Eiríkur rauði fann Ameríku

Ég  var einu sinni sem oftar að gramsa á Tímarit.is og fann þá þessa grein, sem ég var næstum búin að gleyma. Hún var skrifuð þegar landafunda- hjalið og þjóðremban var í hámarki 1992 í tilefni af 500 ára afmæli ferðar Kólumbusar. Mér finnst full ástæða til að birta hana aftur hér. Mínar skoðanir um þetta hafi ekkert breyst síðan í Austurbæjaskólanum fyrir hálfri öld. Grænland var, er og hefur alltaf verið í Ameríku.

 

 

Mér er það ennþá minnisstætt hvað krakkarnir hlógu dátt einu sinni í sögutíma í Austurbæjarskólanum, þegar kennarinn spurði út í bekkinn hver hefði fundið Ameríku. Í landafræðitíma skömmu áður hafði mér verið kennt að Grænland væri í Ameríku, svo ég hrópaði hátt og snjallt: „Eiríkur rauði!" Þótt síðan sé nú liðinn rúmur aldarþriðjungur hef ég aldrei breytt þessari skoðun minni, né haft ástæðu til þess.

Í haust er á döfinni beggja megin Atlantshafsins heljarmikið húllumhæ vegna ferðar Kólumbusar til nokkurra eyja í Karíbahafí árið 1492. Engin ástæða er til að gera lítið úr Kólumbusi né hinni sögufrægu og sögulegu ferð hans. Hún skipti sköpum og var vissulega meðal merkustu atburða í allri mannkynssögunni. Kólumbus á heiðurinn af því að gera Evrópumönnum almennt ljósa tilvist heimsálfunnar og ferð hans kom af stað hinum gífurlegu fólksflutningum vestur þangað síðasta hálfa árþúsundið.

Flestum — og þótt merkilegt megi virðast einnig Íslendingum — sést hins vegar yfír, að þegar þessir fólksflutningar hófust um 1500 hafði hluti hinnar miklu heimsálfu verið byggður Evrópumönnum — raunar rammkaþólskum — í önnur 500 ár. Mér hafa lengi fundist hlálegar deilurnar miklu um það, hvor þeirra Kólumbusar eða Leifs heppna hafi fundið heimsálfuna Ameriku. Það er skjalfest, að faðir hins síðarnefnda var búinn að þessu þegar um árið 982. 

Önnur deila sýnu hjákátlegri stendur um það, hvers konar passa Leifur hefði borið, íslenskan eða norskan. Eins og flestir vita var Eiríkur, faðir Leifs, fæddur á Jaðri í Noregi, en fólk Þjóðhildar, móður Leifs hafði komist hingað einhverjum árum eða áratugum á undan Eiríki, sömuleiðis frá Noregi. Hún hefði því trúlega haft þennan bláa íslenska. Það er raunar alls ekki víst, hvort sá rauðhærði ribbaldi, Eiríkur Þorvaldsson, hefði nokkurn passa getað fengið í Noregi eða aðra pappíra þegar hann hljópst þar úr landi.

Um Leif heppna Eiríksson er það að segja, að þótt hann kunni hafa verið fæddur hér, og annað foreldri hans að minnsta kosti teldist íslenskt hefði þjóðerni hans alls ekki verið ljóst. Leifur var barnungur þegar hann fluttist héðan alfarinn (þ.e ef hann fæddist hér, sem er ósannað) og minningar hans af Íslandi hljóta að hafa verið óljósar, ef nokkrar. Það er ekki líklegt að faðir hans, og jafnvel móðir, hafi talað vel um Ísland og Íslendinga, eftir að Eiríkur var hér hrakinn úr landi og ólíklegt að Leifur sonur hans hefði sóst eftir íslensku vegabréfi. Á því getur varla leikið vafi, að Leifur hefði viljað vera Grænlendingur og passi hans verið grænlenskur, hefðu slíkir pappírar verið gefnir út á þeim dögum. Hann var fyrstur norrænna manna sem ól nær allan aldur sinn í Vesturheimi og má því teljast fyrsti Ameríkumaðurinn af evrópskum ættum. 

 Það er skrýtið og skondið að tala um að hann hafí ekki fundið Ameríku fyrr en á fullorðinsárum.

Ég endurtek að Grænland er í heimsálfunni Ameríku. Það er ekki umdeilt og hefur mér vitanlega aldrei nokkru sinni verið. Jarðfræði, jurta- og dýralíf er hið sama og á nálægum eyjum Kanada og í Alaska og mannlíf og menning frumbyggja (Inuíta eða Eskimóa) er hin sama og þar. Eins og ég sagði: Málið er ekki umdeilt. Hin löngu völd Dana og sú staðreynd að frá upphafi hefur Grænland stjórnarfarslega aldrei tilheyrt sömu heild og aðrir hlutar Norður-Ameríku hlýtur að hafa ruglað fólk í ríminu. Engum dettur í hug að segja að t.d. Baffinsland eða Ellesmere-eyja séu ekki í Ameríku. Enginn náttúrufræðingur, mannfræðingur né landfræðingur lætur sér detta það í hug að Grænland sé síður í Ameríku en þær eyjar Karíbahafs sem Kólumbus heimsótti 1492. Ég bið lesandann að fletta þessu upp ef hann trúir mér ekki. Ártöl á þessu tímabili Íslandssögunnar eru nokkuð óviss og umdeild. Þó má setja landafundasögu Ameríku upp á eftirfarandi hátt: Í ár höldum við upp á 500 ára afmæli ferðar Kólumbusar og flutninga Evrópumanna í kjölfarið til meginlandanna beggja. Við höldum líka upp á 992 ára afmæli ferðar Leifs heppna og fundar meginlands Ameriku. Reyndar gætum við líka haldið upp á 1006 ára byggð evrópskra manna í Vesturheimi, því' hún hófst 986 (einhverntíma á árunum 985-987). En fyrst og fremst ættum við að halda upp á 1010 ára afmæli ferðar Eiríks rauða og fundar Ameríku.  

Eftir á að hyggja finnst mér að ég hefði átt að skrifa þetta 1982.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. Úti á Reykjanesi er staður þar sem maður getur staðið með annan fótinn í Evrópu en hinn í Ameríku.

Má ekki nota sömu rök og þú gerir til að segja það hinn eina sannleik málsins að sá eða sú sem kom fyrstur manna "Ameríkumeginn" á Reykjanes hafi þar með fundið Ameríku þótt hann/hún hafi ekki gert sér neina grein fyrir því þá?

Varla hefur Eiríkur verið að velta því fyrir sér, og því síður gert sér grein fyrir því, að hann hafi fundið Ameríku með því að stíga á land í Grænlandi?

Nú þarf bara að finna út hver það var sem steig fyrstur á land Ameríkumegin á Reykjanesi og þar með er málið endanlega leyst.

Grefill (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 20:31

2 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Reykjanes er á Íslandi. Grænland er í Ameríku. Hitt er svo annað mál, að það er alls ekki alveg ljóst, hvort telja eigi Ísland til Evrópu eða Ameríku. Vilhjálmur Stefánsson hélt því stíft fram að Ísland væri í Ameríku, enda miklu nær Grænlandi en Evrópu. Sprungur á Reykjanesi koma hins vegar þessu máli ekki á nokkurn hátt við. Þær eru á Íslandi.

Vilhjálmur Eyþórsson, 10.7.2010 kl. 20:37

3 identicon

Sprungan þarna suðurfrá markar skilin á Ameríkuflekanum annars vegar og Evrópuflekanum hins vegar. Strangt tiltekið er maður því kominn Ameríkumeginn um leið og maður stígur fæti á Ameríkuflekann, þótt hann sé á Íslandi.

Grefill (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 21:05

4 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Tóm vitleysa. Sprunga á Íslandi er á Íslandi. Sorrý.

Vilhjálmur Eyþórsson, 10.7.2010 kl. 21:27

5 identicon

Ég sagði aldrei að sprunga á Íslandi væri ekki á Íslandi.

Ég sagði að Ameríkuflekinn og Evrópuflekinn mætast á Íslandi í þessari tilteknu sprungu (sem er á Íslandi, nánar tiltekið á Reykjanesi).

Sorrý sjálfur. 

Grefill (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 21:41

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Gott og vel. En þetta tal um fleka fellur undir jarðfræði, ekki landafræði. Hitt er, sem fyrr sagði alls ekki alveg víst að Ísland megi teljast til Evrópu. Það mætti líta á það sem einhvers konar milli- land.

Vilhjálmur Eyþórsson, 10.7.2010 kl. 21:48

7 identicon

Það er "milli-land". Situr nánast beint ofaná flekaskilunum. Land- og jarðfræðilega þá væri hægt að skilgreina Ísland í tveimur heimsálfum, rétt eins og Rússland, Tyrkland og e.t.v. fleiri lönd sem liggja yfir álfumæri.

Grefill (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 21:58

8 Smámynd: Óskar Arnórsson

Er búið að flytja Ísland úr Evrópu? Eiríkur Rauði fann ekki Ameriku. Það er enn ein skáldsagan. Það var hellingur af fólki þar fyrir þegar hann kom. Annars er ekkert að marka neitt um gamla daga sem skrifað er á Íslensku. Allt saman tómar lygasögur.

Óskar Arnórsson, 30.7.2010 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband