Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mogginn er að rétta úr kútnum



Tjáningarfrelsið landinu hefur nú verið bjargað. Loks virðist aftur vera kominn alvöru fjölmiðill. Eitt blað sem talar máli almennings í landinu og er eins og flestir sæmilega réttsýnir og skynsamir menn bæði á móti Icesave og Evrópubröltinu.
Undarlegar kenningar heyrast nú úr höfuðvígstöðvum vinstri manna og Baugs. Þeir álíta það skerðingu á „tjáningarfrelsi“ að kominn sé til skjalanna fjölmiðill sem ekki talar með sömu röddu og málsvarar Hringsins eina (Baugs) og vinstri kjánanna sem telja sig eiga fréttastofu RÚV. Fjölmiðlar landsins tala nefnilega ekki allir lengur með einni röddu eins og þeir voru farnir að gera undir stjórn fyrrverandi ristjórnar Morgunblaðsins. Þetta telur vinstra fólk í ofstæki sínu og heimsku vera “skerðingu á tjáningarfrelsinu”. Í þeirra huga ríkir sá skrítni skilningur á tjáningarfrelsi að það sé fólgið í því að allir séu á sömu skoðun og þeir sjálfir.
Ég fæ ekki betur séð en að löngu niðurlægingartímabili Morgunblaðsis sé nú lokið með aðkomu nýrra manna að ritstjórn blaðsins. Það virðist aftur vera að verða það sem það einu sinni var: Lang marktækasti fjölmiðill landsins. Og ég er hér ekki einungis að tala um pólitík. Ég man það líka vel frá þeim árum sem ég skrifaði Íslenskan annál að Mogginn var nánast alltaf með bestu og lang áreiðanlegustu fréttirnar og frásagnirnar, jafnvel þótt pólitískir andstæðingar ættu í hlut. Að sjálfsögðu er ekki hægt að búast við algeru hlutleysi af neinum fjölmiðli. Slíkt eru einungis draumórar, sæmandi einfeldningum. Mogginn var samt alltaf lang bestur, víðsýnastur og marktækastur íslenskra fjölmiðla. En á þessu varð breyting á síðari árum. Þetta gerðist hægt og hægt, kannski þegar Matthías Johannesen hætti ritstjórn, kannski síðar, en vinstrisinnaðar kjána- áherslur urðu smám saman æ meira áberandi á síðum blaðsins. Þetta náði kannski hámarki á Mbl.is þegar núverandi formaður Blaðamannafélagsins hafði þar völdin, en fréttaflutningur hennar var nánast ógreinanlegur frá Þjóðviljanum gamla. Raunar var Mogginn orðinn, undir fyrrverandi ritstjórn líkastur Þjóðviljanum eins og hann var orðinn síðustu árin, rétt áður en hann dó, eitthvað allt allt annað en við, gamlir vinir og stuðningsmenn blaðsins áttum að venjast.

Ég þekki Davíð Oddson ekki neitt en mér hefur alltaf litist vel á manninn og verið honum sammála í flestum málum. Hann virðist þó fara í taugarnar á mörgum, svipað og Ólafur Ragnar Grímsson fer gífurlega í taugarnar á mér eins og stundum hefur komið fram á þessari síðu. En því ber að fagna að Davíð og samverkamenn hans eru nú að endurreisa Moggann og færa hann aftur upp í þann virðingarsess sem honum ber meðal íslenskra fjölmiðla

Herra Ólafur Ragnar Grímsson

Herra Ólafur Ragnar Grímsson heldur áfram að vera það sem hann hefur alltaf verið. Gamli Óli grís sem enginn þoldi í MR í gamla daga. En hann er klókur. Hann hefur alls staðar komið sér út úr húsi, hvort sem var hjá Framsókn, Magnúsar- Torfusamtökum Frjálslyndra og vinstri manna eða Alþýðubandalaginu. Andstæðingar hans leggja fæð á hann, en gamlir samherjar bæði hata hann og fyrirlíta. Þrátt fyrir það hefur hann alltaf flotið ofan á og komist til æðstu metorða hvarvetna, sem er meiri háttar kraftaverk. Ólafur var nokkuð góður námsmaður, "kúristi", eins og það hét í gamla daga, en hann hefur aldrei verið neitt gáfnaljós, þótt hann hangi í meðalgreind. Hann hefur hins vegar í ríkum mæli það sem Danir kalla "bænda- klókindi", sem einnig mætti kalla "slægð dýrsins". Hann er duglegur og veit alltaf hvað honum sjálfum kemur best. Hann er jafnframt bæði ósvífinn og ófyrirleitinn. Allir þessir eiginleikar koma honum nú að góðum notum.

Fyrir nokkrum vikum var forseti vor í miklum vanda staddur.  Hann var orðinn hættur að þora að láta sjá sig opinberlega. Meira að segja börnin voru farin að hía á hann. Mannorð hans sjálfs og virðing embættisins var komin í ræsið. En sjá! Icesave málið rak á fjörur hans! Það kom aldrei annað til greina en að Ólafur neitaði að skrifa undir. Fyrir því eru ýmsar augljósar ástæður. Í fyrsta lagi þurfti að laga mannorðið, sem fyrr sagði. í öðru lagi er maðurinn haldinn athyglissýki og þetta var örugg leið til að komast í sviðsljósið, ekki aðeins hér, heldur einnig út um allan heim. Í þriðja lagi er Ólafur með þessu að þenja út eigin völd og forsetaembættisins og gera það að einhverju sem enginn ætlaðist til þegar stjórnarskrá lýðveldisins var sett saman í miklu hasti á sínum tíma. Valdafíknin hefur ávallt verið allra, allra sterkasta einkenni mannsins.

Forseti vor er nú upp risinn og endurreistur enn á ný. Sjálfumgleði Ólafs, sýndarmennska, frekja og yfirgangur nýtast honum vel í viðtölum við erlenda blaðamenn sem ekki þekkja hann, en flestir þeirra halda að Ólafur sé alvöruforseti eins og hinn bandaríski, eða a.m.k. sá finnski eða franski, en Ólafur gætir þess ávallt erlendis að enginn viti hve gjörsamlega valdalaus hann í rauninni er.

Það verður að dást dálítið að honum þótt í laumi sé. En Ólafur er og verður, a.m.k. í mínum huga aldrei annað en sá sem ég man vel eftir úr menntaskóla, þótt ég þekkti hann aldrei persónulega, nefnilega, eins og ég sagði í upphafi: Herra Ólafur Ragnar Grímsson grís.


mbl.is „Það er verið að kúga okkur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvenns konar landráð





Vidkun Quisling taldi sig aldrei vera landráðamann. Hann vildi ólmur ganga inn í hið nýja stórríki, sem þá var að myndast í Evrópu, og var reiðubúinn til að gera nánast hvað sem var til að fá þar inngöngu. Vel að merkja var hann ekki einn. Hann átti stóran hóp ákafra stuðningsmanna í Noregi, sem trúðu því, eins og hann að hagsmunum landsins væri best borgið í “Þúsund ára ríkinu”. Sannir landráðmenn sjá nefnilega ekkert athugavert við gerðir sínar. Það gildir einnig um það fólk, innan og utan Alþingis sem telja best að færa völdin yfir Íslandi og Íslendingum til erlendra manna. Þeir eru, eins og Quisling reiðubúnir til að gleypa nánast hvað sem er frá hinum nýju, tilvonandi herrum sínum, bara ef þeir fá að vera með. En þeir verða aldrei með. Þeir verða, eins og Quisling, þrælar. Ísland “gengur ekki í” Evrópusambandið. Þeir gleypa okkur og innlima og ropa ekki einu sinni á eftir.

En líka eru til annars konar landráð og sú tegund landráðamanna sér, eins og Quisling heldur ekkert athugavert við gerðir sínar:
Það er staðreynd að svokölluð “ímynd” Íslands í umheiminum hefur breyst gífurlega til hins verra á undanförnum misserum. En hverjum er það að kenna? Efnahagshrunið var vissulega mikið, en hrun sem var miklu meira hefur einnig orðið í öðrum löndum, t.d. á Spáni sem er bæði í ESB og með evru. Á Írlandi, ýmsum Austur- Evrópulöndum og víðar hefur líka orðið gífulegt hrun, víða miklu, miklu meira en á Íslandi. En hvers vegna er Ísland tekið sérstaklega fyrir?

Á því eru ýmsar skýringar, en þó ræður örugglega miklu, ef ekki mestu rógsherferð íslenskra vinstri manna í erlendum fjölmiðlum gegn eigin landi og þjóð, sem hefur fallið í góðan jarðveg. Þessir menn telja sig með einhverju móti vera að ná sér niður á Davíð og öllu öðru sem þeir telja vont í íslensku þjóðfélagi, með því að svívirða land sitt frammi fyrir útlendingum. Útlendingarnir, flestir vita ekkert annað um Davíð eða Ísland annað en það sem frá rógberunum berst. Þeir taka því talið um gífurlega útbreidda “spillingu” og “glæpi” alvarlega og líkja því að sjálfsögðu athugasemdalaust við ástandið í þriðja heims eða Austur- Evrópuríkjum, þar sem mútur eru hluti af efnahagslífinu og þeir beinlínis drepnir, sem ekki vilja makka með hinum gjörspilltu valdhöfum. Útlendingar gera nefnilega ekki greinarmun á Íslandi og löndum þar sem slíkt viðgengst, sem ekki er von.
Menn ættu líka að hafa í huga að þegar vondar fréttir um Ísland birtast í erlendum fjölmiðlum er þar lang oftast um að ræða íslenska heimildarmenn yfirleitt á vinstri kanti, þótt fréttin birtist undir nafni hins erlenda fjölmiðils. Erlendir fjölmiðlamenn kunna ekki íslensku og vita ekkert um Ísland. Þeir leita því til íslenskra starfsbræðra sinna, sem mjög margir nota tækifærið til að slá (íslenskar) pólitískar keilur með því að níða eigin þjóðfélag og stjórnvöld frammi fyrir útlendingum.

Fjölmargir íslenskir vinstri menn hafa tekið þátt í að níða land sitt fyrir útlendingum, t.d. hefur Baugs- skáldið Hallgrímur Helgason verið að messa um “spillinguna” í Noregi og víðar. Duglegust allra hefur trúlega verið íslensk blaðakona, búsett í Bandaríkjunum Íris Erlingsdóttir að nafni. Hún skrifar pistla á einhverja stærstu og víðlesnustu vefsíðu Bandaríkjanna, Huffington Post. Í þessa (heldur vinstri sinnuðu) síðu er oft vitnað í öðrum bandarískum fjölmiðlum og m.a. hefur stofnandi hennar, Arianna Huffington nokkrum sinnum komið fram hjá Jay Leno og er oft getið (þó ekki vinsamlega) á Fox.
Pistlar Írisar eru sem fyrr sagði víðlesnir og hún fær örugglega vel borgað, en hún hefur m.a. líkt Íslandi í fullri alvöru við Zimbabwe og Geir Haarde og öðrum íslenskum ráðamönnum athugasemdalaust við Mugabe og hyski hans. Samkvæmt Írisi eru Íslendingar litlu eða engu betur staddir en þær þriðja heims þjóðir, þar sem spillingin og glæpirnir eru mestir.
Hún er nú farin að blogga á vefsíðu íslenskra mensévíka, Eyjuna þar sem hugmyndir hennar falla í góðan jarðveg. Undirmálsliðið sem skrifar athugasemdir við bloggfærslur á Eyjunni tekur hugmyndum hennar um Ísland að sjálfsögðu fagnandi. En þeir eru Íslendingar, svo það gerir ekkert til. Þegar útlendingar heyra Íslending tala þannig um land sitt og þjóð leggja þeir hins vegar við eyrun.
Menn ættu að hafa í huga að þegar Íslendingar sæta aðkasti erlendis, er það ekki síst þessum íslensku Blefkenum, sem eru fjölmargir auk Írisar að miklu leyti að kenna. Rógurinn hefur líka örugglega valdið þjóðinni gífurlegu fjárhagslegu tjóni. Þannig er t.d. öruggt, að erlendur fjárfestir, sem les t.d. pistlana á Huffington Post mun aldrei leggja fé í neitt sem íslenskt er. Þótt Íris sé kannski atkvæðamest er hún alls ekki ein á báti. Það koma fjölmargir aðrir (vinstri sinnaðir) Íslendingar við sögu í rógsherferðinni gegn Íslandi í erlendum fjölmiðlum.
Hún er í sérstöku uppáhaldi hjá Agli Helgasyni, svo sem við er að búast. Nýlega hefur komið í ljós að einnig Egill hefur reynt að gera landi sínu álitshnekki og vinna því fjárhagslegt tjón með bréfaskriftum til stofnunar, Transparency International sem leggur mat á spillingu. Erlendir fjárfestar, aðilar og stofnanir taka álit TI mjög alvarlega, auk þess sem mat stofnunarinnar hefur áhrif á almennt álit útlendinga á Íslandi.
Segir Egill stofnunina meta spillinguna of lága. Hún verði að bæta sig og gera útlendingum, ferðamönnum, erlendum fjárfestum og öðrum sem hingað koma ljóst, að Ísland sé gjörspillt. Egill, Íris, Hallgrímur og fjölmargir aðrir íslenskir vinstri menn sem fyrir rógsherferðinni standa sjá áreiðanlega ekki, frekar en Quisling, neitt athugavert við framferði sitt, en rógurinn loðir við. Hann er yfirleitt miklu skemmtilegri og meira spennandi en sannleikurinn, eða eins og Stefán heitinn Valgeirsson sagði einu sinni af öðru tilefni: “Þegar sannleikurinn er kominn upp að Elliðaám er rógurinn kominn norður á Langanes”.

