Hver eða hverjir myrtu Palme?

 Nú eru liðin 30 ár frá morðinu á Olof Palme, en hann var á margan hátt tákngervingur fyrir fólk þeirrar tegundar sem situr víða í æðstu valdastólum hér á landi, jafnt í menningarlífinu sem í stjórnmálum (þó ekki núverandi valdhafa) sem lýkur helst aldrei sundur munni án þess að tala um „frið“, „lýðræði“ og „mannréttindi“, hluti sem það skilur ekki fremur en Palme. Því finnst mér tilavalið að endurbirta þetta nú. Margir fyrrverandi ráðherrar, alþingismenn og sjálfur forseti Íslands hafa sýnt í verki á fyrri árum og allt fram á þennan dag raunverulega afstöðu sína til lýðræðis og mannréttinda með þátttöku í sérstökum „vináttufélögum“ við blóði drifnar alræðisstjórnir (Kúbu, Sovét, Austur- Þýskaland Víetnam o.s.frv.). Þetta fór þá fram alveg samhliða Amnesty- þátttöku og annarri „mannréttindabaráttu“. Það er mikill misskilningur ef einhver heldur að lýðræðis- og mannréttindahjal þessa fólks hafi byrjað eftir fall Berlínarmúrsins 1989.

Ég bjó í Svíþjóð á árum Víetnamstríðsins, en um það skrifaði ég fyrir nokkrum árum í Þjóðmál greinina „Víetnam, vendipunktur kalda stríðsins“.Hér fer á eftir kaflinn um Palme úr þeirri grein:

 „Ég sat á þessum árum tvívegis fundi um Víetnam, þar sem Olof Palme var frummælandi, og get vottað, að maðurinn var ágætlega greindur, vel að sér og fljótur að hugsa. Ég get líka vottað, að stuðningur hans við upphafsmenn Víetnamstríðsins, innrásarheri kommúnista í Indó- Kína, var alger og óskilyrtur. Hann var hinn ágætasti fulltrúi fyrir þær skoðanir, sem hann deildi með milljónum Vesturlandabúa og tugþúsundum Íslendinga á þessum árum. En hver myrti Palme? Suður- Afríkumenn hafa verið nefndir, enda var Palme orðlagður fyrir baráttu sína gegn kynþáttamisrétti. En fleiri koma til greina. Þegar innrásarherir kommúnista “þjóðfrelsuðu” loks löndin í Indó- Kína með vopnavaldi við gífurlegan fögnuð “lýðræðis”- postula, “friðarsinna” og “mannréttindafrömuða” hvarvetna, hófu Hanoi- menn skipulegar þjóðflokka- og kynþáttaofsóknir, sem vinir þeirra, vinstri menn, tala aldrei um. Kannski var morðingi Palmes maður af fjallaþjóðflokki eða af kinverskum uppruna, eða þá barn svarts bandarísks hermanns, en átrúnaðargoð Palmes, þessa heimskunna “mannréttindafrömuðar”, herstjórarnir í Hanoi, ofsóttu allt þetta fólk með yfirveguðum, miskunnarlausum hætti. Fullkomið kaldlyndi Palmes gagnvart bátafólkinu og fyrirlitning á því var alkunnug, og morðingi hans gæti vel hafa komið úr þeirra röðum. 

Og hvað með fórnalömb Castros? Fræg var heimsókn Palmes til Kúbu í kölfar sigurs “þjóðfrelsisaflanna” í Indó- Kína 1975 þar sem þessi kunni “mannréttindafrömuður” hélt hverja lofræðuna af annarri um gestgjafa sinn, en um það leyti voru pólitískir fangar á Kúbu eitthvað um 40.000. Menn sátu þar í fangabúðum í allt að 20 ár fyrir samkynhneigð, að slátra kú eða biðja um hærra kaup, en á Kúbu, eins og í öðrum “verkamannalýðveldum” er verkalýðsbarátta refsiverð. Morðingi Palmes gæti líka hafa verið úr þeirra röðum.

Palme notaði tækifærið á Kúbu til að fagna alveg sérstaklega Pol Pot og Rauðum Kmerum, sem þá voru nýkomnir til valda, en einmitt þá rann blóðið í sem allra stríðustu straumum. Morðingi Palmes gæti verið einn þeirra sem komust undan þjóðarmorðingjunum.

Þegar þessi heimskunni “friðarsinni” var á Kúbu hafði Castro einhvern stærsta her í heimi, þótt ekki sé miðað við fólksfjölda, um hálfa milljón manna undir vopnum, og hélt her sínum úti til styrjalda og manndrápa í 15 löndum víða um heim, ekki síst í Afríku, þar sem menn hans lögðu um 8 milljónir jarðsprengna. Morðingi Palmes gæti verið úr röðum ættingja þeirra sem hermenn eða jarðsprengjur Castros hafa drepið eða limlest. Möguleikarnir eru óteljandi og sömuleiðis eru fórnarlömb kúgunar, þjóðarmorða og hernaðar vina og átrúnaðargoða Palmes, þessa “lýðræðis”- postula, “mannréttindafrömuðar” og “friðarsinna” óteljandi.

Örlög Palmes voru að sönnu hörmuleg og engum óskandi. Hann hefur á síðari árum orðið píslarvottur, átrúnaðargoð og tákngervingur mikils hluta vinstri manna, fólks þeirrar gerðar sem hérlendis stýrir mensévíka- armi Alþýðubandalagsins, svonefndri “Samfylkingu”. Þetta er fólkið sem sagðist ekki vera kommúnistar, en gekk erinda alræðisaflanna í kalda stríðinu undir formerkjum ”lýðræðis”, “friðar” og “mannréttinda”. Ég kann að mörgu leyti betur við bolsévíka- arminn, sem nú nefnir sig “Vinstri græna”. Þeir ganga hreinna til verks“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband