Laugardagur, 12. apríl 2008
Þrír friðarverðlaunahafar - en hvar var Ástþór?
Það var fagurt og áhrifamikið að sjá friðarverðlaunahafana tvo, Gore, handafa friðarverðlauna Nóbels og Ólaf Ragnar, handhafa Nehru- friðarverðlaunanna. En hvar var handhafi Gandhi- friðarverðlaunanna, Ástþór Magnússon? Hann er maður sömu gerðar, jafnt andlega sem líkamlega og hefði sómt sér einstaklega vel þarna í Háskólabíó. Þeir þremenningar eiga fleira sameiginlegt. Allir hafa þeir boðið sig fram til forseta. Það klikkaði hjá Gore og Ástþóri, en Ólafur bætir það upp.
Ég óska og vona að Ástþór bjóði sig aftur fram. Þá gefst mönnum nefnilega aftur tækifæri til að skila auðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 29. mars 2008
Þjóð vill, þá þrír vilja
Ekkert bendir til að nokkur maður í Bandaríkjunum eða annars staðar á Vesturlöndum hafi lesið þessa auglýsingu eða tekið hið minnsta mark á henni. Hitt er ljóst, að hún hefur haft áhrif í arabalöndum, því henni voru gerð rækileg skil í arabískum fjölmiðlum, m.a. á Al- arabia og Al -jazeera sjónvarpsstöðvunum. Ísland er nú komið þar á kortið sem óvinur.
"Margur heldur mig sig," segir gamalt máltæki og sú hugsun, eða öllu heldur þráhyggja, að allir aðrir hljóti að vera á sömu skoðun og maður sjálfur er einkennandi fyrir hugsjónamenn, lýðskrumara og einfeldninga allra alda. Raunar er vandfundinn sá harðstjóri og ógnarbíldur á spjöldum sögunnar, sem ekki taldi sjálfan sig vera alveg sérstakan fulltrúa "alþýðunnar", þ.e. fólksins, þjóðarinnar. Það gerði Kleón sútari í Aþenu hinni fornu, Júlíus Sesar var ávallt "maður fólksins" og Napóleon hóf feril sinn sem byltingarleiðtogi á vegum "alþýðunnar". Margir þjóðhöfðingjar töluðu gjarnan um sjálfan sig í fleirtölu, t.d. Viktoría drottning, (sbr.: "We are not amused"). Prívatskoðun eins einstaklings átti þannig að vera skoðun allrar þjóðarinnar.
Hitler lauk aldrei sundur munni án þess að tala í nafni "alþýðunnar", en þýska orðið "Volk" og enska orðið "People" er á íslensku ýmist þýtt sem "þjóð" eða "alþýða".
Eitt af því fjölmarga, sem "róttækir vinstri menn" (kommúnistar) eiga sameigilegt með nasistum er, að þetta fólk endurtekur í sífellu orðin "alþýða" (Volk) og "barátta" (Kampf) og - vel að merkja - bæði kommúnistar og nasistar trúa því í fullri alvöru, að einmitt þeir sjálfir séu hinir einu og sönnu fulltrúar fólksins. Hrokinn, yfirgangurinn og frekjan, sem felst í nafni "Þjóðviljans" sáluga hefði sómt sér ágætlega á einhverju málgagni Hitlers og nasista ("Wille des Volkes").
Þetta blað túlkaði aldrei vilja nokkurrar þjóðar, hvorki hinnar íslensku eða rússnesku, heldur vilja lítillar klíku menntamanna á Íslandi, en þó fyrst og fremst vilja þeirra miskunnarlausu óþokka, sem völdin höfðu í Kreml.
Femínistar tala undantekningarlaust um sínar eigin prívatskoðanir sem skoðanir allra, þótt yfirgnæfandi meirihluti kvenna hafi sáralítinn áhuga á brölti þeirra. Einfeldningar í stétt fjölmiðlamanna éta þetta eftir þeim og tala því gjarnan um "skoðanir kvenna" eða "vilja kvenna" þegar í raun er átt við skoðanir og vilja lítillar klíku femínista.
Því þarf ekki að koma á óvart, að þegar þrír menn komust að því í sumar að þeir væru á tiltekinni skoðun um svonefnt "fjölmiðlafrumvarp", drógu þeir þá ályktun, að öll þjóðin hlyti að vera það líka, eða, eins og einn ágætur ráðherra mundi orða það: "Þar sem þrír menn koma saman, þar er komin Þjóðarhreyfing."
Var efnt til fundar framan við Stjórnarráðið, þar sem þremenningarnir mættu, auk forvitinna vegfarenda og hrópað í kór: "Við viljum lýðræði! Við viljum lýðræði!" alveg eins og börnin gerðu í gömlu auglýsingunni ("Við viljum Vilkó! Við viljum Vilkó!").
Nýjasta uppátæki þremenninganna er að gera sjálfa sig, og það sem verra er, íslensku þjóðina, að viðundri fyrir framan heimsbyggðina með auglýsingu í New York Times.
Ég tel sjálfan mig hluta af íslensku þjóðinni og þessir menn tala ekki í mínu nafni. Vilji þeir sóa fé sínu geta þeir gert það undir eigin nafni, ekki mínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. febrúar 2008
Burt með grísinn!
Ég sé, að hollensk stórmarkaðs- keðja hefur neyðist til að taka niður litla sparigrísi, sem þar voru vegna ótta við múslima. En hvað með Bónus? Sem kunnugt er völdu Bónus- feðgar bleikan grís í skjaldarmerkið sem tákn sitt og sem verndargrip (hann hefur reynst þeim vel).
Grísinn, sem gengur gjarnan undir nafninu Ólafur, (stundum einfaldlega Óli), meðal almennings, brosir flírulega framan í viðskiptavini, en hlýtur að særa viðkvæmar tilfinningar múslima.
Ég hlýt því að leggja til, að þeir feðgar, sem eru kunnir "fjölmenningarsinnar" fjarlægi grísinn hið snarasta.
Bloggar | Breytt 29.3.2008 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
Alíslensk heimsfrétt
Fyrst ég er nú á annað borð að birta gamlar greinar finnst mér rétt að birta þessa, sem er frá því í mars 2004, því í henni er að finna ýmislegt, sem á fullt erindi, t.d. um vopnasölu, eiturgasframleiðslu, fréttastofu allra starfsmanna" og róginn, sem vinstri menn beita með algerlega ósvífnum hætti. Fréttamaðurinn, sem ég vil nefna "eiturefna- Kristján", er nú hættur hjá sjónvarpinu.
.
ÞAÐ eru nú komin meira en 100 ár síðan Alfred Nobel fagnaði uppgötvun eiturgassins einlæglega með því fororði, að þetta vopn væri svo hræðilegt, að hann taldi það mundu binda enda á öll stríð. Enginn mundi þora að beita því. Þessi fróma ósk hins heimskunna friðarsinna og vopnaframleiðanda rættist þó ekki. Eiturgasið reyndist gagnslítið í fyrra stríði og Hitler beitti því aldrei, þótt hann ætti miklar birgðir. Ekki einu sinni kjarnorkusprengjan hefur bundið enda á styrjaldir, þær virðast mannkyninu áskapaðar.
Það er hins vegar ekkert leyndarmál, hvernig staðið er að gerð eiturgass og sýklavopna, þetta er afar einföld og ódýr framleiðsla, og hér á Íslandi, svo ekki sé farið lengra, er fjöldi efnafræðinga og lyfjafræðinga, sem gætu framleitt eiturgas ef þeir vildu, og fjöldi lífefnafræðinga, lækna og jafnvel meinatækna, sem gætu, ef þeir væru þannig innréttaðir í sálarlífinu, framleitt sýklavopn. Það er ekki langt síðan ungur Japani dreifði allra hættulegasta og eitraðasta taugasinu, Sarin, sem hann hafði framleitt í bílskúr, á lestarstöð, og drap fjölda manns.
Öll tól og tæki, sem til þarf, eru tiltæk í landinu og efnin má kaupa í Lyfjaverslun ríkisins eða annars staðar, þar sem slíkt er selt. Víða má kaupa skordýraeitur, en því getur maður með lágmarks efnafræðiskunnáttu hæglega
breytt í Sarin. Þarna er engin hátækni til staðar og öll þekkingin hefur legið fyrir í áratugi. Vanti menn upplýsingar um nánari atriði framleiðslunnar má fá þær á Netinu.
Flestallar, ef ekki allar þjóðir heims geta þannig framleitt efna- og sýklavopn, þar á meðal að sjálfsögðu Írakar. Eitrinu þarf að vísu að koma fyrir í vopnum, en slíkt hafa menn kunnað síðan í fyrra stríði. Saddam Hussein hafði allþróaðan vopnaiðnað sem hann byggði upp í samvinnu við Sovétmenn (ekki Bandaríkjamenn) og gat hæglega komið eitrinu fyrir í fallbyssukúlum, flugvélasprengjum og skamm- og meðaldrægum flugskeytum, sem hann framleiddi sjálfur. Það eru einmitt þessar verksmiðjur, sem vopnaeftirlitsmenn SÞ voru að kanna í mörg ár og leita að öðrum í skúrum og vörubílum, því þessi framleiðsla er, sem fyrr sagði, afar ódýr og fyrirferðarlítil. Ég endurtek: Engin hátækni er til staðar.
Mér þætti þess vegna gaman að vita eitt: Hvaðan kemur sú þekking, að Bandaríkjamenn hafi selt Saddam Hussein gereyðingarvopn? Hver er heimildin? Getur einhver hjálpað mér?
Ég hef nú heyrt þetta þrisvar í íslensku sjónvarpi. Fyrst hélt einn fréttamanna ríkissjónvarpsins þessu margítrekað fram við utanríkisráðherra, síðan sagði þingflokksformaður VG það sama í þætti á sömu stöð og síðast formaður VG á Stöð 2, þannig að það er búið að segja íslensku þjóðinni þetta a.m.k. þrívegis, án þess að andmæli hafi komið fram, og því hlýtur almenningur að telja, að þetta sé satt.
Ég fylgist nokkuð með alþjóðlegum fjölmiðlum, aðallega bresk- bandarískum, sænskum og spænskum og hef hvergi nokkurs staðar séð þessu hreyft. Allir aðrir en þeir sem ég nefndi hafa hingað til haldið, að Saddam hafi framleitt eiturgasið sjálfur, jafnvel allra ofstækisfyllstu hatursmenn Bandaríkjamanna víða um heim.
Ég hef ekki einu sinni séð þessu haldið fram í meginheimild fréttastofu Ríkisútvarpsins-hljóðvarps (og þar með íslensku þjóðarinnar) um utanríkismál, þ.e. vinstri öfga- og kollóra-blaðinu Independent.
Þetta langminnsta og áhrifaminnsta dagblað á Bretlandi (en áhrifamest á Íslandi), sem helst höfðar til uppgjafa Albaníu-komma og Pol Pot-ista auk fréttastofu RÚV, er höfuðmiðstöð Bandaríkjahaturs þar í landi. Samt hafa þeir mér vitanlega aldrei haldið þessu fram. Þeir skamma hins vegar Bandaríkjamenn hástöfum fyrir að hafa ekki bannað Saddam að beita eiturgasinu, því í ofstæki sínu, fáfræði og heimsku telur Independent í fúlustu alvöru, að slíkt hafi verið á valdi Bandaríkjamanna.
Þessi meintu viðskipti eiga að sjálfsögðu að hafa átt sér stað í Íran- Íraksstríðinu 1980-1988, en þá eiga Bandaríkjamenn, að sögn vinstri manna, að hafa selt Saddam ókjör af hergögnum. Jafnvel er reynt að láta líta svo út, að Rumsfeld, nú varnarmálaráðherra, hafi selt Saddam eitrið. Sá hængur er þó á, að þeir Rumsfeld og Saddam hittust fyrst í desember 1983 en Saddam hóf að beita eiturgasi gegn Írönum snemma árs 1981.
Frá upphafi til loka átakanna voru nánast öll vopn Saddams frá Sovétríkjunum og öðrum kommúnistaríkjum, en dálítið frá Frakklandi, aðallega Etendard- og Mirage-þotur og Exocet-flugskeyti.
Íranir börðust hins vegar að miklu leyti með bandarískum vopnum frá dögum keisarastjórnarinnar. Það er vitað, að þótt Bandaríkjamenn væru opinberlega hlutlausir, jafnvel hlynntir Írönum í laumi, einkum framan af, fóru þeir heldur að halla sér að Írökum þegar á leið. Eftir að íraskt flugskeyti hæfði bandaríska herskipið Sark 1987 og drap 37 menn hóf Bandaríkjafloti mikil umsvif á Persaflóa. Þó er það svo, og þótt ótrúlegt kunni að virðast, að einu vopnin, sem vitað er til, að Bandaríkjamenn hafi sent stríðsaðilum 1980-1988, eru þau frægu vopn og varahlutir, sem Íranir, ekki Írakar, fengu að kaupa í skiptum fyrir gísla skæruliða í Líbanon. Féð var svo notað til að fjármagna Contra- skæruliða í Nicaragua (Íran- Contra-hneykslið).
Bandaríkjamenn seldu Írökum hins vegar allmargar óvopnaðar þyrlur, fimm Boeing-þotur og veittu þeim ábyrgð fyrir 400 milljón dala láni. Að öðru leyti voru þeir, sem fyrr sagði, opinberlega hlutlausir. Þó telja menn sig vita, að þeir hafi fengið Írökum myndir af herafla Írana úr njósnagervihnöttum sínum.
Ísraelsmenn, dyggustu bandamenn Bandaríkjanna, seldu hins vegar Írönum (ekki Írökum) gífurlegt magn vopna í þessu stríði án þess að Bandaríkjamenn skiptu sér af.
Ekkert er eins einfalt og það sýnist vera.
Dollaramagn og vopnamagn
Eitt er vert að hafa í huga um þetta stríð: Hermenn beggja aðila kunnu lítt eða ekki að fara með skriðdreka og hátæknivopn eða halda þeim við. Því var, á svipaðan hátt og í Afríku og annars staðar í þriðja heiminum, að langmestu leyti barist með hríðskotarifflum, vélbyssum, sprengjuvörpum og öðrum léttvopnum. Hátæknivopn komu helst við sögu í upphafi stríðsins, áður en þau biluðu eða voru eyðilögð.
Ég sá nýlega í undarlegasta og lítilmótlegasta anga Baugs-pressunnar, þ.e. DV, þá staðhæfingu, að Bandaríkjamenn bæru ábyrgð á flestum eða öllum styrjöldum víða um heim, af því að þeir seldu mest af vopnum.
Þarna var verið að beita eldgömlu trixi vinstri manna frá dögum kalda stríðsins, því að sjálfsögðu er vopnasalan talin í bandaríkjadölum. Borin er saman annars vegar sala Bandaríkjamanna á háþróuðum orrustuþotum, eldflauga- og ratsjárkerfum og öðrum fokdýum hátæknibúnaði til Breta, Þjóðverja eða annarra bandamanna sinna og hins vegar sala Rússa, Kínverja, Norður-Kóreumanna og annarra fyrrverandi og núverandi sósíalista á hræódýrum léttvopnum til fátækra ríkja.
Sem dæmi má taka, að ein B-2-sprengjuflugvél Bandaríkjamanna kostar yfir milljarð dollara, en fyrir slíka upphæð má fá, ekki eitt skip, heldur heila skipalest, drekkhlaðna Kalashnikov-hríðskotarifflum (AK-47), skriðdrekabyssum, handsprengjum, jarðsprengjum og sprengjuvörpum, Meira að segja má bæta við góðum slatta af T-55- og T-62-skriðdrekum, kínverskum Silkworm-flugskeytum og Scud- flaugum frá Rússlandi, Kína eða Norður-Kóreu.
Þetta eru vopnin, sem notuð eru nánast eingöngu í vel yfir 90%, hugsanlega í allt að 99% þeirra styrjalda sem nú eru í gangi víðs vegar í þriðja heiminum.
Það væri raunar stórfrétt, ef það vitnaðist, að bandarískum léttvopnum væri beitt í einhverjum mæli í einhverju af þessum stríðum. Þar ræður AK-47-riffillinn einn, sem sjálfmenntaður vélvirki, Mikhail Kalashnikov, fann upp 1942 og hefur verið undirstöðuvopn allra herja kommúnista síðan hann komst fyrst í framleiðslu 1947.
Því má bæta við, að þess er aldrei getið, að nánast allar jarðsprengjur, sem enn drepa og limlesta fólk víða um heim, eru framleiddar í ríkjum kommúnista og lagðar af þeim, ekki síst í Indó-Kína og sunnanverðri Afríku. Þetta eru afar ódýr "vopn" og henta einkar vel baráttuaðferðum launmorðingja í "þjóðfrelsisbaráttu". Í Angóla og Mósambík lögðu herir Castros og bandamenn þeirra t.d. um 8 milljónir jarðsprengna. Um þetta er þó aldrei talað, heldur látið að því liggja, að Bandaríkjamenn beri í einhverjum skilningi ábyrgðina. Blóðsletturnar festast ekki við Castro eða bandamenn hans og jábræður, "friðarsinna" og "mannnréttindafrömuði" á Vesturlöndum.
Þær hlutfallslega fáu jarðsprengjur, sem Bandaríkjamenn hafa þó framleitt og lagt, eru nánast allar á landamærum Kóreuríkjanna eða á öðrum afmörkuðum, vel kortlögðum svæðum.
Að rægja Bandaríkin
Það er ótrúlega ódýrt sport að bölva Bandaríkjamönnum, ljúga upp á þá og svívirða þá. Það er meira að segja hægt að búa til eld- og íkveikjusprengju, sömu gerðar og notaðar eru í styrjöldum til að kveikja í húsum og granda skriðdrekum, kveikja í henni og varpa að húsi, þar sem fjöldi manns er innandyra, ef umrætt hús er sendiráð Bandaríkjanna. Þá er þetta einhvers konar "póltísk aðgerð", og ef hún beinist gegn Bandaríkjunum, þarf ekki að búast við alvarlegum eftirmálum. En hvað hefði verið sagt ef húsið hefði verið sendiráð Kínverja? Eða Stjórnarráðið? Eða skrifstofur ríkissaksóknara? Hefði það ekki líka getað verið "pólitísk aðgerð"? Hver hefði ákæran þá verið?
En víkjum aftur að þeim stórmerkilegu upplýsingum, að Bandaríkjamenn hafi selt Saddam gereyðingarvopnin.
Þetta er stórfrétt, í raun heimsfrétt, og ég sé ekki betur en að forystumönnum VG og fréttastofu sjónvarps beri beinlínis skylda til að deila þessari vitneskju sinni með heiminum. Þessar upplýsingar gætu jafnvel valdið straumhvörfum á alþjóðavettvangi. Það mætti til dæmis ímynda sér, að þær þjóðir, sem voru andvígastar hernaði Bush forseta í Írak, t.d. Frakkar, Þjóðverjar og Rússar mundu grípa þetta á lofti og vafalaust bera fram málið á vettvangi SÞ. Þetta er svo merkilegt, að það er áreiðanlegt, að alþjóðlegir fjölmiðlar mundu ekki tala um annað næstu vikurnar, mánuðina og árin, því það umbreytir öllum hugmyndum manna um Íraksstríðið frá grunni.
Hér er nýtt dæmi, tekið af handahófi, um fréttaflutning "Hljóðviljans" (sjálfrar fréttastofunnar, ekki aðeins "Spegilsins") hjá RÚV: "Innfæddir á Haiti mótmæla harðlega "hernámi Bandaríkjamanna"".
Er þetta fólk með réttu ráði?
Hvenær sem orðinu er hallað vegna slíkra og þvílíkra hluta fara fjölmiðlamenn strax að hrópa hátt um sína eigin "fagmennsku" og byrja svo að fimbulfamba eitthvað um "starfsheiður blaðamanna". Það er ekki heiglum hent að gagnrýna þá, síst nú, eftir að meginhluti hinnar "sjálfumglöðu stéttar" hefur hreiðrað um sig í djúpum vösum Bónus- feðga.
Að rægja Bandarikjamenn þykir harla léttvægt mál, ef ekki beinlínis lofsvert í þessum herbúðum. En, eins og Stefán Valgeirsson sagði einu sinni og af öðru tilefni: "Þegar sannleikurinn er kominn upp að Elliðaám, er lýgin komin norður á Langanes". Rógurinn loðir við, og sé honum ekki svarað trúir fólk honum.
Sé eitursölutalið sannleikur, er hér komin fram alíslensk heimsfrétt. En hvers vegna talar enginn um þetta nema einn fréttamaður ríkissjónvarpsins og forystumenn VG hér uppi á Íslandi?
Vilja þeir ekki verða heimsfrægir? Eru þeir svona feimnir?
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 30.3.2010 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 15. desember 2007
Jökullinn kemur
Ég sendi þessa grein inn á Moggann undir fyrirsögninni "Er heimurinn að verða geggjaður?" hinn 21. nóvember s.l., en breytti fyrirsögninni og gerði smávægilegar breytingar á texta. Hún kemur núna í sunnudagsblaðinu, nokkuð seint, því ráðstefnu fáráðlinganna á Bali er lokið. Þó ég sé enginn sérstakur aðdáandi Bush forseta, er það vafalaust hans mesta afrek að koma í veg fyrir að grautarhausinn Al Gore yrði forseti.
Það sem oftast vantar í alla þessa umræðu er, að allir, jafnvel andstæðingar "umhverfisverndarsinna"
virðast telja að einhvers konar "umhverfisvandi" fylgi því að eitthvað hlýni. Þetta er alrangt. Jafnvel þótt hitastig hækki um 4-5 gráður (sem er óhugsandi) væri það í rauninni hið besta mál. Ekkert er að óttast.
Ég man það vel, þegar ég var í Austurbæjarskólanum fyrir hálfri öld eða svo, löngu áður en hann varð fjölmenningarskóli, að mér og jafnöldrum mínum var sagt, að veður hér hefði verið miklu hlýrra fyrr á öldum en það er nú. Ekki þyrfti annað en fara í næstu mógröf, þar sem stórir trjástofnar vitnuðu um miklu gróskuríkara Ísland en það sem við þekkjum. Ég man líka, þegar ég var skömmu síðar í gagnfræðaskólanum við Lindargötu, að okkur var bent á þá staðreynd, að fyrir örfáum árþúsundum, skömmu fyrir daga Forn- Egypta, var Sahara- eyðimörkin grasi gróin slétta, yfir að líta eins og þjóðgarðar Austur- Afríku eru í dag, jafnframt því að Ísland var jöklalaust að mestu. Þetta skýrði kennarinn svo, að uppgufun úr höfunum hefði verið meiri. Auk þess hafa allir lært, í síðasta lagi í eðlisfræði 9. bekkjar grunnskóla, að hlýtt loft tekur til sín margfalt meiri raka en kalt. Raki í gufuhvolfinu var því miklu meiri en nú og þar með úrkoman.
Um þetta þarf ekki að deila. Miklar mannvistarleifar í eyðimörkum hvarvetna, árhringir trjáa, jurta- og dýraleifar og ótalmargt annað er til vitnisburðar um þessa staðreynd, sem mjög lengi hefur verið vituð. Jöklar á Íslandi hafa t.d. aldrei verið meiri síðan á jökulskeiði (sem fáfróðir kalla ísöld) en þeir voru um aldamótin 1900. Þessi hæga kólnun og þornun jarðarinnar gengur, eins og alltaf er um veðurfar, í sveiflum, og sveiflum innan í sveiflum. Hita- og rakakúrfan er hlykkjótt, en hún hefur vísað, þrátt fyrir allar sveiflur, afdráttalaust niður á við í 6-7 þúsund ár. Allir kannast við litlu ísöldina sem náði (gróflega) yfir tímabilið frá 1300-1900, en önnur lítil ísöld sem þó var miklu hlýrri, hefur lengi verið kunn, en hún hófst eitthvað kringum 500 f. Kr. og náði inn á fyrstu aldir okkar tímatals. Þá lagðist byggð af í norðanverðri Skandinavíu og gresjur Mið- Asíu skrælnuðu og urðu þær eyðimerkur sem þar eru nú, en þetta hvoru tveggja átti mikinn þátt í að hrinda af stað þjóðflutningunum miklu.
Loftslag er nú 4-5 stigum kaldara, jöklar stærri og eyðimerkur miklu víðáttumeiri en var fyrir fáeinum þúsundum (ekki milljónum) ára. Meginjöklar á Suðurskautslandinu og Grænlandi bráðnuðu ekki og meðalyfirborð sjávar, að frátöldu landirsi og landsigi, hefur sáralítið breyst. Þetta eru óumdeildar, óhagganlegar staðreyndir, sem ég hef vitað um síðan í æsku og hélt þar til fyrir fáeinum árum að væru alþekktar. Ef af hverju koma þær hvergi fram í umræðunni? Hvar hafa þessir menn verið, sem tala um einhvern voðalegan loftslagsvanda, ef veðrið hlýnar svolítið aftur? Ég næ þessu ekki. Hvað er að ske?
Meira að segja íslenskir ráðamenn taka undir þetta undarlega tal. Það er kannski hægt að fyrirgefa útlendingum, því náttúrufræðikennsla virðist í molum erlendis, en Íslendingar ættu að vita meira. Ég get fullyrt, að það var ógerlegt að ná stúdentsprófi frá eina menntaskólanum í Reykjavík í minni tíð og þótt aðalnámsgreinin væri latína, án þess að vita þetta. Hvers vegna tala þeir þá svona?
Sameinuðu þjóðirnar, sem minna æ meira á málfundafélag í grunnskóla eða einhvers konar gjörspilltan saumaklúbb undirmálsmanna og kvenna, hafa nýlega borgað fyrir og sent frá sér skýrslu. Það er ekki það sem stendur í þessari skýrslu, sem er merkilegt, heldur það sem ekki stendur í henni, og það er þetta litla orð: aftur.
Þar kemur hvergi fram, að jafnvel þó það væri rétt (sem er nær örugglega fásinna) að hitastig hækki um 2- 4 gráður á þessari öld, táknar það ekki annað en afturhvarf til þess raka, hlýja loftslags, sem ríkti á tímum víkinga, eða þá Rómverja (enn hlýrra) eða Forn Egypta (hlýrra og rakara en hjá Rómverjum), eða, sem væri best af öllu loftslagið sem ríkti á svonefndum boreölskum tíma, fyrir 7-10 þúsund árum, þegar Ísland var jöklalaust og Sahara algróin. Tölvulíkön eru gjörsamlega óþörf. Aðeins þarf að rekja mannkynssöguna (ekki jarðsöguna) afturábak um fáeinar árþúsundir.
Nú hef ég enga trú á því að sú smávægilega endurhlýnun og uppsveifla í hitastigi, sem nú ríkir verði varanleg, og hér er ekkert rúm til að ræða þá fáránlegu og furðulegu steypu, sem hrærð hefur verið í kringum þá lofttegund, sem ásamt vatni og sólarljósi myndar sjálfa undirstöðu lífsins á jörðinni, nefnilega koldíoxíð. Þó vil ég benda á, að ef aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu getur orðið til að hægja á þeirri hægu, en öruggu þróun í átt til nýs jökulskeiðs, sem virðist óumflýjanleg er hún hið besta mál. Það er alveg ljóst, að Íslendingar ættu þá, jafnframt því að segja sig alveg frá Kyoto- ruglinu að ganga í lið með jarðhitasvæðum og eldfjöllum landsins og veita sem allra mestu koldíoxíði út í gufuhvolfið, því jökulskeiðið (ísöldin) kemur fyrr eða síðar og landið verður enn einu sinni skafið niður í klöpp. Ekkert verður þá eftir af byggingum og streði Íslendinga annað en fáeinar borholur og jarðgöng djúpt undir jöklinum. Það er þetta sem umhverfisverndarsinnar hyggjast koma til leiðar með Kyoto- brölti sínu, og ég spyr: Er heimurinn orðinn geggjaður?
Vísindi og fræði | Breytt 30.3.2010 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. nóvember 2007
Úti í skafli flokkur frýs
Eg heyri í útvarpinu, að Ólafur Ragnar er að hrósa Böðvari Guðmundssyni fyrir ævisögu Jónasar
Hallgrímssonar.
Þeir Böðvar voru bekkjarfélagar í MR og urðu stúdentar tveimur árum á undan mér.
Engir sérstakir kærleikar voru þá með þeim Böðvari, og þegar Ólafur á sínum tíma sagði skilið við
Magnúsar-Torfu- samtökin (Samtök frjálslyndra og vinstri manna) orti Böðvar eftirfarandi vísu um sinn gamla félaga:
Úti í skafli flokkur frýs,
fána sviptur rauðum,
Ólafur Ragnar Grímsson grís,
gekk af honum dauðum.
Ólafur gekk á þessum árum ávallt undir nafninu "Óli grís" innan veggja Menntaskólans, en hann varð snemma fyrirferðarmikill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. nóvember 2007
Grýlubörnin meðal okkar
Þessi fyrri grein um Amnesty hét í Mogganum "Snemmbúin minningargrein", (um Castro), en mér finnst réttara að kalla báðar þessar greinar saman "Grýlubörnin meðal okkar", því börn Rússa- Grýlu ganga enn ljósum logum hvarvetna í þjóðfélaginu. Þetta er fólkið, sem studdi alræðisöflin, kúgarana, þjoðarmorðingjana og böðlana í kalda stríðinu, en reynir nú, með ótrúlega góðum árangri að þurrka út söguna, og þar með sína eigin fortíð. Eitt ættu menn að hafa í huga: hjalið um "lýðræði" og "mannréttindi" hefur streymt í óstöðvandi síbylju úr þessari átt í marga áratugi. Það hljómaði alveg jafn hátt þegar stuðningur vinstri manna við kúgarana var grímulaus.
Eins og fram kemur í greinunum tveimur var það þátttaka æðstu forningja Alþýðubandalagsins í Amnesty, sem fyrst vakti athygli mína á því, hvernig komið var fyrir þessum samtökum, sem höfðu byrjað svo vel undir stjórn stofnandans, Peters Benenson.
Geislabaugurinn, sem þeir stálu af Benenson er núna orðinn skáldaður og snjáður. Þessi samtök eru í mínum augum ekki einungis sérlega ógeðfelld, heldur beinlínis ógeðsleg, eftir að algerlega virkir, yfirlýstir, skjalfestir og óumdeildir stuðningsmenn og aðdáendur kúgunar, en það hljóta stofnendur og liðsmenn sérstakra "vináttufélaga" að teljast, fóru að predika á fundum Amnesty um "lýðræðið" og "mannréttindin".
Ég skrúfaði frá útvarpinu eitt síðdegi á fyrsta desember fyrir nokkrum árum, en þá stóðu að vanda yfir hátíðahöld stúdenta, að sjálfsögðu undir yfirskriftinni: Gegn fordómum. Ræðumaður, fulltrúi homma, fjallaði um fordóma í íslenskum fjölmiðlum. Hann tiltók alveg sérstaklega sem dæmi um fordóma, að einn ágætur fréttamaður ríkissjónvarpsins hafði nokkru áður bent á, að Castro hefði um áratuga skeið getað verslað við flestöll lönd heims, önnur en Bandaríkin, auk gífurlegs fjárausturs Sovétmanna til hans. Fátæktin og kúgunin á Kúbu væri því ekki Bandaríkjamönnum að kenna, eins og er almenn skoðun vinstri manna, og hefur verið sagt í sumum skýrslum Amnesty, heldur af sama toga og fátæktin, eymdin og kúgunin í öllum öðrum löndum kommúnista.
Þarna var ísleskur hommi að segja fólki, sem var svo ungt, að foreldrar sumra voru ekki fæddir þegar Castro hrifsaði völdin á nýársdag 1959, að gagnrýni á harðstjórann væri fordómar. Mér finnst gaman að svona. . Það er skemmtilega kinkí, og hét í mínu ungdæmi að kyssa vöndinn.Það gefur líka innsýn í hugarheim vinstri mannsins, enn á 21.öld. Hver sagði að kalda stríðinu væri lokið?
Þetta kom þó ekki á óvart.. Ég var þarna nýkominn heim eftir langa dvöl á Spáni, en þar hafði ég nokkrum árum fyrr séð í sjónvarpi viðtal við kúbanskan homma, sem sagði farir sínar ekki sléttar af þingi baráttusamtaka homma í Svíþjóð.
Á þinginu reyndi hann að skýra fundarmönnum frá pyntingunum, nauðgununum og svívirðunni sem hann varð fyrir í fangabúðum Castros vegna kynhneigðar sinnar, þar á meðal rafmagnspyntingum, en Guantánamo er trúlega eina fangelsið á Kúbu, þar sem rafmagnspyntingar eru ekki stundaðar. Viðbrögð fundarmanna í sænsku homma-baráttusamtökunum voru merkileg.
Hann var hrópaður niður og kallaður CIA- agent og fasisti. Maðurinn var gráti næst þegar hann sagði frá þessu, því hann kvaðst ávallt hafa talið sig vinstri mann.
Ofsóknir Castros gegn hommum eiga sér nefnilega enga hliðstæðu í gjörvallri veraldasögunni síðan á dögum Hitlers. Ég minnist þess vel, að um þær var oft talað í skýrslum Amnesty á sjöunda áratugnum, meðan stofnandinn, Benenson, var enn við völd og samtökin marktæk. Ég minnist þess líka, að þá voru pólitískir fangar á Kúbu taldir um 70.000, miklu fleiri en dúsuðu í öllum dýflissum allra hinna ýmsu hægri sinnuðu herforingja og pótintáta annars staðar í Mið- og Suður- Ameríku samanlagt. Þetta var að sjálfsögðu löngu áður en forysta Alþýðubandalagsins (nú Samfylking og VG) gekk í Amnesty á áttunda og níunda áratugnum, en eins og allir geta séð í Þjóðviljanum frá þessum árum (finnst í Þjóðarbókhlöðu og víðar) voru þar í fararbroddi stofnendur og liðsmenn fjölmargra vináttufélaga, sérstakra stuðningshópa íslenskra manna við ýmsa miskunnarlausustu harðstjóra og böðla samtímans, þar á meðal Kúbuvinafélagsins. Hliðstæð þróun varð hvarvetna erlendis eftir að Benenson var endanlega hrakinn frá völdum 1973.
Á sjöunda áratugnum var stofnandinn, hins vegar við völd og samtökin marktæk. Amnesty voru þá enn hjálparsamtök, ekki baráttusamtök, ætluð til að ná fram pólitískum markmiðum félaga sinna, fyrst og fremst með því að ala á hatri á Bandaríkjunum. Þar ber hæst árásir Amnesty á bandarískan almenning, sem situr í kviðdómum og fellir stundum dauðadóma yfir morðingjum.
En víkjum aftur að Castro. Hann er nú hættur að bleyta smjörið. Hans verður sárt saknað af vinum hans og verndurum, lýðræðis-postulum og mannréttindafrömuðum á vinstra kanti, utan og innan Amnesty.
Afstaðan til Castros myndar enn í dag vatnaskil milli hægri og vinstri. Sá sem segir sannleikann um þenna siðvillta böðul er hægri maður. Vinstri maður er sá sem ber blak af ódæðisverkunum eða reynir að kenna Bandaríkjunum um, og þeir sem lengst eru til vinstri (róttækastir) beinlínis styðja harðstjórann og dá. Enn á 21. öld myndar afstaðan til Castros allra skýrustu víglínuna milli hægri og vinstri. Hans verður, sem fyrr sagði, sárt saknað.
Þótt 16 ár séu liðin síðan Rússa- Grýla gafst upp á rólunum á jólunum 1991 með upplausn Sovétríkjanna, eru Grýlubörnin enn á meðal vor, Leppir og Skreppir í stjórnmálum og fjölmiðlum og Leiðindaskjóður í menningarlífinu. Völd þeirra eru gífurleg hvarvetna í þjóðlífinu, og þeim hefur furðu vel tekist að stimpla hvern þann sem rifjar upp þeirra eigin fortíð sem kaldastríðshermann. Nasistar komast ekki upp með slíkt, en nasistar ganga ekki heldur í Amnesty.
Nasisti, sem gengi í Amnesty yrði örugglega rekinn úr Flokknum.
Þegar fyrri greinin hafði birtst kom í Mogganum áminning til mín frá Amnesty- forkólfunum í yfirlætislegum, föðurlegum tón.
Ég skrifað þessa síðari grein samdægurs, þótt Mogginn þyrfti hálfan mánuð til að birta svarið.
Svolítið meira um Amnesty
Þegar breskur lögfræðingur, sem nú er nýlátinn, Peter Benenson, stofnaði Amnesty 1961 vakti fyrir honum að stofna hjálparsamtök, sem ekki berðu sér á brjóst í heilagri vandlætingu, heldur hjálpuðu þeim, sem sættu ofsóknum stjórnvalda og sætu í fangelsi vegna skoðana sinna. Hann forðaðist þó boðbera vopnaburðar og ofbeldis, því hann vissi vel, að ekki eru allir svonefndir samviskufangar saklausir fulltrúar lýðræðis og mannréttinda. Margir samviskufangar hafa beitt ofbeldi og hvetja til styrjalda, ofbeldisbeitingar og þjóðskipulags, þar sem allt lýðræði og öll mannréttindi eru fótum troðin. Þeir Lenin, Stalin og Hitler voru t.d. allir samviskufangar á sínum tíma, fangelsaðir vegna skoðana sinna.
Þetta vakti andstöðu vinstri sinnaðra aðgerðarsinna, sem fljótlega þyrptust í samtökin, Benenson var hrakinn út í horn, og lauk svo að hann hætti alveg afskiptum af Amnesty 1973. Foreldrar eru alltaf tregir til að afneita börnum sínum og hann mun aldrei hafa fordæmt valdaræningjana opinberlega, mætti á afmælishátíðir og kveikti á kertum, en það duldist engum, að hann hafði fullkomna andstyggð á stefnu hinna nýju herra, sem breyttu Amnesty í þann nánast marklausa, og heldur ógeðfellda þrýstihóp vinstri manna, sem samtökin eru nú og hafa lengi verið.
Umskiptin voru að mestu orðin þegar valdaræningjarnir tóku við friðarverðlaunum Nóbels 1977, ekki fyrir störf sín, heldur Benensons. Upp úr því hófst herferðin mikla gegn Íranskeisara, sem var kunnur stuðningsmaður Bandaríkjanna. Ástand mannréttindamála í Íran var vissulega slæmt, en þó engu verra en í nágrannalöndum sem Amnesty þagði um, svo sem Írak og Sýrlandi, þar sem stjórvöld voru alfarið á bandi Sovétmanna.
Merkilegri var þó þögnin háværa, sem fylgdi í kjölfarið eftir að ástmögur Amnesty, Khomeini erkiklerkur, náði völdunum og blóðbaðið hófst fyrir alvöru. Upp úr því sneri Amnesty sér beint að Bandaríkjunum sjálfum, þ.e. almenningi, sem þar situr í kviðdómum og fellir sjálfur dauðadómana í landi þar sem yfirgnæfandi stuðningur er við dauðarefsingar, líka í þeim ríkjum, þar sem fylkisþingmenn hafa afnumið þær í óþökk kjósenda sinna. Því má bæta við, að ólíkt því annars staðar gerist eru dómarar, saksóknarar og lögreglustjórar kjörnir fulltrúar almennings í Bandaríkjunum, ekki valdir af stjórvöldum og í raun verkfæri þeirra eins og á Íslandi, Kúbu og flestöllum öðrum löndum heims. Nú er ég enginn sérstakur aðdáandi bandarísks réttarfars eða stuðningsmaður dauðarefsinga, en hvers vegna lýsti núverandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar því yfir fyrir nokkru, þegar fjöldamorðingi einn var tekinn af lífi samkvæmt fyrirskipun hóps samborgara sinna í kviðdómi, að bandarísk stjórnvöld hefðu myrt morðingjann?
Hvers vegna ber Amnesty athugasemdalaust saman aftökur í Kína, þar sem menn eru teknir af lífi fyrir að hafa stolið svíni, eða í Íran þar sem konur eru grýttar til bana af því að eiginmaðurinn segir þær ótrúar, og aftökur þeirra sárafáu bandarísku morðingja, sem allra viðbjóðlegustu glæpina hafa framið og eru fyrirskipaðar af kviðdómi, skipuðum almennum borgurum? Amnesty heyrir ekki neyðar- og kvalaóp kvennanna eða grát barnanna, sem þessir illvirkjar hafa nauðgað, pyntað og myrt. Samúðin er öll með ódæðismanninum, þ.e. sé hann bandarískur.
Irene Khan, aðalritari Amnesty International , lagði nýlega að jöfnu fangabúðirnar í Guantánamo, þar sem miskunnarlausir Al- Qaida- liðar og tilvonandi sjálfsmorðs- morðingjar eru hafðir í haldi, menn sem eru reiðubúnir til að myrða fangaverði sína þó það kosti þá sjálfa lífið, og Gúlag Stalins, þar sem milljónir saklausra manna og kvenna voru myrtar með köldu blóði vegna þess að vera taldir á annari skoðun en harðstjórinn.
Hver tekur mark á slíkum samtökum? Meira að segja því kunna vinstra- blaði, Washington Post, ofbauð þessi samanburðarfræði. Og hvers vegna talar Amnesty nú bara um Guantánamo? Hvað með þá vesalings menn, sem sæta pyntingum í öðrum fangabúðum á Kúbu og hafa ekkert til saka unnið annað en kynhneigð sína? Er það kannski vegna þeirrar staðreyndar að liðsmenn Kúbuvinafélagsins hafa um langt skeið verið í Amnesty? Hvað veit ég?
Það var á árunum í kringum 1980 sem ég varð þess fyrst var á smáauglýsingasíðum Þjóðviljans, að sömu menn, úr forystusveit Alþýðubandalagsins (nú Samfylking og VG) voru að auglýsa fundi í vináttufélögum, stuðningshópum við stjórnvöld á t.d. Kúbu, í Austur- Þýskalandi, Sovétríkjunum (MÍR), Víetnam, Albaníu, Norður- Kóreu, o.s.frv. og fundi í Amnesty, þar sem þeir höfðu gjarnan framsögu um lýðræði og mannréttindi. Þjóðvilinn liggur fyrir, og ekki þarf um þetta að deila. Þetta fólk er enn í fullu fjöri og ég veit ekki til að það hafi sagt sig úr Amnesty, þótt vináttufélögunum hafi fækkað.
Ég lít svo á, að þeir, sem telja sig geta starfað að mannréttindamálum við hlið fólks sem starfar eða hefur starfað samtímis í skipulegum stuðningshópum við stjórnir af þessu tagi viti einfaldlega ekki hvort þeir séu að koma eða fara.
Í sporum þeirra mundi ég fara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.3.2010 kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. nóvember 2007
Misskilinn brandari
Um það leyti sem greinin var skrifuð var t.d. í "Nýlistarsafninu" sýning á gömlum ónýtum spýtum,
sem sagðar voru úr stúku, sem Hitler hefði einhvern tíman setið í.
Það er ekki og hefur aldrei verið list að ofbjóða fólki með skrípalátum, en upphafsmaðurinn að þessu öllu var Marcel Duchamp með "Uppsprettu" sína, þar sem hann var að gera bullandi grín að menningarvitunum, sem láta bjóða sér hvað sem vera skal, ef það er bara kallað "list". Þeir kokgleyptu agnið, og virðast alls ekki sjá, enn í dag að það er einfaldlega verið að gera grín að þeim sjálfum.
Þess má að lokum geta að tveir "nútímatónlistamenn", þeir Jón Ásgeirsson og Atli Heimir Sveinsson eru ágætir kunningjar mínir, og tóku greininni með mesta jafnaðargeði.
V.E.
Ég var fyrir nokkrum dögum við opnun sýningar Guðmundar Karls Ásbjörnssonar í Orkuveituhúsinu, en hann er nú nánast síðasti Móhíkaninn í íslensku listalífi, einn þeirra sárafáu, sem ekki lítur á listina sem brandara, heldur málar af alvöru og einlægni. Þrátt fyrir allt eru fáeinir eftir enn, sem ekki ganga með gúmmí- reður festan á ennið, eða fylla sýningarsali með ónýtu spýtnabraki. Þetta vakti mig til umhugsunar um, hvernig komið er fyrir vestrænu menningar- og listalífi.
Það var fyrir nokkrum árum, að lista- og menningarelítuheimurinn hélt upp á það, að 75 ár voru liðin síðan Marcel Duchamp festi upp þvagskál á myndlistarsýningu í París á því merka byltingarári 1917.Hann virðist hafa verið forspár, því skálinni gaf hann nafnið Uppsprettan, en þessi þvagskál hefur æ síðan, og ekki að ástæðulausu, orðið tákn fyrir það sem gáfumanna- gengið á Vesturlöndum telur vera list. Um svipað leyti réðust James Joyce o.fl. til atlögu við ritlistina með takmörkuðum árangri þó, en samtímis voru svonefndir nútímatónlistarmenn að vinna svívirðileg skemmdarverk á klassískri tónlistarhefð Vesturlanda. Í tónlistarlífinu leika nútímatónlistarmenn hlutverk minksins í hænsnabúinu, því sjáist verk þeirra á tónleikaskrám tæmast salirnir. Allt sæmilega músíkalskt fólk forðar sér æpandi á harðahlaupum og heldur fyrir eyrun. Verk John Cage, Fjórar mínútur og þrjátíu og þrjár sekúndur er dæmigert, en þar sest píanóleikarinn við flygilinn í kjól og hvítt, ræskir sig og lyftir höndunum yfir nótnaborðið. Síðan gerist ekki neitt í fjórar mínútur og þrjátíu og þrjár sekúndur. Verkið er í þremur þáttum og er, þrátt fyrir allt, það lang áheyrilegasta sem nútímatólistarmenn hafa látið frá sér fara síðustu hundrað árin eða svo.
En mér hefur hugkvæmst snjallræði: Ef til vill má breyta nútímatónlist í nytjalist. Sem kunnugt er gengur Bandaríkjamönnum afar illa að fá Al Qaida- menn í Guantánamo til að tala, enda eru þessar fangabúðir þær einu á Kúbu, þar sem skipulegar pyntingar, t.d. með rafmagni, eru ekki stundaðar. Jafnframt eru þetta einu fangabúðirnar á Kúbu sem fangarnir í stóru fangabúðunum, Kúbu sjálfri, slást um að komast inn í og þær einu, sem Amnesty hefur hinn minnsta áhuga á. Ég legg til, að beitt verði nýjum aðferðum í Guantánamo. Leikin verði nútímatónlist án afláts og af algeru miskunnarleysi fyrir fangana. Ég tel fullvíst, að jafnvel hinn allra harðsvíraðasti Al-Qaida- liði og sjálfsmorðs- morðingi muni ærast og verða reiðubúinn til að játa á sig hvaða illvirki og ódæðisverk sem vera skal verði honum hlíft við að sitja undir tólftónamúsík Schönbergs eða óperu Hindemiths, Mathis der Maler. Það væri líka alveg ástæðulaust að hlífa föngunum við verkum Stockhausens, sem enn er á lífi. Hann lýsti því yfir nýlega, að árásirnar 11. september 2001 hefðu verið listaverk, en sú yfirlýsing sýnir í hnotskurn afstöðu jafnt tónlistar- sem myndlistarmanna- elítu samtímans til sjálfrar listarinnar.
Síðan skálin fræga var sett upp hefur í raun ekkert gerst . Allar götur síðan hafa myndlistarmenn, menntaðir í frægustu listaháskólum á Vesturlöndum keppst við að hengja upp sömu þvagskálina með ýmsum tilbrigðum og undir ýmsum nöfnum. Þeir trúa því að súrrealismi, sé eitthvað annað en dadaismi, sem sé svo eitthvað allt, allt, allt annað en "popplist" eða konseptlist Í rauninni er þetta allt sami grautur í sömu skál eða, ef menn vilja, sama þvag í sömu skál. Sami gamli, útvatnaði brandarinn.
En hver verður skoðun framtíðarinnar á svokallaðri list samtímans? Hvort mun endast betur, þvagskálar-listin, sem gáfumanna- gengið stendur fyrir. eða sú list, sem fáeinir stunda enn, sem stunduð er af alvöru og af virðingu fyrir listinni?
Ég spái því að spýtnabrakið (stúka Hitlers) og öll sú hugsun, sem það er táknrænt fyrir muni hafna á þeim sorphaugum sögunnar sem það á heima og hefur alltaf átt heima. Ólíkt konseptlistamönnum samtímans var Duchamp nefnilega frumlegur. Hann var ekki, eins og þeir, að apa eftir öðrum. Þegar hann hengdi upp skálina sína frægu var hann að gera grín að gáfumanna- genginu, lista- og menningarelítunni sem lætur bjóða sér hvað sem er.
Það merkilega er, að þeir skildu ekki djókinn. Þeir gerðu það ekki þá, og þeir gera það ekki enn.
Menning og listir | Breytt 30.3.2010 kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 22. október 2007
Nei- þýðir- já- lögmálið gildir enn
Þessi greinaflokkur birtist upphaflega í Mogganum 1982 að mig minnir en er í öllum aðalatriðum alveg jafn tímabær nú og hann var þá:
Hrópin um "lýðræði" og "mannréttindi" frá íslenskum liðsmönnum kúgaranna og böðlanna eru nú enn hærri, meira ærandi og óþolandi en þau voru þegar þetta var skrifað.
Þeir sem áður studdu Albaníu og Austur- Þýskaland styðja nú Hamas, Hizbollah,
Talíbana og al -Qaida. Þeir munu alltaf styðja ytri óvini Vesturlanda, hverju nafni sem þeir nefnast, því þeir eru sjálfir innri óvinir þeirra. Þetta er í rauninni ritgerð í fjórum köflum, sem birtust fjóra daga í röð í Morgunblaðinu sumarið 1996, og hún er að minnsta kosti jafn tímabær nú og þá var. Vinstri menn eru nefnilega enn ósvífnari í "lýðræðis"- og "mannréttinda"- bröltinu núna en þeir hafa nokkurn tíma áður verið. V.E.
Fiskurinn hefur fögur hljóð...
Nú er hún Rússa-Grýla dauð.
Hún gafst upp á rólunum á jólunum - þegar Sovétríkin voru endanlega leyst upp fyrir fimm árum.
Frá fæðingu 1917 hafði Rússa- Grýla dreift ógn og skelfingu, falsi, flærð og lygum um gjörvalla heimsbyggðina. Hundruð milljóna manna urðu bergnumdar, einkum meðan Grýla var ung og falleg. Tugþúsundir Íslendinga úr öllum stéttum, ekki síst mennta- og listamenn leituðu í helli Grýlu, lentu í tröllahöndum og ærðust. Rússa-Grýla setti mark sitt á sögu aldarinnar meira en nokkuð annað, og setur enn.
En þótt hún Grýla gamla sé dauð ganga aðrir fjölskyldumeðlimir ennþá ljósum logum víðsvegar i þjóðlífinu. Meinlausastir eru orðnir gömlu Leppalúðarnir, sem ungir vígðust Grýlu og studdu hana fram í rauðan dauðann. Þeir hafa nú misst lífsförunaut sinn.
Verri eru afkvæmin, sem enn eru á besta aldri, Leppir og Skreppir í stjórnmálum og fjölmiðlum, og Leiðindaskjóður í menningarlífinu.
Grýlubörnin þrífast vel, og þau eru góð börn. Alveg ýkt góð, eins og unglingarnir segja. Þau tala um lýðræðið. Og þau tala um friðinn. Og þau tala um mannréttindin. Þau tala eins og þau hafi fundið þetta allt saman upp.
Þau telja sig vera stikkfrí eftir lok kalda stríðsins og láta eins og Grýla hafi aldrei verið til. Hver sem nefnir hana á nafn er sekur um "úreltar skoðanir", "kaldastríðsáróður", "fortíðarhyggju" eða eitthvað ennþá verra.
Það er ekkert nýmæli, að reynt sé að þurrka út söguna með þessum hætti, því þegar þriðja ríki Hitlers hrundi voru liðsmenn þess, erlendir sem innlendir, hvergi finnanlegir. Allir höfðu verið á móti nasistum.
Íslenskir jábræður Gúlagsins beita nú svipuðum brögðum, en þó er að einu leyti reginmunur á, nefnilega þessi:
Fyrrum stuðningsmenn Hitlers hafa aldrei verið orðaðir við "lýðræðis"- eða "friðarbaráttu". Enn síður hafa nasistar talið sig sérstaklega útvalda til að hafa forystu um "mannréttindabaráttu".
Hvað sem annars má segja um nasista mega þeir eiga það, að þeir kunna að skammast sín.
Þegar ég var lítill, á sjötta áratugnum, dvaldi um skeið kornung flóttastúlka frá uppreisninni í Ungverjalandi á heimili foreldra minna. Um það leyti varð mér ljóst, að í landinu bjó sérstakur þjóðflokkur manna, sem kváðust málsvarar "lítilmagnans", en studdu jafnframt ofsækjendur stúlkunnar og vildu koma hér á því kerfi sem ríkti í Ungverjalandi. Í slagtogi með þeim voru aðrir, sem ekki vildu koma á slíku kerfi, nema þá að hluta, en með þögn, hálfvelgju eða jámennsku voru í reynd einnig liðsmenn alræðisins. Þetta voru "aðrir vinstri menn".
Mannréttindabarátta var þá öðru vísi og miklu hættulegri en síðar varð, því hún fólst ekki, eins og nú, í því að vandlætast yfir ástandinu í fjarlægum löndum hjá ríkisstjórnum sem enga stuðningsmenn áttu á Íslandi. Hér var við að eiga virka, íslenska alræðissinna, sem áttu mikil ítök menningarlífinu og réðu afar miklu á fréttastofu einu útvarpsstöðvar landsins. Þeir héldu hlífiskildi yfir harðstjórunum, afsökuðu og réttlættu illvirki þeirra eða þögðu um þau. Mannréttindabaráttan fór þannig fram á innanlandsvettvangi, því við íslenska liðsmenn kúgunar var að eiga. Hver sá sem reyndi að segja sannleikann um það sem fram fór austan tjalds mátti eiga von á öllu illu, ekki aðeins frá kommúnistum, heldur vinstri mönnum sem heild. Auðveldast var þá, og er enn, að þekkja "aðra vinstri menn" á því að þótt þeir segðust ekki styðja kommúnista, stimpluðu þeir alla, sem í einhverri alvöru gagnrýndu ástandið austan tjalds sem "hægri öfgamenn", "fasista", eða jafnvel "nasista".
Þannig varð mér fyrst ljóst hvar skilin lágu milli "hægri" og vinstri. Skilin lágu einfaldlega um afstöðuna til þess þjóðskipulags, sem löngu síðar var farið að kenna við Gúlagið. Þeir sem studdu alræðisherrana eða réttlættu þá voru vinstri menn, alveg afdráttarlausir andstæðingar, hverju nafni sem þeir annars nefndust og hverjar sem skoðanir þeirra að öðru leyti voru, nefndust "hægri menn". Þannig eru til dæmis þeir Hitler og Hayek taldir "hægri menn", einfaldlega vegna þess að þeir voru báðir svarnir andstæðingar Gúlagsins. Ég skrifa "hægri" með gæsalöppum, en vinstri ekki, því andstæðingar einhvers málefnis eiga alltaf miklu minna sameiginlegt en liðsmenn þess.
Þessi skilgreining hefur reynst mér vel.
Reglan gildir ennþá, þótt sjálft höfuðbólið sé fallið. Enn standa eftir nokkrar hjáleigur, aðallega Kína, Víetnam, Norður-Kórea og Kúba. Af afstöðunni til þeirra má enn ráða hvort menn teljast til hægri eða vinstri. Vinstri mann má enn þekkja á því t.d., að hann ber ávallt í bætifláka fyrir Castro.
Nei-þýðir-já-lögmálið
Annað atriði vakti einnig fljótlega athygli mína í æsku og gerir enn, nefnilega þetta: Þeir vinstri menn sem voru afdráttarlausastir liðsmenn stjórnarfarsins í Austurvegi og studdu af alefli hernað kommúnista ("þjóðfrelsisbaráttu") víðs vegar í heiminum, töluðu mest og hæst allra um "friðinn", "mannúðina", "tjáningarfrelsið" og - ekki síst - "lýðræðið" og "mannréttindin".
Þeir töluðu reyndar um fátt annað og gera enn. Þeir höfðu beinlínis tekið út patent á því góða í heiminum.
En hvers vegna?
Af hverju endurtaka einmitt þeir þessi orð svona oft?
Eftir mikil heilabrot tel ég mig hafa uppgötvað tilekið lögmál til skýringar á þessu og ýmsu fleira í háttlagi vinstri manna. Um nafngift finnst mér rétt að leita innblásturs til Stígamóta og kalla þetta því einfaldlega "Nei-þýðir-já-lögmálið". Það hljóðar svo: Menn fordæma það ávallt harðast í orði sem þeir styðja afdráttarlausast á borði .
Til þess að vísindalögmál teljist marktækt verður það að hafa spásagnargildi, en svo vill til, að afar auðvelt er að ganga úr skugga um gildi nei-þýðir-já-lögmálsins. Þannig hafa Alþingistíðindi verið tölvusett í mörg ár og því vandalaust að orðtaka þau með tilliti til "mannréttindabaráttunnar", t.d. með því að kanna notkun á orðunum "lýðræði" og "mannréttindi".
Ég spái því, samkvæmt fyrrnefndu lögmáli, að verði þetta gert komi í ljós, að það séu þingmenn Alþýðubandalagsins, sem oftast allra hafa úr ræðustól býsnast út af skorti á "lýðræði" og "mannréttindum" heima og erlendis undanfarin tuttugu ár eða svo. Sumir þeirra opna varla munninn, án þess að endurtaka þessi orð nokkrum sinnum, eins og þeim sé ekki sjálfrátt.
Metið munu vafalaust eiga þeir þingmenn, sem dvalist hafa langdvölum austan tjalds undir handarjaðri herranna, hafa verið tíðir gestir þar á tímabilinu og mest og best hafa starfað í sérstökum "vináttufélögum" við alræðisríki fyrir fall Berlínarmúrsins 1989 og síðar (samtímis virkri og háværri þátttöku í "mannréttindabaráttunni").
Samkvæmt nei-þýðir-já-lögmálinu má m.ö.o. reikna með því að stuðningsmanna kúgunar sé að leita meðal þeirra sem harðast berjast fyrir mannréttindum, liðsmenn friðar séu þeir sem hvetja til ófriðar o.s. frv.
Við nánari athugun kemur í ljós, eins og ég mun sýna fram á, að þetta er einmitt lóðið.
...finnst hann oft á heiðum
AFAR margt er skylt með kommúnistum og nasistum og freistandi að spyrða þá saman. Báðir eru alræðissinnar, en þeir síðarnefndu hins vegar ekki nógu miklir hræsnarar til að geta talist vinstri menn.
Báðir áttu erlenda liðsmenn, grimmdin og kúgunin var svipuð, sömuleiðis sjálft stjórnskipulagið, áróðurstæknin og margt fleira, en of langt mál er að rekja það hér. Nasistar sögðu sig hins vegar, öfugt við kommúnista, opinberlega úr lögum við siðferði og siðmenningu og virtu ekkert boðorð nema það fyrsta, sem þeir sneru upp á sjálfa sig á sama hátt og kommúnistar höfðu áður gert. Það boðorð sýnist mér vera ein meginstoð stórasannleika af öllu tagi, þar með talinni alræðishyggju, en einnig einn helsti grundvöllur ofstækis, umburðarleysis og trúarbragðastyrjalda.
Hinum boðorðunum níu, sem eru sammannleg undirstaða siðmenningar hvarvetna, óháð kristinni trú, vörpuðu nasistar fyrir róða. Alveg ólíkt vinstri mönnum fóru þeir hvergi í launkofa með fyrirlitningu sína á lýðræði, mannúð og manngæsku og frömdu ekki, eins og kommúnistar, illvirki sín undir formerkjum hins góða.
Fanturinn og frelsishetjan
Ágætt dæmi um afstöðu heimsins til svonefndra "hægri manna" og vinstri manna má finna í ferli tveggja harðstjóra, þeirra Pinochets, fyrrum Chileforseta og Castros Kúbuleiðtoga:
Pinochet hélt góðan frið við aðrar þjóðir, en engir friðarsinnar sóttu þó á hans fund.
Castro hefur hins vegar stofnað til eða haldið gangandi styrjöldum allt frá Suður-Ameríku til Suður- Jemens, en herjaði þó allra lengst og mest í Afríku. Því hafa kunnir friðarsinnar og mannvinir mjög sótt á hans fund (García Márquez, Olof Palme o.fl.), enda er enn vandfundinn sá vinstrisinnaði "mannréttindafrömuður" og friðarsinni, sem ekki hefur eitthvað hlýlegt að segja um Castro.
Þegar stór hluti verkfærra manna á Kúbu var annað hvort flúinn, fangelsaður eða farinn til Afríku til að drepa svarta menn fyrir Rússa, flykktust áhugamenn um "frið", "lýðræði", "tjáningarfrelsi" og "mannréttindi" hvaðanæva að úr heiminum til Kúbu til að fylla í skörðin á sykurekrum Castros, þ. á m. fjöldi Íslendinga.
Enginn "hægri maður" hafði hins vegar slíka aðdáun á stjórnarfari í Chile að hann færi til Pinochets að vinna í koparnámum, og engin "vináttufélög" voru stofnuð við hann.
Pinochet tók við landi sínu í fátækt og upplausn, en skilaði af sér blómlegu búi.
Kúba var, ásamt Argentínu ríkasta land rómönsku Ameríku og efnahagur í örum vexti þegar Castro tók við völdum . Landið er nú rjúkandi rúst og er ásamt Haiti langfátækasta landið í álfunni, þrátt fyrir gífurlegan fjáraustur Rússa, og þótt flestöll lönd önnur en Bandaríkin geti verslað við Castro.
Vinstri menn settu af stað einhverja umfangsmestu "mannréttindaherferð" sögunnar gegn Pinochet.
Um Kúbu ríkin þögn, að heita má.
Pinochet stofnaði til kosninga, skilaði sjálfviljugur af sér völdum og breytti óumbeðinn landinu í lýðræðisríki.
Á Castro er ekkert fararsnið, og engar kröfur eru uppi um slíkt frá vinstri- "mannréttindafrömuðum". Samt eru flóttamennirnir og fangarnir fleiri, áþjánin og fátæktin margfalt verri en nokkurn tímann í Chile.
Á því er enginn vafi að Castro hefur verið þjóð sinni miklu óþarfari en Pinochet var sinni þjóð, þótt sá síðarnefndi hafi beitt andstæðinga sína álíka mikilli harðýðgi og Kúbuleiðtoginn. Flestir, en þó ekki allir þessir andstæðingar voru reyndar kommúnistar, sem hugðust koma á svipuðu stjórnarfari og ríkir á Kúbu og hefðu því sjálfir beitt sömu aðferðum á valdastóli.
Fyrir aðfarir sínar uppskar Pinochet með réttu fordæmingu heimsins, en því er ekki að heilsa um Castro. Þvert á móti er hann ennþá beinlínis hetja, jafnvel "frelsishetja" í augum þeirra friðelskandi vinstrisinnuðu mannvina sem gera sér hetjur úr herskáum, fjarlægum harðstjórum. Enginn gerir frelsishetju úr Pinochet, þótt hann hafi, ólíkt Castro, komið á lýðræði. Umfjöllun um Castro er enn sem fyrr með allt öðrum og vinsamlegri hætti en nokkur dæmi eru til um Pinochet sem kunni ekki sem "hægri maður" lagið á því að fremja illvirki undir yfirskini hins góða.
"Eigir þú vin..."
Ég hef á liðnum árum stöku sinnum skrifað um vinstrimennskuna hér í blaðið og þá aldrei látið hjá líða að nefna "vináttufélögin" sérstaklega, bæði vegna þess hvað mér finnast þau vera merkileg og eins vegna þess hvað fáir aðrir hafa vakið á þeim athygli. Þau eru allrar athygli verð. Þar stofnuðu íslenskir menn, af ást og aðdáun einni saman til sérstakrar vináttu við stjórnirnar í löndum á borð við Sovétríkin (MÍR), Albaníu, Norður- Kóreu, Víetnam, Kína, Kúbu, Austur-Þýskalandi og raunar flestöllum öðrum alræðisríkjum.
Þessi samtök bera allra gleggstan vott um raunverulegan hug vinstrafólks til alræðisins, kúgaranna og böðlanna, þótt raunar sé af nógu öðru að taka.
Það voru ekki aðeins Alþýðubandalagsmenn sem tóku þátt í "vináttufélögunum", heldur einnig fólk úr þeim stjórnmálaflokkum, sem gátu yfirleitt hugsað sér samstarf og jafnvel vináttu við erlendar alræðisstjórnir (sbr. vinstri-Gúlag-regluna sem ég nefndi í fyrstu grein). Þannig má t.d. nefna þátttöku framsóknarmanna í "vináttufélaginu" við Búlgaríu.
Á verksviði "vináttufélaganna" var m.a. að fá hingað listamenn, fengju þeir yfirleitt brottfararleyfi (fjölskyldumeðlimir voru hafðir í gíslingu á meðan). Var ítarlega sagt frá öllu í alræðisríkinu og jafnframt látið í það skína, að hér væri um samskipti "alþýðu" landanna að ræða, enda höfuðmarkmið hinna erlendu stjórna að réttlæta sig gagnvart eigin þegnum með því að vísa til þess víðtæka stuðnings og samúðar, sem þær nutu meðal vinstri manna vestan tjalds. Starf "vináttufélaganna" var þannig ætlað til stuðnings alræðisstjórnunum og til að villa um fyrir þegnum þeirra.
Tóku fjölmargir stjórnmála-, mennta- og listamenn þátt í þessu brölti, þ.e. væru þeir ekki önnum kafnir við að fordæma "kúgun", "ritskoðun", eða önnur "mannréttindabrot", sem þeir sáu þá - og sjá enn - í hverju horni hér á Vesturlöndum. Margir vinstri menn, aðallega liðsmenn Alþýðubandalagsins, hafa einnig notið góðs af starfsemi "vináttufélaganna" á annan hátt, t.d. í tengslum við ferðalög til alræðisríkja, því þangað var þeim tíðförult meðan fært var (sbr.: "Eigir þú vin / farðu að finna hann oft").
Ég vil aftur undirstrika, að aldrei hefur þetta varpað skugga á "lýðræðis- og "mannréttindabaráttu" þessa góða fólks, sem fram fór samtímis.
... ærnar renna eina slóð
ÞAÐ liggur í sjálfu eðli allra mannréttindasamtaka, eins og t.d. Amnesty, að þau hljóti að draga að sér hræsnara, enda gera þau það. Vafalaust er erfitt að halda þeim frá.
Þessi samtök voru þau fyrstu sem í alvöru tóku að gagnrýna ástand mannréttindamála í kommúnistaríkjunum og voru því sjálfkrafa stimpluð "hægri sinnuð" af vinstra fólki í upphafi. En það er eitt höfuðeinkenni allra hræsnara, hvað þeir eru hugfangnir af fallegum orðum og sjálft orðið "mannréttindabarátta" var einfaldlega ómótstæðilegt, enda gafst óvíða betra tækifæri til að setja sjálfan sig á háan hest, fordæma og vandlætast. Því leið ekki á löngu, áður en mjög fór að bera á vinstra fólki innan þessara samtaka. Náði það öllum völdum hóf þá m.a. herferð fyrir málstað dæmdra morðingja í bandarískum fangelsum.
Þó er enginn vafi er á að samtökin hafa unnið gott starf, einkum fyrstu árin. Einhverjir þeirra, sem enn starfa innan þessara samtaka hafa hugsanlega aldrei lagt fjarlægum harðstjórnum lið.
Nei-þýðir-já-lömálið segir að menn fordæmi það ávallt harðast í orði sem þeir styðja afdráttarlausast á borði. Það er ágæt staðfesting þessu lögmáli að hver sá sem því nennir getur grafið upp skjalfestar heimildir um vinstra fólk sem starfað hefur með Amnesty en hefur einnig starfað í sérstökum "vináttufélögum" við ýmsar grimmúðlegustu harðstjórnir aldarinnar samtímis starfi með Amnesty, svo merkilegt - og vemmilegt - sem það nú er.
Lýðræðið
"Lýðræði" er eins og "mannréttindi" eitt af þessum fallegu orðum sem vinstri menn endurtaka ótt og títt án þess að botna upp né niður í því hvað í orðinu felst. Í meginatriðum felur það í sér að meirihluti kjósenda eigi að ráða.
"Fái þjóðirnar að kjósa milli harðstjórnar og stjórnleysis, velja þær alltaf harðstjórann," sagði Aristóteles fyrir margt löngu. Í mörgum löndum er "lýðræði" einungis annað orð fyrir aðgerðarleysi, spillingu og upplausn og það er alls ekki sjálfgefið að almenningur kjósi lýðræði, fái hann að velja. Í Weimar-lýðveldinu höfðu andstæðingar lýðræðis, kommúnistar og nasistar, t.d. meirihluta atkvæða samanlagt.
Í Alsír reyndi herforingjastjórn að halda lýðræðislegar kosningar, en þá kom í ljós að yfirgnæfandi meirihluti þegnanna hugðist kjósa andstæðinga lýðræðis sem einnig vilja afnema flest það sem við nefnum grundvallarmannréttindi að fyrirmynd Khomeinis. Kosningarnar voru stöðvaðar og eru "mannréttindafrömuðir" síðan með böggum hildar út af öllu saman. Hvert eiga þeir að snúa sér með vandlætingu sína og fordæmingu? Eiga þeir að býsnast út í herforingjana sem vilja koma á vestrænum gildum, svipað og Íranskeisari á sínum tíma, eða á að fárast út í lýðræðislegan vilja kjósenda sem vilja afnema allt sem heitir lýðræði og mannréttindi?
Lítill vafi er á að Khomeini naut stuðnings yfirgnæfandi meirihluta þegna sinna. Sama má segja um Þýskaland Hitlers, Rússland Stalíns eða Norður-Kóreu undir Kim Il Sung. En voru þessar stjórnir "lýðræðislegar?" Svarið hlýtur að vera neitandi. Hitler var, eins og prestar þjóðkirkjunnar, lýðræðislega kosinn einu sinni. Síðan sátu menn uppi með hann.
Frjálsar kosningar voru ekki tíðkaðar í þeim ríkjum sem ég nefndi, né heldur ríkti tjáningarfrelsi. Án tjáningarfrelsis er lýðræði óhugsandi, jafnvel þótt þessar stjórnir og fleiri slíkar hafi örugglega fullnægt því skilyrði að hafa stuðning meirihluta þegnanna.
Mjög margt fleira mætti segja um þetta, en stjórnarformið og hugtakið "lýðræði" er miklu flóknara en svo að unnt sé að gera því sæmileg skil í stuttu máli. Orðið hentar hins vegar ágætlega til að slá um sig með því.
Mannréttindin
Eins og lýðræðið eru mannréttindin vissulega afstæð, eins og einhver sagði. Svipað gildir reyndar um fátæktina. Sá einn er kúgaður eða fátækur sem sjálfur telur sig vera það.
Svo einfalt dæmi sé tekið telja munkar sig hvorki kúgaða né fátæka, þótt þeir séu í klaustrum sínum sviptir flestum mannréttindum og lífsgæðum. Fólk í frumstæðum þjóðflokkum, sem býr fjarri siðmenningunni er fullsátt við hlutskipti sitt þótt frá sjónarmiði Vesturlandabúa ríki þar kúgun og fátækt.
Svipað gildir um konur í löndum Múslima. Þær telja sig langflestar alls ekki vera kúgaðar. Má benda á að margir hörðustu stuðningsmanna Khomeinis erkiklerks á sínum tíma voru konur og meðal þeirra mátti finna konur, menntaðar í frjálslyndum háskólum á Vesturlöndum.
Keisarinn vann sér það m.a. til óhelgi að svipta konur blæjunni og reyna að koma á vestrænum lifnaðarháttum og gildismati í landi sínu. Við andstæðinga beitti hann þó hefðbundum aðferðum í þessum heimshluta. Í klóm SAVAK, lögreglu hans, lentu annars vegar kommúnistar og hins vegar bókstafstrúarmenn af gerð Khomeinis.
Vinstri menn taka alltaf og ósjálfrátt afstöðu sem er andstæð hagsmunum Vesturlanda. Því studdu þeir, með Amnesty í fararbroddi, stjórnarandstæðinga af alefli, að sjálfsögðu undir formerkjum "lýðræðis" og "mannréttinda", þótt það væri alltaf deginum ljósara hvaða stefnu andstæðingar keisarans fylgdu og við hverju mætti búast, næðu þeir völdum.
Klerkarnir náðu svo völdunum að lokum, við mikinn fögnuð mannvina og mannréttindafrömuða víðsvegar. Síðan þeir tóku við, hefur "lýðræðis"- og "mannréttindabaráttu" vinstri manna gegn Íransstjórn alveg linnt. Vandlætingarhrópin heyrast ekki lengur. Þar ríkir þögnin ein.
Ég held að það væri athugandi fyrir "mannréttindafrömuði" utan og innan Amnesty að kynna sér betur málstað þeirra sem gerðir eru að píslarvottum. Khomeini sjálfur lenti sem "ofsóttur trúarleiðtogi" um skeið efst á listum Amnesty ásamt fjölmörgum áhangendum sínum, væntanlega fyrir "lýðræðis"- og "mannréttindabaráttu" sína.
Ef dæma má af reynslunni frá Íran mætti reikna með, að þeir Lenin, Stalin og Hitler hefðu orðið "samviskufangar" á vegum Amnesty.
Þeir voru nefnilega allir fangelsaðir fyrir skoðanir sínar.
... eftir sjónum breiðum
VINSTRI menn hafa nú misst glæpinn, eða öllu heldur, glæpnum var beinlínis stolið af þeim. Eyjólfur hresstist nefnilega aldrei. Hann dó. Syrgjendurnir leita nú nýrra patentlausna dyrum og dyngjum, en finna fátt sem fútt er í.
Það er viss eftirsjá í Eyjólfi. Meðan hann tórði var auðveldara að fylgjast með þeim sem önnuðust hann. Í Þjóðviljanum, sem andaðist skömmu eftir fráfall Eyjólfs, mátti t.d. ávallt ráða í hvað vinstra fólk bar helst fyrir brjósti þá stundina. Til dæmis komst blaðið yfir það í liðlega hálfrar aldar sögu sinni að styðja flestalla þá ógnarbílda, sem herjuðu á mannfólkið á tímabilinu. Má minna á afdráttarlausan stuðning Þjóðviljans við Hitler og hernað hans árin 1939-41, sem varð til þess að Bandamenn stöðvuðu útgáfu blaðsins og fangelsuðu aðstandendur þess. Ekki þarf að tíunda lofgerðirnar óteljandi um hina harðsvíruðu alræðisherra kommúnistalandanna, en auk þeirra lenti hver sá, sem barðist gegn hagsmunum vestrænna lýðræðisþjóða, sjálfkrafa í náðinni. Má þar nefna Khomeini og hans menn, og undir lokin átti Saddam Hussein athvarf á síðum blaðsins, þ.e. ef rúm gafst fyrir "friðarbaráttunni", sem fékk æ meira rúm ásamt "mannréttindabaráttunni".
Einnig birtust gjarnan í blaðinu auglýsingar um fundi samtaka sem tengdust áhugamálum áhangenda þess, svo sem hinum ýmsu "vináttufélögum", sem íslenskir menn stofnsettu við miskunnarlausar, erlendar alræðisstjórnir. Þá mátti finna í Þjóðviljanum, eins og við var að búast í höfuðmálgagni "mannréttindabaráttunnar", tilkynningar um fundi Amnesty. Vakti sérstaka athygli mína að stundum stóð sama fólkið að þeim og auglýsingum "vináttufélaganna".
Ekkert skorti heldur á um "friðarbaráttuna" sem rekin var samhliða stuðningi við "þjóðfrelsisbaráttuna" (þ.e. hernað kommúnista). M.a. fengu "Menningar- og friðarsamtök kvenna", sem Stalín sjálfur stofnaði pláss, ásamt öðrum "friðarsamtökum" sem ekki voru jafn afdráttarlaust rekin á vegum Sovétríkjanna (að því er sýndist, a.m.k).
Friðaruppeldi og föðurlandsást
Það er freistandi að álykta að summa lastanna og dyggðanna verði alltaf hin sama. Því meiri dyggðir, þeim mun meiri lestir. Allir kannast við kristna vandlætara og siðapostula sem hafa verið sekir um ýmiss konar glæpi. Dæmi má finna um menn sem orðið hafa þjóðkunnir fyrir baráttu sína gegn fíkniefnavandanum, en síðan dæmdir fyrir eiturlyfjasmygl.
Þetta má skýra með nei-þýðir-já- lögmálinu sem segir að menn fordæmi það ávallt harðast í orði, sem þeir styðji afdráttarlausast á borði. Miklu fleiri dæmi má finna en þau, sem ég hef þegar nefnt:
Í stríðslok kom upp í Þýskalandi hreyfing um "friðaruppeldi" og var Ulrike Meinhof, sem seinna varð heimskunn í tengslum við hryðjuverk, eitt fyrsta barnið, sem fékk alveg skipulegt friðaruppeldi frá barnæsku. Má því segja, að Baader-Meinhof- hryðjuverkasamtökin hafi verið skilgetið afkvæmi "friðaruppeldis".
Ég missti reyndar trúna á "friðarbaráttunni" fyrir margt löngu, um líkt leyti og tveim hópum friðarsinna lenti saman á "heimsfriðarmóti" í Japan og tugir manna voru drepnir.
Í "verkamannalýðveldum", t.d. á Kúbu, er hver sá, sem reynir að stofna til verkfalla eða berjast fyrir hag verkamanna tafarlaust fangelsaður. Þetta er gert með þeim rökum að "verkamenn" hafi völdin og sé verkalýðsbarátta því "gegn hagsmunum verkalýðsins".
Það leiðir því af sjálfu sér að vinstri menn, vinir Castros og annarra slíkra, hafa alltaf talið sig vera alveg sérstaka fulltrúa og kraftbirtingu verkalýðs og verkalýðsbaráttu hér á jörðu.
Íslenskir verkalýðsleiðtogar sóttu því t.d. þing opinberra "verkalýðsfélaga" alræðisríkjanna á Kúbu fyrir nokkrum árum, einmitt um það leyti, sem "hægri sinnaðir" (andkommúnískir) verkamenn í Samstöðu voru að berjast fyrir lífi sínu í Póllandi. Þingið samþykkti að sjálfsögðu ýmsar ályktanir, sem fordæmdu "kúgun verkamanna" víðs vegar á Vesturlöndum.
Einn stjórnmálaflokkur, sem hefur heitið ýmsum nöfnum, telur sig alveg sérsakan og útvalinn andstæðing erlendra stórvelda. Liðsmenn hans hafa því í gegnum tíðina vandlætast afar mikið og m.a. mjög sakað andstæðinga sína um "landsölu" og jafnvel "landráð".
Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að nú er fullsannað og skjalfest í Moskvu, að einmitt þessi flokkur þáði samtímis mikla fjárstyrki og var um áratugaskeið beinlínis stjórnað úr ráðuneytum erlends stórveldis.
Af illum verkum...
Nú, að Rússa-Grýlu liðinni, er í sjálfu sér ágætt að þurfa ekki lengur að sitja undir því að vera kallaður "fasisti" fyrir þær sakir einar að benda á staðreyndir um ástandið í sæluríkjum. Þeim staðreyndum mótmælir enginn lengur.
Mér fannst miklu verra fyrr á árum, og finnst enn, að vita af málsvörum alræðis og kúgunar meðal áhrifamanna hvarvetna í þjóðfélaginu, ekki aðeins í stjórnmálum, heldur einnig og ekki síst í lista- og menningarlífi þjóðarinnar.
Hitt fannst mér þá og finnst enn allra verst, og reyndar óþolandi, að sitja undir tali þess sama fólks í síbylju um "lýðræðið", "tjáningarfrelsið", "lítilmagnann" og "mannréttindin".
Havel Tékklandsforseta var örugglega ekki kunnugt um, þegar hann var hér á ferð fyrir nokkrum árum, í hvaða félagsskap hann var. Mér fannst beinlínis viðbjóðslegt að fylgjast með því að þeir sem flöðruðu allra mest upp um forsetann voru einmitt þeir áhrifamenn í stjórnmálum, listum og menningarlífi sem af mestu alefli höfðu stutt kvalara hans fáum árum áður meðan hann var andófsmaður og fangi.
Þetta fólk kann ekki að skammast sín. Það kunna nasistar.
Rússagrýla er dauð. En Grýlubörnin lifa og munu halda áfram að geta af sér afkvæmi, því skýringar á háttalagi þeirra er fremur að leita á vettvangi sálfræði en stjórnmála. Vinstrimennskunni verður varla útrýmt, fremur en sýndarmennskunni, vandlætingunni eða óskhyggjunni. Hún mun skjóta upp kollinum í einhverri mynd, undir einhverju nafni. Blekkingin er fallegri en raunveruleikinn, og menn munu halda áfram, enn sem fyrr, að berjast af miklu meiri sannfæringu fyrir lyginni heldur en sannleikanum.
Því munu íhaldsmenn seint öðlast þann töfraljóma, sem umlykur málsvara blekkingarinnar. Við það verður að búa.
Barnið í ævintýri Andersens hefur örugglega fengið skömm í hattinn. Svo var a.m.k. um okkur sem reyndum að benda fólki á úr hvaða efni nýju fötin væru sem skraddararnir Marx og Lenin höfðu saumað á keisarana í Kreml. Boðberar válegra tíðinda verða aldrei vinsælir, og fólk er alltaf reiðubúnara til að trúa lyginni heldur en sannleikanum.
Kíkóti skildi hvarvetna eftir sig slóða eyðileggingar. Það gera vinstri menn, stuðningsmenn, jábræður og umþegjendur alræðisherranna og böðlanna, líka. Fulltrúar og arftakar Rýssa- Grýlu eru hins vegar ekki meinlausir, sjónumhryggir riddarar. Auðvelt er samt að þekkja þá: Þeir tönnlast nefnilega í síbylju á fallegum orðum.
Nafni minn frá Skáholti orðaði nei-þýðir-já-lögmálið dálítið öðru vísi en ég, nefnilega svona:
Af illum gjörðum sínum þekkjast þeir,
sem þykjast geta frelsað heiminn.
Það er vissulega rétt að auðveldlega má þekkja þá af illum gjörðum þeirra.
En það er jafn auðvelt að að þekkja illvirkjana af fögrum orðum sínum.
Bloggar | Breytt 15.12.2018 kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 9. október 2007
Gróðurhúsaáhrif væru góð
"Vond eru heimskra manna ráð, en því verri, sem þeir koma fleiri saman".
Ég veit vel, að þegar menn lesa fyrirsögn þessarar greinar munu þeir telja, að nú hafi ég endanlega farið úr límingunum. En svo er alls ekki. Mér er full alvara.
Ég lærði, eins og aðrir sem gengið hafa í gegnum skólakerfið hér að við lifum nú á ísöld, þótt hlýskeið sé. Í raun er loftslag nú afar kalt, sé miðað við jarðsöguna í heild, og raunar einnig á mælikvarða núverandi hlýskeiðs, sem hófst með gífurlegu flóði fyrir eitthvað um tíu-tólf þúsund (ekki milljón) árum. Hlýjast og rakast var fyrstu árþúsundin, en síðan fyrir um 6-7 þúsund árum, skömmu fyrir daga Forn- Egypta, fer loftslag hægt kólnandi og þornandi. Þessi kólnun er ekki jöfn, en þótt hita- og rakakúrfan sé hlykkjótt, liggur hún afdráttarlaust niður á við, mönnunum og gjörvöllu lífríkinu til ómælanlegs tjóns.
Menn hafa fundið merki um 20 eða fleiri hlýskeið á núverandi ísöld, sem staðið hefur í allt að þrjár milljónir (ekki þúsundir) af 4.500 milljóna ára sögu jarðarinnar, og hafa sum þeirra augljóslega verið miklu hlýrri en það sem nú ríkir. Um ástæður þeirra, og sjálfrar ísaldarinnar, er ekkert vitað með vissu. Fundist hafa merki um nokkrar aðrar ísaldir á fyrri tímaskeiðum, en þær hafa verið tiltölulega stuttar sé miðað við heildarlengd jarðsögunnar.
Menn hljóta að hafa lært eins og ég, að mest alla milljarða ára sögu jarðarinnar hefur hiti verið allt frá tíu og stundum allt að 20 stigum hærri en nú, og lítill, og oftast enginn ís við heimskautin. Mest alla jarðsögu Íslands, þ.e. fyrstu 15-20 milljón (ekki þúsund) árin þar til núverandi ísöld hófst, var loftslag og gróður hér svipaður og nú er í Norður- Kaliforníu, svo sem sjá má á surtarbrandslögum og steingervingum á Tjörnesi og víðar. Slíkt loftslag er Íslandi og jörðinni allri eðlilegt, ekki ísaldarkuldinn, sem nú ríkir, þrátt fyrir hlýskeið.
Fyrstu árþúsundin eftir flóðið mikla, sem markar upphaf núverandi hlýskeiðs var loftslag á norðurslóðum a.m.k. 4-5 stigum hlýrra en nú er, miklu heitara en jafnvel ofstækisfyllstu spámenn heimsendafræðinga nútímans, svokallaðra umhverfisverndarsinna gera ráð fyrir í svörtustu spám sínum. Meginjöklar á Suðurskautslandinu og Grænlandi bráðnuðu þó ekki og yfirborð sjávar var sáralítið hærra en nú. Ísbirnir lifðu góðu lífi örlítið norðar en nú.
Þá var Ísland nánast paradís á jörðu í samanburði við það sem nú er, enginn Vatnajökull, aðeins fáeinar jökulhettur á hæstu tindum og landið allt grænt og gróðri vafið. Allt lífríkið tók við sér. Gífurleg landflæmi víða um heim, sem höfðu verið lítt byggileg vegna kulda eða þurrka, urðu nú aftur lífvænleg mönnum, dýrum og jurtum. Uppgufun úr höfunum jókst, og hið hlýja loft gat tekið til sín meiri raka en áður. Sahara- eyðimörkin var grasi gróin og þéttbyggð mönnum og skepnum. Síðan kólnaði hægt og hægt og þornaði, svo byggðin færðist til strandar og í Nílardalinn. Þessi þróun náði hámarki um aldamótin 1900, en þá voru jöklar á Íslandi og annars staðar meiri en nokkru sinni frá því á jökulskeiði. Jafnframt því að Vatnajökull og aðrir smájöklar á norður- og suðurhveli hafa verið að myndast hafa eyðimerkur hvarvetna verið að stækka, uppgufun minnkar úr höfunum, og kalt loftið inniheldur minni raka en fyrr. Enn á tímum Rómverja voru borgir reistar í blómlegum landbúnaðarhéruðum Norður- Afríku, þar sem nú eru sandöldur einar.
Jörðin stefnir óhjákvæmilega inn í nýtt jökulskeið eftir nokkur þúsund ár. Allt að þriggja kílómetra þykkur jökull mun þá aftur leggjast þar yfir, sem ýmsar helstu borgir Vestur-Evrópu og Norður- Ameríku standa nú.
Þetta er engin barnaleg heimsendaspá, þetta hefur gerst 20 sinnum eða oftar á núverandi ísöld og mun alveg örugglega gerast aftur. Gróðurhúsaáhrifin, ef einhver eru, gætu hugsanlega hægt á þessari þróun eða stöðvað hana. Vonandi fer svo.
Það eru engin sérstök tíðindi, að mesti óvinur alls sem lifir, er frost og kuldi. Þetta vita allir. Skynlausar skepnur, fuglar, fiskar, skordýr, grös og jurtir vita þetta og leita því ávallt í hlýjuna. Umhverfisverndarsinnar, vita þetta hins vegar augljóslega ekki. Þeir, og margir stjórnmálamenn, t.d. Al Gore fyrrum varaforseti, hafa fengið þá flugu í höfuðið að hlýjan, vinur alls sem lifir, sé vond. Hin meinlokan er þó enn undarlegri, en hún er sú, að heimurinn muni farast, ef hlýnar eitthvað agnarlítið aftur á næstu hundrað árum.
Ég vil undirstrika þetta litla orð aftur alveg sérstaklega. Það heyrist nefnilega aldrei í umræðunni. Alltaf er talað um hlýnun aldrei, eins og rétt er, um endurhlýnun. En af hverju allur þessi ótti við hlýjuna? Mér sýnist ástæðan vera augljós: Ömurlegt ástand náttúrufræðikennslu austan hafs og vestan. Það er slæmt hér, en utanlands virðist ástandið enn miklu verra. Hinir erlendu fjölmiðlamenn, sem áttu upptökin að umræðunni um gróðurhúsaáhrifinog ráða henni, virðast almennt hafa verið tossar í skóla, og stjórnmálamennirnir, sem ákvarðanir taka, að mestu út frá skrifum fávísra æsifréttablaðamanna, sýnast hafa verið álíka grænir í flestum námsgreinum.
Ég endurtek og undirstrika: Gróðurhúsaáhrif væru góð!
| Breytt 2.10.2007 kl. 15:05 | Slóð | Athugasemdir (3)
24.9.2007 | 15:06
Úðabrúsar Eldlendinga
Þessi grein birtist fyrst í Mogganum í ágúst 1999, en hún hefur í engu tapað gildi sínu. Þvert á móti. Ósóngatið hvarf nokkrum árum eftir birtingu greinarinnar, en kom svo aftur, og það er orðið alveg ljóst, að hér er um náttúrufyrirbæri að ræða, óháð brölti mannanna.Barnalegar yfirlýsingar um að eitthver alþjóðasáttmáli um ísskápa og úðabrúsa hafi átt þátt í minnkun ósóngatisns er ekki annað en hjákátlegt yfirklór. V.E.
HEIMSENDAFÁR gengur nú yfir löndin og á nýja árþúsundið vafalaust þátt í því. Þetta er ekki í fyrsta sinn, því á síðari hluta tíundu aldar breiddist sú hugmynd sem eldur í sinu um hinn kristna heim, að dómsdags væri að vænta árið 1000. Mundu þá kristnir einir bjargast, en heiðnir brenna í víti. Hófst nú eitt mesta kristinboðsátak sögunnar, og kristnaðist Mið- og Austur-Evrópa á fáum árum ásamt Garðaríki, svo og Danmörk, Noregur, Grænland og Ísland.
Heimsendirinn, sem lofað hafði verið árið 1000, lét þó á sér standa, og hefur kirkjan æ síðan ekkert viljað ræða fárið. Hún hélt þó fast í hina gífurlegu landvinninga sína. Heimsendafársins mikla er t.d. hvergi getið í þeirri ritskoðuðu Íslendingabók sem varðveist hefur. Raunar hefur lengi verið prívatskoðun mín, að það hafi verið heiðnir menn, sem bentu á umhverfið og sögðu: "Hverju reiddist Guð..." (ekki goðin) þegar eldgos hófst þar sem þingheimur, eða a.m.k. hinn kristni hluti hans, beið í ofvæni eftir heimsendi, skjálfandi á beinunum, á Þingvöllum árið 1000. Eldgosið var túlkað sem upphaf heimsendisins. Íslendingabók er eina fornritið, sem vitað er um með vissu, að kirkjan ritskoðaði og beinlínis breytti og mér finnst afar líklegt, að hin fleygu orð Ara um að "hafa það, sem sannara reynist" vísi til ritskoðara hans.
Heimsendafræði (eskatólógía á lærðra manna máli) var eitt höfuðviðfangsefni miðaldaguðfræðinga. Töldu hinir lærðustu menn miðalda einsýnt, að syndugt líferni mannanna, græðgi og illska mundi fljótlega kalla yfir þá eld og brennistein, pestir og kýli uns mannkynið tortímdist með öllu fyrir sakir vonsku sinnar, synda og almennrar fúlmennsku. Eskatólógum tókst þó aldrei að dagsetja heimsendi almennilega, hann dróst von út viti og er ekki kominn enn. Minnir þetta afar mikið á málflutning þeirra, sem grænastir eru og vitlausastir í "umræðunni" nú til dags.
Fárið, sem núna steðjar að er að sögn þessa fólks í tvennu lagi. Í fyrsta lagi valdi syndugt líferni mannanna, græðgi þeirra og illska alveg voðalegri mengun, sem hafi gert gat á ósónlagið, þó ekki á norðurhveli þar sem flestallt fólkið býr, heldur í óbyggðum hinum megin á hnettinum. Þeir, sem ekki brenni lifandi sleppi þó ekki, heldur drukkni. Það sé nefnilega að hlýna í veðrinu af völdum títtnefnds syndugs lífernis mannfólksins. Muni því ísinn bráðna, en hann er nánast allur í fyrrnefndum óbyggðum hinum megin á hnettinum. Hafið muni síðan flæða yfir löndin.
Tölvufræðingar, framleiðendur og seljendur hafa svo komið sér upp þriðja fárinu, en um þá matarholu þeirra verður ekki fjallað hér, enda fellur "2000-vandinn" fremur undir markaðsfræði en eiginlega heimsendafræði.
Útfjólublátt ljós myndar ósónlagið
Byrjum á ósónvandanum: Ég játa fúslega, að ég man næsta fátt úr þeirri takmörkuðu efna- og eðlisfræði sem kennd var í máladeild MR á sjöunda áratugnum. Þó man ég nokkur mikilvæg atriði um ósón, sem ég veit ekki betur en séu enn almennt viðurkennd og standi óhögguð. Hefur vakið sívaxandi undrun mína undanfarin ár, að enginn skuli hafa á þau bent, svo alkunn sem þau eru.
Í fyrsta lagi: Ósón er ekki fágæt lofttegund, sem aldrei kemur aftur þegar hún eyðist, heldur einfaldlega hreint súrefni í annarri mynd. Sameind ósóns hefur þrjár frumeindir í stað tveggja í venjulegu súrefni og hefur það því allt aðra eiginleika, er m.a. eitrað. Í öðru lagi: Stöðug nýmyndun ósóns úr súrefni á sér stað í náttúrunni, t.d. við eldingar, og allir þekkja ósónlykt, sem gýs upp þegar skammhlaup verður í rafmagnstækjum. Það myndast einnig m.a. í bílvélum og í útfjólubláum lömpum.
Í þriðja lagi, og það sem mestu máli skiptir: Ósónlagið verndar ekki einungis jörðina gegn útfjólubláum geislum sólar, heldur er beinlínis myndað af þeim.
Þetta má sjá einkar vel við bæði heimskautin, en þar er ósónlagið þykkast á haustin, þegar útfjólubláir geislar sólar hafa skinið á þunnt súrefnið í efstu lögum gufuhvolfsins mánuðum saman og breytt því í ósón. Jafnskjótt og heimskautanóttin skellur á fer ósónið aftur að breytast í súrefni og lagið að þynnast, enda er ósón miklu óstöðugra en venjulegt súrefni. Þá taka við svonend kolflúorsambönd (CFC), sem eyða ósóni og ekki koma nema af afar litlu leyti úr ísskápum og úðabrúsum, heldur hafa streymt úr iðrum jarðar í örlitlu magni frá því hún var glóandi eldhnöttur og hafa alla tíð verið til staðar sem snefilefni í gufuhvolfinu.Verður ósónlagið því þynnst á vorin, en jafnskjótt og sólin, og þar með útfjólublátt ljós, fer aftur að skína þykknar það á ný þar til það nær hámarksþykkt næsta haust. Fjarri heimskautunum, þar sem útfjólublátt ljós sólar skín á súrefnið í gufuhvolfinu alla daga ársins er ósónlagið stöðugt allan ársins hring, og engin marktæk breyting á þykkt þess hefur þar nokkurn tíma mælst.
Hvar er ósóngatið á norðurhveli?
Samkvæmt kenningum græningja veldur loftmengun ósóngatinu á suðurhveli.
Þetta er skrýtið. Vegna snúnings jarðar og miðflóttaafls skiptast veðurkerfi norður- og suðurhvels að mestu í tvennt við miðbaug. Sú mengun, sem verður til í iðnríkjunum á norðurhveli kemst ekki nema að afar litlu leyti suður í hitabelti, hvað þá langt suður fyrir það. Og hvers vegna er þá ekkert ósóngat á norðurhveli, þar sem yfir 90% mengunarinnar verða til?
Samkvæmt nýlegum tölum S.þ. fara um 6,4% iðnaðarmengunar heimsins fram í hitabelti og á suðurhveli. Löndin, sem nefnd eru, eru þó flestöll í hitabeltinu að meira eða minna leyti. Stórborgir í tempraða beltinu syðra má telja á fingrum sér, og þær eru allar í næsta nágrenni hitabeltis, álíka langt frá suðurskauti og Flórida er frá norðurskauti. Þar fyrir sunnan er mengun nánast engin, trúlega langt innan við 0,001% af heildinni. Tempraða beltið syðra er að mestu þakið víðáttumesta, fáfarnasta, og jafnframt ómengaðasta úthafi á jarðarkringlunni, og sunnan til búa miklu fleiri sauðkindur en menn. Á sömu breiddargráðum norðurhvels, sem er jafn stórt, er hins vegar m.a. að finna Bandaríkin, Evrópu, Rússland, Kína og Japan. Þar verða 93.6% heildarmengunarinnar til, samkvæmt fyrrnefndum tölum, að hluta til inni á sjálfu norðurheimskautssvæðinu. En hvar er ósóngatið?
Umferð flugvéla í háloftunum er talin einkar skaðleg ósónlaginu. Á Suðurskautslandinu hafa aðsetur fáeinir vísindamenn, miklu færri en íbúar við Grettisgötu í Reykjavík. Fáeinar lágfleygar flutningavélar færa þeim vistir nokkrum sinnum á ári. Um aðra mengun er ekki að ræða.
Um háloftin yfir norðurheimskautssvæðinu, sem er jafn stórt, fara hins vegar risastórar farþegaþotur meira en hundrað þúsund sinnum á ári hverju. Þar búa milljónir manna og stórar, mengandi borgir á borð við Murmansk eru langt inni á sjálfu heimskautasvæðinu. Og ég spyr aftur: Hvar er ósóngatið á norðurhveli?
Kuldi meginástæðan
Ég sá ágæta skýringu á ósóngatinu í lítilli grein í erlendu blaði fyrir nokkrum árum og var hún höfð eftir hópi vísindamanna við bandarískan háskóla, sem verið höfðu við rannsóknir á Suðurskautslandinu. Þessi skýring samrýmist ekki þeirri "pólitískri rétthugsun" sem nú er í tísku að fylgja, því mengunarkenningunni er alfarið hafnað, enda segja þeir enga slíka mengun hafa fundist. Var greinin því höfð á lítt áberandi stað á innsíðu, en meginatriðin voru eftirfarandi:
Gufuhvolfið sé dálítið grynnra yfir Suðurskautslandinu, enda heimskautið sjálft í um þriggja kílómetra hæð, en miklu meira máli skipti frostið, sem þar ríkir, sem getur orðið allt að 100 stig. Þessi fimbulkuldi hægi á öllum efnabreytingum, þar á meðal ummyndun súrefnis í ósón á sumrin. Hitastig hafi farið lækkandi þar syðra undanfarin ár og sé það, ásamt auknum sólblettum líklegasta skýringin á tímabundinni stækkun ósóngatsins. Þá telja þeir líklegt að ósóngat hafi verið til staðar alla núverandi ísöld, eða um 3 milljónir ára, stækkað á kuldaskeiðum, en minnkað á hlýviðrisskeiðum eins og því sem nú ríkir. Á norðurhveli sé miklu hlýrra og því ekkert ósóngat.
Skýringu á því, hvers vegna ekkert ósóngat fannst á alþjóðlega jarðvísindaárinu 1958 segja þeir líklega vera, að mælingaaðferðir hafi þá verið frumstæðari en nú, enda hafi þá enginn verið að leita sérstaklega að þessu fyrirbæri, sem þá var enn óþekkt.
Það er athyglisvert, hve fáir alvöru vísindamenn hafa viljað koma nálægt "umræðunni" um ósóngatið og það sama gildir einnig og ekki síður um hina "umræðuna", þ.e. þá um "gróðurhúsaáhrifin" en um hana mun ég fjalla síðar. Þeir, sem á annað borð tjá sig eru gjarnan með próf í einhverri allt annarri fræðigrein. Yfirlýsingar dýrafræðings eða grasafræðings um veðurfræðileg efni eru álíka marktækar og t.d. yfirlýsingar tannlæknis um verkfræði eða jarðfræðings um stjörnufræði.
Því er það, að þessi "umræða" hefur að mestöllu leyti verið í höndum erlendra blaðamanna, sem augljóslega skortir lágmarks undirstöðumenntun, ekki aðeins í náttúruvísindum, heldur í barnaskólalandafræði, vita t.d. ekki, hve sáralítil byggð er á suðurhveli jarðar og halda í einfeldni sinni að fyrst norðurhvelið sé mengað hljóti suðurhvelið að vera eins. Stjórnmálamenn, sem eru álíka grænir í landafræði sem öðru, taka síðan ákvarðanir út frá skrifum æsifréttablaðamanna, enda líklegt til vinsælda. Það stríðir nefnilega gegn ríkjandi "pólitískri rétthugsun" að malda í móinn gegn "umhverfisverndarsinnum", er álíka viðsjárvert og að hallmæla konum, hommum, svertingjum, dvergum, feitu fólki eða öðrum, sem eiga undir högg að sækja í lífsbaráttunni.
Sem dæmi um endaleysuna má taka þá kenningu að ósóngatið sé af völdum úðabrúsa. Syðstir jarðarbúa eru Eldlendingar. Samkvæmt kenningum "umhverfisverndarsinna" hlýtur úðabrúsanotkun þessa fátæka fólks að vera ein meginástæðan fyrir ósóngatinu, því að frátöldum fyrrnefndum vísindamönnum á Suðurskautslandinu, sem nota örugglega mjög lítið hárlakk, er ekki um aðra úðabrúsa að ræða á suðurhveli jarðar nær heimskautinu. Mikil er því synd Eldlendinga, sem eru álíka margir og íbúar í Breiðholtshverfi í Reykjavík og álíka langt frá suðurskauti og Lundúnabúar eru frá norðurskauti.
Eða eiga kannski sauðkindur Patagóníumanna sökina?
Að lokum: Vandamálið er ekki skortur á ósóni, heldur offramleiðsla þess. Það myndast sem fyrr sagði í bílvélum og er ein meginuppistaðan í stórborgarmengun nútímans. Hefur ósóneitrun orðið þar þúsundum að bana undanfarin ár.
Ósóngatið hefur engan drepið.
Og ég spyr í allra síðasta sinn: Ef mengun er orsökin, hvar er þá ósóngatið á norðurhveli?
| Breytt 2.10.2007 kl. 15:23 | Slóð | Athugasemdir (0)
11.8.2007 | 14:54
Kyn-leg hugleiðing á "R- degi"
Það væri fjarri mér að hallmæla konum, hommum, svertingjum, dvergum eða feita fólkinu. Það væri ljótt, og ég er ekki ódó. Hinu er ekki að leyna, að mér hundleiðist brölt þessa fólks, ekki síst svonefnd réttindabarátta neðanþindar- þrýstihópanna tveggja, femínista og hómósexúalista.
Neðanþindar- þráhyggja ýmis konar er nú í tísku og þykir fín, enda ættuð frá Bandaríkjunum, landinu sem vinstri menn stela hugmyndum sínum frá, en þakka fyrir með hatri. Þar vestra hefur komið í ljós, að ýmsar kynhneigðir, sem menn einu sinni kölluðu fýsnir og töldu í einfeldni sinni vera ó- eðlilegar, þ.e. ó- náttúrulegar, eru í raun hið besta mál. Þeir sem einu sinni voru kallaðir öfugir, ef ekki beinlínis ramm- sódómískir, eru nú samkynhneigðirog flottir. Meira að segja S/M þykir kinkí og fínt. Konur halda upp á V- daginn með pomp og pragt, og hommar fara í skrúðgöngu á R- daginn og því ekki það?
Þetta er allt í góðu lagi og sama er mér. Ég hirði hvergi um, hvað annað fólk gerir í svefnherberginu heima hjá sér. Þó þykir mér flíkunarheigðin, sem einkennir marga Bandaríkjamenn, svo og málsvara neðanþindar- æxlunarfæra- og líkamsopa- þrýstihópanna tveggja, hómósexúalista og femínista, alveg sérstaklega hvimleið. Það minnir mig helst á fólk, sem í sífellu þarf að vera að segja öðrum, hvað það hafi verið að gera á klósettinu.
Uppákoma alþingiskvenna á síðasta V- degi fannst mér merkileg og skemmtileg. Hvað skyldi Þorgeir Ljósvetningagoði hafa sagt? Eða Njáll? Eða Skarphéðinn?
En allt þetta umburðarlyndi kallar á andstæðu sína. Enginn heilvita maður þorir nú orðið að gefa sig á tal við ókunnug börn. Það kostar viðbjóðslegar, viðurstyggilegar ásakanir. Nú er mjög í tísku í hjónaskilnaðarmálum, og ekki aðeins í Bandaríkjunum, að saka eiginmanninn um kynferðislega misnotkun. Konurnar, sem bera viðbjóðinn á borð vita vel, að þær komast upp með það óáreittar. Í slíkum málum dugar iðulega ásökunin ein, óháð málavöxtum, svipað og í galdra- réttarhöldum fyrr á öldum. Ofstækið er yfirþyrmandi og í fullkominni andstæðu við allt umburðarlyndið.
Ég man að Flosi sagði einhvern tíma í Þjóðviljanum, að nauðgun væri kynferðislegt atferli, þangað til báðum þykir það gott. Þetta var í gamla daga. Nú væri óhugsandi að láta slíkt frá sér fara. Flosi yrði lögsóttur. Alræðisöflin sækja stöðugt á.
Ein kynhneigð, sem raunar er alveg sérlega viðbjóðsleg, hefur alveg orðið útundan í öllu frjálslyndinu, nefnilega barn- kynhneigð. Hvers vegna? Þessir menn geta beitt alveg nákvæmlega sömu rökum og hommar. Þeir ráða ekki við sig, en í allri þeirri sjúkdómavæðingu, sem gengur yfir Vesturlönd virðist enginn geta séð, að þeir eiga frekar heima á geðsjúkrahúsi en í fangelsi.
Án þess að ég vilji á nokkurn hátt verja þessa menn vil ég þó benda á, að í gegnum tíðina hefur það alls ekki alltaf verið ljóst, hvað er barn. Raunar má fullyrða með vissu, að bókstaflega allir núlifandi Íslendingar, þar á meðal Stígamótakonur, eru afkomendur barnaníðinga í nútímaskilningi, því algengur giftingaraldur fyrr á öldum var hér sem annars staðar 12-14 ár, og stundum yngri. Svo er enn í dag í mörgum löndum heims. Eftir að Khomeini erkiklerkur komst til valda í Íran með háværum stuðningi vinstri manna og Amnesty, var giftingaraldur færður niður í níu ár samkvæmt Sharia- lögum, en yngsta kona Múhammeðs spámanns var einmitt níu ára gömul. Raunar má geta þess til gamans, að það er nánast óhugsandi, að María mey hafi náð núverandi lögaldri, þegar hún átti Jesú.
Fleira er skrýtið. Framleiðsla á barnaklámi er viðurstyggilegur, ógeðslegur glæpur, en á að senda menn í fangelsi fyrir að horfa á viðbjóðinn? Á ekki frekar að senda þá til sálfræðings? Getur það verið glæpur að horfa á raunverulegan glæp, sem framinn var af bláókunnugu fólki í öðru heimshorni fyrir löngu? Glæpamaðurinn situr bara og horfir á eitthvað annað fólk fremja glæp. Þessir menn eiga við alvarleg, sérlega viðbjóðsleg geðræn vandamál að stríða, en er það glæpur? Og hvað með lögreglumennina og dómarana, sem horfa á viðurstyggðina í þágu rannsóknarhagsmuna. Á líka að fangelsa þá?
| Slóð | Athugasemdir (1)
6.7.2007 | 19:51
Alræðisríkið Ísland og Krossferðir og hálfmánaferðir (upprunalegar útgáfur)
Ég ætla að byrja innreið mína í bloggheima, með því að birta í óstyttri mynd tvær greinar frá því í fyrra, sem Mogginn neyddi mig til að stytta mikið til að fara ekki yfir 5000 slaga hámark. Báðar greinarnar eru miklu betri í frumútgáfu.
Alræðisríkið Ísland
Það var Max Weber, sem benti á það fyrstur manna fyrir rúmri öld, að ríkisvald er sá aðili, sem hefur einkarétt á beitingu ofbeldis á tilteknu landsvæði. Þetta gildir alls staðar, líka hér á Íslandi. Hver sá sem ekki vill hlýða skipunum, lögum og reglugerðum valdhafa, verður, neiti hann að hlýða, beittur líkamlegu ofbeldi, dreginn gegn vilja sínum fram fyrir dómara og dæmdur. Neiti hann að greiða sekt, verða lagðar á hann hendur, hann dreginn með valdi í fangelsi og lokaður þar inni. Allt ríkisvald, einnig hið íslenska, byggir í sjálfum kjarna sínum á ofbeldisbeitingu. Langoftast dugar hótunin ein, en henni verður að framfygja, neiti menn að hlýða.
Þetta er sjálfsagður hlutur. Ef ekki væri fyrir hina svartklæddu ofbeldismenn ríkisvaldsins mundu þjófar og morðingjar fá frjálsar hendur og þjóðfélagið leysast upp í frumeindir sínar á örskömmum tíma.
Þetta ættu þó allir að hafa í huga, sem setja lög og reglugerðir, ekki síst alþingismenn. Ég rifja þetta upp því hér á Íslandi hefur maður verið dreginn af lögreglu fyrir sjálfan Hæstarétt og dæmdur samkvæmt lögum sem Alþingi hefur sett, fyrir að benda á blákalda staðreynd. Kannski er hann hinn argasti rasisti. Það kom þó ekki fram í þeim ummælum, sem hann var dæmdur fyrir. Um rasisma hans veit ég ekki neitt, ég þekki manninn ekki. En ef svo er, af hverju má hann þá ekki bara vera rasisti? Það er vissulega ljótt, en hvað kemur það Hæstarétti við? Ég bara spyr.
En hann var ekki dæmdur fyrir skoðanir sínar, sem væri nógu slæmt, heldur fyrir að benda á óhagganlega staðreynd, sem ekki hentar valdhöfum, en er ljós hverju ómálga, óinnrættu barni á löngu færi, nefnilega þá, að svartur maður er allt, allt öðru vísi en hvítur. Í sporum þessa manns mundi ég enga sekt greiða, heldur fara í fangelsi. Ég mundi telja það sérstakan heiður, að verða fyrsti samviskufanginn í sögu lýðveldisins, einkum í ljósi þess, að einhverjir þeirra, sem stóðu að þessari lagasetningu, ákæru og dómi, eru Amnesty- félagar.
Boðorðin þrjú
Alræðisstjórnir eru að því leyti frábrugðnar gamalkunnum, hefðbundnum einræðisstjórnum kónga og keisara, herforingja og annarra pótintáta, að þær byggja völd sín ekki nema að hluta á ofbeldishótun, heldur að mestu á trú þegnanna á hugmyndafræði valdhafa. Með öðrum orðum, þær beita gulrótinni frekar en vendinum. Í fullkomnu alræðisríki þarf aldrei að beita þegnana ofbeldi. Ekki einu sinni ritskoðun. Allt menntakerfið, allir fjölmiðlar, eru í eigu ríkisins og þar fær enginn að starfa nema hann trúi á kenningar valdhafa. Ritskoðun er því óþörf. Allir eru sammála.
Gott dæmi er Norður- Kórea. Kosningatölur, þar sem valdhafar fá 99,99% atkvæða eru alveg örugglega ófalsaðar. Fólkið trúir í raun og sannleika á hinn mikla son, elskar hann og dáir og trúir í blindni á hugmyndafræði hans.
Hvers vegna? Jú, svarið er einfalt. Þar er ekkert tjáningarfrelsi.
Í kjölfar nasismans komu upp, einkum í Bandaríkjunum, nýar kenningar, sem oft eru kenndar við pólitíska rétthugsun, en einnig mætti nefna flathyggju eða eins- hyggju, eða einfaldlega öfug- nasisma, ekki aðeins vegna þær voru upphaflega settar til höfuðs nasistum, heldur einnig vegna þess að þeim er í sívaxandi mæli beitt með sama hætti og í alræðisríkjum nasista og kommúnista, þ.e. með skipulegri innrætingu og heilaþvotti þegnanna og ritskoðun, en þegar hún bregst er beitt dóms- og lögregluvaldi, eins og nú hefur gerst á Íslandi,.
Þessar nýju kenningar má draga saman í þrjú boðorð:
1.Allir kynþættir mannanna eru eins.
2. Konur og karlar eru eins.
3. Samkynhneigð og gagnkynhneigð eru eins.
Elsta boðorðið, og það, sem liggur til grundvallar hinum er það fyrsta. Nasistar, og gyðingar sjálfir, trúa því að hvítt fólk, sem talar mál af tilteknum tungumálaflokki eða hefur tilteknar trúarskoðanir sé í einhverjum líffræðilegum, vefjafræðilegum skilningi af öðrum kynþætti en aðrir hvítir menn. Þeir ímynda sér, að trúarlegur munur gyðinga og kristinna sé sambærilegur við víðtækan, eðlislægan, arfgengan mun t.d. Pólverja og Papúa eða Dana og dverg- svertingja. Þarna er blandað saman eplum og appelsínum, hugmyndafræði og trúarbrögðum annars vegar, en erfðafræði og vefjafræði hins vegar.
Munurinn er sá, að allir geta hætt að vera gyðingar og fjölmargir hafa gert það í aldanna rás. Menn eru gyðingar, af því að þeir vilja vera það. Enginn getur hætt að vera Indíáni eða Ástralíu- frumbyggi, þótt hann feginn vildi.
Það er mála sannast, að sannur Aríi er hávaxinn (eins og Göbbels), grannvaxinn (eins og Göring), og ljóshærður (eins og Hitler). Kenningar nasista væru beinlínis hlægilegar, ef afleiðingarnar hefðu ekki orðið jafn hrikalegar og raun varð á.
En fyrst hugmyndir nasista voru endaleysa, því ekki að lýsa því yfir einhliða, að allir væru eins, svartir og hvítir, karlar og konur, samkynhneigðir og við hinir? Hugmyndin er góð! Og því ekki að beita sömu aðferðum og nasistar og kommúnistar, skipulegri innrætingu frá blautu barnsbeini (sem ávallt er nefnd menntun eða fræðsla, sbr. fræðsla gegn fordómum), ritskoðun og lögregluvaldi? Tilgangurinn helgar jú meðalið og tilgangurinn er vissulega góður.
Nasistar og kommúnistar trúðu því líka, að tilgangur sinn væri góður. Þeir voru að skapa þúsundáraríki, himnaríki á jörðu.
Það eru ekki mörg ár síðan, að hver sá, sem hefði haldið því fram, að svartir væru eins og hvítir, konur eins og karlar og samkynhneigð og gagnkynhneigð væri eins, hefði beinlínis verið talinn viti sínu fjær, og vel hugsanlega hafnað á geðveikrahæli. Þetta hefur breyst. Nú er svo komið, að hver sá, sem efast um þessar nýju kenningar getur átt von á allt að tveggja ára dvöl í fangelsi, skv. 233. grein almennra hegningarlaga. Hæstiréttur hefur sýnt það í verki, að hann er til þjónustu reiðubúinn.
Til að framfylgja kenningunni hefur verið stofnuð hálfopinber, þríarma hugsanalögregla .Alþjóðahúsið sér um að enginn efist um að svartir séu eins og hvítir, Jafnréttisstofa getur lögsótt hvern þann sem efast um að konur séu nákvæmlega eins og karlar og fullkomnir jafnokar þeirra til allra hluta og starfa, og Samtökin 78 geta sigað lögreglu á hvern þann sem efast um að tveir sköllóttir, skeggjaðir karlar í tvíbreiðu rúmi geti verið "hjón".
Alþjóðahúsið hefur þegar fengið einn mann dæmdan, og þeir verða fleiri, því svartir munu halda áfram að vera svartir og hvítir hvítir, konur verða áfram konur og hommar verða áfram hinsegin. Veröldin mun nefnilega halda áfram að vera eins og hún er, ekki eins og við viljum að hún sé.
Lögregla og dómarar munu því fá nóg að starfa um ókomin ár.
Krossferðir og hálfmánaferðir
Sú árátta Vesturlandabúa , einkum þó vinstri manna, að taka jafnan málstað hatursmanna sinna, en svívirða sína eigin menningu er ekki ný.Eitt dæmið er, hvernig menn lengi hafa útmálað hina voðalegu villimennsku Vesturlanda á miðöldum og talað um yfirburði svokallaðrar arabískrar menningar. Einkum þykir fínt að níða niður tilraun kristinna manna til að endurheimta lönd sín, þ.e. krossferðirnar. Það gleymist alveg, að þegar gagnsókn hinna kristnu hófst um 1100 höfðu múslimar verið í samfelldri hálfmánaferð , heilögu stríði (jihad), gegn hinum kristna heimi í meira en fjórar aldir.
. Það gleymist líka, að nánast öll löndin (nema Persía), sem arabar hernámu á sjöundu og áttundu öld, voru kristin, og kristnir voru enn fjölmennir í mörgum þeirra, og sums staðar í meirihluta við upphaf gagnsóknarinnar, þ.e. krossferðanna.
En hver var þessi arabíska menning, sem alltaf er verið að tala um? Mönnum virðist alveg sjást yfir, að löndin, sem arabar réðust á, hertóku og afkristnuðu mynduðu suður- og suðausturhluta Rómaveldis. Arabar höfðu enga menningu að færa því fólki sem byggði þessi lönd, ekkert annað en úlfalda sína, trúbók og tungumál. Kóraninn má ekki þýða, en kunnátta í honum á frummálinu er nauðsynleg múslimum. Arabíska breiddist því hratt út, en gríska og latína hurfu. En íbúar Botnalanda og Norður- Afríku voru ekki arabar, þótt þeir væru orðnir mæltir á arabísku og trúðu nú á Kóraninn í stað Biblíunnar. Þeir voru afkomendur Grikkja, Rómverja, Fönikíumanna, Hittíta, Assýringa og Forn- Egypta og menning þeirra var ekki runnin frá aröbum, heldur þessum ævafornu þjóðum.
Afstaða araba til menningar kom vel fram, þegar þeir hertóku Alexandríu. Bókasafnið mikla stóð enn, þrátt fyrir ýmis fyrri áföll. Amr, foringi arabanna sagði þá eftirfarandi: Ef það, sem stendur í þessum bókum stendur ekki í Kóraninum, er það villutrú. Ef það stendur líka í Kóraninum, þurfum við ekki á því að halda! Síðan lét hann brenna safnið til kaldra kola. Þar týndust endanlega ótalmörg rit grísk-rómverskra heimspekinga, skálda og sagnaritara.
Þó má vel tala um islamska menningu, en hver var hún?. Jú, þeir afrituðu allmikið af þeim (vestrænu) ritum, sem ekki höfðu brunnið í Alexandríu, en lögðu nánast ekki neitt nýtt til málanna. Rómverjar höfðu lengi stundað verslun við Indland og stofnað þar kristna söfnuði og höfðu haft viðskipti allt til Kína. Þetta hélt áfram undir nýjum herrum, en kaupmennirnir töluðu ekki lengur grísku og latínu, heldur arabísku. Á Indlandi kynntust þeir núllinu og indverskum tölustöfum, sem síðan eru ranglega nefndir arabískir.
Arabar og múslimar héldu líka við einum fornum sið, sem hinir frumstæðu Vesturlandabúar aflögðu hjá sér á miðöldum, nefnilega þrælahaldi, þrælasölu og þrælaveiðum, sem þeir stunduðu langt fram á tuttugustu öld og Íslendingar kynntust 1627.
Þegar Múhammeð hóf heilagt stríð gegn hinum kristna heimi á sjöundu öld voru Vesturlönd nánast varnarlaus eftir hrun vesturhluta Rómaveldis. Mannfjöldi hefur aldrei verið minni eftir látlausar styrjaldir þjóðflutningatímans og gífurlega mannskæðar drepsóttir. Í austri voru bæði aust- rómverska ríkið og hið ný- persneska í sárum eftir langvinnar innbyrðis styrjaldir. Sjöunda öldin er myrkust hinna myrku miðalda, svo myrk, að oft er hlaupið yfir hana í sögubókum og farið beint til Arabíu.
Inn í þetta valda- tómarúm réðust herskarar Múhammeðs og eftirmanna hans. Sigurför þeirra er lærdómsrík enn í dag, því hún byggðist ekki á hernaðaryfirburðum innrásarmannanna, heldur á fámenni og innbyrðis sundrungu kristinna manna. Deilurnar skæðu og illskiljanlegu nútímamönnum um heilaga þrenningu og eðli Krists voru þá enn svo illvígar, að fjölmargir kristnir menn, einkum í Sýrlandi og Egyptalandi töldu hinn orþódoxa keisara í Konstantínópel beinlínis vera sjálfan Antí- Krist og tóku herskörum Múhammeðs fagnandi, því hann lofaði þeim, ólíkt keisaranum, trúfrelsi. Það gleymdist að taka fram, að þetta trúfrelsi táknaði, að þeir urðu skattpíndur, nánast réttlaus undirmálslýður. Síðar lét Tyrkjasoldán t.d. kristna menn afhenda sér ung sveinbörn í þrældóm, sem alin voru upp í islam, en síðan voru þessir janitsarar notaðir til að berja á kristnum frændum sínum.
Á Spáni höfðu Vestgotar ríkt sem lítil, lokuð og herská yfirstétt síðan á fimmtu öld. Þeir höfðu framan af talað annað mál og verið annarar trúar en landsmenn, svipað og Márar síðar, en höfðu þó látið af Aríusar- kristni fyrir nokkru og töluðu tungu landsmanna. Þeir lágu í sífelldum innbyrðis illdeilum, einkum um ríkiserfðir og lauk svo, að hópur aðalsmanna keypti múslimskan berbahöfðingja nokkurn, Tarik, og her hans til liðs við sig í deilu við Vestgotakonung.
Kóngur féll í fyrstu orrustunni, og þessi múslimski málaliði sá, að landið var gott, en fyrirstaða lítil og tók því völdin sjálfur.
Herför múslima var gífurlegt áfall hinum kristna heimi. Siglingar á Miðjarðarhafi minnkuðu mjög og t.d. lagðist pappírsnotkun af í Evrópu um skeið, því pappír Rómaveldis hafði allur komið frá Egyptalandi. Árás og innrás múslíma var loks stöðvuð í Suður- Frakklandi, en það var ekki fyrr enn 1095, sem kristnir menn blésu til gagnsóknar.
Ávallt er, og með réttu, talað um ofstæki hinna kristnu, sem var gífurlegt. En uppblásið tal um yfirburði arabískrar menningar undir formerkjum fjölmenningar og pólitískrar rétthugsunar, verður hvimleiðara með hverju ári sem líður.
Vísindi og fræði | Breytt 30.3.2010 kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. september 2007
Gróðurhúsaáhrif væru góð
"Vond eru heimskra manna ráð, en því verri, sem þeir koma fleiri saman".
Ég veit vel, að þegar menn lesa fyrirsögn þessarar greinar munu þeir telja, að nú hafi ég endanlega farið úr límingunum. En svo er alls ekki. Mér er full alvara.
Ég lærði, eins og aðrir sem gengið hafa í gegnum skólakerfið hér að við lifum nú á ísöld, þótt hlýskeið sé. Í raun er loftslag nú afar kalt, sé miðað við jarðsöguna í heild, og raunar einnig á mælikvarða núverandi hlýskeiðs, sem hófst með gífurlegu flóði fyrir eitthvað um tíu-tólf þúsund (ekki milljón) árum. Hlýjast og rakast var fyrstu árþúsundin, en síðan fyrir um 6-7 þúsund árum, skömmu fyrir daga Forn- Egypta, fer loftslag hægt kólnandi og þornandi. Þessi kólnun er ekki jöfn, en þótt hita- og rakakúrfan sé hlykkjótt, liggur hún afdráttarlaust niður á við, mönnunum og gjörvöllu lífríkinu til ómælanlegs tjóns.
Menn hafa fundið merki um 20 eða fleiri hlýskeið á núverandi ísöld, sem staðið hefur í allt að þrjár milljónir (ekki þúsundir) af 4.500 milljóna ára sögu jarðarinnar, og hafa sum þeirra augljóslega verið miklu hlýrri en það sem nú ríkir. Um ástæður þeirra, og sjálfrar ísaldarinnar, er ekkert vitað með vissu. Fundist hafa merki um nokkrar aðrar ísaldir á fyrri tímaskeiðum, en þær hafa verið tiltölulega stuttar sé miðað við heildarlengd jarðsögunnar.
Menn hljóta að hafa lært eins og ég, að mest alla milljarða ára sögu jarðarinnar hefur hiti verið allt frá tíu og stundum allt að 20 stigum hærri en nú, og lítill, og oftast enginn ís við heimskautin. Mest alla jarðsögu Íslands, þ.e. fyrstu 15-20 milljón (ekki þúsund) árin þar til núverandi ísöld hófst, var loftslag og gróður hér svipaður og nú er í Norður- Kaliforníu, svo sem sjá má á surtarbrandslögum og steingervingum á Tjörnesi og víðar. Slíkt loftslag er Íslandi og jörðinni allri eðlilegt, ekki ísaldarkuldinn, sem nú ríkir, þrátt fyrir hlýskeið.
Fyrstu árþúsundin eftir flóðið mikla, sem markar upphaf núverandi hlýskeiðs var loftslag á norðurslóðum a.m.k. 4-5 stigum hlýrra en nú er, miklu heitara en jafnvel ofstækisfyllstu spámenn heimsendafræðinga nútímans, svokallaðra umhverfisverndarsinna gera ráð fyrir í svörtustu spám sínum. Meginjöklar á Suðurskautslandinu og Grænlandi bráðnuðu þó ekki og yfirborð sjávar var sáralítið hærra en nú. Ísbirnir lifðu góðu lífi örlítið norðar en nú.
Þá var Ísland nánast paradís á jörðu í samanburði við það sem nú er, enginn Vatnajökull, aðeins fáeinar jökulhettur á hæstu tindum og landið allt grænt og gróðri vafið. Allt lífríkið tók við sér. Gífurleg landflæmi víða um heim, sem höfðu verið lítt byggileg vegna kulda eða þurrka, urðu nú aftur lífvænleg mönnum, dýrum og jurtum. Uppgufun úr höfunum jókst, og hið hlýja loft gat tekið til sín meiri raka en áður. Sahara- eyðimörkin var grasi gróin og þéttbyggð mönnum og skepnum. Síðan kólnaði hægt og hægt og þornaði, svo byggðin færðist til strandar og í Nílardalinn. Þessi þróun náði hámarki um aldamótin 1900, en þá voru jöklar á Íslandi og annars staðar meiri en nokkru sinni frá því á jökulskeiði. Jafnframt því að Vatnajökull og aðrir smájöklar á norður- og suðurhveli hafa verið að myndast hafa eyðimerkur hvarvetna verið að stækka, uppgufun minnkar úr höfunum, og kalt loftið inniheldur minni raka en fyrr. Enn á tímum Rómverja voru borgir reistar í blómlegum landbúnaðarhéruðum Norður- Afríku, þar sem nú eru sandöldur einar.
Jörðin stefnir óhjákvæmilega inn í nýtt jökulskeið eftir nokkur þúsund ár. Allt að þriggja kílómetra þykkur jökull mun þá aftur leggjast þar yfir, sem ýmsar helstu borgir Vestur-Evrópu og Norður- Ameríku standa nú.
Þetta er engin barnaleg heimsendaspá, þetta hefur gerst 20 sinnum eða oftar á núverandi ísöld og mun alveg örugglega gerast aftur. Gróðurhúsaáhrifin, ef einhver eru, gætu hugsanlega hægt á þessari þróun eða stöðvað hana. Vonandi fer svo.
Það eru engin sérstök tíðindi, að mesti óvinur alls sem lifir, er frost og kuldi. Þetta vita allir. Skynlausar skepnur, fuglar, fiskar, skordýr, grös og jurtir vita þetta og leita því ávallt í hlýjuna. Umhverfisverndarsinnar, vita þetta hins vegar augljóslega ekki. Þeir, og margir stjórnmálamenn, t.d. Al Gore fyrrum varaforseti, hafa fengið þá flugu í höfuðið að hlýjan, vinur alls sem lifir, sé vond. Hin meinlokan er þó enn undarlegri, en hún er sú, að heimurinn muni farast, ef hlýnar eitthvað agnarlítið aftur á næstu hundrað árum.
Ég vil undirstrika þetta litla orð aftur alveg sérstaklega. Það heyrist nefnilega aldrei í umræðunni. Alltaf er talað um hlýnun aldrei, eins og rétt er, um endurhlýnun. En af hverju allur þessi ótti við hlýjuna? Mér sýnist ástæðan vera augljós: Ömurlegt ástand náttúrufræðikennslu austan hafs og vestan. Það er slæmt hér, en utanlands virðist ástandið enn miklu verra. Hinir erlendu fjölmiðlamenn, sem áttu upptökin að umræðunni um gróðurhúsaáhrifinog ráða henni, virðast almennt hafa verið tossar í skóla, og stjórnmálamennirnir, sem ákvarðanir taka, að mestu út frá skrifum fávísra æsifréttablaðamanna, sýnast hafa verið álíka grænir í flestum námsgreinum.
Ég endurtek og undirstrika: Gróðurhúsaáhrif væru góð!
Bloggar | Breytt 2.10.2007 kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 24. september 2007
Úðabrúsanotkun Eldlendinga
Þessi grein birtist fyrst í Mogganum í ágúst 1999, en hún hefur í engu tapað gildi sínu. Þvert á móti. Ósóngatið hvarf nokkrum árum eftir birtingu greinarinnar, en kom svo aftur, og það er orðið alveg ljóst, að hér er um náttúrufyrirbæri að ræða, óháð brölti mannanna. Barnalegar yfirlýsingar um að eitthver alþjóðasáttmáli um ísskápa og úðabrúsa hafi átt þátt í minnkun ósóngatisns er ekki annað en hjákátlegt yfirklór. Menn munu kannski veita því athygli að ég tók nokkrar línur og setningar úr þessari grein þegar ég skrifað nýjustu grein mína um þessi mál, Þjóðmálagreinina "Að flýta ísöldinni" V.E.
HEIMSENDAFÁR gengur nú yfir löndin og á nýja árþúsundið vafalaust þátt í því. Þetta er ekki í fyrsta sinn, því á síðari hluta tíundu aldar breiddist sú hugmynd sem eldur í sinu um hinn kristna heim, að dómsdags væri að vænta árið 1000. Mundu þá kristnir einir bjargast, en heiðnir brenna í víti. Hófst nú eitt mesta kristinboðsátak sögunnar, og kristnaðist Mið- og Austur-Evrópa á fáum árum ásamt Garðaríki, svo og Danmörk, Noregur, Grænland og Ísland.
Heimsendirinn, sem lofað hafði verið árið 1000, lét þó á sér standa, og hefur kirkjan æ síðan ekkert viljað ræða fárið. Hún hélt þó fast í hina gífurlegu landvinninga sína. Heimsendafársins mikla er t.d. hvergi getið í þeirri ritskoðuðu Íslendingabók sem varðveist hefur. Raunar hefur lengi verið prívatskoðun mín, að það hafi verið heiðnir menn, sem bentu á umhverfið og sögðu: "Hverju reiddist Guð..." (ekki goðin) þegar eldgos hófst þar sem þingheimur, eða a.m.k. hinn kristni hluti hans, beið í ofvæni eftir heimsendi, skjálfandi á beinunum, á Þingvöllum árið 1000. Eldgosið var túlkað sem upphaf heimsendisins. Íslendingabók er eina fornritið, sem vitað er um með vissu, að kirkjan ritskoðaði og beinlínis breytti og mér finnst afar líklegt, að hin fleygu orð Ara um að "hafa það, sem sannara reynist" vísi til ritskoðara hans.
Heimsendafræði (eskatólógía á lærðra manna máli) var eitt höfuðviðfangsefni miðaldaguðfræðinga. Töldu hinir lærðustu menn miðalda einsýnt, að syndugt líferni mannanna, græðgi og illska mundi fljótlega kalla yfir þá eld og brennistein, pestir og kýli uns mannkynið tortímdist með öllu fyrir sakir vonsku sinnar, synda og almennrar fúlmennsku. Eskatólógum tókst þó aldrei að dagsetja heimsendi almennilega, hann dróst von út viti og er ekki kominn enn. Minnir þetta afar mikið á málflutning þeirra, sem grænastir eru og vitlausastir í "umræðunni" nú til dags.
Fárið, sem núna steðjar að er að sögn þessa fólks í tvennu lagi. Í fyrsta lagi valdi syndugt líferni mannanna, græðgi þeirra og illska alveg voðalegri mengun, sem hafi gert gat á ósónlagið, þó ekki á norðurhveli þar sem flestallt fólkið býr, heldur í óbyggðum hinum megin á hnettinum. Þeir, sem ekki brenni lifandi sleppi þó ekki, heldur drukkni. Það sé nefnilega að hlýna í veðrinu af völdum títtnefnds syndugs lífernis mannfólksins. Muni því ísinn bráðna, en hann er nánast allur í fyrrnefndum óbyggðum hinum megin á hnettinum. Hafið muni síðan flæða yfir löndin.
Tölvufræðingar, framleiðendur og seljendur hafa svo komið sér upp þriðja fárinu, en um þá matarholu þeirra verður ekki fjallað hér, enda fellur "2000-vandinn" fremur undir markaðsfræði en eiginlega heimsendafræði.
Útfjólublátt ljós myndar ósónlagið
Byrjum á ósónvandanum: Ég játa fúslega, að ég man næsta fátt úr þeirri takmörkuðu efna- og eðlisfræði sem kennd var í máladeild MR á sjöunda áratugnum. Þó man ég nokkur mikilvæg atriði um ósón, sem ég veit ekki betur en séu enn almennt viðurkennd og standi óhögguð. Hefur vakið sívaxandi undrun mína undanfarin ár, að enginn skuli hafa á þau bent, svo alkunn sem þau eru.
Í fyrsta lagi: Ósón er ekki fágæt lofttegund, sem aldrei kemur aftur þegar hún eyðist, heldur einfaldlega hreint súrefni í annarri mynd. Sameind ósóns hefur þrjár frumeindir í stað tveggja í venjulegu súrefni og hefur það því allt aðra eiginleika, er m.a. eitrað. Í öðru lagi: Stöðug nýmyndun ósóns úr súrefni á sér stað í náttúrunni, t.d. við eldingar, og allir þekkja ósónlykt, sem gýs upp þegar skammhlaup verður í rafmagnstækjum. Það myndast einnig m.a. í bílvélum og í útfjólubláum lömpum.
Í þriðja lagi, og það sem mestu máli skiptir: Ósónlagið verndar ekki einungis jörðina gegn útfjólubláum geislum sólar, heldur er beinlínis myndað af þeim.
Þetta má sjá einkar vel við bæði heimskautin, en þar er ósónlagið þykkast á haustin, þegar útfjólubláir geislar sólar hafa skinið á þunnt súrefnið í efstu lögum gufuhvolfsins mánuðum saman og breytt því í ósón. Jafnskjótt og heimskautanóttin skellur á fer ósónið aftur að breytast í súrefni og lagið að þynnast, enda er ósón miklu óstöðugra en venjulegt súrefni. Þá taka við svonend kolflúorsambönd (CFC), sem eyða ósóni og ekki koma nema af afar litlu leyti úr ísskápum og úðabrúsum, heldur hafa streymt úr iðrum jarðar í örlitlu magni frá því hún var glóandi eldhnöttur og hafa alla tíð verið til staðar sem snefilefni í gufuhvolfinu. Verður ósónlagið því þynnst á vorin, en jafnskjótt og sólin, og þar með útfjólublátt ljós, fer aftur að skína þykknar það á ný þar til það nær hámarksþykkt næsta haust. Fjarri heimskautunum, þar sem útfjólublátt ljós sólar skín á súrefnið í gufuhvolfinu alla daga ársins er ósónlagið stöðugt allan ársins hring, og engin marktæk breyting á þykkt þess hefur þar nokkurn tíma mælst.
Hvar er ósóngatið á norðurhveli?
Samkvæmt kenningum græningja veldur loftmengun ósóngatinu á suðurhveli.
Þetta er skrýtið. Vegna snúnings jarðar og miðflóttaafls skiptast veðurkerfi norður- og suðurhvels að mestu í tvennt við miðbaug (Coriolis- kraftar). Sú mengun, sem verður til í iðnríkjunum á norðurhveli kemst ekki nema að afar litlu leyti suður í hitabelti, hvað þá langt suður fyrir það. Og hvers vegna er þá ekkert ósóngat á norðurhveli, þar sem yfir 90% mengunarinnar verða til?
Samkvæmt nýlegum tölum S.þ. fara um 6,4% iðnaðarmengunar heimsins fram í hitabelti og á suðurhveli. Löndin, sem nefnd eru, eru þó flestöll í hitabeltinu að meira eða minna leyti. Stórborgir í tempraða beltinu syðra má telja á fingrum sér, og þær eru allar í næsta nágrenni hitabeltis, álíka langt frá suðurskauti og Flórida er frá norðurskauti. Þar fyrir sunnan er mengun nánast engin, trúlega langt innan við 0,001% af heildinni. Tempraða beltið syðra er að mestu þakið víðáttumesta, fáfarnasta, og jafnframt ómengaðasta úthafi á jarðarkringlunni, og sunnan til búa miklu fleiri sauðkindur en menn. Á sömu breiddargráðum norðurhvels, sem er jafn stórt, er hins vegar m.a. að finna Bandaríkin, Evrópu, Rússland, Kína og Japan. Þar verða 93.6% heildarmengunarinnar til, samkvæmt fyrrnefndum tölum, að hluta til inni á sjálfu norðurheimskautssvæðinu. En hvar er ósóngatið?
Umferð flugvéla í háloftunum er talin einkar skaðleg ósónlaginu. Á Suðurskautslandinu hafa aðsetur fáeinir vísindamenn, miklu færri en íbúar við Grettisgötu í Reykjavík. Fáeinar lágfleygar flutningavélar færa þeim vistir nokkrum sinnum á ári. Um aðra mengun er ekki að ræða.
Um háloftin yfir norðurheimskautssvæðinu, sem er jafn stórt, fara hins vegar risastórar farþegaþotur meira en hundrað þúsund sinnum á ári hverju. Þar búa milljónir manna og stórar, mengandi borgir á borð við Murmansk eru langt inni á sjálfu heimskautasvæðinu. Og ég spyr aftur: Hvar er ósóngatið á norðurhveli?
Kuldi meginástæðan
Ég sá ágæta skýringu á ósóngatinu í lítilli grein í erlendu blaði fyrir nokkrum árum og var hún höfð eftir hópi vísindamanna við bandarískan háskóla, sem verið höfðu við rannsóknir á Suðurskautslandinu. Þessi skýring samrýmist ekki þeirri "pólitískri rétthugsun" sem nú er í tísku að fylgja, því mengunarkenningunni er alfarið hafnað, enda segja þeir enga slíka mengun hafa fundist. Var greinin því höfð á lítt áberandi stað á innsíðu, en meginatriðin voru eftirfarandi:
Gufuhvolfið sé dálítið grynnra yfir Suðurskautslandinu, enda heimskautið sjálft í um þriggja kílómetra hæð, en miklu meira máli skipti frostið, sem þar ríkir, sem getur orðið allt að 100 stig. Þessi fimbulkuldi hægi á öllum efnabreytingum, þar á meðal ummyndun súrefnis í ósón á sumrin. Hitastig hafi farið lækkandi þar syðra undanfarin ár og sé það, ásamt sólblettum líklegasta skýringin á tímabundinni stækkun ósóngatsins. Þá telja þeir líklegt að ósóngat hafi verið til staðar alla núverandi ísöld, eða um 3 milljónir ára, stækkað á kuldaskeiðum, en minnkað á hlýviðrisskeiðum eins og því sem nú ríkir. Á norðurhveli sé miklu hlýrra og því ekkert ósóngat.
Skýringu á því, hvers vegna ekkert ósóngat fannst á alþjóðlega jarðvísindaárinu 1958 segja þeir líklega vera, að mælingaaðferðir hafi þá verið frumstæðari en nú, enda hafi þá enginn verið að leita sérstaklega að þessu fyrirbæri, sem þá var enn óþekkt.
Það er athyglisvert, hve fáir alvöru vísindamenn hafa viljað koma nálægt "umræðunni" um ósóngatið og það sama gildir einnig og ekki síður um hina "umræðuna", þ.e. þá um "gróðurhúsaáhrifin" en um hana mun ég fjalla síðar. Þeir, sem á annað borð tjá sig eru gjarnan með próf í einhverri allt annarri fræðigrein. Yfirlýsingar dýrafræðings eða grasafræðings um veðurfræðileg efni eru álíka marktækar og t.d. yfirlýsingar tannlæknis um verkfræði eða jarðfræðings um stjörnufræði.
Því er það, að þessi "umræða" hefur að mestöllu leyti verið í höndum erlendra blaðamanna, sem augljóslega skortir lágmarks undirstöðumenntun, ekki aðeins í náttúruvísindum, heldur í barnaskólalandafræði, vita t.d. ekki, hve sáralítil byggð er á suðurhveli jarðar og halda í einfeldni sinni að fyrst norðurhvelið sé mengað hljóti suðurhvelið að vera eins. Stjórnmálamenn, sem eru álíka grænir í landafræði sem öðru, taka síðan ákvarðanir út frá skrifum æsifréttablaðamanna, enda líklegt til vinsælda. Það stríðir nefnilega gegn ríkjandi "pólitískri rétthugsun" að malda í móinn gegn "umhverfisverndarsinnum", er álíka viðsjárvert og að hallmæla konum, hommum, svertingjum, dvergum, feitu fólki eða öðrum, sem eiga undir högg að sækja í lífsbaráttunni.
Sem dæmi um endaleysuna má taka þá kenningu að ósóngatið sé af völdum úðabrúsa. Syðstir jarðarbúa eru Eldlendingar. Samkvæmt kenningum "umhverfisverndarsinna" hlýtur úðabrúsanotkun þessa fátæka fólks að vera ein meginástæðan fyrir ósóngatinu, því að frátöldum fyrrnefndum vísindamönnum á Suðurskautslandinu, sem nota örugglega mjög lítið hárlakk, er ekki um aðra úðabrúsa að ræða á suðurhveli jarðar nær heimskautinu. Mikil er því synd Eldlendinga, sem eru álíka margir og íbúar í Breiðholtshverfi í Reykjavík og álíka langt frá suðurskauti og Lundúnabúar eru frá norðurskauti.
Eða eiga kannski sauðkindur Patagóníumanna sökina?
Að lokum: Vandamálið er ekki skortur á ósóni, heldur offramleiðsla þess. Það myndast sem fyrr sagði í bílvélum og er ein meginuppistaðan í stórborgarmengun nútímans. Hefur ósóneitrun orðið þar þúsundum að bana undanfarin ár.
Ósóngatið hefur engan drepið.
Og ég spyr í allra síðasta sinn: Ef mengun er orsökin, hvar er þá ósóngatið á norðurhveli?
Vísindi og fræði | Breytt 15.2.2016 kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 11. ágúst 2007
Kyn-leg hugleiðing
Það væri fjarri mér að hallmæla konum, hommum, svertingjum, dvergum eða feita fólkinu. Það væri ljótt, og ég er ekki ódó. Hinu er ekki að leyna, að mér hundleiðist brölt þessa fólks, ekki síst svonefnd réttindabarátta neðanþindar- þrýstihópanna tveggja, femínista og hómósexúalista.
Neðanþindar- þráhyggja ýmis konar er nú í tísku og þykir fín, enda ættuð frá Bandaríkjunum, landinu sem vinstri menn stela hugmyndum sínum frá, en þakka fyrir með hatri. Þar vestra hefur komið í ljós, að ýmsar kynhneigðir, sem menn einu sinni kölluðu fýsnir og töldu í einfeldni sinni vera ó- eðlilegar, þ.e. ó- náttúrulegar, eru í raun hið besta mál. Þeir sem einu sinni voru kallaðir öfugir, ef ekki beinlínis ramm- sódómískir, eru nú samkynhneigðirog flottir. Meira að segja S/M þykir kinkí og fínt. Konur halda upp á V- daginn(sbr. Vagina) með pomp og pragt, og hommar fara í skrúðgöngu á R- daginn (sbr Rectum)og því ekki það?
Þetta er allt í góðu lagi og sama er mér. Ég hirði hvergi um, hvað annað fólk gerir í svefnherberginu heima hjá sér. Þó þykir mér flíkunarheigðin, sem einkennir marga Bandaríkjamenn, svo og málsvara neðanþindar- æxlunarfæra- og líkamsopa- þrýstihópanna tveggja, hómósexúalista og femínista, alveg sérstaklega hvimleið. Það minnir mig helst á fólk, sem í sífellu þarf að vera að segja öðrum, hvað það hafi verið að gera á klósettinu.
Uppákoma alþingiskvenna á síðasta V- degi fannst mér merkileg og skemmtileg. Hvað skyldi Þorgeir Ljósvetningagoði hafa sagt? Eða Njáll? Eða Skarphéðinn?
En allt þetta umburðarlyndi kallar á andstæðu sína. Enginn heilvita maður þorir nú orðið að gefa sig á tal við ókunnug börn. Það kostar viðbjóðslegar, viðurstyggilegar ásakanir. Nú er mjög í tísku í hjónaskilnaðarmálum, og ekki aðeins í Bandaríkjunum, að saka eiginmanninn um kynferðislega misnotkun. Konurnar, sem bera viðbjóðinn á borð vita vel, að þær komast upp með það óáreittar. Í slíkum málum dugar iðulega ásökunin ein, óháð málavöxtum, svipað og í galdra- réttarhöldum fyrr á öldum. Ofstækið er yfirþyrmandi og í fullkominni andstæðu við allt umburðarlyndið.
Ég man að Flosi sagði einhvern tíma í Þjóðviljanum, að nauðgun væri kynferðislegt atferli, þangað til báðum þykir það gott. Þetta var í gamla daga. Nú væri óhugsandi að láta slíkt frá sér fara. Flosi yrði lögsóttur. Alræðisöflin sækja stöðugt á.
Ein kynhneigð, sem raunar er alveg sérlega viðbjóðsleg, hefur alveg orðið útundan í öllu frjálslyndinu, nefnilega barn- kynhneigð. Hvers vegna? Þessir menn geta beitt alveg nákvæmlega sömu rökum og hommar. Þeir ráða ekki við sig, en í allri þeirri sjúkdómavæðingu, sem gengur yfir Vesturlönd virðist enginn geta séð, að þeir eiga frekar heima á geðsjúkrahúsi en í fangelsi.
Án þess að ég vilji á nokkurn hátt verja þessa menn vil ég þó benda á, að í gegnum tíðina hefur það alls ekki alltaf verið ljóst, hvað er barn. Raunar má fullyrða með vissu, að bókstaflega allir núlifandi Íslendingar, þar á meðal Stígamótakonur, eru afkomendur barnaníðinga í nútímaskilningi, því algengur giftingaraldur fyrr á öldum var hér sem annars staðar 12-14 ár, og stundum yngri. Svo er enn í dag í mörgum löndum heims. Eftir að Khomeini erkiklerkur komst til valda í Íran með háværum stuðningi vinstri manna og Amnesty, var giftingaraldur færður niður í níu ár samkvæmt Sharia- lögum, en yngsta kona Múhammeðs spámanns var einmitt níu ára gömul. Raunar má geta þess til gamans, að það er nánast óhugsandi, að María mey hafi náð núverandi lögaldri, þegar hún átti Jesú.
Fleira er skrýtið. Framleiðsla á barnaklámi er viðurstyggilegur, ógeðslegur glæpur, en á að senda menn í fangelsi fyrir að horfa á viðbjóðinn? Á ekki frekar að senda þá til sálfræðings? Getur það verið glæpur að horfa á raunverulegan glæp, sem framinn var af bláókunnugu fólki í öðru heimshorni fyrir löngu? Glæpamaðurinn situr bara og horfir á eitthvað annað fólk fremja glæp. Þessir menn eiga við alvarleg, sérlega viðbjóðsleg geðræn vandamál að stríða, en er það glæpur? Og hvað með lögreglumennina og dómarana, sem horfa á viðurstyggðina í þágu rannsóknarhagsmuna. Á líka að fangelsa þá?
Mannréttindi | Breytt 30.3.2010 kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 6. júlí 2007
Alræðisríkið Ísland og Krossferðir og hálfmánaferðir (upprunalegar útgáfur)
Alræðisríkið Ísland
Það var Max Weber, sem benti á það fyrstur manna fyrir rúmri öld, að ríkisvald er sá aðili, sem hefur einkarétt á beitingu ofbeldis á tilteknu landsvæði. Þetta gildir alls staðar, líka hér á Íslandi. Hver sá sem ekki vill hlýða skipunum, lögum og reglugerðum valdhafa, verður, neiti hann að hlýða, beittur líkamlegu ofbeldi, dreginn gegn vilja sínum fram fyrir dómara og dæmdur. Neiti hann að greiða sekt, verða lagðar á hann hendur, hann dreginn með valdi í fangelsi og lokaður þar inni. Allt ríkisvald, einnig hið íslenska, byggir í sjálfum kjarna sínum á ofbeldisbeitingu. Langoftast dugar hótunin ein, en henni verður að framfygja, neiti menn að hlýða.
Þetta er sjálfsagður hlutur. Ef ekki væri fyrir hina svartklæddu ofbeldismenn ríkisvaldsins mundu þjófar og morðingjar fá frjálsar hendur og þjóðfélagið leysast upp í frumeindir sínar á örskömmum tíma.
Þetta ættu þó allir að hafa í huga, sem setja lög og reglugerðir, ekki síst alþingismenn. Ég rifja þetta upp því hér á Íslandi hefur maður verið dreginn af lögreglu fyrir sjálfan Hæstarétt og dæmdur samkvæmt lögum sem Alþingi hefur sett, fyrir að benda á blákalda staðreynd. Kannski er hann hinn argasti rasisti. Það kom þó ekki fram í þeim ummælum, sem hann var dæmdur fyrir. Um rasisma hans veit ég ekki neitt, ég þekki manninn ekki. En ef svo er, af hverju má hann þá ekki bara vera rasisti? Það er vissulega ljótt, en hvað kemur það Hæstarétti við? Ég bara spyr.
En hann var ekki dæmdur fyrir skoðanir sínar, sem væri nógu slæmt, heldur fyrir að benda á óhagganlega staðreynd, sem ekki hentar valdhöfum, en er ljós hverju ómálga, óinnrættu barni á löngu færi, nefnilega þá, að svartur maður er allt, allt öðru vísi en hvítur. Í sporum þessa manns mundi ég enga sekt greiða, heldur fara í fangelsi. Ég mundi telja það sérstakan heiður, að verða fyrsti samviskufanginn í sögu lýðveldisins, einkum í ljósi þess, að einhverjir þeirra, sem stóðu að þessari lagasetningu, ákæru og dómi, eru Amnesty- félagar.
Boðorðin þrjú
Alræðisstjórnir eru að því leyti frábrugðnar gamalkunnum, hefðbundnum einræðisstjórnum kónga og keisara, herforingja og annarra pótintáta, að þær byggja völd sín ekki nema að hluta á ofbeldishótun, heldur að mestu á trú þegnanna á hugmyndafræði valdhafa. Með öðrum orðum, þær beita gulrótinni frekar en vendinum. Í fullkomnu alræðisríki þarf aldrei að beita þegnana ofbeldi. Ekki einu sinni ritskoðun. Allt menntakerfið, allir fjölmiðlar, eru í eigu ríkisins og þar fær enginn að starfa nema hann trúi á kenningar valdhafa. Ritskoðun er því óþörf. Allir eru sammála.
Gott dæmi er Norður- Kórea. Kosningatölur, þar sem valdhafar fá 99,99% atkvæða eru alveg örugglega ófalsaðar. Fólkið trúir í raun og sannleika á hinn mikla son, elskar hann og dáir og trúir í blindni á hugmyndafræði hans.
Hvers vegna? Jú, svarið er einfalt. Þar er ekkert tjáningarfrelsi.
Í kjölfar nasismans komu upp, einkum í Bandaríkjunum, nýar kenningar, sem oft eru kenndar við pólitíska rétthugsun, en einnig mætti nefna flathyggju eða eins- hyggju, eða einfaldlega öfug- nasisma, ekki aðeins vegna þær voru upphaflega settar til höfuðs nasistum, heldur einnig vegna þess að þeim er í sívaxandi mæli beitt með sama hætti og í alræðisríkjum nasista og kommúnista, þ.e. með skipulegri innrætingu og heilaþvotti þegnanna og ritskoðun, en þegar hún bregst er beitt dóms- og lögregluvaldi, eins og nú hefur gerst á Íslandi,.
Þessar nýju kenningar má draga saman í þrjú boðorð:
1.Allir kynþættir mannanna eru eins.
2. Konur og karlar eru eins.
3. Samkynhneigð og gagnkynhneigð eru eins.
Elsta boðorðið, og það, sem liggur til grundvallar hinum er það fyrsta. Nasistar, og gyðingar sjálfir, trúa því að hvítt fólk, sem talar mál af tilteknum tungumálaflokki eða hefur tilteknar trúarskoðanir sé í einhverjum líffræðilegum, vefjafræðilegum skilningi af öðrum kynþætti en aðrir hvítir menn. Þeir ímynda sér, að trúarlegur munur gyðinga og kristinna sé sambærilegur við víðtækan, eðlislægan, arfgengan mun t.d. Pólverja og Papúa eða Dana og dverg- svertingja. Þarna er blandað saman eplum og appelsínum, hugmyndafræði og trúarbrögðum annars vegar, en erfðafræði og vefjafræði hins vegar.
Munurinn er sá, að allir geta hætt að vera gyðingar og fjölmargir hafa gert það í aldanna rás. Menn eru gyðingar, af því að þeir vilja vera það. Enginn getur hætt að vera Indíáni eða Ástralíu- frumbyggi, þótt hann feginn vildi.
Það er mála sannast, að sannur Aríi er hávaxinn (eins og Göbbels), grannvaxinn (eins og Göring), og ljóshærður (eins og Hitler). Kenningar nasista væru beinlínis hlægilegar, ef afleiðingarnar hefðu ekki orðið jafn hrikalegar og raun varð á.
En fyrst hugmyndir nasista voru endaleysa, því ekki að lýsa því yfir einhliða, að allir væru eins, svartir og hvítir, karlar og konur, samkynhneigðir og við hinir? Hugmyndin er góð! Og því ekki að beita sömu aðferðum og nasistar og kommúnistar, skipulegri innrætingu frá blautu barnsbeini (sem ávallt er nefnd menntun eða fræðsla, sbr. fræðsla gegn fordómum), ritskoðun og lögregluvaldi? Tilgangurinn helgar jú meðalið og tilgangurinn er vissulega góður.
Nasistar og kommúnistar trúðu því líka, að tilgangur sinn væri góður. Þeir voru að skapa þúsundáraríki, himnaríki á jörðu.
Það eru ekki mörg ár síðan, að hver sá, sem hefði haldið því fram, að svartir væru eins og hvítir, konur eins og karlar og samkynhneigð og gagnkynhneigð væri eins, hefði beinlínis verið talinn viti sínu fjær, og vel hugsanlega hafnað á geðveikrahæli. Þetta hefur breyst. Nú er svo komið, að hver sá, sem efast um þessar nýju kenningar getur átt von á allt að tveggja ára dvöl í fangelsi, skv. 233. grein almennra hegningarlaga. Hæstiréttur hefur sýnt það í verki, að hann er til þjónustu reiðubúinn.
Til að framfylgja kenningunni hefur verið stofnuð hálfopinber, þríarma hugsanalögregla .Alþjóðahúsið sér um að enginn efist um að svartir séu eins og hvítir, Jafnréttisstofa getur lögsótt hvern þann sem efast um að konur séu nákvæmlega eins og karlar og fullkomnir jafnokar þeirra til allra hluta og starfa, og Samtökin 78 geta sigað lögreglu á hvern þann sem efast um að tveir sköllóttir, skeggjaðir karlar í tvíbreiðu rúmi geti verið "hjón".
Alþjóðahúsið hefur þegar fengið einn mann dæmdan, og þeir verða fleiri, því svartir munu halda áfram að vera svartir og hvítir hvítir, konur verða áfram konur og hommar verða áfram hinsegin. Veröldin mun nefnilega halda áfram að vera eins og hún er, ekki eins og við viljum að hún sé.
Lögregla og dómarar munu því fá nóg að starfa um ókomin ár.
Krossferðir og hálfmánaferðir
Sú árátta Vesturlandabúa , einkum þó vinstri manna, að taka jafnan málstað hatursmanna sinna, en svívirða sína eigin menningu er ekki ný.Eitt dæmið er, hvernig menn lengi hafa útmálað hina voðalegu villimennsku Vesturlanda á miðöldum og talað um yfirburði svokallaðrar arabískrar menningar. Einkum þykir fínt að níða niður tilraun kristinna manna til að endurheimta lönd sín, þ.e. krossferðirnar. Það gleymist alveg, að þegar gagnsókn hinna kristnu hófst um 1100 höfðu múslimar verið í samfelldri hálfmánaferð , heilögu stríði (jihad), gegn hinum kristna heimi í meira en fjórar aldir.
. Það gleymist líka, að nánast öll löndin (nema Persía), sem arabar hernámu á sjöundu og áttundu öld, voru kristin, og kristnir voru enn fjölmennir í mörgum þeirra, og sums staðar í meirihluta við upphaf gagnsóknarinnar, þ.e. krossferðanna.
En hver var þessi arabíska menning, sem alltaf er verið að tala um? Mönnum virðist alveg sjást yfir, að löndin, sem arabar réðust á, hertóku og afkristnuðu mynduðu suður- og suðausturhluta Rómaveldis. Arabar höfðu enga menningu að færa því fólki sem byggði þessi lönd, ekkert annað en úlfalda sína, trúbók og tungumál. Kóraninn má ekki þýða, en kunnátta í honum á frummálinu er nauðsynleg múslimum. Arabíska breiddist því hratt út, en gríska og latína hurfu. En íbúar Botnalanda og Norður- Afríku voru ekki arabar, þótt þeir væru orðnir mæltir á arabísku og trúðu nú á Kóraninn í stað Biblíunnar. Þeir voru afkomendur Grikkja, Rómverja, Fönikíumanna, Hittíta, Assýringa og Forn- Egypta og menning þeirra var ekki runnin frá aröbum, heldur þessum ævafornu þjóðum.
Afstaða araba til menningar kom vel fram, þegar þeir hertóku Alexandríu. Bókasafnið mikla stóð enn, þrátt fyrir ýmis fyrri áföll. Amr, foringi arabanna sagði þá eftirfarandi: Ef það, sem stendur í þessum bókum stendur ekki í Kóraninum, er það villutrú. Ef það stendur líka í Kóraninum, þurfum við ekki á því að halda! Síðan lét hann brenna safnið til kaldra kola. Þar týndust endanlega ótalmörg rit grísk-rómverskra heimspekinga, skálda og sagnaritara.
Þó má vel tala um islamska menningu, en hver var hún?. Jú, þeir afrituðu allmikið af þeim (vestrænu) ritum, sem ekki höfðu brunnið í Alexandríu, en lögðu nánast ekki neitt nýtt til málanna. Rómverjar höfðu lengi stundað verslun við Indland og stofnað þar kristna söfnuði og höfðu haft viðskipti allt til Kína. Þetta hélt áfram undir nýjum herrum, en kaupmennirnir töluðu ekki lengur grísku og latínu, heldur arabísku. Á Indlandi kynntust þeir núllinu og indverskum tölustöfum, sem síðan eru ranglega nefndir arabískir.
Arabar og múslimar héldu líka við einum fornum sið, sem hinir frumstæðu Vesturlandabúar aflögðu hjá sér á miðöldum, nefnilega þrælahaldi, þrælasölu og þrælaveiðum, sem þeir stunduðu langt fram á tuttugustu öld og Íslendingar kynntust 1627.
Þegar Múhammeð hóf heilagt stríð gegn hinum kristna heimi á sjöundu öld voru Vesturlönd nánast varnarlaus eftir hrun vesturhluta Rómaveldis. Mannfjöldi hefur aldrei verið minni eftir látlausar styrjaldir þjóðflutningatímans og gífurlega mannskæðar drepsóttir. Í austri voru bæði aust- rómverska ríkið og hið ný- persneska í sárum eftir langvinnar innbyrðis styrjaldir. Sjöunda öldin er myrkust hinna myrku miðalda, svo myrk, að oft er hlaupið yfir hana í sögubókum og farið beint til Arabíu.
Inn í þetta valda- tómarúm réðust herskarar Múhammeðs og eftirmanna hans. Sigurför þeirra er lærdómsrík enn í dag, því hún byggðist ekki á hernaðaryfirburðum innrásarmannanna, heldur á fámenni og innbyrðis sundrungu kristinna manna. Deilurnar skæðu og illskiljanlegu nútímamönnum um heilaga þrenningu og eðli Krists voru þá enn svo illvígar, að fjölmargir kristnir menn, einkum í Sýrlandi og Egyptalandi töldu hinn orþódoxa keisara í Konstantínópel beinlínis vera sjálfan Antí- Krist og tóku herskörum Múhammeðs fagnandi, því hann lofaði þeim, ólíkt keisaranum, trúfrelsi. Það gleymdist að taka fram, að þetta trúfrelsi táknaði, að þeir urðu skattpíndur, nánast réttlaus undirmálslýður. Síðar lét Tyrkjasoldán t.d. kristna menn afhenda sér ung sveinbörn í þrældóm, sem alin voru upp í islam, en síðan voru þessir janitsarar notaðir til að berja á kristnum frændum sínum.
Á Spáni höfðu Vestgotar ríkt sem lítil, lokuð og herská yfirstétt síðan á fimmtu öld. Þeir höfðu framan af talað annað mál og verið annarar trúar en landsmenn, svipað og Márar síðar, en höfðu þó látið af Aríusar- kristni fyrir nokkru og töluðu tungu landsmanna. Þeir lágu í sífelldum innbyrðis illdeilum, einkum um ríkiserfðir og lauk svo, að hópur aðalsmanna keypti múslimskan berbahöfðingja nokkurn, Tarik, og her hans til liðs við sig í deilu við Vestgotakonung.
Kóngur féll í fyrstu orrustunni, og þessi múslimski málaliði sá, að landið var gott, en fyrirstaða lítil og tók því völdin sjálfur.
Herför múslima var gífurlegt áfall hinum kristna heimi. Siglingar á Miðjarðarhafi minnkuðu mjög og t.d. lagðist pappírsnotkun af í Evrópu um skeið, því pappír Rómaveldis hafði allur komið frá Egyptalandi. Árás og innrás múslíma var loks stöðvuð í Suður- Frakklandi, en það var ekki fyrr enn 1095, sem kristnir menn blésu til gagnsóknar.
Ávallt er, og með réttu, talað um ofstæki hinna kristnu, sem var gífurlegt. En uppblásið tal um yfirburði arabískrar menningar undir formerkjum fjölmenningar og pólitískrar rétthugsunar, verður hvimleiðara með hverju ári sem líður.
Trúmál og siðferði | Breytt 30.3.2010 kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)