Álitshnekkirinn, sem þessir íslensku sporgöngumenn Blefkens hafa valdið er gífurlegur, svo ekki sé talað um fjárhagstjónið sem athafnir þeirra valda landi sínu og þjóð  í nútíð og framtíð.


Minnipokamenn


Þessi grein er loksins, loksins í Mogganum í dag, en nú eru liðnar tæpar sex vikur síðan ég skrifaði hana og sendi inn. Hún er þó einkar tímabær, því fleiri en ég virðast vera farnir að veita því athygli, hvernig landið er rægt og nítt af Íslendingum sjálfum, fyrst og fremst mensévíkunum og landsölumönnunum í Samfylkingunni. Þessi útgáfa af greininni er agnarlítið frábrugðin þeirri, sem er í Mogganum.

 

Ditmar Blefken kom aldrei til Íslands en heimildarmenn hans voru erlendir menn sem hingað komu í stutta heimsókn og tal höfðu haft af Íslendingum. Upphaflegir heimildarmenn hans voru þannig vafalaust Íslendingar.
Sagan er nú að endurtaka sig. Hver Íslendingurinn á fætur öðrum stígur fram og gefur fáfróðum, fákænum útlendum fjölmiðlamönnum, sem ekkert vita um Ísland yfirlýsingar um gífurlega “spillingu” og “glæpi” hérlendra ráðamanna, sem beri ábyrgð á núverandi ástandi. Útlendingarnir, sem ekki vita betur, prenta þetta athugasemdalaust. Síðan er einhvert erlent heimsblað eða fjölmiðill borinn yfir rógnum, sem þó kom upprunalega frá íslenskum heimildarmönnum fjölmiðilsins. Til dæmis hefur íslensk blaðakona lýst því yfir á fjölsóttri útlendri vefsíðu, Huffington Post, að ástandið hér sé fyllilega sambærilegt við ástandið í Zimbabve og Geir Haarde engu betri en Robert Mugabe. Enginn lyftir augabrún hér á Íslandi þótt svona sé sagt í íslenskum fjölmiðli eða vefsíðu. Útlendingar taka hins vegar svona tal í fullri og fúlustu alvöru. Er einhver hissa á því að orðstír landsins sé í rúst? Það er gömul saga og ný, að sá sem talar illa um sjálfan sig, þarfnast ekki óvina.

Það eru að sjálfsögðu fyrst og fremst þeir Íslendingar, sem tilheyra Samfylkingar/Baugs- klíkunni, sem gleiðastir hafa verið og duglegastir að sverta og svívirða eigin land frammi fyrir útlendingum. Gamalt orð fyrir sósíaldemókrata, liðsmenn þeirrar hugmyndafræði undanlátsseminnar, sem Samfylkingin stendur fyrir er “mensévíki”. Ekki þarf að taka fram, að þetta er fólkið, sem vill koma landinu undir erlent vald.

Saga mensévíka er vörðuð ósigrum og harmi. Á fundi einum í flokki sósíaldemókrata upp úr aldamótunum 1900 varð flokksbrot Lenins í meiri hluta. Það gefur góða innsýn í hugarheim og starfsaðferðir þess samviskulausa óþokka og ósvífna lygara, sem Lenin var, að upp frá þessum fundi nefndi hann ávallt fylgismenn sína “meirihlutamenn” (bolsévíka). Það segir þó enn meiri sögu um sálarlíf og skapgerð andstæðinga hans, sem höfðu yfirgnæfandi meirihluta í flokki sósíaldemókrata, að þeir létu það yfir sig ganga að láta kalla sig “minnihlutamenn” (mensévíka). Þeir létu Lenin komast upp með þetta og nafnið festist smám saman við þá. Foringinn, Kerensky, hélt að hann mundi eiga í fullu tré við Lenin af því að þeir höfðu þekkst í æsku. Hann var heppinn að sleppa lifandi úr landi. Í borgarastyrjöldinni á Spáni létu mensévíkar bolsévíka valta alveg yfir sig og Franco hrifsaði völdin. Í stríðlok reyndu mensévíkar í Austur- Evrópu enn að vinna með bolsévíkum, en voru í staðinn fangelsaðir, skotnir eða fleygt út um glugga. Hér á Íslandi hafa ménsévíkar skilið eftir sig langa slóð misheppnaðra og fallít hugsjóna og fyrirtækja: Alþýðuprentsmiðjan, Alþýðuhúsið, Alþýðublaðið, Alþýðubankinn, Alþýðubrauðgerðin og, eftir fjölmargar greiðslustöðvanir: Alþýðuflokkurinn. Gömlu mensévíkarnir þar gáfust endanlega upp fyrir ný- mensévíkum, fyrrverandi bolsévíkum, sem eftir fall alræðis og gúlags í austri voru farnir að kalla sig, af þeirri sýndarmennsku sem þessu fólki er svo lagin, “lýðræðiskynslóð” Alþýðubandalagsins. Þeir hrifsuðu strax öll völd. Ekkert varð eftir af Alþýðuflokknum nema eitthvert tuð um Evrópusambandið. Flokkurinn mun nú vera niðurkominn í skrifborðsskúffu í Svíþjóð. 

Nýliðnir atburðir eiga ekkert sameiginlegt með falli járntjaldsins 1989 eins og sumir vinstri sinnaðir einfeldningar hafa haldið fram. Líkindin eru hins vegar mikil við það, þegar lýðræðislega kjörin stjórnvöld á Ítalíu og Þýskalandi gáfust upp fyrir ofbeldismönnum á millistríðsárunum.

Í lok fyrri heimstyrjaldar ríkti mikil upplausn í Evrópu og upp spruttu fjölmargar “grasrótarhreyfingar”. Í Rússlandi hafði lítill hópur “aðgerðarsinna” undir stjórn Lenins hrifsað völdin frá ráðlausri, ráðvilltri stjórn mensévíka og á Ítalíu stofnaði gamall marxisti, Benito Mussolini, nýja “grasrótarhreyfingu” og náði völdum skömmu síðar.
Um 1930 skall svo kreppan yfir af fullum þunga. Efnahagur Þýskalands var í kalda koli og stjórnvöld vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Hópar “mótmælenda” af ýmsu tagi óðu um götur og torg. Þeir heimtuðu “nýja menn” til valda og fengu að lokum vilja sínum framgegnt. Lýðræðislega kjörin stjórnvöld gáfust upp og allir vita hvernig fór.

Hérlendis hafa litlir hópar, samanlagt álíka margir eða færri en kusu Ástþór í forsetakosningum, farið um götur og torg með ofbeldi og stöðugum hótunum í fylgd fáeinna nytsamra sakleysingja. Þeir hafa m.a. kastað múrsteinum, matvælum og, eins og apar í dýragarði, sínum eigin úrgangi að Alþingishúsi og Stjórnarráði. Ný- mensévíkunum í Samfylkingunni hljóp hland fyrir hjarta. Þeir eru sama marki brenndir og hinir eldri. Þeir gáfust því upp fyrir ofbeldinu og hlupu í fangið á gömlu bolsévíkunum í VG. Þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur. Sagan endurtekur sig alltaf. Fyrst sem harmleikur, síðan sem farsi. 




Rógberar og mensévíkar

Breskir ráðherrar skilja ekki íslensku, en þær fá upplýsingar sínar frá mönnum sem gera það, fyrst og fremst Íslendingum. Aðgerðir þeirra sýna að þeim voru gefnar rangar og misvísandi upplýsingar, ekki síst um ummæli Davíðs Oddsonar. Hver gaf þeim þessar upplýsingar og ber þannig ábyrgð á aðgerðum breskra stjórnvalda? Þann eða þá rógbera ætti að finna sem fyrst, en augljósast hlýtur að vera að leita meðal hatursmanna Davíðs innan Samfylkingar- Baugsklíkunnar.

En ekki nóg með það. Atburðir síðustu daga sýna líka, hve misráðið það var að fela gömlu Þjóðviljafólki, úr mensévíka- armi Alþýðubandalagsins (sem nú kallar sig "Samfylkingu") völdin, ekki síst völdin yfir utanríkismálunum og þar með fjöreggi þjóðarinnar. Athafnir þessa fólks hafa nú borið þann ávöxt, sem búast mátti við. Það hefur um langt skeið varið dýrmætum tíma Alþingis í látlaust blaður í síbylju um Guantánamo og "ólöglega fangaflutninga", en hitt var enn verra, þegar þessi eina stúlka var tekin frá Írak. Sú athöfn vakti heimsathygli, ekki síst eftir umfjöllun á "The Daily Show".Þar með vorum við ekki lengur taldir í hópi staðfastra vina Bandaríkjanna. Utanríkisráðherra beit svo höfuðið af skömminni með því að sármóðga utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar hún var hér á ferð. Eftir það þýddi lítið að leita með betlistaf til Federal Reserve. Þetta fólk hefur nú uppskorið eins og til var sáð.

 


Grýlubörnin meðal okkar




Þessi fyrri grein um Amnesty hét í Mogganum "Snemmbúin minningargrein", (um Castro), en mér finnst réttara að kalla báðar þessar greinar saman "Grýlubörnin meðal okkar", því börn Rússa- Grýlu ganga enn ljósum logum hvarvetna í þjóðfélaginu. Þetta er fólkið, sem studdi alræðisöflin, kúgarana, þjoðarmorðingjana og böðlana í kalda stríðinu, en reynir nú, með ótrúlega góðum árangri að þurrka út söguna, og þar með sína eigin fortíð. Eitt ættu menn að hafa í huga: hjalið um "lýðræði" og "mannréttindi" hefur streymt í óstöðvandi síbylju úr þessari átt í  marga áratugi. Það hljómaði alveg jafn hátt þegar stuðningur vinstri manna við kúgarana var grímulaus.
Eins og fram kemur í greinunum tveimur var það þátttaka æðstu forningja Alþýðubandalagsins í Amnesty, sem fyrst vakti athygli mína á því, hvernig komið var fyrir þessum samtökum, sem höfðu byrjað svo vel undir stjórn stofnandans, Peters Benenson.

Geislabaugurinn, sem þeir stálu af Benenson er núna orðinn skáldaður og snjáður. Þessi samtök eru í mínum augum ekki einungis sérlega ógeðfelld, heldur beinlínis ógeðsleg, eftir að algerlega virkir, yfirlýstir, skjalfestir og óumdeildir stuðningsmenn og aðdáendur kúgunar, en það hljóta stofnendur og liðsmenn sérstakra "vináttufélaga" að teljast, fóru að predika á fundum Amnesty um "lýðræðið" og "mannréttindin".




Ég skrúfaði frá útvarpinu eitt síðdegi á fyrsta desember fyrir nokkrum árum, en þá stóðu að vanda yfir hátíðahöld stúdenta, að sjálfsögðu undir yfirskriftinni: “Gegn fordómum”. Ræðumaður, fulltrúi homma, fjallaði um “fordóma” í íslenskum fjölmiðlum. Hann tiltók alveg sérstaklega sem dæmi um “fordóma”, að einn ágætur fréttamaður ríkissjónvarpsins hafði nokkru áður bent á, að Castro hefði um áratuga skeið getað verslað við flestöll lönd heims, önnur en Bandaríkin, auk gífurlegs fjárausturs Sovétmanna til hans. Fátæktin og kúgunin á Kúbu væri því ekki Bandaríkjamönnum að kenna, eins og er almenn skoðun vinstri manna, og hefur verið sagt í sumum skýrslum Amnesty, heldur af sama toga og fátæktin, eymdin og kúgunin í öllum öðrum löndum kommúnista.

Þarna var ísleskur hommi að segja fólki, sem var svo ungt, að foreldrar sumra voru ekki fæddir þegar Castro hrifsaði völdin á nýársdag 1959, að gagnrýni á harðstjórann væri “fordómar”. Mér finnst gaman að svona. . Það er skemmtilega “kinkí”, og hét í mínu ungdæmi “að kyssa vöndinn”.Það gefur líka innsýn í hugarheim vinstri mannsins, enn á 21.öld. Hver sagði að kalda stríðinu væri lokið?

Þetta kom þó ekki á óvart.. Ég var þarna nýkominn heim eftir langa dvöl á Spáni, en þar hafði ég nokkrum árum fyrr séð í sjónvarpi viðtal við kúbanskan homma, sem sagði farir sínar ekki sléttar af þingi “baráttusamtaka” homma í Svíþjóð.
Á þinginu reyndi hann að skýra fundarmönnum frá pyntingunum, nauðgununum og svívirðunni sem hann varð fyrir í fangabúðum Castros vegna kynhneigðar sinnar, þar á meðal rafmagnspyntingum, en Guantánamo er trúlega eina fangelsið á Kúbu, þar sem rafmagnspyntingar eru ekki stundaðar. Viðbrögð fundarmanna í sænsku homma-“baráttusamtökunum” voru merkileg.

Hann var hrópaður niður og kallaður “CIA- agent” og “fasisti”. Maðurinn var gráti næst þegar hann sagði frá þessu, því hann kvaðst ávallt hafa talið sig vinstri mann.

Ofsóknir Castros gegn hommum eiga sér nefnilega enga hliðstæðu í gjörvallri veraldasögunni síðan á dögum Hitlers. Ég minnist þess vel, að um þær var oft talað í skýrslum Amnesty á sjöunda áratugnum, meðan stofnandinn, Benenson, var enn við völd og samtökin marktæk. Ég minnist þess líka, að þá voru pólitískir fangar á Kúbu taldir um 70.000, miklu fleiri en dúsuðu í öllum dýflissum allra hinna ýmsu “hægri sinnuðu” herforingja og pótintáta annars staðar í Mið- og Suður- Ameríku samanlagt. Þetta var að sjálfsögðu löngu áður en forysta Alþýðubandalagsins (nú Samfylking og VG) gekk í Amnesty á áttunda og níunda áratugnum, en eins og allir geta séð í Þjóðviljanum frá þessum árum (finnst í Þjóðarbókhlöðu og víðar) voru þar í fararbroddi stofnendur og liðsmenn fjölmargra “vináttufélaga”, sérstakra stuðningshópa íslenskra manna við ýmsa miskunnarlausustu harðstjóra og böðla samtímans, þar á meðal “Kúbuvinafélagsins”. Hliðstæð þróun varð hvarvetna erlendis eftir að Benenson var endanlega hrakinn frá völdum 1973.
Á sjöunda áratugnum var stofnandinn, hins vegar við völd og samtökin marktæk. Amnesty voru þá enn hjálparsamtök, ekki “baráttusamtök”, ætluð til að ná fram pólitískum markmiðum félaga sinna, fyrst og fremst með því að ala á hatri á Bandaríkjunum. Þar ber hæst árásir Amnesty á bandarískan almenning, sem situr í kviðdómum og fellir stundum dauðadóma yfir morðingjum.

En víkjum aftur að Castro. Hann er nú hættur að bleyta smjörið. Hans verður sárt saknað af vinum hans og verndurum, “lýðræðis”-postulum og “mannréttindafrömuðum” á vinstra kanti, utan og innan Amnesty.

Afstaðan til Castros myndar enn í dag vatnaskil milli hægri og vinstri. Sá sem segir sannleikann um þenna siðvillta böðul er hægri maður. Vinstri maður er sá sem ber blak af ódæðisverkunum eða reynir að kenna Bandaríkjunum um, og þeir sem lengst eru til vinstri (“róttækastir”) beinlínis styðja harðstjórann og dá. Enn á 21. öld myndar afstaðan til Castros allra skýrustu víglínuna milli hægri og vinstri. Hans verður, sem fyrr sagði, sárt saknað.

Þótt 16 ár séu liðin síðan Rússa- Grýla gafst upp á rólunum á jólunum 1991 með upplausn Sovétríkjanna, eru Grýlubörnin enn á meðal vor, Leppir og Skreppir í stjórnmálum og fjölmiðlum og Leiðindaskjóður í menningarlífinu. Völd þeirra eru gífurleg hvarvetna í þjóðlífinu, og þeim hefur furðu vel tekist að stimpla hvern þann sem rifjar upp þeirra eigin fortíð sem “kaldastríðshermann”. Nasistar komast ekki upp með slíkt, en nasistar ganga ekki heldur í Amnesty.

Nasisti, sem gengi í Amnesty yrði örugglega rekinn úr Flokknum.



Þegar fyrri greinin hafði birtst kom í Mogganum áminning til mín frá Amnesty- forkólfunum í yfirlætislegum, föðurlegum tón.
 Ég skrifað þessa síðari grein samdægurs, þótt Mogginn þyrfti hálfan mánuð til að birta svarið.



                              Svolítið meira um Amnesty   

Þegar breskur lögfræðingur, sem nú er nýlátinn, Peter Benenson, stofnaði Amnesty 1961 vakti fyrir honum að stofna hjálparsamtök, sem ekki berðu sér á brjóst í heilagri vandlætingu, heldur hjálpuðu þeim, sem sættu ofsóknum stjórnvalda og sætu í fangelsi vegna skoðana sinna. Hann forðaðist þó boðbera vopnaburðar og ofbeldis, því hann vissi vel, að ekki eru allir svonefndir “samviskufangar” saklausir fulltrúar lýðræðis og mannréttinda. Margir “samviskufangar” hafa beitt ofbeldi og hvetja til styrjalda, ofbeldisbeitingar og þjóðskipulags, þar sem allt lýðræði og öll mannréttindi eru fótum troðin. Þeir Lenin, Stalin og Hitler voru t.d. allir “samviskufangar” á sínum tíma, fangelsaðir vegna skoðana sinna.
Þetta vakti andstöðu vinstri sinnaðra “aðgerðarsinna”, sem fljótlega þyrptust í samtökin, Benenson var hrakinn út í horn, og lauk svo að hann hætti alveg afskiptum af Amnesty 1973. Foreldrar eru alltaf tregir til að afneita börnum sínum og hann mun aldrei hafa fordæmt valdaræningjana opinberlega, mætti á afmælishátíðir og kveikti á kertum, en það duldist engum, að hann hafði fullkomna andstyggð á stefnu hinna nýju herra, sem breyttu Amnesty í þann nánast marklausa, og heldur ógeðfellda þrýstihóp vinstri manna, sem samtökin eru nú og hafa lengi verið.
Umskiptin voru að mestu orðin þegar valdaræningjarnir tóku við friðarverðlaunum Nóbels 1977, ekki fyrir störf sín, heldur Benensons. Upp úr því hófst herferðin mikla gegn Íranskeisara, sem var kunnur stuðningsmaður Bandaríkjanna. Ástand mannréttindamála í Íran var vissulega slæmt, en þó engu verra en í nágrannalöndum sem Amnesty þagði um, svo sem Írak og Sýrlandi, þar sem stjórvöld voru alfarið á bandi Sovétmanna.
Merkilegri var þó þögnin háværa, sem fylgdi í kjölfarið eftir að “ástmögur Amnesty”, Khomeini erkiklerkur, náði völdunum og blóðbaðið hófst fyrir alvöru. Upp úr því sneri Amnesty sér beint að Bandaríkjunum sjálfum, þ.e. almenningi, sem þar situr í kviðdómum og fellir sjálfur dauðadómana í landi þar sem yfirgnæfandi stuðningur er við dauðarefsingar, líka í þeim ríkjum, þar sem fylkisþingmenn hafa afnumið þær í óþökk kjósenda sinna. Því má bæta við, að ólíkt því annars staðar gerist eru dómarar, saksóknarar og lögreglustjórar kjörnir fulltrúar almennings í Bandaríkjunum, ekki valdir af stjórvöldum og í raun verkfæri þeirra eins og á Íslandi, Kúbu og flestöllum öðrum löndum heims. Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi bandarísks réttarfars eða stuðningsmaður dauðarefsinga, en hvers vegna lýsti núverandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar því yfir fyrir nokkru, þegar fjöldamorðingi einn var tekinn af lífi samkvæmt fyrirskipun hóps samborgara sinna í kviðdómi, að “bandarísk stjórnvöld” hefðu “myrt” morðingjann?
Hvers vegna ber Amnesty athugasemdalaust saman aftökur í Kína, þar sem menn eru teknir af lífi fyrir að hafa stolið svíni, eða í Íran þar sem konur eru grýttar til bana af því að eiginmaðurinn segir þær ótrúar, og aftökur þeirra sárafáu bandarísku morðingja, sem allra viðbjóðlegustu glæpina hafa framið og eru fyrirskipaðar af kviðdómi, skipuðum almennum borgurum? Amnesty heyrir ekki neyðar- og kvalaóp kvennanna eða grát barnanna, sem þessir illvirkjar hafa nauðgað, pyntað og myrt. Samúðin er öll með ódæðismanninum, þ.e. sé hann bandarískur.
Irene Khan, aðalritari Amnesty International , lagði nýlega að jöfnu fangabúðirnar í Guantánamo, þar sem miskunnarlausir Al- Qaida- liðar og tilvonandi sjálfsmorðs- morðingjar eru hafðir í haldi, menn sem eru reiðubúnir til að myrða fangaverði sína þó það kosti þá sjálfa lífið, og Gúlag Stalins, þar sem milljónir saklausra manna og kvenna voru myrtar með köldu blóði vegna þess að vera taldir á annari skoðun en harðstjórinn.
Hver tekur mark á slíkum samtökum? Meira að segja því kunna vinstra- blaði, Washington Post, ofbauð þessi “samanburðarfræði”. Og hvers vegna talar Amnesty nú bara um Guantánamo? Hvað með þá vesalings menn, sem sæta pyntingum í öðrum fangabúðum á Kúbu og hafa ekkert til saka unnið annað en kynhneigð sína? Er það kannski vegna þeirrar staðreyndar að liðsmenn “Kúbuvinafélagsins” hafa um langt skeið verið í Amnesty? Hvað veit ég?
Það var á árunum í kringum 1980 sem ég varð þess fyrst var á smáauglýsingasíðum Þjóðviljans, að sömu menn, úr forystusveit Alþýðubandalagsins (nú Samfylking og VG) voru að auglýsa fundi í “vináttufélögum”, stuðningshópum við stjórnvöld á t.d. Kúbu, í Austur- Þýskalandi, Sovétríkjunum (MÍR), Víetnam, Albaníu, Norður- Kóreu, o.s.frv. og fundi í Amnesty, þar sem þeir höfðu gjarnan framsögu um “lýðræði” og “mannréttindi”. Þjóðvilinn liggur fyrir, og ekki þarf um þetta að deila. Þetta fólk er enn í fullu fjöri og ég veit ekki til að það hafi sagt sig úr Amnesty, þótt “vináttufélögunum” hafi fækkað.
Ég lít svo á, að þeir, sem telja sig geta starfað að mannréttindamálum við hlið fólks sem starfar eða hefur starfað samtímis í skipulegum stuðningshópum við stjórnir af þessu tagi viti einfaldlega ekki hvort þeir séu að koma eða fara.
Í sporum þeirra mundi ég fara.


















« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband