sér ekkert athugavert við framferði sitt. Einkennin verða þeim mun meira áberandi því lengra til vinstri viðkomandi telst. Annað sameiginlegt einkenni er hið algera húmorleysi vinstri- ofstækismanna og geðveikra. Mönnum kann að þykja þetta öfgafull staðhæfing, en ég er ekki viss um það. Ég hef áður bent á, að enginn vafi er á að t.d. fundarmenn í Háskólabíói töldu sjálfa sig í fullri og fúlustu alvöru vera þjóðina. Og hvernig á til dæmis að skýra þá staðreynd, að ýmsir núverandi leiðtogar íslenskra vinstri manna hafa starfað í og/eða beinlínis stofnað vináttufélög, sérstaka stuðningshópa við margar af allra grimmustu, blóði drifnustu alræðisstjórnir samtímans (Kúbu, Albaníu, Austur-Þýskaland, Norður- Kóreu o.s.frv), en hafa samtímis og samhliða verið áberandi í starfi Amnesty og opna bókstaflega aldrei munninn án þess að predika í vandlætingartón um lýðræði og mannréttindi? Er þetta fólk með réttu ráði?
Hræsnarinn er sjálfur gjörsamlega ómeðvitaður um hræsni sína. Þetta fólk sér ekki nokkurn skapaðan hlut athugavert við framferði sitt. Sönn hræsni kemur frá hjartanu og þetta góða fólk trúir því í raun og sannleika að einmitt það sjálft séu hinir sönnu lýðræðissinnar, mannvinir og mannréttindafrömuðir. Þetta kann að þykja ótrúlegt, en er þó satt. Og ég spyr aftur: Er þetta fólk með réttu ráði?
Athugasemdir
Ég skal svara lokaspurningunni: Nei, þetta fólk er ekki með réttu ráði. Það er með óráði. Annars er ekki að marka geðsjúkling einsog mig. Því má svo kannski bæta við að ég hef aldrei hitt hægri sinnaðan öfgafemínista. Hef leitað með logandi ljósi en ekki fundið einn. Þeir virðast ekki hafa þessa minnimáttarkennd sem þarf til að vera öfgafemínisti. Þetta eru allt þrælvankaðir vinstrimenn – þ.e.a.s. ef við gerum ráð fyrir að konur séu líka menn. En semsé: Mjög yfirgripsmikil og vel ígrunduð grein.
Sverrir Stormsker, 23.4.2009 kl. 16:34
Þakka góð orð. Eins og ég sagði í innganginum og greininni finnst mér ekki hægt að skýra margt í háttalagi vinstri manna, einkum þeirra sem lengst eru til vinstri, með tilvísun í pólitík. Orsakanna verður að leita dýpra. Djúpt í sjálfu sálarlífi þessa fólks. Raunar lít ég svo á að vinstri mennskan sé meðfædd og ásköpuð og því ólæknandi. Hér er um að ræða alveg sérstaka samsetningu á sálarlífinu, sem ekkert er hægt að gera við. Þeir eru best geymdir í þeim flokkum sem þeir eru. Reyndar kýs ég íhaldið af illri nauðsyn. Ég er þó enginn sérstakur sjálfstæðismaður. Hinir eru bara miklu, miklu verri. Með öðrum orðum: Ég kýs með útilokunaraðferðinni. Annars get ég bent þér á greinina "Eyja Sancho Panza" sem er neðar hér á síðunni, en þar er að finna afstöðu mína til "pólitískrar rétthugsunar".
Kveðja, V.
Vilhjálmur Eyþórsson, 23.4.2009 kl. 18:18
Vilhjálmur,
manstu eftir hrokanum hjá kommunum í gamla daga, sem sögðu við mann að maður væri ekki viðræðuhæfur af því að maður kynni ekki díalektík. Það var Hannes Hólmsteinn sem fletti ofan af því að sjálfir vissu þeir ekki neitt, því þeir höfðu annaðhvort aldrei lesið eða skilið fræðin. Hannes las þau og rak Svavar Gestsson og aðra hrokakomma eftirminnilega á stampinn. Nú er sama hrokann að finna í Þorvaldi Gylfasyni og evruspekingunum, við eruim bara eðjót af því við höfum aðrar skoðanir en þeir.
Halldór Jónsson, 2.5.2009 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.