Herskarar harðstjóranna


Ég var að gramsa í gömlum Moggum og fann þar þennan greinaflokk, sem ég skrifaði síðla vetrar 1987, tveim árum fyrir fall Berlínarmúrsins. Þótt 22 ár séu nú liðin, er geysimargt í þessum greinum sem á fullt erindi inn í dag, því vinstra- liðið hefur ekkert breyst, þótt Gúlagið sé fallið. Allt þeirra háttalag, orð þeirra og æði eru enn sömu og fyrr. Þeir sem áður gengu erinda böðlanna í austri eru nú bandamenn Hamas, Hisbolla, Talibana og Al-Qaida. Hatrið á Vesturlöndum hefur ekki breyst og þeir taka nú sem fyrr ávallt málstað óvinarins hverju nafni sem hann nefnist.



               1. Lýðræðiskynslóðin ljúfa

Gúlageyjaklasinn er ekki einvörðungu fjöldi fanga og þrælkunarbúða, þar sem milljónir eru sviptar frelsi sínu. Hann teygir sig í rauninni allt frá Beringssundi, örskammt frá ströndum Bandaríkjanna, vestur í hjarta Mið- Evrópu, frá auðnum Norðurheimskautssvæðisins langt inn í hitabeltið. Á þessu gífurlega landflæmi eru nærfellt tveir milljarðar manna í haldi. Þetta fólk býr við aðstæður sem um margt má líkja við mannréttindaaðstöðu refsifanga, en að sumu leyti við aðstöðu ólögráða bama. Það er svipt rétti til að ráða eigum sínum að mestu leyti, verustað, orðum eða hugsun. Austur-Þýskaland er frægt dæmi um land, sem í rauninni er fangabúðir, en ástandið er þó enn miklu verra á sumum öðrum eyjum Gúlagsins, svo sem Víetnam eða Albaníu. Þetta eru engin ný tíðindi og það er ekkert sérstaklega nýtt eða frumlegt að benda á þá staðreynd að ríkisstjórnir Gúlagsins eiga samúð og stuðning milljóna Vesturlandabúa, sem sumir hverjir vilja koma á skipulagi þeirra í heimalöndum sínum. Það er líka gamalkunnug staðreynd, að ekki aðeins kommúnistar, heldur allir þeir, sem nefna sig „vinstri menn" annaðhvort umbera, afsaka, þegja um, hilma yfir með — og þegar óhætt þykir, svo sem í Víetnamstríðinu —beinlínis hvetja valdhafa í „ríkjum sósíalismans" til dáða. Mér hefur samt alltaf þótt of lítið gert úr þessu. Meðal þeirra sem harðast hafa barist fyrir hagsmunum alræðisins á Vesturlöndum eru fjölmargrir áhrifamenn i menningarlífi, fjölmiðlun og uppeldismálum og ég er þeirrar skoðunar að áhrif þessa fólks séu yfirleitt stórlega vanmetin. Þetta er hvatinn að þessum skrifum mínum og þó ekki síður sú „mannréttindaumræða", sem nú tröllríður landinu og kemur að mestu úr þeirri átt, sem síst skyldi. 

Stundum er talað um að „hægri" og „vinstri" séu óljós og úrelt hugtök í stjórnmálum. Ég tel svo ekki vera. Þessi skipting í fylkingar er enn jafn afdráttarlaus og hún hefur lengi verið og markalínan liggur um landamæri alræðisríkjanna, Gúlagið. Samúðarmenn harðstjóranna eru til vinstri, andstæðingar til hægri. Einhverjum kann að virðast þetta djörf fullyrðing við fyrstu sýn, en ég fæ ekki betur séð en að orða- og hugtakanotkun í pólitískri umræðu staðfesti hana. Mér sýnist líka að til sé pottþétt aðferð til að mæla það hversu langt til vinstri menn eru og hún er þessi: Hversu langt vilja þeir ganga til liðs við valdhafa Gúlagsins? Lengst til vinstri („róttækastir") eru eiginlegir kommúnistar, en þeir eru að sumu leyti heiðarlegastir í afstöðu sinni. Þeir skiptast að hætti sértrúarsafnaða í ýmsar fylkingar, en eiga eitt sameiginlegt: Þeir fara hvergi í felur með aðdáun sína á og stuðning við harðstjóra á borð við Lenín, Stalín, Kim Il Sung, Mao eða Pol Pot. Þeir víla heldur ekki fyrir sér að verja kúgun og ódæðisverk fyrrnefndra manna og fleiri slíkra og eru ólmir í að koma á stjórnskipulagi að einhverri fyrirmynd úr Gúlaginu í heimalöndum sínum. Vegna þessa er auðveldara að varast þá. Áhrif kommúnista eru enn veruleg víða á Vesturlöndum, en fara nokkuð dvínandi og er það vel.

Í þeirra stað hafa komið nýir menn, „lengra til hægri" innan vinstri hreyfingarinnar og þeir gæta hagsmuna alræðisríkjanna í fjölmiðlum, mennta og uppeldisstofnunum Vesturlanda að mörgu leyti betur en eiginlegir kommúnistar. Þá er að finna í öllum vinstri flokkunum, þótt þeir hafi sig mest í frammi innan Alþýðubandalagsins, þar sem þeir nefna sig nú „lýðræðiskynslóð". Þetta er fólkið, sem talar nú orðið oft illa um Sovétríkin og stjórnir ýmissa annarra Austur- Evrópuríkja sem að meira eða minna leyti hefur verið flett ofan af svo mikið að ekki þykir óhætt að tala mjög vel um þær lengur. Það samrýmist ekki ríkjandi vinstri- hugsanatísku. Þó ber að varast að gagnrýna Sovét um of í návist þessa fólks, vilji maður ekki vera kallaður „fasisti" eða a. m. k. „hægri- öfgamaður". Það er þó talið í lagi að bera í bætifláka fyrir ýmsar aðrar harðstjómir, sem minni athygli hafa vakið. Má hér t. d. nefna Júgóslavíu Títós, Ungverjaland Kadars eða Kúbu Castrós. Þegar talað er um þessi lönd og ýmis fleiri er alltaf bent á jákvæðu hliðarnar. Rétt þykir einnig að fara varfæmum höndum um ýmsar af allra verstu harðstjórnum veraldarinnar, svosem Albaníu eða Norður- Kóreu vilji maður ekki vera talinn „hægrisinni". Tiltölulega fáir andófsmenn berast til Vesturlanda frá þessum og mörgum öðrum eyjum Gúlagsins, fréttir eru fáar og strjálar og þessar þjóðir þjást að mestu í hljóði. Er því enn óhætt að tala vel um valdsmenn þeirra og vera jákvæður. Erfitt er að vekja áhuga góðs vinstri manns á t. d. meðferð pólitískra fanga í Rúmeníu, mannréttindamálum í Laos eða stofnun frjálsra verkalýðsfélaga á Kúbu, þótt hinn sami telji sér skylt að bölva innrásinni í Tékkóslóvakíu og ástandinu í Póllandi. Þeir eru líka á móti styrjöldinni í Afganistan. Þó tala þeir yfirleitt ekki um hana af fyrra bragði fremur en það sem fram fer í Gúlaginu. Þetta er merkilegt vegna þess hvað þeir hafa annars mikinn áhuga á friðar- og mannréttindamálunum. Berist talið að vondum stjórnum utan Gúlags verða þeir hins vegar allir á iði, því, eins og fyrr sagði, er það eitt helsta einkenni þessa fólks, hvað það er áhugasamt um lýðræðið, friðinn og mannréttindamálin. 

Á fundum þeirra fjölmörgu „friðarsamtaka", sem stofnuð hafa veriðí seinni tíð er ekki þverfótað fyrir þessu fólki. Af (oft skeggjuðum) andlitum þeirra skín sú sérkennilega blanda af yfirlæti, einlægni, ábúð og mærð, sem er svo einkennandi fyrir vinstri- hugsjónamenn og þeir gæta þess að allir viti hvað þeir eru áhugasamir um friðinn. Hafi það aldur til er þetta yfirleitt sama fólkið sem á sínum tíma barðist af alefli fyrir málstað einhverrar hemaðarsinnuðustu og blóði drifnustu stjórnar í veröldinni, þeirrar í Hanoi, þegar hún vildi stækka ríki sitt og sendi hermenn inn í nágrannalöndin Suður- Víetnam, Laos og Kambódíu til að drepa fólk. Sumir vinna fyrir El Salvador- nefndina, sem hefur að markmiði að magna hernað hreinræktaðra kommúnista í því landi. Aðrir hafa gerst sjálfboðaliðar á sykurekrum Castrós, en þar skortir nú vinnuafl vegna þess að verkfærir menn eru annað hvort flúnir úr landi, fangelsaðir eða þá farnir til Afríku til að skjóta svarta menn fyrir Rússa.

Þeir flykkjast einnig á fundi hjá mannréttindasamtökum ýmsum, ekki síst hjá hinum frægu samtökum Amnesty Intemational. Þeir tala þar mikið og eru stórorðir. Þeim líkar ekki hvemig Bandaríkjamenn standa að málum í Nicaragua og einnig veldur ástandið í Suður- Afríku og Chile þeim áhyggjum. Það vekur athygli mína, að ýmsir þeir, sem háværastir eru, eru kunnir að vináttu sinni við einhver af ríkjum Gúlagsins, jafnvel sum, sem eru meðal þeirra efstu á listum Amnesty yfir mannréttindabrot, svo sem Víetnam eða Kúbu. Sumir hafa meira að segja gert sér það ómak að ganga í sérstök„vináttufélög", sem þessar erlendu harðstjómir hafa komið sér upp hér, samhliða Amnesty- bröltinu. En hvað veldur þessu? Hversvegna eru það einmitt liðsmenn alræðis og hernaðar („þjóðfrelsisbaráttu") sem eru áhugasamastir um mannréttindi og frið? Ég veit það ekki fyrir víst. Þó hefur mér dottið ýmislegt í hug og mun leitast við að svara þessum spurningumog öðrum í síðari greinum. 


          2. Alræði- einræði

Mér er fullljóst, að samúð með alræðisherrum og Gúlagi er ekki það eina, sem greinir sundur vinstri menn og hægri, en um forræðishyggju, sýndarmennsku, tvöfeldni, óskhyggju og orðagjálfur mun ég e. t. v. ræða síðar. Það er afstaðan til alræðisstjórna kommúnista, se, mestu skiptir og mun ég því enn ræða hana nokkuð:

 Lengi hefur verið meginregla, a. m. k. innan stjórnmálafræði, að skipta harðstjórnum heimsins í tvo flokka. Annars vegar eru svonefndar hefðbundnar einræðisstjórnir (sem hafa t.d. verið og eru í ýmsum Asíu- Afríku- og Suður- Ameríkulöndum), og hins vegar alræðisstjórnir (þ. e. flokksræðisstjórnir kommúnista og nasista). Hugtakið „alræði" er þó allflókið og er umdeilt, hvort um sé að ræða sérstakt stjórnarform eða einungis harðneskjulegasta afbrigði einræðis. Hér gefst ekki rúm til að ræða alræðið sem vert væri, en til er eitt ágætt ráð til að greina sundur alræðisstjórnir og hefðbundnar einræðisstjórnir: Þær harðstjórnir heimsins, sem eiga skipulagða hópa samúðar- og stuðningsmanna í öðrum löndum eru alræðisstjórnir. Þær sem ekki hafa slíkt aðdráttarafl út fyrir landamæri sin eru hefðbundnar einræðisstjórnir. Þetta segir vissulega ekki alla sögu um mun alræðis og einræðis, en af fyrrnefndri reglu má sjá, að skipta má vondum stjórnum heimsins í tvo meginflokka og sú skipting er mikilvæg: Í öðrum flokknum lenda þær, sem ekki draga að sér aðdáun erlendra manna. Í síðari flokknum eru þær harðstjórnir, sem eiga stjórnmálaflokka sér til fulltingis í lýðfrjálsum löndum, auk víðtækrar samúðar og skilnings, ekki síst meðal mennta fjölmiðla- og listamanna. 

Þetta er ástæða þess, að mannréttindabarátta á Vesturlöndum fer fram með tvennum hætti: Í fyrsta lagi er sú barátta, sem beinist gegn stjórnum, sem af einni eða annarri ástæðu eru á móti kommúnistum (m.ö.o. eru „hægrisinnaðar"). Flestallir hægri menn (þ. e. andkommúnistar) á Vesturlöndum finna þó ekki hjá sér sérstaka, djúpstæða þörf til að réttlæta þær eða verja. Má hér nefna sem dæmi Chile, Suður- Afríku, eða þá valdhafa, sem til skamms tíma ríktu í Argentínu, á Haiti eða Filippseyjum. Mannréttindabarátta, sem beinist gegn stjórnum af þessu tagi hlýtur að vera góð fyrir sálina, en líka fyrir líkamann, því henni fylgja oft gönguferðir. Þar að auki er hún auðveld og felur ekki í sér hættu. Aðalatriðið er að lýsa hneykslun sinni á fyrrnefndum stjórnum á sem áhrifamestan og ábúðarfyllstan hátt, helst í fjölmiðlum, til að sem flestir sjái, hvað manni er annt um mannréttindin. Líka eru stofnaðir „mannréttindahópar", sem hafa það markmið að sýna, hvað meðlimir þeirra hafi mikinn áhuga á mannréttindum. Stundum röltir fólk í bæinn og ber spjöld, þar sem ástandið í þessu eða hinu landinu er harmað. Ræður eru fluttar og ljótar sögur sagðar. Allir eru sammála og þeim líður vel, vegna þess að þeir eru góðir, en hinir eru vondir. Stjórnirnar, sem úthúðað var, frétta trúlega aldrei af þessu framtaki hér uppi á Íslandi og þátttakendur þurfa ekki að óttast neitt. Engin „vináttufélög" eru hér starfandi við andkommúnískar harðstjórnir úti í hinum stóra heimi, enda eiga slíkir valdhafar ekki skipulagða hópa samúðar- og stuðningsmanna á Íslandi. 

Öðru máli gegnir um alræðisstjórnirnar í síðari flokknum. Þar er ekki við að eiga valdsmenn í fjarlægum og tiltölulega litlum löndum í afskekktum heimshlutum. Hér erum að ræða sjálft Gúlagið og þá Vesturlandabúa, sem taka málstað þess, m.ö.o. vinstri menn sem heild, og ekki einungis þann hluta þeirra, sem nefnist kommúnistar. Baráttan gegn valdhöfum Gúlagsins fer fram á innanlandsvettvangi. Tali menn of mikið um kúgun og ódæðisverk Ho Chi Minhs, Maos, eða Castrós, svo nokkrir séu nefndir, eiga þeir ekki von á góðu, allra síst frá friðar- mannúðar- og mannréttindapostulum þeim, sem háværastir eru. Sumir vinstri menn þora reyndar ekki lengur nema að mjög takmörkuðu marki að verja Stalín og ýmislegt það í Austur- Evrópu, sem allra rækilegast hefur verið flett ofan af. Þeir eiga þó enn alltaf hlý orðum t. d. Castro, Mao, Tito og fleiri, sem enn bíða þess að sannleikurinn um þá komi í ljós. Sá sem er of berorður um Gúlagið má búast við öllu illu og ekki aðeins frá alþýðubandalagsmönnum og Kvennalista þeirra, heldur má hann búast við kárínum frá framsóknar og alþýðuflokksmönnum (þeir síðarnefndu eru m. a. dyggustu bandamenn Nicaraguastjórnar á Íslandi). Á undanförnum árum og áratugum hafa menn margsinnis fengið að sjá hvernig Gróu á Leiti er komið á kreik gagnvart þeim, sem dirfast að vera eindregið á móti alræðiskúgunarkerfi kommúnista. Séu þeir listamenn eru verk þeirra svívirt eða þöguð í hel. Sá sem ekki gefur a. m. k. þegjandi samþykki sitt við þeim illræðisverkumsem daglega fara fram innan járn- og bambustjalds hlýtur nefnilega að vera að minnsta kosti „hægriöfgamaður", en þó trúlega „fasisti". Séu menn mjög harðir eru þeir sennilega „nasistar". Vegna þessa alls er í rauninni miklu sniðugra að vera vinstri maður en hægri, hafi menn geð í sér til þess að ganga með Gúlaginu á annað borð. Sjálfur hef ég þó aldrei getað hugsað mér það og svo erum fjölmarga aðra. 


           3. Hamar, sigð og hakakross


Það er eitt einkenni vinstrimanna, hvað þeir eru hugfangnir af orðum. Þeir láta sér því duga þá skýringu, þegar rætt er um Hitler og menn hans, að þeir hafí verið „borgaralegir" (hvað sem það nú er), eða jafnvel „smáborgaralegir". Flokksræðisríki Hitlers og nasista hafi því verið eitthvað allt annað en flokksræðisríki Stalíns og annarra kommúnista. Vinstri sinnaðir sagnfræðingar hafa verið að læða þessu inn hjá fólki í áratugi, enda er þetta sú afgreiðsla málsins, sem hentar vinstri- alræðissinnum best. Náinn skyldleiki kommúnisma og nasisma var þó hverjum meðalgreindum manni ljós á þriðja og fjórða áratugnum, þegar liðsmenn alræðisins til hægri og vinstri börðust á götum úti víðs vegar um Evrópu. Ég verð að fara hér nokkrum orðum um alræðið, því það er með engu móti hægt að botna í hugarheimi og framferði kommúnista og annarra vinstri manna án einhverrar vitneskju um það stjórnarfar, sem virðist seiða til sín og rugla í ríminu annars tiltölulega vammlítið og meinlaust fólk, þannig að það verður reiðubúið til að réttlæta, þegja um eða verja hina verstu kúgun og illræðisverk, séu þau framin af réttum mönnum. 

Þótt nú sé í tísku að halda, að stjórnarfar Hitlers og Leníns (sem Stalín fullkomnaði) sé eðlisólíkt, leiðir samanburður á orðavali, áróðurstækni, atferli og stjórnkerfi kommúnista og nasista annað í ljós. Nasismi væri óhugsandi án fyrirmyndar kommúnismans, enda má líta á nasismann sem eins konar kommúnisma með öfugum formerkjum. Orðavaðallinn, sem þessar fylkingar beita fyrir sig virðist ólíkur við fyrstu sýn, en er það þó ekki, einsog ég mun e. t. v. fá tækifæri til að ræða síðar. Líta má á þessar tvær höfuðgerðir alræðisins sem samstofna, á svipaðan hátt og kristni og múhameðstrú eru samstofna og náskyld trúarbrögð þrátt fyrir á margan hátt ólíka hugmyndafræði og rótgróinn, gagnkvæman fjandskap. 

Allt alræði á tuttugustu öld má rekja til eins manns, Leníns. Andkommúnískar (þ. e. „hægrisinnaðar") stjórnir hins gamla marxista og aðdáanda Leníns, Mussolinis, og lærisveins hins síðarnefnda, Hitlers, fóru að fordæmi Leníns um flest í skipulagi og uppbyggingu valdakerfis síns, þótt sú hugmyndafræði, sem þeir notuðu til réttlætingar sér væri með nokkuð öðru sniði. Það voru reyndar ítalskir fasistar sem fyrstir notuðu orðið „totalitarianismo" (alræði) um þetta valdakerfi, en orðið var farið að nota jöfnum höndum um kommúnista- og fasistastjórnir fyrir 1930. 1933 bættist svo Hitler í hóp þeirra harðstjóra, sem byggðu völd sín á hugmyndafræði, skefjalausum áróðri og öflugum og harðsnúnum flokki. „Totalitarianismo" útlögðu Mussolini og menn hans svo, að það væru völd „svipuð þeim, sem foreldrar hafa yfir börnum sínum". Mussolini, sem þurfti að kljást við kóng og páfa í ríki sínu náði aldrei neinu foreldravaldi, en það felur í sér, eins og menn vita, m. a. sálræn og fjárhagsleg yfirráð. Slíkum völdum hafa einungis kommúnistar, svo sem t. d. Stalín, Maó eða Kim II Sung náð. Mussolini varð, eins og gerist um „venjulegar", hefðbundnar einræðisstjórnir, að sætta sig við völd sem voru í besta falli svipuð valdi strangs kennara yfír óstýrilátum bekk.

Ég hef stundum látið mér detta það í hug, þegar ég virði fyrir mér hið ýmsa brölt og uppákomur kommúnista og hugdeigra liðsmanna þeirra, sem oft eru kallaðir„aðrir vinstri menn", að þetta fólk hljóti að vera haldið einhvers konar illvígri og bráðsmitandi geðbilun. Sú kenning skýrir ýmislegt í háttalagi þeirra, svo sem hatrið á Andrési önd, en er þó ekki allskostar fullnægjandi. Önnur skýring er trúin, en raunar er til sú kenning, að líka hún sé ein tegund sinnisveiki. Ég vil ekki samþykkja það. Ekkert mannlegt samfélag fyrirfinnst eða hefur fyrirfundist á jörðinni án einhverskonar trúar (nema Albanía, að því er sumir halda). Meira að segja Neanderthalsmenn höfðu trúarbrögð, eins og grafsiðir þeirra sanna. Trúin er ómissandi og geysimikilvægur þáttur allra mannlegra samfélaga í hvaða formi, sem hún annars kann að birtast. Hin frægu orð Karls Marx — sem sjálfur var trúarbragðahöfundur: „trúarbrögðin eru ópíum fólksins", lýsa vel því yfirlæti og einfeldnislega hroka, sem var dæmigerður fyrir manninn og einkennir enn lærisveina hans, ábúðarmikla, hálærða, en þó grunnhyggna. Þótt alræðisherrar styðjist við „veraldlega" hugmyndafræði, sem ekki viðurkennir yfirnáttúruleg öfl, virðist svo, að völd þeirra yfir hugum stuðningsmanna sinna, innlendra og erlendra verði vart skýrð nema með trúnni. Í þessu sambandimá benda á stjórnina í Íran, sem hefur flest einkenni alræðis, en styðst ekki við veraldlega „hugmyndafræði" heldur hefðbundin trúarbrögð, sem framfylgt er með atfylgi öflugs flokks og einkennist af hörðum áróðri. Þessi stjórn fullnægir einnig því skilyrði að hafa aðdráttarafl út fyrir landamæri sín, því hún á fjölda stuðningsmanna í nálægum löndum. Eins og ég hef áður getið er það eitt gleggsta einkenni alræðisstjórna, að þær höfða til erlendra manna. 

Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að alræði fyrirfinnst í hreinustu mynd sinni aðeins í kommúnistaríkjum. Svonefndir„hægri" (andkommúnískir) alræðisherrar, t. d. Perón, Franco, Mussolini og Hitler líktust að mörgu leyti hefðbundnum (t. d. suðuramerískum) einræðisherrum, nema helst Hitler, en stjórn hans líktist mjög hreinræktuðum (kommúnískum) alræðisstjórnum, þótt hann hafi ekki tekið af þegnunum öll völd yfir eignum og atvinnutækjunum, að dæmi kommúnista. Innan Gúlagsins hefur flokkurinn og leiðtogi hans í sínum höldum stjórn alls atvinnu- og efnahagslífs og er þannig í raun eigandi allra eigna og atvinnutækja og vinnuveitandi allra þegnanna. Völd Hitlers, þó mikil væru, voru því miklu minni en valdhafa í kommúnistaríkjum, svo sem t. d. Stalíns, sem segja má að hafi „átt" þegna sína með húð og hári, svo og öll gögn og gæði Rússaveldis. Hugmyndafræði Hitlers var líka miklu frumstæðari og verr útfærð en hugmyndafræði kommúnista, en það er e. t. v. skiljanlegt, þar sem nasistar ríktu aðeins í fá ár og höfðu ekki tíma til að fínpússa kenningu sína jafn vel og marxistar hafa getað dundað við í tæp sjötíu ár. Það er vert að undirstrika, að innihald hugmyndafræðinnar, sem alræðisherrar beita sér til réttlætingar og til að ná sálrænum tökum á þegnum sínum og erlendum liðsmönnum, skiptir litlu sem engu máli. Málið er, að menn trúi henni, því völd flokksins byggja á hugmyndafræðinni öllu öðru fremur. Kommúnistar eða nasistar geta ekki komið á alræði nema stór hluti þegnanna trúi á og sé vel kunnugur kenningunni. Þetta er ekki ólíkt því, að kaþólska kirkjan hefur því aðeins völd, að fólk sé kaþólskt. Af þessum sökum er linnulaus og ósvífinn áróður mjög nauðsynlegur alræðisstjórnum, en hér gefst ekki rúm til að ræða þá hlið málsins. Um hugmyndafræði Gúlagsins að öðru leyti er það að segja, að það er skoðun mín, og hefur lengi verið, að allt of miklu púðri sé eytt á hjárænuvísindi þeirra Marx ogLeníns. Enginn nennir nú að hrekja„vísindalega" bull það, sem Hitler og menn hans notuðu til að ná sálrænum tökum á þjóð sinni. Það sem máli skiptir varðandi stjórn nasista eru vcrk hennar. Sama máli gegnir um marxista. Framtíðin mun meta þá af verkum sínum. Þau verða munuð löngu eftir að ábúðarmikið orðagjálfur kommúnista og annarra vinstri manna — liðsmanna Gúlagsins — er gleymt. Að deila við marxista er að sýna blóði drifinni kenningu þeirra virðingu, sem hún á ekki skilið. 


           4. Summa lastanna


Vinstri menn, hvort sem þeir þora að kalla sig kommúnista eða ekki, haga sér um fjölmargt eins og evangelískur (þ. e. trúboðssinnaður) trúflokkur. Þeir telja sig búa yfir þekkingu — eða leyndum dómum —og nota hvert tækifæri til að koma þessari “þekkingu” sinni á framfæri enda álíta þeir að hún muni frelsa heiminn. Af þessum sökum leita þeir í störf, þar sem besta tækifærið gefst til að breiða út fagnaðarerindið, svo sem við ritstörf, kennslu- og uppeldismál eða fjölmiðlun. Vinstri menn eru líka félagsverur, og fara því gjarnan í flokkum. Hugsun þeirra hlýðir sömuleiðis ávallt staðli þess hóps, sem þeir tilheyra. Þeir eru, eins og t. d. mormónar eða vottar Jehóva, prógrammeraðir, þannig að þeir hafa ætíð á reiðum höndum afdráttarlaus svör við hinum aðskiljanlegustu vandamálum og þessi svör eru fyrirframvituð og stöðluð. Fyrir andstæðinga hefur þetta ýmsa kosti, því alltaf má vita fyrirfram, hvaða skoðun þeir muni hafaí hverju máli. Þó gerir þetta allar rökræður við vinstra fólk leiðinlegar. Skoðanir hreinræktaðra kommúnista má, eins og skoðanir hefðbundinna trúflokka, finna í helgum bókum, sem spámenn þeirra hafa skráð. Að rökræða við þessa eiginlegu marxista er algjörlega út íhött, svipað og að deila við „frelsaða" menn eða geðbilaða. Þetta fólk, ekki síst hinir rússatryggu jónmúlar — sem eru miklu áhrifameiri og fleiri innan Alþýðubandalagsins en ráða má af Þjóðviljanum — er þó sjálfum sér samkvæmt þrátt fyrir allt, hversu vondar sem skoðanir þess annars kunna að vera.

Öðru máli gegnir um það afbrigði vinstri manna, sem að mínu mati er hvimleiðast, þ. e. kótilettukarlana, sem oft nefna sig „lýðræðiskynslóð" Alþýðubandalagsins. Þeir eiga raunar sálufélaga innan allra annarra vinstri flokka. Skoðanir þessa hóps eru ekki síður fyrirframvitaðar, en ráðast ekki eins afdráttarlaust af hinni marx-lenínsku hjárænu, heldur stjórnast þær fyrst og fremst af þeirri tegund hugsunar, sem er í tísku á vinstra kanti hverju sinni. Einmitt vegna þess hve hugsun þeirra er ófrumleg reyna þeir ákaft að breiða yfir andlegt ósjálfstæði sitt, því þeir telja mjög eftirsóknarvert að vera „öðruvísi". Í þessu skyni beita margir brögðum, svo sem yflrlætislegu og/eða ábúðarmiklu fasi, (rúðuglers?)gleraugum, hárvexti á höfði og/eða í andliti, ankannalegum, vondum klæðaburði og fleiri skrýtnum tilburðum. Ekki tekst þeim þó að verða „öðru vísi", eins og til var ætlast, heldur aðeins að verða eins og aðrir vinstri menn, sem eru líka að sýnast vera öðruvísi. Skýringin á háttalagi þeirra er sú, að hér á Vesturlöndum hefur nokkuð lengi verið í tísku og þótt fínt að vera „gagnrýninn", þ. e. einhvern veginn á móti ríkjandi viðhorfum. Þeir eru þó fáir, sem hafa skarpskyggni eða innsæi til þess að vera í alvöru á móti ríkjandi viðhorfum, enda þarf til þess hugrekki, eins og sagan hefiir margsannað. Miklu sniðugra — og hættuminna — er að láta forritast með hefðbundnu vinstra prógrammi og kaupa þar með tibúin, viðurkennd rórill. Þetta skýrir það, hve mörg skáld, fjölmiðlamenn, rithöfundar og listamenn hallast að vinstri stefnu, því þannig geta menn fengið í einum pakka fjölda (fyrirframvitaðra) vandlætingar og hneykslunarefna, enda hafa vinstri menn í vopnabúri sínu mikinn fjölda sökudólga, sem ávallt er þakklátt verk að ráðast á. Einnig öðlast þeir það öryggi á sálinni, sem fylgir því að vera í hóp. Það spillir heldur ekki, að flestir þeir, sem fjalla um bókmenntir og listir, eru líka vinstri menn (af sömu ástæðum og listamennirnir). 

Vís maður hefur einhvern tíma sagt, að hræsnin sé hylling lastanna til dyggðarinnar og má svo vera. Víst er, að það er með öllu óhugsandi að vera vinstri maður án þessað vera jafnframt hræsnari, þóttvissulega sé hægt að vera hræsnari án þess að vera vinstri maður. 

Sú staðreynd, að einmitt vinstri menn — umþegjendur og talsmenn alræðis og Gúlags innan lýðræðisríkjanna — skuli jafnframt vera þeir, sem háværastir eru um mannúð og manngæsku, frelsi, frið og mannréttindi, hefur mjög lengi valdið mér heilabrotum án þess aðég hafi þó komist að fullnægjandi niðurstöðu. Skýringin kann að verafólgin í fyrrnefndu spakmæli. Það sýnist nefnilega oft vera svo í þessu lífi, að summa lastanna verði ávallt hin sama. T. d. virðist fólk, sem finnur hjá sér mesta þörf til að starfa að friðar- og mannréttindamálum, einnig hafa mesta þörf fyrir að réttlæta. verja eða starfa í sérstökum „vináttufélögum" við illræmdar og herskáar erlendar harðstjórnir (Sovét, Kína, Víetnam, Kúbu o. fl. ). Það liggur raunar í sjálfu eðli allra friðarsamtaka og ekki síður mannréttindasamtaka, eins og t. d. Amnesty, að þau hljóta að draga að sér hræsnara, enda gera þau það. Vafalaust er erfitt að halda þeim frá. Amnesty vann ágætt starf á fyrri árum, en umsvif vinstri manna á þessum vettvangi eru ekki traustvekjandi svo ekki sé meira sagt. Herferð þessara samtaka til liðs við dauðadæmda bandaríska morðingja er merkileg — að mínum dómi — þegar menn hugsa til alls þess raunverulega gerræðis og kúgunar sem svo víða má finna í heiminum. 

Þáttur vestrænna vinstri manna, fjölmiðlafólks og listamanna, ekki síst rithöfunda, í því að viðhalda kúgun og alræði innan Gúlagsins er mikill, en fáir hafa þó veitt þessu þá athygli sem vert er. Með rangfærslum sínum og síbyljugagnrýni á allt það, sem þeir telja miður fara hér vestanmegin, sjá þeir nefnilega áróðursmeisturum austantjalds fyrir ómetanlegum skotfærum, sem síðan eru notuð til að villa um fyrir þegnum Gúlagsins. Sú kænlega upplogna mynd, sem þetta fólk fær af Vesturlöndum, er að verulegu leyti dregin upp af vestrænum rithöfundum —kommúnistum og öðrum vinstri mönnum — og af vinstra- fjölmiðlafólki, sem nóg er af, en um það gilda sömu megpnreglur og áður voru nefndar vegna listamanna og gagnrýnenda. Erfitt er eða ómögulegt að bregðast við þessu, og notfæra kommúnistar og liðsmenn þeirra sér þannig það frelsi, sem er undirstaða vestrænnar menningar, til þess að grafa undan henni. Eins og ég hef bent á í fyrri greinum er ekkert jafn öruggur mælikvarði á vinstri stefnu og jámennska gagnvart Gúlaginu. Þetta kemur einkar vel fram þegar vinstra fólk af „lýðræðiskynslóð" kemst í áhrifastöður við fjölmiðla, sem er oft. Málflutningur þess einkennist þá af linnulausum árásum á Vesturlönd, einkum forysturíki þeirra, Bandaríkin, og af því að draga ávallt fram þær hliðar hvers máls, sem eru Vesturlöndum óhagstæðar. Þessu fylgir svo baktrygging, þ. e. málamynda „gagnrýni" á aíræðisríkin, eða öllu heldur „framkvæmd sósíalismans" þar eystra. Fréttastofa hljóðvarps er frægt dæmi um slíkan málflutning, sem til forna var kenndur við Hildiríðarsyni. Það er þó ekki síst ritstjórn Þjóðviljans, sem í seinni tíð hefur, undir stjórn kótilettukarlanna sem þar ráða nú mestu, fullkomnað þessa tegund fréttamennsku öðrum Íslendingum betur, enda hafa sovéskir fjölmiðlar oftar en einu sinni vitnað í Þjóðviljann og liðsmenn hans þegar mikið liggur við, svo sem í tengslum við varnarmál. Þá er að sjálfsögðu látið líta svo út, að skoðanir blaðsins séu almennt ríkjandi á Íslandi. Mig hefur raunar lengi grunað, að hugmyndafræði „lýðræðiskynslóðarmanna" — svonefndur „Evrópukommúnismi" — sé beinlínis runninn undan rifjum Kremlverja. Með fyrrnefndri málamyndagagnrýni svæfa þeir að einhverju marki rödd samviskunnar hjá þeim liðsmönnum sínum, sem deigastir eru. Öll völd verða áfram í höndum hinna, sem eru óprúttnari, og er þessi afstaða austanmönnum miklu drýgri en hefðbundinn lofsöngur yfirlýstra kommúnista um Gúlagið og harðstjóra þess. Ég þykist vita. að samkvæmt ríkjandi vinstri- hugsanatísku teljist þessar skoðanir mínar „úreltar" enda meta þeir skoðanir á svipaðan hátt og unglingar fatnað. Þeir munu kalla þetta „kaldastríðsáróður". Vinstri menn hafa nefnlega fyrir löngu fengið þá flugu í höfuðið, að hinu kalda stríði alræðisins gegn heimsmenningunni hafi einhvern tíma lokið. Þetta er sú skoðun, sem hentar árásaraðila best, en ég fæ ekki betur séð en hún stríði gegn staðreyndum og heilbrigðri skynsemi. Dyr Gúlagsins eru ennþá læstar og þjóðir þess hnepptar í fjötra. Þótt venjulegar, hefðbundnar einræðis og herforingjastjórnir hrynji um koll nánastá hverjum degi — enda eiga þær enga vini — hefur engin kommúnistastjórn enn fallið. Þær eiga vini. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband